Thursday, December 30, 2004

Undarlegt háttalag hunds um miðja nótt

Stundum er maður heppinn eða ekki


Ég er að lesa alveg frábæra bók. Hún er 268 blaðsíður auk viðauka og seinasti kaflinn í henni er númer 233 en það eru samt ekkert svona margir kaflar í henni en þeir eru bara númeraðir eins og prímtölur.

Og þetta er spennandi morðsaga og verulega spennandi strax frá fyrstu síðu (eða kafla tvö) þar sem það er strax búið að fremja morðið og aukin heldur búið að stinga aðal söguhetjunni í grjótið fyrir að ráðast á lögregluna. Sá dauði er hundur nágrannakonunnar.

Bókin er á ensku og yfirleitt þoli ég ekki að lesa bækur á einhverjum undarlegum tungumálum sem ég skil ekki. En það er allt í lagi með þessa bók því hún er skrifuð af sjónarhóli stráks með Aspergers heilkenni. Þess vegna skil ég hana alveg. Og af einhvejrum ástæðum líka hvað hann er skemmtilega ruglaður þó ég sé ekkert illa haldinn af neinum sérstökum heilkennum held ég.

En þetta er allt út af því að ég þurfti að fara í Kringluna í dag til að kaupa rauðvín í rauðvínshappdrættinu sem ég er í. Ég sé nefnilega vinnufélögunum fyrir áfengi einu sinni í mánuði. Eftir að hafa keypt einhver reiðinnar býsn af áfengi í ríkinu í Kringlunni [þ.á.m. viskí sem er á bragðið einhvern veginn eins og gamall leðurjakki eða kannski frekar eins og hjólbarði sem hefur ofhitnað] þá datt mér í hug að fara upp á þriðju hæðina í Kringlunni og fá mér Kínamat. Og til að mér myndi ekki leiðast mjög mikið þá kom ég við í Eymundssyni á annarri hæðinni og keypti mér eitthvað að lesa og það var alveg óvart þessi bók.

Mæli með henni og viskíinu sem smakkast meira eins og leðurjakki.

En á morgun klárast árið og ég veit ekki meir.

Saturday, December 25, 2004

Lygasaga eftir Lindu Vilhjálmsdóttur

Jólin eru til að lesa

Fékk reyndar ekki neina lesilega bók í jólagjöf. Myndabók Raxa telst varla mjög lesileg þó hún sé frábær.

En það skiptir ekki neinu máli þegar manns eigin bækur flæða út úr öllum bókaskápum og út um öll gólf. Las í snarheitum Lygasögu Lindu Vilhjálmsdóttur. Dálítið sérstök en skemmtileg lesning. Tók fljótt af en var ágæt samt.



....

Friday, December 24, 2004

Gleðileg jól allirsaman



Myndin að ofan er tekin í Jarlhettudal austan við Langjökul í páskaferð Stélbratts að öllum líkindum árið 1999.

Þennan dag lögðum við af stað frá Hvítárnesi, fórum beina leið yfir Hvítárvatnið og tókum síðan stefnuna í áttina að Hagavatni. Til að byrja með var hríðarmugga og vont skyggni en það létti til og úr þessu varð einn af þessum frábæru góððviðrisdögum sem maður fær á skíðum á hálendi Íslands.

Daginn eftir var komin rigning og allt á floti í bókstaflegri merkingu. Var þá skíðað tímunum saman í ökkladjúpu vatni.

Þetta var frábær ferð en nú eru að koma jól. Óskum okkur öllum til hamingju með það.


Hmmmmm já það er nú það
Mér gleggri menn hafa nú víst bent mér á það að þetta sem hér kemur fram að ofan er allt saman tómt lygimál. Vissulega var gaman í páskaferð Stélbratts árið 1999 og lýsingin nokkuð nærri lagi en myndin er bara alls ekki úr þeirr ferð heldur allt annarri.

Eins og kemur fram í kommenti frá Páli Ásgeiri þá er þetta nefnlega úr skíðaferð sem kennast má við Skíðafélagið Stélbratt á Okið árið 2003 og var líklegast farin árið 2003 ef mér skjátlast þá ekki líka um það efni.

Og þá má reyndar nafngreina skíðamennina sem eru á myndinni. Þ.e. Nefndur Páll Ásgeir, hans sprettharða kona Rósa Sigrún og minn öðlungs bróðir Gunnar.

Það má annars bara lesa um þessa hetjuferð hér.
Og ekki orð um það meir.

Vá, það er kominn aðfangadagur

Verð víst að fara að haska mér, fara í bæinn og kaupa jólagjafir, setja upp jólatré, ryksuga og skúra ef ég ætla einhvern tína að vera búinn að þessu öllu.

Er reyndar búinn að einhverju því ég fór á hreindýraveiðar í Hagkaup í gær og hitti fyrir úrbeinað innralæri. Hreindýrshornsómyndin sem ég er með uppi á vegg og ég hitti á Brúaröræfum kættist öll alveg ógurlega við að fá félagsskapinn!

Það verður því ekki skarfur í matinn að þessu sinni. Ég á það bara inni hjá sjálfum mér.

Thursday, December 23, 2004

Skarfur í jólamatinn

Á ég virkilega að þora að hafa skarf í jólamatinn.

Mér var sagt í fyrragær að þegar maður er að bjóða til sín fólki um jól þá sé nú eiginlega bestast að vera ekki með of mikla tilraunamennsku í eldhúsinu. Ég á nú ekki von á því. En að hafa eitthvað sem maður hefur hvorki eldað né snætt nokkurn tíman áður og aldrei heyrt um að nokkur lifandi sál hafi góflað í sig um jól, er það ekki dálítið langt gengið.

Væri reyndar svo sem alveg í stíl við mig að reyna þetta. Það yrði þá einum skarfi fleira í boðinu en venjulega. Vonandi að það verði samt ekki leiðindaskarfur.

Annars held ég að ég renni á rassinn með þennan skarf og það verði bara bambi í matinn.



....


Wednesday, December 22, 2004

Það er þessi árstími

Var leystur út með gjöfum í vinnunni í dag eftir að hafa drukkið sykursætt jólaglögg.

Fór síðan með Ralldiggni og Kristjáni þar sem við versluðum okkur þessi firnafínu fólatlé ofan úr Þjórsárda af rauðgrenisgerð. Tréð mitt er mjög sérstakt, þar sem það er alþakið stuttum grænum títuprjónum. Já ég mina það, tréð stingur. Trúi hver sem trúað getur en ég legg ekki í vana minn að ljúga hraðar en meðalgreindur maður hefur undan að trúa [tilv. Bolli Magnússon].

Þegar heim var komið beið mín sá rosalegasti konfektkassi sem ég hef nokkurn tíman séð. Hann nálgast það að vera heill fermetri. Ég er eiginlega í mesta basli með að koma honum fyrir. Þarf að skáskjóta honum einhvers staðar. Annars verður hann borðaður með bestu lyst á næstu dögum geri ég ráð fyrir.

Það er annars bara eitt sem er að trufla mig. Um jólin þarf ég ekki að hafa neinar rosalegar áhyggjur af mat nema einn daginn, þ.e. annan í jólum því þá bíð ég til mín svona mínum al nánustu. Nei það er ekkert neitt rosalegt jólaboð með svona 50 manns en samt þá er hefð fyrir því að ég geri dálítið flott úr þessu. Og vandamálið er að ég er ekki enn búinn að ákveða hvurn þremilinn ég ætla að bjóða uppá. Ef svo heldu fram sem horfir þá verð ég bara að kaupa eitthvað í 10-11 á öðrum í jólum. Ég er ekki alveg viss um að það geri neina sérstaka lukku.


....

Afríkuleiðangurinn


Það er farið að styttast í Afríkuferðina. Eftir þrjá mánuði fer súrefnið að þverra!

Og komin þessi stórmerka heimasíða með tk léni: expeditionkilimanjaro.tk

Tuesday, December 21, 2004

Staðir sem fara í taugarnar á mér

Mér leiðist að láta eitthvað fara í taugarnar á mér en samt er það sumt.

Ef ég fer gangandi út í búð þá geng ég oftast framhjá Hlemmi. Hlemmur fer ekkert sérstaklega í taugarnar á mér. Auðvitað er þar svona alls konar fólk sem sumt má muna sinn fífil fegurri. Hlemmur er hins vegar bara einhvers konar samastaður fyrir fólk og biðstöð. Á móti Hlemmi er hins vegar nokkuð sem fer alveg ofboðslega í mínar taugar. Og nei, það er ekki löggustöðin heldur er það hinum megin. Nefnilega spilakassasalurinn.

Ég lofa guð fyrir að það eru yfirleitt fáir þarna inni að tapa peningunum sínum en hvílíkt þrælahald. Þarna getur fólk setið lon og don og troðið aurunum sínum í gullgerðarvélarnar og einhvern veginn á ég ekki von á að fólkið sem venur komur sínar á þennan stað ríði almennt feitum hesti frá því.

Hér áður fyrr fundust mér reyndar þessir spilakassar vera rosalega spennandi en það var reyndar aðallega áður en ég hafði aldur til að fara í þá á löglegan hátt. Þeir kassar voru líka dálítið öðruvísi þar sem maður fékk sjálfur að stýra peningnum. Núna er bara einher tölva í kössunum sem passar uppá það að maður vinni ekki of mikið í þeim. Og í gamla daga þá voru kassarnir svona einn og einn á stangli. Núna eru þetta dimmir óhugnanlegir salir þar sem kassarnir bíða í röðum og þá væntanlega alveg ofboðslega freistandi fyrir þá sem eru veikir fyrir. Á ljósaskilti utan á húsinu sést svo uppfært á hverri sekúndu hvað stóri vinningurinn sem maður verður náttúrlega að reyna að vinna er orðinn hár og hvað hann hækkar hratt. Hann er hins vegar bara að hækka út af því að einhver vesalingurinn sem lét freistast var rétt áður að tapa líklega helmingi hærri upphæð.

Þó þetta eigi að heita gott málefni þá finnst mér þetta ógeðslegt, algjör hörmung.

Annar staður sem fer í taugarnar á mér er nammibarinn í Hagkaup. Þar get ég nú yfirleitt næstum því ælt af óhugnaði. Að horfa á allt þetta nammi og fólk að graðga því ofaní innkaupakörfurnar finnst mér einhvern veginn vera sjúkt. Þetta verður einhvern veginn svo yfirgengilega mikið að það verður ógeðslegt.

En eins og skáldið sagði um húsameistarann sem tók handfylli sína af leir: "Ekki meir, ekki meir"

Sunday, December 19, 2004

Elsku Poona

Datt í bókaskápinn minn

Datt eina ferðina enn í bókaskápinn minn og las um hana elsku Poonu. Dálítið góð morðsaga en ég er líklegast farinn að slappast í að skilja svona bókmenntir.

Þeir sem ætla að lesa bókina hætti að lesa hér
Það kom reyndar fram á fyrstu blaðsíði að einhver væri alblóðugur upp fyrir haus og svona frekar morðingjalegur og aftan á bókinni stóð hver var drepinn. Ég hefði eiginlega ekki þurft að lesa neitt meira ef því hefði verið bætt við að systir líklega aðal söguhetjunnar hefði næstum drepist í bílslysi. Jú það hefði kannski mátt bæta við að annar hver maður í bókinni ætti hund og sumir þeirra væru orðnir lasburða. Það þyrfti kannski ekkert að taka þetta fram um hundana þar sem sagan gerðist í Noregi að mestu leyti.

Það var reyndar ekkert leiðinlegt að lesa bókina en söguþráðurinn var allur upp í loft ennþá þegar bókin var búin. Var það blóðuga steratröllið á rauða Golfinum sem drap hana með líkamsræktarlóðunum sínum eða var það sá sem enginn spurði á hvíta Saabinum sem drap hana í rólegheitunum með bowling kúlunni sinni?

Komst systirin sem lenti í bílslysinu einhvern tíman almennilega til lífsins eða drapst hún bara eða varð að óvita?

Það eina sem varð sæmilega ljóst var að hundur löggunar náði sér eitthvað eftir skurðaðgerðina.

Nei má ég þá frekar biðja um hann Arnald!

Saturday, December 18, 2004

Litla systir manns farin að blogga

Bloggvitleysan skyldi þó ekki liggja í ættum?

Allir að fara að skoða Skottubloggið! hennar Ralldiggnar...........

Stríðsglæpamaðurinn Bobby Fischer

Ég verð eiginlega að játa að það er langt síðan ég hef verið þokkalega sáttur við eitthað sem þeir Dóri og Davi hafa verið að bauka.

Hvort sem hann Fischer kemur hingað eða hvort hann sest hér að kemur eflaust bara í ljós en það hlýtur hver heilvitamaður að sjá að það gengur ekki að einhver maður eigi yfir höfði sér fangelsi og hinar hroðalegustu refsinar fyrir að hafa teflt nokkrar skákir fyrir meira en 10 árum!

Ég held reyndar að engin ákvörðun Dava hafi komið mér jafn mikið á óvart. Honum er greiniega ekki alls varnað.

Friday, December 17, 2004

Að vera húðlöt fitabolla

Er hálf latur. Er eins og Lati-Geir á lækjarbakka sem vildi ekki vatnið smakka af því að hann nennti því ekki.

Fór áðan í Hakaup og verslaði eitthvað sem átti sko svo sannarlega að elda og taka til hendinni. Nenni því núna engan veginn og er að hugsa um að hendast bara út á Devitos og fá eina eða tvær sneiðar og "taka með" eins og þeir segja á ítalskri íslensku. Góðar pizzur. Ég er kannski ekki jafn slappur og hann Lati-Geir enda hefði hann eflaust aldrei nennt út á Devitos.

En þetta gerir mig samt að öllum líkindum að húðlatri fitabollu.

Það kemur annars kannski ekkert til af góðu bara að ég sé þreyttur. Lenti í einhverjum undarlegustu símhringingum í nótt þar sem einhver hringdi í mig aftur og aftur og sagði bara eitthvað vo-vo-vo í símann. Ég reyndi að fá eitthvað annað uppúr þessum furðufugli og talaði við hann fleiri tungumál en ég kann að tala sjálfur en fékk ekkert aminlegt svar. Hélt annars að þetta væri einhver að hringja frá útlöndum. Aumingja hann þegar hann sér allan símreikninginn sinn.

Mér var síðan bent á miklu augljósari skýringu á þessu í morgun. Þetta hefði auðvitað verið jólasveinninn og ekki að segja vo-vo-vo heldur hó-hó-hó!!! Og það kemur reyndar allt heim og saman því þar sem ég var frekar stuttur í spuna við hann og gaf ekki mikið fyrir þessi undarlegu hróp og köll hans í símann þá varð afleiðingin sú að ég fékk ekkert í skóinn!

Klúður!

Síðan bar það annars líka til tíðinda hjá mér í dag að ég lét skerða hár á höfði mínu sem kallast með öðrum orðum klipping og úr því að það er þessi tími ársins þá telst það víst vera jólaklipping. Og í tilefni af þeim gjörningi þá prufaði ég að segtja svona sjampó í hárið á mér. Alveg ótrúlega mikið mál að þvo sér þannig um hausinn og reyndar algjör óþarfi nema kannski þegar maður lætur klippa sig. En sem sagt. Afgreiddi þá jólaklippinguna og jólabaðið [eða a.m.k. jólahárbaðið] í dag. Þetta er sem sagt allt að koma!

Wednesday, December 15, 2004

Síminn hjá netverslun ruv.is

Hvernig dettur einhverjum í hug að auglýsa netverslun í sjónvarpinu og gefa upp símanúmer? !!!

Þetta er svona svipað og 1995 þegar maður hringdi í fólk til að segja því að maður hefði sent því tölvupóst. En þá var allt önnur öld en er núna!

Það þyrfti einhver að benda þeim hjá ruv á það.


....

Mynd vikunnar og svona ýmislegt

Verslaði mér skanna í gær og núna er skannað á fullu. Þessi er svona 15 ára og ættuð frá Tékkóslóvakíu frá því ég var svona IAESTE stúdent þar að læra að drekka bjór. Hún er reyndar upphaflega slidesfilma í fullum litum en mér fannst hún mikið meira spúkí svona. Með að smella á hana og velja "alls sizes" er hægt að fá hana stærri.


The pigeon, originally uploaded by eirasi.


Ég er annars á fullu að eyða peningum í alls konar dót. Keypti mér reyndar ekki fokdýra úrið heldur eitthvað skandinavískt dót með úrverki frá kúalalúmpúr eða eitthvað með stafi fyrir sjóndapra. Fólk hefur verið að spyrja mig í óspurðum fréttum hvort ég sé farinn að sjá svona hroðalega illa. Hvort ég ætti ekki að fara í aðgerð eða kannski að fara að ganga með blindrastaf. Kannski ætti ég frekar að fá mér svona blindrahund. Gæti kannski notað hann sem varðhund líka. Veitir örugglega ekkert af á þessum síðustu og verstu tímum.

Tuesday, December 14, 2004

Í fimbulkulda ... myndir af Fimmvörðuhálsi

Í fimbulkulda þeir örkuðu
og för í fönnina mörkuðu
en þetta var svalt
alveg helvíti kalt
en af sér samt þeir hörkuðu


[Höf vill ekki láta nafns síns getið]


Myndir frá Indriða en ekki mér:


http://www.heima.is/indridi/fimm/




Sunday, December 12, 2004

Það var verið að spila nýja diskinn með Hljómum í útvarpinu

Eða að minnsta kosti eitthvað sem þeir voru að emja núna á þessu ári.

Hvernig gátu mennirnir gert eitthvað svona hallærislegt.
Þetta er eins og ég veit ekki hvað. Sumt á ekki að gera.

Gamall góður Spilverksdiskur datt í spilarann í staðinn.
Takk fyrir - ekki Hljóma dagsins í dag fyrir mig.

En. Best að fara að skafa skít og skeina þannig að maður geti farið að hengja upp einhver fóliljós. Það er kominn tími á það og rúmlega það!

Óþolandi auglýsingar límdar utan á Moggann

Ég er kannski bara orðinn gamall nöldurseggur.

En hvernig dettur Mogganum í hug að lát líma auglýsingar utan á Moggann þannig að blaðið rifnar þegar maður tekur hana af. Reyndar ekki alltaf svona mikið:

en alltaf eyðileggst greinin sem auglýsingin er límd yfir.

Ég er alvarlega að hugsa um að búa til lista yfir þessi óþolandi fyrirtæki sem auglýsa svona [sem ég ætla ekki að skipta við nema ég neyðist til] og síðan þegar ég er kominn með glæpsamlega langan lista þá get ég síðan sagt Mogganum upp.

MOGGI: SKAMMASTU ÞÍN. SVONA LANGT GENGUR MAÐUR EKKI Í AÐ ÞJÓNA AUGLÝSENDUM Í STAÐINN FYRIR AÐ ÞJÓNA ÁSKRIFENDUM.

ÞEIR SEM GEFA BLAÐIÐ SITT GÆTU GERT ÞETTA EN EKKI ÞEIR SEM SELJA ÞAÐ!


Fimmvörðuháls í desember

Þetta var algjört dúndur.

Þeir sem arka Fimmvörðuháls í desmber af öllum mánuðum geta ekki verið normal. Það sagði að minnst kosti einhver við Árna þegar hann var eitthvað að hringja þegar við vorum að næra okkur við Fúkka.

Þurfti að drattast á lappir klukkan fimm um miðja nótt. Rétt eins og maður væri á leið til útlanda og þyrfti að komast í flug. En nei það var ekki. Nú skyldi bara stormað á Fimmvörðuháls. Brottför frá Rauðavatni var klukkan 6. Bara nokkuð stundvíslega.

Við Skóga öxluðu dvergarnir sjö bakpoka sína og örkuðu af stað í niðamyrkri en undir stjörnubjörtum himni. Staðstirnið út við sjóndeildarhring reyndist hvorki vera ljós á jörðu niðri, þyrla, tungl eða fljúgandi furðuhlutur heldur saklaus dagróðabátur.

Fljótlega vorum við komnir í snjó og byrjuðum að sjá eftir að vera ekki á skíðum. Færið þyngdist eftir því sem á leið og frostið herti. Mínum var orðið skítkalt á tánum og næstum hættur að geta talað fyrir frosnum talfærum.

En útsýnið og veðrið maður! Það var algjörlega magnað. Að sjá sólina koma upp hægt og rólega og hvernig birtan kom fyrst blá síðan rauð og gul og allt í einu var kominn dagur sem stóð ekki yfir nema í augnablik því það fór að dimma jafn skjótt og það hætti að birta. Ég var bara með gamla filmumyndavél þannig að ég veit ekki hvað eða hvenær eitthvað af því kemur á netið en aðrir voru með digital dót sumir hverjir. Ég dauðsá auðvitað eftir að hafa ekki tekið stóru digitalvélina með en var í aðra röndina feginn.

Færið varð fljótlega þungt og þetta varð erfiðara. Það varð nokkuð ljóst að við myndum varla ná allir niður í Bása milli fjögur og fimm eins og gert hafði verið ráð fyrir en þangað ætlaði Óli nokkur Halldórs að sækja hópinn á nýja fína Krúsernum sínum. En hann ætlaði síðan að vera mættur uppstrílaður í jólahlaðborð klukkan átta og því nokkuð tímabundinn.

Fúkki var harðfrosinn og þrátt fyrir nokkrar tilraunir með ísaxir var ekki nokkur leið að komast inn í fúkkafýluna þar. Það var ágætt en reyndar fannst tánum á mér það skítt.

Við ákváðum að skipta liði þannig að einhverjir myndu ná niður í Bása í tíma og fór ég í undanfaraflokknum. Þeir sem voru orðnir haltir og skakkir áttu þá að geta komið í humátt á eftir okkur.

Nú. Okkur hraðferðalöngum gekk aðeins að komast áfram en ekki betur en svo að seinagengið náði okkur við Bröttufönn. Komum því saman í einum hóp niður í Bása eftir að hafa fundið færar leiðir um Kattarhryggi og annað brattlendi.

En mikið skelfing varð maður þreyttur og slæptur eftir þetta. Annað hvort er allt form manns endanlega farið út í buskann eða þá að Fimmvörðuháls í desember í snjó sem nær manni í hné er ekki það sama og Fimmvörðuháls um mitt sumar jafnvel þó það geti rignt og blásið þá allhressilega.

Reyndar hallast ég frekar að því að þetta hafi verið aðstæðurnar sem gerðu þetta erfiðara. En í öllu falli. Algjörlega frábær túr og góð æfing fyrir Kilimanjaró!

Friday, December 10, 2004

Fallaferð á morgun

Þarf að vera farinn út úr bænum klukkan sex og þarf þá líklegast að vakna klukkan fimm. Þetta er brjááááálað lið greinilega sem ég er að fara með. Nóg um það í bili. Best að hundskast í rúmið og reyna að sofna á sitt græna.

hrot-hrot zzzzzzzzzzzzzzz

Thursday, December 09, 2004

Að vera meira utan við sig en góðu hófi gegnir

Ég held að ég hafi fæðst viðutan og með árunum hefur það ekki batnað. Núna í kvöld setti ég persónulegt viðutanmet sem gæti verið Íslandsmet. Og þó - sagan af Halldóri I. Elíassyni stærðfræðiprófessor sem skildi bílinn sinn eftir á Akureyri er íslensk og eflaust sönn. Að minnsta kosti var hann einu sini búinn að kenna stærðfræðigreiningu 4 í hálftíma þegar hann áttaði sig á að nemendurnir voru bara í stærðfræðigreiningu 3. En núna er það sem sagt ég sem var að setja persónulegt met.

Ég fór í worldclass í kvöld. Þið vitið, félagsmiðstöð fólksins sem er annað hvort of feitt eða slappt eða heldur að það sé það eða vill ekki verða það. Var að dunda mér við að fara úr öllum fötunum og fara í stuttbuxur og hlaupaskó. Sú einfalda athöfn tík mig reyndar korter þar sem ég þurfti að velta vöngum yfir öllu mögulegu. Sem auðvitað varð til þess að ég varð verulega vankaður. Nú, allt í einu ákvað ég að hætta að velta vöngum og snarast frekar upp til að sprikla. Sem betur fer var ég kominn í stuttbuxurnar því annars hefði ég eflaust farið berrassaðu á hlaupabrettið - ég gerði svoleis í utanviðmennsku minni reyndar í sundi fyrir mjögmargtlöngu. En ég sem sagt snaraðist á fætur. Henti dótatöskunni minni upp á skáp númer 81 og smellti svo lásnum á hann og ætlaði að snarast fram.

Heyrði ég þá einhverja skelfingarfulla rödd við hliðina á mér segja:

"Þetta er skápurinn minn"

Ég horfði skilningsvana á manninn eða strákinn reyndar og fór að furða mig á því hvað hann væri að skipta sér af því hvaða skáp ég væri að nota. Fór að hugsa um hvort þetta væri einn af þessum ótrúlegu sérviskupúkum úr sundlaugunum sem "eiga" einhverja skápa í búningsklefanum.

Þar sem ég horfði gjörsamlega skilningslaus á hann þá endurtók hann:

"Þú varst að læsa skápnum með fötunum mínum"

Og þá fattaði minn.

Skápurinn með fötunum mínum var nefnilega þar þar þar þar næsti skápur eða svo.

Jamm ég er liltu skárri en Halldór Elíasson!



....

Wednesday, December 08, 2004

Þegar mar nennir ekki að gera það sem maður á að vera að gera

Þá er rosalega snjallt að taka svona próf á interentinu til að komast að hvers konar jólajeppi maður er.

Og ég er með rautt nef, no suprise for anyone!

mlml
Well, hello to you, Rudolph! You are the funny,
crazy reindeer. Although you can be seen as
strong in certain cases, you clearly like to be
the joker and/or prankster. It would be funny
to get bogus gifts for people just to see their
reaction. People may either find you humorous
or annoying. Perhaps even weird. That could be
good for you. Anyway, Merry Christmas =)


What Christmas Figure Are You?
brought to you by Quizilla

Tuesday, December 07, 2004

Einu sinni


that horse, originally uploaded by eirasi.

Einu sinni, einu sinni
átti ég hest, átti ég hest
ofurlítinn, ofurlítinn
rauðan, rauðan

Sunday, December 05, 2004

Áhugi Íslendinga á að vinna við byggingu álvers á Reyðarfirði takmarkaður

Verktakinn leitar til Póllands til að fá starfsmenn til að vinna við byggingu álversins á Reyðarfirði. Viðbrögð við auglýsingu sem var birt fyrir nokkrum vikum mjög lítil.

Einhvern veginn er ég ekkert hissa. Við hverju bjuggust menn eiginlega?
Til hvers er þetta álver eiginlega?

Einhvern veginn hef ég heyrt þetta áður og þá þegar verið var að fá fólk til að byggja þessa virkjun sem býr til rafmagnið fyrir þetta álver.

Já það var greinilega þörf á þessari atvinnuuppyggingu þarna fyrir austan.

Fór í dótabúð og eldaði kjúkling

Þetta tvennt tengist reyndar ekki nema óbeint.

En dótabúð er auðvitað búð sem selur útivistardót. Helst eitthvað rosalega dýrt. Það er nefnilega búið að skýra það út fyrir mér að maður þurfi eitthvað af dóti til að komast upp á Kilimanjaro fjallið. Í gærkvöldi dró ég brójann með mér (hann var reyndar ekki mjög þungur í drætti) í 66°N þar sem við versluðum okkur hnausþykkar dúnúlpur. Mig vantar annars almennt ekki mikið af búnaði fyrir þessa ferð. Það eru helst regnbrækurnar mínar frá Cintamani (eða hlíðarbuxurnar svo ég noti virðulegra orð) sem þarfnast einhverrar endurnýjunar því þrátt fyrir að þær buxur eigi að vera hinar bestu í heimi þá mígleka þær hjá mér. Annar læddist einhvern tíman að mér sá grunur að sólarljós hafi skemmilagt þær en geymslan á þeim hjá mér er ekki alveg til fyrirmyndar. En ef ekki þá eru þær bara drasl. En í öllu falli. Núna á ég hnausþykka fagurbláa dúnúlpu í stærð XL.

Þeir í 66°N eru annars ágætir. Buðu okkur herjarinnar afslátt af öllu sem við vildum kaupa af þeim fyrir ferðina. Enda varð afslátturinn að vera mjög ríflegur þar sem þeir voru á sama tíma að auglýsa 20% afslátt á öllu flísdóti í búðinni fram að jólum! Afslátturinn sem við stórkaupendur fáum er ekki mikið meiri en það (en sumir eru að kaupa dót fyrir einhverja hundraðþúsundkalla sýnist mér vegna ferðarinnar, þannig að það er eftir einhverju að slægjast hjá þeim sem reka dótabúðirnar).

Nú til að halda uppá úlpurnar þá bauð ég brójanum upp á kjúkling. Hann kjúllin sko) varð auðvitað ógisslega góður fyrir utan að brójinn kvartaði yfir kjúllinn sjálfur hefði verið skorinn hvílíkt við nögl að þetta hefði nú bara verið grænmetisréttur -- Þetta var þá bara góður grænmetisréttur hjá mér.

Núna um helgina stóð síðan til að fara á Fimmvörðuháls til undirbúnings Kilimanjaró ferðinni en það var blásið af fram að næstu helgi vegna óhagstæðrar veðurspár. Reyndar varð veðrið ekkert svo voðalegt en ég er samt hálf feginn að hafa ekki farið núna. Búinn að vera þreyttur um helgina og kvefið ekki farið alveg úr mér ennþá. Og veðrið hefði í raun alltaf verið skítaveður þó það hafi kannski ekki orðið neitt mannskaðaveður úr þessu.

Verð annars að fara að haska mér út að hlaupa eða eitthvað. Maður æfist ekki mikið fyrir Kilimanjaró gönguferð liggjandi uppi í rúmi með tölvuna á bumbunni, nartandi í mandarínur og súkkulaði. Ja fyrir utan það að ég lenti í raunverulegum lífsháska þegar ég fékk mér mandarínuna. Fór í ískápinn í mínu mesta sakleysi en hann býr yfir trékassa fullum af mandarínum - eða svona hálffullum núna. Var þá ekki ein mandarínan kominin í stríðsbúning. Búin að gera sig græna og alla frekar mjög krumpaða í framan. Yggldi sig á mig og gaf mér skelk í bringu. Ég vígbjóst hið snarasta og var kominn með gaffal að vopni og réðist til atlögu við hana. Náðist megnið af henni af botni kassans í annarri eða þriðju atrennu. Var verkið svo fullkomnað með sápu, uppþvottabursta og sjóiðheitu vatni en án þess hefðu leifar þeirrar grænu ekki náðst úr mandarínu kassanum.

En best að fara að koma sér á lappir. Þarf að vinna smá, finna eldhúsið aftur eftir átökin við kjúklinginn í gær og mandarínuna núna áðan. Síðan var ég að fatta að það er kominn desember og líklega á maður að fara að hengja upp einhver jólaljós.

Mynd vikunnar er af vita


Lighthouse, originally uploaded by eirasi.


Er ekki búinn að setja neina mynd inn í há herjarins tíð. Þ.e. einhverja svona sem mér finnst flott eða þannig. Þessi er kannski ekkert flott en hún er að minnsta kosti af vita.

Friday, December 03, 2004

Lostæti

Sumar myndir eru þannig að það er hægt að horfa á þær aftur og aftur og það er alltaf gaman.

Núna er verið að sýna Delicatessen og ég hef ekki grænan grun um hvað ég hef séð hana oft. Einhvern tíman í bíó og síðan einhvern tíman í sjónvarpinu. Hvað oft? Ekki spurja mig.

Og hún er ennþá jafn útópísk og hún hefur alltaf verið.

Ég ætlaði annars í heví fjallaferð um helgina en lét hana frestast út af væntanlegri stórhríð uppi á Fimmvörðuhálsi.

Tuesday, November 30, 2004

Að hafa dýran smekk

Þegar ég var lítill var ég með smekk til að ég subbaði mig ekki allan út. Mig minnir að það hafi verið blá önd á þessum smekk og ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi verið dýr. Núna er ég kominn með nýjan smekk. Það er engin sæt blá önd á honum heldur eitthvað rándýt. Það er hann að minnsta kosti.

Fyrir svona 10 dögum fann ég ekki úrið mitt einn morguninn. Ég þykist reyndar nokkuð viss um að ég var með það heima hjá mér kvöldið áður en þrátt fyrir að íbúðin sé ekki sérlega víáttumikil þá hef ég ekki fundið það ennþá. Fór þess vegna að svipast um eftir einhverju í staðinn.

Fór í Kringluna um daginn og sá þá að öll úrin þar voru forljót fyrir minn smekk.

Labbaði mér síðan niður Laugaveginn áðan og skoðaði í alla úralega búðarglugga sem ég komst yfir. Flest fundust mér þau ljót eða ómuleg fyrir minn smekk. Loksins fann ég eitt sem mér leist helvíti vel á. Já, alveg þangað til ég sá verðmiðann. Sextíu og eitthvað þúsund kallar. Nei ég þarf að fá mér einhvern annan smekk. Ef einhver á ódýran smekk handa mér með blárri önd á þá vinsamlegast látið mig vita.

Sunday, November 28, 2004

Jóladjammið

Það er rigning og þá nennir maður ekki neinu nema að blogga!

Jám, það var jóladjamm í vinnunni minni á föstudagskvöld. Tók alla nóttina með því að fara í bæinn og á hinn endurvakta stað, REX.

Þetta var allt ágætt. Stuð fyrst á Skydol keppni og hægt að hrista sig við gamla slagara á dansgólfinu. Síðan á Rex þá fékk ég mér Viskí sem var bæði það besta, dýrasta, elsta og sorglegasta sem ég hef nokkurn tíman fengið. Já: Það var gott - einfaldur kostaði eins mikið og tvöfaldur af öðru viskíi - það var búið að vera með kosningarétt í sjö ár minnir mig - en það sorglega var að þegar ég var hálfnaður með það þá lagði ég glasið frá mér og einhver tók það líklega í misgripum fyrir tómt glas og hellti guðaveigunum!

Síðan eftir kvöldið er ég mest spenntastur að vita hvort Þórhildur ætli að standa við það að fara að skokka með okkur Kilimanjaró förum. Ef hún gerir það þá verð ég að minnsta kosti að taka mig saman í andlitinu líka og skokka með þeim og henni. Ekki gengur að þeir villimenn gangi frá henni.

Ferðaútbúnaðarpælingar


Meeting in the Kilimanjaro group, originally uploaded by eirasi.

Ég settist niður í vikunni með hinum fræknu hetjum sem ætla að þramma á Kilimanjaró með mér eftir áramótin. Voru miklar spekúlasjónir um alls konar útbúnað. Hluti hópsins fór í þar seinustu viku í dótabúð Dóra, þ.e. Fjallakofann. Ég komst ekk en eftir því hvernig þeir sem fóru létu þá tókst Dóra að dáleiða þá af sinni al kunnu snilld. Ég man ekki hvað allt þetta flotta dót sem þeir sáu hjá honum hét. Mér er nefnilega að fara að skiljast að það er ekki nóg að vera bara í sinni flíspeysu, ullarbol, stakk og kannski dúnúlpu til að komast þarna upp.

Nei, því núna eru komnar alls konar tegundir af flísefnum sem heita eitthvað power stretch og power shield. Ég reyndi að draga eitthvað fram úr mínum reynsluheimi og malda í móinn en það var ekki við það komandi. Pewer stretch skal það vera og power shield. Ég var dálítið eins og bóndi austan af landi á átjándu öldinni sem var vanur að láta vaðmálsbrók og sauðskinnskóna duga.

Þessi flísefni þeirra voru reyndar af þvílíkum ofurgæðum að það endaði með því að þeir sannfærðustu ákváðu að sleppa jafnvel stakknum. Það væri nóg að taka bara regnslá í staðinn úr Bónus eða næstu bensínstöð með. En reyndar hafa þeir það til síns máls að líklegast rignir nokkuð lóðrétt þarna í hitabeltinu. Þó mér lítist ekki alveg á að fara stakklaus á fjöll.

Annars er þetta allt saman fínt dót og Dóri í Fjallakofanum má líka eiga það að hann vildi ekki selja þeim neitt heldur sagði þeim að reyna að fá einhvern góðan díl hjá 66°N eða Cintamani. Reyndar verst að það sem mig vantar helst af nýju dóti eru almennilegar regnbrækur (heitir reyndar orðið "göngubuxur" eftir Fjallakofaheimsóknina - en í minni orðabók er "göngubuxur" eitthvað allt annað) sem ég þarf að versla mé nýjar þar sem Cintamani brókin sem ég á hefur alltaf míglekið.

Síðan stendur til að kaupa sem mest af herlegheitunum áður en við förum ferðina á Fimmvörðuháls um næstu helgi svo það er best að fara að ákveða sig. Ég ætla samt að vona að það komi enginn með regnslá með sér á Fimmvörðuhálsinn.

Reyndar á ég ekki von á því að neinn komi í regnslánni í það ferðalag enda eru þetta allt hinir mestu skynsemdarmenn sem ætla með mér í ferðina þó ég geti farið mikinn þegar ég blogga um það. En einhvern veginn var þetta allt saman eins og það væri verið að kenna gömlum hundi að sitja.

Auglýsingamennskunni eru engin takmörk sett!


Moggin to day, originally uploaded by eirasi.

Þegar ég sótti Moggann í gærkvöldi þá sá ég að það voru ekki bara auglýsingaskrumblöð (svona ruslatunnumatur á mínu heimili) sem fylgdi málgagni sjálfstæðra manna að innanverðu heldur var þessi óværa orðin útvortis líka. Það hafði einhverri mannvitsbrekkunni hjá Mogganum dottið í hug að samþykkja að líma einhvern ótætis límmiða framan á blaðið.

Nú þegar ég syfjaður í morgun ætlaði að fara að skoða Moggann þá auðvitað rifnaði þetta allt í tætlur og við blöstu einhver dularfull augu af síðu þrjú. Varð ég svo skelfdur við þetta [það er þessi dularfullu augu] að ég hef ekki haft þor enn sem komið er til að opna blaðið. Sem er auðvitað hið verstasta mál því "eina ástæðan" fyrir að ég kaupi snepilinn er auðvitað krossgátan hennar nákvæmlega jafnöldru minnar sem kemur þarna í sunnudagsblaðinu.
.
.
.

Bíddu annars aðeins. Hún er í einu af þessu hroðalegu aukablöðum sem er troðið innaní. Kannski get ég náð því út þan þess að hljóta alvarlegan skaða af!
.
.
.

Jú það tókst. Þá er helgin endanlega ónýt og ég þarf að fara að leysa krossgátu.
Sé ykkur eftir viku.

Og Stína, ekki segja mér að hætta bara að kaupa Moggann!


Friday, November 26, 2004

Kilimanjaro ferðin í fréttum

Haldiði að það hafi ekki komið grein um ferðina manns í Fréttablaðinu í gær!

Alveg varð ég hissa!

Takk Lilja!

Vá, þetta voru þrjú upphrópunarmerki!

En reyndar ekki neitt takk fyrir að birta þessa fínu mynd af mér með greininni :-(

Wednesday, November 24, 2004

Það var bankað hjá mér í kvöld

Hrökk við með andfælum.

Var ekki bara pósturinn Pálína (eða þannig) komin með stóran stóran pakka handa mér - en reyndar grunsamlega léttan.

Þetta leit nú annars ekki vel út því þegar ég ætlaði að fara að borga þá voru debetkortin mín algjörlega útrunnin. Tókst reyndar að bjarga þessu í horn með að millifæra. Það bætti reyndar ekkert úr skák að það var eitthvað leiðindabréf þarna líka vegna einhvers miskilnings löggunnar um daginn af því að ég var ekki með ökuskírteinið mitt meðferðis.

En mér tókst að borga og taka á móti stóra stóra pakkanum sem var fullur af einni lítilli linsu.

Æddi út með það sama og tók mynd... af bara einhverju. Lækjartorg varð fyrir valinu.

Svo sem ekki merkileg mynd en alveg örugglega alvöru gleiðhornsmynd.

En nei, þessi kemst ekki að sem mynd vikunnar.

Monday, November 22, 2004

Nýr þjóðsöngur - vei vei vei !!!

Loksins fóru þingmennirnir okkar að tala um eitthvað af viti, auðvitað er löngu kominn tími til að losa okkur við þennan lummulega þjóðsöng sem þjóðin sameinaðist um þegar hún endanlega varð þjóð aftur með þjóðum.

Málið snýst bara um hvort það verður "Ísland ögrum skorið" eða "Ísland er land þitt".

Núna er þörf á að endurnýja þennan gamla sálm sem er greinilega algjör tímaskekkja. Við þurfum að eignast okkar alvöru þjóðernisbaráttusöng sem við getum til dæmis sungið hástöfum á íþróttakappleikjum þegar við tökum aðrar þjóðir í bakaríið á leikvellinum nú svo maður tali nú ekki um þegar stappa þarf stálinu í hinn íslenska friðargæsluher sem fer land úr landi í kjölfar hans Búss og hans pótintáta.

Og enda er þjóðsöngurinn okkar núna algjörlega ómögulegur og óskiljanlegur. Það væri auðvitað mikið betra að fá einhvern söng eins og "Ísland ögrum skorið" sem hvert mannsbarn getur skilið. Reyndar heyri ég ekkert marga tala um hið ögurskorna land eða skikkan skaparans sem kemur þar aðeins síðar en það má þá bara kenna þjóðinni það.

Eða "Ísland er land þitt". Það er svo fullkomið lag að ég held reyndar að það sé ekki hægt að syngja það öðru vísi en með sínu nefi. Að minnsta kosti kemur það alltaf rammfalskt út úr mér.

Mér líst vel á þetta:
  • Seljum hálendið
  • Fáum popplag sem þjóðsöng
  • Stofnum her
  • Og leggjum svo Alþingi niður enda löngu orðið úrelt.

Get ég ekki bara fengið að syngja "Stál og hnífur" sem minn þjóðsöng eða "Yfir kaldan eyðisand"?

Annars minnir þessi bull umræða á Alþingi mig á það þegar einhver kverúlantinn vildi endilega fara að breyta klukkunni hjá okkur þannig að við gætum verið í kaffi á sama tíma og þeir í Brussel.

Ég elska íþróttafréttir

Ég er að reyna að skilja þetta. Til hvers eru íþróttafréttir til annars en að flæma vitiborið fólk (eða vitlaust ef ég er svoleis) frá útvarpinu eða sjónvarpinu.

Ég hélt reyndar að ég myndi bara enda í alvarlegu ástarsambandi við sjónvarpið í kvöld þangað til Helgarsportið komst loksins á dagskrá og kom fyrir mig vitinu.

Stundum get ég bara ekki að því gert að þegar það er til dæmis farið að þylja upp hver skoraði í hvaða mark í hvaða leik í deildarkeppni í krummaskuði úti æi henni Evrópu þá þætti mér jafn gáfulegt að heyra hvað bæjarstjórinn sem var á leiknum tæki oft í nefið á meðan hann klóraði sér í eyranu.

Er þetta bara eitthvað sem hann vitlausi ég skilur ekki?

Sunday, November 21, 2004

Veikindablogg

Ég hef tekið eftir því að óvenju fáir eru að lesa bloggið mitt þessa dagana og þá eru það eiginlega sárafáir. Og ég er glaður með það þar sem bloggið mitt er búið að vera aðallega um veikindi og aumingjaskap míns sjálfs. Hvur gæti haft mikinn áhuga á því nema þá kannski manns næsttengdustu. Ég er þó ekki enn orðinn svo slæmur að vera farinn að blogga návkæm sjúkdómseinkenni eins og hvort ég hafi haft góðar hægðir í dag eða ég sé betri af fótsveppunum sem ég fékk í sundi nýlega. Ætti kannski að blogga um hvort tveggja en held að ég láti það vera.

Þar sem engin heimsendingarþjónusta var á helstu nauðsynjum sem voru að klárast [les: súkkulaði] þá brá ég undir mig betri fætinum eða reyndar betra bíldekkinu og fór bara fársjúkur maðurinn út í búð. Það endaði með að rifjaðir voru upp taktar í eldamennsku sem endar samt vonandi ekki með alvarlegri matareitrun.

Ég er reyndar að gera merkilega rannsókn á gildi súkkulaðis í lækningaskyni. Það eru margar þekktar staðreyndir til um súkkulaði s.s. að konum þyki það upp til hópa betra en kynlíf en ég hef ekki enn séð neitt um gildi þess í lækningaskyni. Það er ég núna sem sagt að prófa á sjálfum mér. Ég er samt kannski búinn að eyðileggja tilraunina með því að hafa eldað mér eitthvert karrýkjöt ala Raggi him self núna áðan. En það verður bara að hafa það. En ég var að átta mig áðan á því að ég er í alvörunni fárveikur þar sem ég var að komast að því mér til mikillar undrunar að ég hef gleymt að fá mér kaffi í allan dag. Slíkt hefur ekki gerst lengi! Bíð núna skelfdur eftir hausverkinum ógurlega.

Dóttir beinagræðarans

Var að lesa


Tókst að klára bók í veikindunum ´dag sem hef verið að lesa síðustu vikuna, Dóttur beinagræðarans eftir Amy Tan. Átakaleg lesning og að sama skapi góð bók held ég að ég verði að segja. Fann alveg innilega til með fólkinu í bókinni og gat ekki skilið af hverju lífið þurfti að vera svona hjá sumum en henni Amy Tan tókst samt að lýsa þessu án þess að þetta verða væmin eða gera bókina leiðinlega. Held að bókin flokkist seint undir spennubókmenntir en samt var meiri spenna í henni en mörgum bókum sem eiga aðallega að seljast út á spennuna. Hef reyndar lesið meira eftir sama höfund og bækurnar hennar virka oft dálítið mikið eins og hún sé raunverulega að segja frá sjálfri sér þó það sé tæpast raunin.

Saturday, November 20, 2004

Í slappleika sínum

Getur maður farið að skoða bloggið sitt. Alltaf rosalega gaman.

Sé að fyrir ári síðan fór ég út á lífið og dansaði við ljóshærða stelpu sem fannst ér líklega vera gamall karl. En ég hélt samt heilsunni eftir það.

Um seinustu helgi fór ég nebblega líka út á lífið og dansaði við ljóshærða konu sem fannst ég vera lítil barn.

Ekki veit ég hvort kvef mitt og almenn vesöld er frá henni komin en ekki yrði ég hissa þó hún bölvi mér núna í sand og ösku fyrir að ég hafi smitað hana sjálfa af þessu hræðilega kvefi.

Fyrir tveimur árum var ég nú síðan hvorki búinn að blogga mart né merkilegt en reyndar er elsta bloggfærslan mín í henni þessari netveröld að verða tveggja ára:


Monday, December 02, 2002
Fór í bæinn, enda ekki langt að fara. Labbaði bæði upp og niður laugaveginn í öfugri röð.
3:05 PM

Saturday, November 23, 2002
Eitthvað bara að prófa, er þetta ekki algjör vitleysa????

hmmmmmm......
4:51 PM


En þetta var sem sagt bloggað af mínum "áður en hann fór að blogga".

Friday, November 19, 2004

veiggúr

Líklega hef ég ekki tekið ullarpeysukepnina nógu alvarlega þar sem minn er kominn heim, upp í rúm með tærnar upp í loft. Sem sagt veiggur. Verkfræðingurinn er síðan búinn að mæla veikindin með vísindalegum aðferðum á hitaskala hvort um raunverulega veikindi sé að ræða. Og jú, ég er veiggúr.

Síðan ágætt að nota fartölvuna sem hitapúða uppi í rúmi... svona úr því að það býðst ekkert annað upp í rúm til manns.

Svo var ég að komast að því að ég ekkert svo mikill vatnsberi.

You are 67% Aquarius






Til samanburðar athugaði ég líka hvað ég er mikill krabbi og slapp fyrir horn. Ég er ekki nmea 33% svoeleis.

Thursday, November 18, 2004

Það er kalt

Tími ullarpeysunnar er runninn upp eina ferðina enn. Það er komin keppni um hver á þykkustu ullarpeysuna eða flestar peysuarnar. Dúnúlpur ku geta skorað nokkuð hátt líka í þessari keppni. Ég er kominn með átta stig í peysukeppninni en hef ekki enn skráð mig til leiks í dúnúlpukeppninni. Ef það snjóar meira gæti ég stolist til að fara á skíðum í vinnuna. Verst að þessi snjóruðningstæki eyðileggja alla skemmtunina sem maður gæti haft af þessu

Það er kalt.

Ég er síðan með hálfgerða vesöld og væri annars á skíðum uppi í Heiðmörk. Þó ég hafi ekki komið þangað í bráðum heila viku þá veit ég að það er kveikt á æfintýralandinu þar. Kannski ég þurfi að láta mér batna agnarlítið áður en ég kemst á skíðin. Hvort sem það verður nú upp í Heiðmörk eða bara í vinnuna mína.

Wednesday, November 17, 2004

Nögladekkin virka betur undir bílnum

Skildi bíldrússluna eftir á dekkjaverkstæði þegar ég var hálfnaður í vinnuna í morgun. Þessi fyrri partur af ferðinni í vinnuna gekk ekkert of vel. Þurfti ég að beita klækjum til að komast áfram og var reyndar aðal trixið að sneiða fram hjá öllum brekkum. Að minnsta kosti brekkum sem ég gæti þurft að stoppa í. En þetta er sem sagt allt annað líf.

Ég er síðan kannski bara gamall og fúll en er ekki dálítið snemmt snemmt að einhver útvarpsstöð spili nú þegar eiginlega ekkert nema jólalög? Er að minnsta kosti ekki fyrir minn smekk.

Heilsan er loks ekkert sérstök en sleppur samt alveg fyrir horn. Hóst hóst.

Tuesday, November 16, 2004

Með nögladekkin í skottinu

Ég hefði haldið að það að hafa nögladekkin í skottinu væri svipað og að hafa vaðið fyrir neðan nefið. Reyndar treysti ég þessu ekki almennilega og sá mitt óvænna þegar þetta hvíta fór að hrannast upp á götunum og fór snemma heim. Enda kominn með kvef og hálfgerða vesöld og tók ekki sénsinn á að lenda í einhverju slarki.

Heimleiðin gekk síðan mjög rólega. Það voru svo allt of margir ekki með sín nögladekk í skottinu og því spólandi vitlausir út um allan veg. Ég komst klakklaust heim eftir að hafa verið stopp út í Skipholtinu út af einhverju sem ég aldrei vissi hvað var. Þorði reyndar ekki inn á bílastæðið þar sem ég er vanur að leggja þar sem mokstur á því hefur mér vitanlega aldrei farið fram nema fyrir guðs mildi [les - mildan hita yfir frostmarki - og ég veit ekkert hvenær slík mildi mun eiga sér stað næst - vonandi seint.]

Ætla rétt að vona ég sé ekki að verða veikur

Hóst hóst - er kominn með kvef. Má ekki við því að leggjast í rúmið eða verða slappur í heila viku aftur.

Sniff

Sunday, November 14, 2004

Munnharpan rokkar

Ég er að velta fyrir mér hvort það megi spila á munnhörpu þegar maður er að keyra bíl. Ef þú sérð ungan gráhærðan mann á Fólksvagen bíðandi á rauðu ljósi blásandi í munnhörpu þá gæti það nefnilega verið ég.

Ég hef mjög einfalt markmið varðandi munnhörpuleik. Verða það góður að fólk geti giskað á hvaða lag ég er að spila með sæmilegu öryggi. Fyrir þá sem hafa heyrt mig spila þá vita þeir að þetta er nokkuð háleitt markmið.
Hún er flott en það heyrist kannski ekki jafn flott... En hún rokkar líklega ekki,

Það var aftur djamm um helgina

Já, það er skammt stórra högga á milli í djammlífinu. Missti reyndar af heljarinnar starfsmannadjammi á föstudaginn þegar ég var að þvælast á fundinn upp í Heiðmörk sbr. síðustu bloggfærslu. Það var hins vegar partýstand heima hjá mér sjálfum aldrei þessu vant í gærkveldi. Vona að ég hafi ekki reynt of mikið á þolrifin í nábúunum.

Það var annars byrjað á að fara á Ben Thai veitingastaðinn sem er eiginlega í sama húsi og ég bý í þó það sé reyndar alls ekki innangengt á milli. ´

Þegar við vorum hálfnuð að bíða eftir matnum (og trúið mér, það var langur tími) þá fattaði ég allt í einu nákvæmlega hvar ég var, eða öllu heldur hvar glugginn á þessu herbergi var sem við vorum að fara að borða í. Ég hafði einhvhern tíman nefnilega tekið eftir að það var eitthvað mikið partýlíf í einni íbúðinni hérna við Laugaveginn en áttaði mig ekkert á að þessi gluggi sem þar sást inn um er hluti af þessum veitingastað.

Þetta var annars fínn matur en við þurftum að bíða hálf fáránlega lengi eftir honum. Þeir eru mun sneggri á Devitos!

Nú á eftir var partýast heima hjá mínum og svo skundað á Nýtt danskt ball á Nasa þar sem að sjálfsögðu var megastuð.

Neysla matar og drykkjar gekk hins vegar ekki sérlega vel hjá mér og lítur allt út fyrir að ég þurfi að góbla á partýmat fram eftir vikunni ef ég fæ ekki neinn í heimsókn.

Já og til upplýsingar fyrir suma sem gætu verið forvitnir eftir Nösuna þá er ég ennþá jafn ágætlega einsamall og alltaf.

Friday, November 12, 2004

Loksins aftur mynd vikunnar


The road to nowhere, originally uploaded by eirasi.


Átti erindi upp í Heiðmörk til Skógræktarfélags Reykjavíkur. Eftir nokkuð merkilegan fund á Elliðavatni fór ég bíltúr um heiðmörkina, fékk mér göngutúr og tók einhverjar myndir. Er reyndar ekkert sérlega glaður með árangurinn af því frekar en öðru þessa dagana en að minnsta kosti ein varð líklegast slarkfær. Fiktaði annars dálítið í henni, vona að það hafi samt ekki verið of mikið.

mig langar til að blogga

En má samt ekkert vera að því og hef enda ekkert að blogga um. Best að fara að gera eitthvað og klára þetta blogg einhvern tíman seinna.
.
.
.
Er annars búin að vera strangavika núna í heilan mánuð og verður það áfram en reyndar er stranga strangasta vikan kannski að verða búin. Sem smjatt allt í veseni.

Komst að því í vikunni tvisvar sinnum að ég er haldinn sérstakri fælni. Ég er með fóbíu fyrir púltum. Ég hélt þangað til í þessari viku að ég væri orðinn sæmilega vanur að koma fram og segja eitthvað fyrir hóp af fólki en fékk það tvisvar sinnum óþvegið frá taugakerfinu að ég er það alls ekki. Að minnsta kosti ekki ef það er púlt þarna einhvers staðar. Þetta er annars alveg undarlegur andskoti. Ég á ekki að eiga í neinum vandræðum með að bulla um hvað sem er fyrir framan hvern sem er. Og fyrir þá sem þekkja mig ekkert mikið en hafa tekið eftir hvernig ég bulla hér á þessari bloggsíðu þá má það fylgja með að í eigin persónu bulla ég oft á tíðum á nákvæmlega sama hátt. Þess vegna er það stórundarlegt að ég geti farið í kerfi við það að standa fyrir framan nokkrar hræður og bulla eitthvað en það gerðist sem smjatt tvisvar í þessari viku... og mér líður hálf skelfilega yfir þessu.
.
.
.
En... Það er kominn sknjór þannig að kannski get ég bara tekið gleði mína á ný. Það heyrðist meira að segja marr í morgun þegar ég kom út.



....

Monday, November 08, 2004

Algjör spæling!

Ég passa mig sko á að gera þetta ekki aftur. Að minnsta kosti ekki fyrr en ég er farinn að geta eitthvað. Fór nebblega í WorldClass áðan og fann ekkert hlaupabretti með útvarp í lagi nema við hliðina á einni af albrjáluðustu hlaupaspírunum sem stunda skemmtistaðinn. Ég náttúrlega laumaðist til að kíkja á hvað hún væri að hlaupa. Reyndar alveg eins og ég er vanur því ég fer yfirleitt alltaf í ímyndað kapp við þann sem er við næsta hlaupara og reyni helst að ná honum. En nei það var borin von. Hún var búin að hlaupa 10 km á brettinu á innan við 50 mínútum. Ég varð að játa mig sigraðan á staðnum. Hljóp reyndar ekkert hægar en hún kannski á meðan við vorum þarna að hamast en ég lét mér bara 3-4 km duga sem heildarvegalengd. Ég gat kannski helst huggað mig við það að það var einhver strákur við hliðina á mér sem var nú bara á mínu kaliberi eða varla það í hlaupinu held ég.

Mér sýndist síðan á tímabili að hún væri að kíkja á hvað ég væri að hlaupa þannig að hún flokkar mig núna líklega sem óttalegan aulingja. En núna verða hlaup og hvers konar fíflagangur stundaður að kappi næstu mánuðina enda má Kili fara að vara sig!

En hjálpi mér allir heilagir. Ég má ekki vera að þessu, klukkan er orðin hálftíu. Ég þarf að fara að búa til eitthvað skemmtilegt til að segja í fyrramálið á setningu Stjórnunarviku Stjórnvísi.


....

Ég er ekki netfíkill !



Are you Addicted to the Internet?

51%


Average@Internet-User.com (41% - 60%)
You seem to have a healthy balance in your life when it comes to the internet and life away from the computer. You know enough to do what you want online without looking like an idiot (most of the time). You even have your own Yahoo club or online journal! But you enjoy seeing your friends and going out to enjoy life away from your computer.




The Are you Addicted to the Internet? Quiz at Quiz Me!





Ég er samt búinn að vera að Internetast meira og minna í allan dag finnst mér!

Sunday, November 07, 2004

Það var djammað fast um helgina

Merkilegt nokk. Það var vinnufélagapartý um helgina og það meira að segja af stærri gerðinni. Á laugardagskvöld og sukk langt fram á nótt eða næstum því undir morgun held ég.

Ágætt að sletta aðeins úr klaufunum svona stundum.

Thursday, November 04, 2004

Olíubarónarnir

Eitt: Af hverju segir maðurinn ekki af sér? Þó þetta sé kannski ferlega ósanngjarnt fyrir hann þá er það ekki sérlega trúlegt að hann hafi ekkert vitað um hvað málin snérust sem hann var að skipuleggja eða hann hafi ekki vitað að þetta væri ekki í lagi. Og ef hann ætlar að halda því fram að hann hafi verið svona bláeygur þá held ég að hann gangi ekki heldur sem borgarstjóri þegar á reynir, einmitt eins og það gerir núna.

Tvennt: Mikið svakalega eru síðan allir alvöru olíufurstarnir íslensku heppnir að Þórólfur sé borgarstjóri! Það hefur varla verið minnst á þá í þessum hasar en samt eru það auðvitað þeir sem bera ábyrgðina á þessu fyrst og fremst.

Og kannski Þrennt: Ég er að hugsa um að kaupa bensín héðan í frá bara frá Atlantsolíu, eða eru þeir ekki frekar saklausir af þessu svínaríi?

Þetta er reyndar með ólíkindum. Okkur er líkt við Nígeríu og ég held að það sé bara rétt.
Það er síðan eiginlega allt að gerast hjá sjálfum mér og þá má maður ekkert vera að því að blogga eitt né neitt. Verður samt að blogga smá þó ekki nema svona um það sem maður er að gera.

Stend nefnilega í ströngu. Einhver hefur e.t.v. séð link hægra megin á síðunni sem heitir Fellsmörk. Það er eitt af þessum félögum sem ég hef látið plata mig til formennsku í og stundar skógrækt austur við Pétursey. Þau ósköp standa þar yfir að það á að fara að selja frá okkur hluta af svæðinu sem við í stjórn félagsins erum ekkert allt of kátir með. Stormaði ég meðal annars á fund sjálfs Guðna ráðherra vegna þess. Fór reyndar bara vel á með okkur og minnti hann okkur á fundinum nokkrum sinnum á að kjósa rétt og þá færi allt vel. Það er kannski ekki furða að það fari ekki allt vel hjá manni. Eða í heimsbyggðinni því ég held að eitthvað rúmlega 50 milljón Bandaríkjamanna hafi kosið kolrangt í vikunni. En þeir eru nú eitthvað öðru vísi þarna í Nýja heiminum en við hér í gömlu Evrópu.

Síðan er annar linkur þarna sem hefur tekið einhvern tíma frá mér líka. Það er Stjórnvísi. Þar er sérstök stjórnunarvika í næstu viku sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Síðan er lox allt bilað að gera í vinnunni hjá manni þannig að það gefst ekki mikill tími fyrir margt annað. Reyndar gengur þetta allt einhvern veginn of hægt hjá mér eða á afturfótunum í sumum tilvikum, nema kannski Afríka sem færist nær með hverjum deginum.

Monday, November 01, 2004

Eldgos líklega hafið í Grímsvötnum

Þetta er allt að gerast!

Ekki skil ég af hverju ég er sitjandi hér inni yfir einhverjum leiðindum.

Nú vildi ég vera hann bróðir minn!

Sunday, October 31, 2004

Hver er Raggi in Afganistan?

Án þess að ég ætli að vera með bölmóð þá gengur frekar margt hjá mér þessa dagana ekkert sérstaklega vel. Í raun ekkert sérstakt til að gleðjast yfir nema kannski traffíkin á blogginu mínu. Var í dag að setja persónulegt met held ég þegar þúsundasti gestur októbermánaðar leit dagsins ljós.

Og þar sem heimsóknir á bloggsíðuna mína eru mitt aðal gleðiefni þessa dagana þá hef ég dálítið verið að fylgjast með henni og hef þá séð tvennt.

Það er verið að gera ritgerð einhvers staðar um bókina Símon og Eikurnar þar sem það hafa ótrúlega margir farið inn á síðuna mína með þeim leitarorðum.

Hitt er sem vekur vekur mesta athygli mína er allt þetta fólk sem er að leita að nafna mínum í Afganistan. Þ.e. það hefur verið 1-2 á hverjum degi undanfarna daga sem hefur komið inn á síðuna með leitarorðunum "Raggi in Afganistan". Mér er spurn, hver er þetta eiginlega og er maðurinn í einhverri hættu þarna í Talíban?

Var það annars nokkuð einhver Ragnar sem var sprungt þarna austur frá?

En sem sagt. Sá sem álpast næst inn á síðuna mína að leita að nafna mínum í Asæi, vinsamlegast skilja eftir skilaboð um hvaða preláti þetta er eiginlega! ;-)

Reyndar náði ég einu sinni eitthvað meira en 1000 gestum einn mánuð fyrir margtlöngu en það var bara út af því að Katrín.is linkaði dáltið á mig. Það var því ekkert að marka það þá enda fékk ég held ég næstum 1000 heimsóknir þá bara á einum degi.


En jú annars. Eitt gengur rosa vel ennþá að minnsta kosti og reyndar eins gott að það haldi áfram að ganga vel því annað gæti verið hættulegt. Trip Kilimanjaro gengur fínt. Er farinn að hlaupa sæmilega reglulega til að verða í almennilegu formi og svo eins og áður hefur komið fram þá verður blaðamannafundur um uppátækið á þriðjudaginn. Reyndar bara útvalinn blaðamaður sem er boðinn!

Félagsmálaráðherra og íslenskt þrælahald

Ég var að heyra áðan í fréttunum að félagsmálaráðherrann okkar væri búinn að átta sig á að það væri eitthvað skrýtið við það hvernig útlendingar geta fengið að búa á Íslandi. Þeir þurfa nefnilega tvö leyfi. Fyrir það fyrsta þá þurfa þeir dvalarleyfi en það geta þeir ekki fengið nema þeir geti sýnt fram á hvernig þeir komi til með að framfleyta sér á Íslandi. Að framfleyta sér þýðir að hafa vinnu og til þess þarf útlendingurinn að hafa atvinnu. Það ætti nú að vera hægt að bjarga því einhvern veginn útlendingurinn þarf bara að finna eitthvað fyrirtæki sem vantar mannskap. Já en til að það sé hægt að ráð hann þá þarf hann atvinnuleyfi. Allt í lagi, fá sér bara atvinnuleyfi en þá þarf hins vegar dvalarleyfi.

Já krullótti félagsmálaráðherrann okkar er búinn að átta sig á að þetta er eitthvað skrýtið. Hann meira að segja skilur ekki almennilegra hvernig nokkur einasti útlendingur hefur getað komist í gegnum þessi ósköp.

Annars kom hann mér enn meira á óvart þegar hann fór að setja spurningamerki við að það væru fyrirtækin sem sæktu um atvinnuleyfið og fengju það fyrir útlendinginn en ekki þannig að útlendingurinn fengi atvinnuleyfið og færi svo og fengi vinnu á þeim grundvelli. Það fer að læðast að mér sá grunur að hann sé á leiðinni að fara að afnema það sem mér hefur alltaf fundist bera leiðinlegan keim af þrælahaldi.

Ég ætlaði nú reyndar aldri að gera þetta aftur

En að hreinsa eina íbúð eftir veru tveggja katta var bara of mikið þannig að ég tók asnalegt netpróf.

Jess


What Gilmore Girl's character are you?
brought to you by Quizilla
Hmmmmmmmmm

Annað hvort hef ég misskilið þessar spurningar illilega, skrökvað meira en góðu hófi gegnir eða þetta er endanleg staðfesting á því að ég skil ekki baun í sjálfum mér! Ég hefði helst haldið að ég væri misheppnaði gaurinn sem rekur subbulega matsölustaðinn. Man auðvitað ekkert hvað hann heitir enda myndi hann ekki muna það sjálfur.

En sem sagt. Aldrei aftur netpróf, fyrr en kannski ég þarf að gera svona kattarþvott á heilli íbúð. Orðið kattarþvottur er nefnilega að fá á sig nýja merkingu hjá mér. Ætli það hafi einhvern tíman verið kannað hvað einn og hálfur köttur getur skilið eftir sig mikið af hárum á þremur vikum? Nei líklega ekki en ég er að bæta úr því nákvæmlega núna. Og ég get fullvissað alla um að það eru mörg hár. Rosalega mörg. Veit ekki alveg hvað niðurstaðan verður nákvæm. Líklega einhvern veginn svona: Rosa-svaka-hroða-hrottalega-fáránlega mörg.

Og þetta er framleiðsla á hárum. Ég hef grun um að einn köttur búi til þyngd sína af kattarhárum á einu ári. Ætli það megi ekki nýta þetta eitthvað. Þetta eru lauflétt fiðurkennd hár. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að kaupa sér kattahárssæng? Ég bara spyr. Nó er að minnsta kosti af þessum hárum.

Saturday, October 30, 2004

Alþingismannalistinn

Vá, ég veit ekki hvað ég á að halda!

Hafði ekkert heyrt um þennan lista althingismenn.tk fyrr en áðan á Baggalúti.


Er þetta rógburður?
Eru mennirnir að framfylgja réttlætinu?
Eða er þetta bara einhver pólitískur áróður?

Ég held að minnsta kosti að þetta sé tómt bull að gera svona lista og þjóni takmörkuðum tilgangi. Ég sem er einkar illa að mér í pólitík veit hvort sem er ekkert hvaða fólk þetta er og ef ég þekkti fólkið þá annað hvort vissi ég að viðkomandi væri eitthvað í pólitík eða ég myndi draga það verulega í efa.

Ætli mennirnir muni ekki lenda í einhverjum vandræðum út af þessu. Mér finnst það líkleg því það er til opinber mynd af að minnsta kosti tveimur þessara kauða sem sjá má hér að neðan. Helsta einkenni þeirra er að þeir eru með brúna bréfpoka á hausnum.


Sjá nánar hér

Það er líklega vissrar að vera ekkert að spóka sig á almannafæri með bréfpoka á hausnum á næstunni. Maður gæti lent í alvarlegum vandræðum vegna þess.

Það var síðan gerður annar listi með einhverjum dópsölum fyrir nokkrum vikum. Um hann má lesa hér.

Mjá... engin kisa lengur

Jæja það er engin kisa lengur hérna hjá manni. Það kom fjórheilög sendinefnd uppúr hádeginu og tók bara báðar kisurnar með sér eftir að hafa étið mig út á gaddinn.

Sit hér sem sagt matarlaus, kattarlaus og allslaus. Það er nú reyndar ágætt að vera laus við þær í bili. En væri samt ágætt að fá eins og einn kött í póstium. Myndi ekki flokkast sem spam.

Það var annars árleg spurningakeppni vinnunnar minnar í gærkvöldi. Það var svaðalegt stuð að minnsta kosti á borðinu sem ég var á. Reyndar svo mikil læti í okkur að það kom næstum til álita að dæma okkur úr keppninni. Samt eins gott að það var ekki gert því liðið sem ég var í stóð sig vonum framar og endaði í öðru sæti á eftir Haglélsliðinu.

Keppnin var annars haldin úti á Nesi og þegar henni lauk fórum við nokkur á Rauða Ljónið. Það var ágætt nema kannski fyrir utan að það voru einhverjir tveir sem voru eitthvað að reyna að spila á gítar þannig að það heyrðist stundum ekki mannsins mál. Annars var spilamennskan þeirra ágæt. En ég verð að segja að þessi staður má muna sinn fífil fegurri. Ég held að ég hafi reynar ekki komið þarna í heil 15 ár en þá var fólk þarna alveg út um allt að þjóra bjór. Núna á föstudagskvöldi var þetta meira eins og Jensen í miðri viku þegar enginn Skýrrari er mættur á staðinn. Svona 5 þreyttir fastagestir en annars enginn.

Drykkjuskapur kvöldsins kostaði það síðan auðvitað að bíllinn var skilinn eftir. Það hafði þær hetjulegu afleiðingar að minn fór skokkandi út á nes í morgunsárið til að sækja farskjótann. Hafði meira en gott af því. Jafn vel bara of gott.

Friday, October 29, 2004

Útskýring hermanns á innrásinni í Írak

Heyrði þessa snilldar röksemd í útvarpinu í morgun frá tindáta af vellinum.

Jú það var sko ráðist á okkur og við urðum að bregðast við og þess vegna réðumst við inn í Afganistan af því að þar voru þeir sem réðust á okkur.

Og þess vegna þurftum við að ráðast inn í Írak enda höfðum við fengið upplýsingar um að þar væru gjöreyðingarvopn.

Og hvort þau hafi fundist? Það veit ég ekki. Það getur vel verið að þau hafi fundist en það hafi bara ekki verið sagt frá því.

Verð að játa að það er sjaldgæft að heyra svona djúpa speki

Minnir mig dálítið á eitt mjög skynsamlegt samtal sem ég átti við svona einhvers konar Vesturíslending nokkrum mánuðum áður en ráðist var á Írak:


Ég:
Finnst þér virkilega rétt að ráðast inn í Írak? Trúir þú virkilega að eftir allar hörmungar þjóðarinnar síðustu 10 ár hafi hún getað komið sér upp einhverjum gjöreyðingarvopnum sem allir þessir vopnaleitarmenn hafa ekki getað fundið

Hann:
Maður veit aldrei. Ein vetnsissprengja er ekkert svo stór. Kemst fyrir inni í einum bíl þannig að á meðan við getum ekki verið viss þá verður eiginlega að gera innrás.

Ég man þetta reyndar ekki orðrétt hvorugt samtalið en þau voru eitthvað í þessa veruna!

Kanar eru klikk, jafnvel þó þeir séu 1/8 íslenskir.

Kötturinn varð óður

Það var búið að segja mér að bröndótti kötturinn sem ég er með væri ofvirkur. Hann þyrfti endalaust að komast upp á allt og léti ekkert í friði. Hann hefur ekki slegið slöku við og hreinsað ofan af skápum borðum og öllu mögulegu. Reyndar tók ég af honum ómakið og hreinsaði sjálfur geisladiskana ofan af sjónvarpinu og dreifði þeim yfir stofuborðið í staðinn. Þar hefur geisladiskahrúgan verið hið mesta æfintýraland fyrir hann og kettina reyndar báða held ég.

Það var líka búið að vara mig alvarlega við því að sá bröndótti væri stórhættulegur lifandi fólki því hann hefði þann leiða sið að bíta fólk reglulega. Ekki það að hann væri neitt svangur heldur hefði hann bara þennan undarlega ávana að fá sér eins og einn og einn bita.

Ég hef reyndar ekki orðið mikið var við þetta enda stöðugt verið á varðbergi. Svo var það meira að segja þannig að það var hinn kötturinn sem beit mig. En það var ekki hann sem varð óður. Það var sá bröndótti.

Bithneigðin og "Uppáallthneigðin" sameinuðust á þann undarlega hátt að hann ákvað að fara upp á hausinn á mér. Sem ég sat við morgunverðarborðið þá laumaðist hann aftan að mér og tók undir sig stökk. Að sjálfsögðu algjörlega hljóðlaust enda hefur árásaraðferð kattarins verið að þróast frá því áður en við komum niður úr trjánum. Ég vissi ekki fyrri til en ég fann kattarklær læsast í bakið á mér. Fötin sem ég var í tættustu í sundur og blóð fossaði út um allt. Ég snérist snarlega til varnar og hvissaði susssususss og gretti mig á hinn hroðalegasta hátt. Sá bröndótti sá sitt óvænna og hörfaði undireins en skildi samt auðvitað ekkert í þessu viðbrögðum. Hann var bara búinn að sjá út að það væri einkar snjallt að fá sér sæti uppi á hausnum á mér til að fylgjast sem best með því hvað ég væri eiginlega að gera þarna.

Og við erum ekki enn orðnir vinir aftur þó það sé kannski hætt að blæða og ég komin í önnur föt í staðinn fyrir þau sem urðu fyrir barðinu á kattarklómnum.

PS
Vissuð þið það að Friðrik Skúlason getur ekki verið ekki ofvirkur því villupúkaforritið hans þekkir ekki einu sinni orðið!

PSS
Og kannski líka. Þessi kattarárásarsaga er dagsönn fyrir utan örlitlar ýkjur þar sem minnst er á blóðslettur.

Thursday, October 28, 2004

Érað hugsa um að gera eitthvað mikilvægt

Kannski ætti maður að taka sér malasíska verkfræðinginn S. Moganasundar til fyrirmyndar en hann ákvað að gera eitthvað sérstaklega mikilvægt einhvern tíman í lífinu og þess vegna ákvað hann að hlaupa 30 kílómetra afturábak. En um þetta má lesa í Mogganum, málgagni allra landsmanna og sá snepill lýgr nú aldreigi. Fyrir vikið komst hann í Malasíumetabókina en það gefur náttúrlega lífinu raunverulegan æðri tilgang. Enda staðfesting á að hafa gert eitthvað mikilvægt. Alveg eins og frænka hans sem var orðin leið á öllum vinum sínum og flutti þess vegna til sporðdrekanna.

Ég er annars ekkert viss um að ég þurfi að skakklappast alla þessa þrjátíu kílómetra afturábak. Líklega dugar að afturábakast bara niður Laugaveginn. Reyndar er mér vitanlega Ísalandsmetabókin ekki enn komin út en þá líka þeim mun auðveldara kannski að komast í hana fyrir að gera eitthvað mikilvægt.

Verð annars að blogga það að ég lenti í raunverulegum lífsháska í vinnunni í dag. Drapst næstum úr hlátri. Það gerðist eftir að ég horfði á þetta 500 ára gamla myndband sem sýnir kynningu á nýjustu upplýsingatækninni, þ.e. bókinni sem tók við af rollunni.

Af tunglmyrkvaglápi og fleiru

Ekki varð nú mikið af tunglmyrkvaglápi hjá mér í gærkveldi. Fór bara að sofa en svaf nú ekki sérlega lengi. Hrökk upp með andfælum eftir svona tveggja tíma svefn, orðinn viðþolslaus af spenn og hugðist berja náttúruundrið augum. Og jú það var búið að slökkva á helvískum mánanum en því miður draga líka fyrir. Tunglið sást allaveganna hvergi.

Þetta var reyndar synd og skömm því ég man ennþá hvað tunglmyrkvinn sem ég sá fyrir nokkrum árum var flottur. Þá var farið upp að Hafravatni, bílljósin slökkt og horft á dýrðina. Þó það hafi ekki verið umferðaröngþveiti þar þá var svona slangur af fólki þar [segir maður annars ekki slangur?]. Karlskömmin tunglingu varð þá appelsínugul í framan eins og klementína.

Af henni Afríku er annars tvennt að frétta. Við Helgi [aðalskipuleggjari sko] notuðum tækifærið réðumst á sprautugæjann sem var að dæla inflúensuefni í lýðinn og spurðum hann um hvað þyrfti vegna hennar Afríku.

Þetta var greinilega rétti maðurinn því hefur séð um að sprauta þá sem eru að fara í svona túra. Það er víst nóg að tala við hann í byrjun febrúar en þá þarf að stinga mann nokkrum sinnum til að koma í veg fyrir hina hroðalegustu sjúkdóma og einnig láta mann éta einhver ókjör af pillum. Þetta var held ég malaría, lifrarbólga, stífkrampi og einhverjir hræðilegir sjúkdómar sem ég þorði ekki einu sinni að leggja á minnið. Hann varð meira að segja svo óforskammaður að fara að segja okkur einhverjar voðalegar sjúkrasögur af fólki sem hefur farið þarna. Já það er ekki öll fífldirfskan eins!

Hitt sem er af Afríkunni að frétta er að það fer að myndast keppni um hver eignast útgáfurétt á ferðasögunni. Til kynningar mun verða haldinn blaðamannafundur í næstu viku.

Fyrir áhugasama um kattavitleysingana sem ég var [og er reyndar líka] með að þá eru þeir hérna ennþá. Eru alveg hættir að stríða hvor örðum en ætli ég losi mig ekki samt við þá til síns heima um helgina.

...........
Veit síðan einhver hver Raggi í Afganistan er? Það eru einhverjir tveir frá mismunandi IP tölum búnir að villast inn á síðuna mína til að leita að þessum nafna mínum í hinu stríðshrjáða fyrrvrandi talibnanana veldi.

Taka tvö í bíó tókst betur

Jæja það tókst í tilraun tvö að komast í bíó. Núna komumst við á rétta mynd og reyndar ekkert erfitt að finna salinn þar sem myndin var komin niður í kjallara.

Það voru alls fimm manns á myndinni. Tvær konur sem mér heyrðist að hefðu ekki farið í bíó síðan á síðustu öld og síðan einhver einn kaddl fyrir utan mig og minn brója.

En ég segi og skrifa að mér finnst Næsland meiriháttar mynd! Mátulega mystísk fyrir minn smekk og fullt af stórundarlegu fólki í henni.

En vitiði hvað. Tunglið er meira fullt núna en það er vant að vera og það verður rétt strax slökkt á því... svo kviknar aftur á því einhvern tíman um miðja nóttina og þá verður það ennþá jafn sneisafullt.

Það verður nefnilega örugglega flott að skoða tunglmyrkvann núna á eftir. Sérstaklega þar sem það er svo skemmtileg tilviljun að tunglið er alveg fullt núna á nákvæmlega sama tíma.

Það er reyndar spurning hvort einhver sjái rugglið í þeirri tilviljun!

Tuesday, October 26, 2004

Fjallið færist nær

Ég fékk tölvupóst í dag og í honum stóð m.a.:

Ferð:  CLASSIC KENYA SAFARI & KILI CLIMB  - Ferðarnúmer  Special departure   brottför   18.3.2004   lengd ferðar  17 dagar    ferðalok í London   3.4.2004

Svo á ég líka að fara að borga eitthvað. Mér sýnist á öllu að það verði ekki hætt við héðan af. Ég skal víst til Afríku á endanum!

Síðan á ég að fara að gefa upp alls konar upplýsingar eins og í hvern eigi að hringja ef tígrisdýrin í Afríku verða of nærgöngul. Annars ekki mikil hætta á því eins og dýrvissir vita líklega. En fjallið er flott!


Monday, October 25, 2004

Þegar einhver brosir til manns

Einhvern tíman fyrir rosalega löngu las ég í skólablaði sem reyndar er kennt við bjúga viðtal við hana Elenu, stelpu frá Ítalíu sem var skiptinemi hér á klakanum fyrir roslega löngu.

Ég man að þegar hún var spurð hvað henni findist um íslendinga og þá sérstaklega strákana þá sagði hún að þeir væru dálítið erfiðir því þeir virtust yfirleitt halda að ef hún talaði við þá, þá héldu þeir að það þýddi að hún væri eitthvað hrifin af þeim. Ég tók hana auðvitað mjög bókstaflega og varð sérstaklega afundinn þegar einhver af hinu kyninu tók upp á því að tala við mig. Sérstaklega ef einhver af hinu kyninu tók upp á því að brosa til mín eða haga sér undarlega á annan hátt. Ekki vildi ég haga mér eins og einhver íslenskru afdala sveitamaður.

Mér datt þetta nú reyndar bara í hug því það var brost til mín í dag en ég geri nú reyndar ekkert neitt ráð fyrir að það þýði eitt eða neitt. Enda ef að ég væri hrifinn af öllum sem ég brosi til þá væri ég líklega dáinn úr hrifningu.

Auk þess verð ég líklegast að fara að átta mig á því að bros er ekki sama og bros. Það rann nefnilega upp fyrir mér fyrir svona 13 og hálfu ári að það er sitthvað að einhver brosi til manns eða einhver brosi að manni. Svipað og munurinn á því að vera fyndinn og hlægilegur. Kannski var ég bara broslegur í dag. Ég óttast að ég standi mig oft betur í því að vera hlægilegur en að vera fyndinn. Reyndar kannski svo að ég verð bara fyndinn fyrir vikið. Það er kannski ekkert svo slæmt. Hláturinn lengir jú lífið eins og karlinn sagði rétt áður en hann drapst úr hlátri. Ætli það hafi annars einhver einhvern tíman dáið úr hlátri. Gæti verið skárri dauðdagi en hver annar. Einu sinni heyrði ég um einhvern sem drapst úr hræðslu í bókstaflegri merkingu. Mig minnir að hann hafi verið hjá tannlækninum sínum og verið alveg að drepast úr hræðslu. Adrenalínið æddi um líkamann og einhver önnur efni sem losna úr læðingi við ofsahræðslu. Þegar þetta blandaðist saman við eitthvað efni í deyfingunni sem þessi vesalings maður fékk þá varð einhver svakaleg eitrun og hann bara drapst með það sama. Hann drapst sem sagt úr hræðslu hjá tannlækninum sínum. Þarna er kannski komin ástæðan fyrir að ég læt aldrei deyfa mig þegar það er verið að krukka í tönnunarnar mínar.

Jæja, þurfti bara að segja þetta [eða eitthvað af þessu] áður en við förum að sofa. Ég og kisurnar sko. Eða reyndar þá held ég að þær sofi á daginn þegar ég er í vinnunni. Þær virðast stunda eltingaleik og mjálmkeppni allar nætur. Guðsélof reyndar að þær fara brátt að komast til síns heima. Reyndar synd þar sem þær eru nú eiginlega hættar að láta eins og hundur og köttur hérna hjá mér.

Sunday, October 24, 2004

Kisurnar og heimilistækin

Alveg er það undarlegt hvaða heimilistæki vekja áhuga kisuhugans.

Þvottavélin var strax stimpluð sem hið hættulegasta óargadýr. Fyrst eftir að fyrri kisan kom í pössun þá flúði hún alveg lágmark undir stól ef ekki upp á háaloft í hvert skipti sem ég tók upp á því að þvo. Þessi hræðsla við þvottavélina hefur reyndar eitthvað rjátlast af henni og kannski líka hugrekkið vaxið við að fá annan kött í lið með sér til að ráðast á skrímslið.

Uppþvottavélin hefur ekki verið álitin jafn hættuleg og var litli Bjartur alveg ólmur að komast undir hana þegar hún fór í gang í morgun. Ískápurinn er síðan álitinn hið al dularfyllsta fyrirbæri. Held að báðar kisurnar viti að þar inni er eitthvað alveg sérstaklega spennandi.

Það sem báðar kattaskammirnar hafa mestan áhuga á er samt tölvuprentarinn. Það hreyfist eitthvað dularfullt ljós innan í honum og hann spýtir út úr sér pappír. Núna var Lottukisan rétt í þessu að reyna að veiða útprentanirnar mínar og var komin á bakvið prentarann til að reyna að komast að því hvaðan í ósköpunum þessi pappír eiginlega kæmi. Hún áttaði sig sem sagt á því að þetta gæti varla verið maskína sem væri bara að búa til pappír.

En nóg komið af bulli í bili, verð að fara að gera eitthvað af þessu sem ég þóttist ætla að gera í kvöld.

Baldvin Þorsteinsson stímir á

Það er eitthvað með þetta skip. Ætli það hafi verið sami skipstjórinn að stýra hér og hér?

Ég held að þetta þarfnist einhverrar frekari athugunar!

Mynd vikunnar er frá í sumar: The thinking Mask

Ekki varð það nú að mynd vikunnar væri frá í gær, heldur fann ég eitthvað gamalt dót og fór að fikta í því.

Tók þessa mynd í gamla Hampiðjuhúsinu á menningarnótt í sumar sem leið. Verst ég veit ekki hver gerði sjálft listaverkið því þetta er náttúrlega bara mynd af einhverju sem einhver annar gerði.
the mask


Sjá líka á dpchallenge.

Gluggaþvottur uppi á þaki

Ég sá í morgun að við svo búið mátti ekki standa. Gluggarnir sem ég býð kisunum að horfa út um voru orðnir svo skítugir eftir skítviðri síðustu viku að það sást varla út um þá lengur. Enda var ég fyrir nokkrum dögum búinn að átta mig á að það var ekki einleikið hvað þessi þoka virtist ætla að vera þrautseig.

Ég fann til einhvern aflóga svampkúst, bleytti vel í sápuvatni, prílaði upp á stól, opnaði gluggann upp á gátt, mundaði kústinn, skvetti vatni út um allt á leiðinni og ... SVAMP! Það heyrðist hátt og myndarlegt skvamp þegar sampdruslan lenti á gangstéttinni átt metrum neðar. Þar sem ég bý nú bara við Laugaveginn þá er náttúrlega sjaldan fólk þarna á ferli þannig að það var nú ekki nein sérstök hætta á ferðum.

Var nú gerð önnur tilraun. Tekinn annar kústur ekki jafn aflóga en enginn svampur á honum heldur bara hefðbundinn skúringakústur. Ég þorði reyndar ekki fyrir mitt litla líf að setja tusku á hann heldur notaði kústinn bara beran. Það gekk betur og eftir dálítinn gusugang og e.t.v. einhverja blauta vegfarendur er glerið aftur orðið gegnsætt. Annars er ekkert svo mikill umgangur af fólki hérna ofarlega á Laugaveginum. En ef þú rekst á aflóga þvottasvamp á Laugaveginum þá máttu hugsa mér þegjandi þörfina fyrir slóðaskapinn og þú mátt eig'ann ef þú vilt.

Rétt á meðan ég skildi annan gluggann eftir galopinn gerði vösólfurinn Bjartur sig líklegan til að stökkva bara beint út, enda ekki mikið mál fyrir hann. Hefði nú samt ekki boðið í það að hann hefði farið að vega salt á gluggasyllunni og að minnsta kosti 8 metrar niður á gangstétt fyrr neðan. Reyndar hefði verið mjúkt að lenda á svampinum en kannski ekkert einfalt að hitta beint á hann!

Ég er annars að verða vitlaus á þessari kattapössun. Sá bröndótti eigrar um íbúðina heilu og hálfu næturnar og vælir viðstöðulaust eins og stunginn grís. Kannast samt ekkert við að hafa stungið hann. Er farinn að óttast að ég verði dæmdur í útlegð á næsta húsfundi. En þessu lýkur nú reyndar fljótlega. Það sem ég held að ég hafi lært af þessari kattapössun er að einn köttur er að minnsta kosti alveg meira en nóg.

Fór annars í gær í góðaveðrinu og ætlaði að taka einhverjar ódauðlegar myndir á meðan ég var ekki að slappa af eða vinna, elda eða éta, horfa á sjónvarpið eða ráða krossgátu en ég held ég hafi ekki haft erindi sem erfiði. Það kemur samt kannski ný mynd á síðuna bráðum.

Friday, October 22, 2004

Gangsterar úti á götu

Okkur kisunum báðum brá alveg rosalega fyrr í kvöld. Það heyrðist búmm og svo aftur búnk, krasjh og krúsjh. Mér krossbrá og það hljóp hland fyrir hjartað á mér og kisunum örugglega líka. Ég óttaðist fyrst að ég þyrfti að fara að beita skyndihjálp og leit út um gluggann til að kanna aðstæður.

Var þá einhver rauður sportbíll búinn að klessukeyra líklega þrjá kyrrstæða bíla. Sportbíllinn var hins vegar ekkert ánægður með þetta. Bakkaði bara út úr þvögunni og reykspólaði síðan í burtu. Ég held annars að þetta sé sami staður og einhver bíll [sem nota bene var líka sportbíll] í kappakstri við annan bíl fór flikkflakk helgjarstökk þarna á sama stað. Sá gat reyndar ekki reykspólað í burtu því hann endaði á hvolfi.

Nú svo kom löggan og svona en reyndar held ég ekki fyrr en eftir dúk og disk. Reyndar ekki langt fyrir þá að fara en hvað veit ég. Kannski var hún komin eitthvað fljótlega. En maður ætti kannski að fara að flytja á átakaminni stað í henni Reykjavík. Þetta er náttúrlega ekki nokkur hemja og það er nokkuð ljóst að ég mun aldrei þora að leggja bílnum mínum í þetta bílastæði og ekki ganga um þessa gangstétt nema hafa varann á mér. Og passa mig sérstaklega á öllum sportbílum.

Kattavitleysingarnar [svo ég noti tungutak karls föður míns] eru síðan bara að spekjast og kvæsa ekki hvor á annan nema svona af og til. Gátu jafnvel hnusað hvor af öðrum áðan eins og þeir væru næstum því vinir.

Ég er að lokum ekkert sérstaklga ánægður með daginn að öllu leyti fyrir utan það að ég fór sérstaka frægðarför í morgun til tannlæknirsins míns og hann fann ekkert athugavert við munninn á mér. Fór meira að segja að hafa orð á því að það skemmdist bara ekki nokkur skapaður hlutur lengur þarna uppi í mér fyrir utan eina og eina brotna fyllingu. En hann tók nú alveg heilar 7 þúsund krónur fyrir þetta blessaður öðlingurinn. Enda vildi ég ekki vinna uppi í munninum meira og minna hálfókunnugu fólki allan daginn á einhverjum kennaralaunum.

Thursday, October 21, 2004

Enginn var kúkur

Af því að Stína frá Kína spurði og svarið varð svo langt að það átti ekkert heima í skilaboðakerfi þá kemur það hér.

Hann F. Kúkur sem er á myndinni fyrir í þar seinustu bloggfærslu eða þarumbil er auðvitað ekkert á myndinni heldur bara nafnið hans því það er Gunnar Dal sem er í þungum þönkum á myndinni.

Hann F er gamall félagi sem hefur ekki verið mjög við eina fjölina felldur. Hann var einhver einarðasti bindindismaður sem um getur og stundaði helst ættfræðigrúsk sér til dægrastyttingar á fyrri hluta táningsáranna. Altsvo þegar hann var ekki á fundum hjá Heimdalli, Varðbergi eða einhverju þaðanaf gáfulegra. Hætti síðan að vera bindindismaður og varð dálítill sukkar en hélt reyndar áfram um stund að grúska í ættfræði og vera blár í gegn. Gaf út ættfræðital og gegndi mikilvægu hlutverki á landsfundum flokksins. Varð sér út um kærustu og gerðist enn meiri sukkari held ég. Síðan slitnaði nú uppúr sambandinu eins og gerist og hann fór að reka sj0ppu. Sem gekk ekki of vel því hann mátti ekkert vera að því að afgreiða og var bara með fólk í vinnu til að sinna slíkum störfum. Enda hann hátt hafinn yfir það að afgreiða í sjoppu heilt kvöld sérstaklega þar sem viðskiptavinirnir voru oft teljandi á fingrum annarrar handar. Enda fór það svo að sjoppan fór á hausinn held ég.

Nú hann var í vinfengi við mikilvæga menn og man sérstaklega eftir sögum hans af Ármanni nokkrum Reynissyni sem rak þá Ávöxtun með hvílíkum glæsibrag að undrum sætti. Einnig var hann að grúska í alls kyns dulrænum fyrirbrigðum og gerðis mikill áhugamaður um Nýalssinna.

Ég frétti síðan lítið af honum Ingimar í mörg ár. Held að hann hafi einhvern tíman farið í meðferð en veit svo sem ekkert um það. Einhvern tíman heyrði ég líka að hann ætti kærasta en ég veit heldur ekkert um það og getur verið lygimál.

Ég hitti hann síðast þegar hann var að afgreiða í Geysi niðri í bæ sem hlýtur að vera langt síðan því það er löngu búið að rífa húsið sem búðin var í og síðan hafði ég áreiðanlegar heimildir um að hann byggi hjá gamalli ekkju í Grímsey þar sem hann væri barnaskólakennari.

Kann ég sögu hans ekki lengri og veit ekkert um hvar hann er niðurkominn núna en hann er með sérstakari persónum sem ég hef fyrirhitt um dagana.

Myndin sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum er af Gunnari Dal þegar hann kom í lok dags til að fræða okkur félagana í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um heimspeki í sérstökum aukaáfanga um það fag sem við stofnuðum félag um að fá kenndan.

Í þetta skiptið var hann eitthvað seinn fyrir og til að fá listræna útrás þá var taflan skreytt á hinn margvíslegasta hátt. Einhver skrifaði nafnið hans af því að hann hafði sest í kennarastólinn en kúkurinn var málinu eitthvað algjörlega óviðkomandi. Síðan þegar lærimeistarinn loksins kom var hann eitthvað í þungum þönkum en væntanlega lak spekin af honum eftir það í stríðum straumum.

Það var hins vegar nokkrum árum áður sem Gunnar Dal kenndi mér stafsetningu með undarlegum aðferðum sem svínvirkuðu.

Ég man það að við fengum allir A í einkunn en það var með því skilyrði að við myndum eitthvað láta kveða að okkur á lífsleiðinni og lágmarkið var að einhvern tíman myndum við að minnsta kosti skrifa blaðagrein um það sem við værum að fást við á lífsleiðinni. Þar sem ég er að stelast til að blogga þetta en á að vera að skrifa grein í tímarit þá er líklega nokkuð ljóst að ég stóð undir einhverjum af þeim væntingum.

Félagið starfaði síðan í meira en 10 ár og fékk alls kyns fyrirlesara til sín. Hittist reglulega í Turnherbergi Hótel Borgar og fyrsti fyrirlesarinn sem kom þangað var reyndar Sigurður Líndal sem er auðvitað stjúpi hennar Stínu frá Kína.



.
.
.

Kattfræðilegt atferli

Heimili mitt er orðið vettvangur kattfræðilegra rannsókna.

Gamla kisan sem var í pössun ein hjá mér þangað til í gær er nefnilega ekkert glöð með fjölgunina sem varð þegar nýja kisan kom inn á heimilið í gærkvöldi. Það var kvæst dálítið í báðar áttir og aðeins tekist á en reyndar varð nú enginn almennilegur kattaslagur úr þessu hjá þeim. Síðan er það þannig að nýja kisan, rummungurinn sá bröndótti virðist hafa tögl og hagldir á meðan gamla kisan Lotta litla fer með veggjum og lætur sem minnst fyrir sér fara nema kannski þegar hún kvæsir. Það er nefnilega litla Lottukisan sem kvæsir á slöttólfinn hann Bjart.

En þetta tekur nú allt enda. Ef að líkum lætur verð ég aftur orðinn karl hinn kattlausi um helgina. Ja nema ég haldi í aðra hvora kattarómyndina. Veit það nú ekki alveg. Finnst frekar í lagi að fá kisu svona aðeins til mín í heimsókn en að fá kisu hingað fyrir fullt og allt. Enda get ég varla opnað út á svalir með þessa ferfætlinga hérna. Er búinn að sjá það út kisan myndi stökkvað beint út á þakið á næsta húsi og vera þá horfin veg allrar veraldar eða í besta lagi vera komin í hina skelfilgustu sjálfheldu og ég þyrfti að hringja á slökkviliðið til að bjarga henni til baka rétt eins og einhver gömul kona í Vesturbænum.

Annars um þessa ketti. Ef einhver fór á leikritið um Jón Odd og Jón Bjarna fyrir svona tveimur árum síðan þá var sá bröndótti þar sem lítill kettlingur í hlutverki hans Jóns Sófusar!

Wednesday, October 20, 2004

Einhleypir

Undarlegt þetta blogg. Þegar maður nennir ekki að gera það sem maður þarf að gera þá fer maður að blogga einhverja vitleysu.

Ég heyrði einhvers staðar fyrir ekki löngu að það væru núna til tvær tegundir af einhleypu fólki. Annars vegar lítið menntaðir karlar með lágar tekjur ef yfir höfuð einhverjar. Og síðan vel menntaðar konur með háar tekjur. Fór að vandræðast með að setja mig inn í þett módel. Menntun er líklega umdeilanleg og kannski þarf ég kauphækkun. Það er að minnsta kosti einfaldara en kynskiptiaðgerðin. En svo var ég að lesa á bloggi Stínu útlaga að konur hafa ekkert við mann lengur að gera.

Annars er þetta ekkert fyndið. Einhleypar konur voru samkvæmt fréttinni einhleypar af því að þær voru allt of góðar þannig að þær vildu engan en einhleypir karlar voru einhleypir af því að þeir voru allt of lélegir. Ég held hins vegar að ég sé bara auli.


Ég er annars alltaf að hafa meiri og meiri áhyggjur af því hvað ég er að verða slappur í stafsetningu. Ég ætlaði núna áðan að fara að skrifa einhleypinginn með einföldu i-i.

Fyrir martlöngu kenndi þessi snillingur mér hér að neðan stafsetningu upp á 10,0 en það er líklega að verða of langt um liðið.

En ég elska í öllu falli þessa mynd!



Guðbergur þó
En talandi um ljósmyndir. Ég var að horfa á endurtekinn Mósaíkþátt og ég sá Guðberg Bergsson vera hálfpartinn að dissa íslenska ljósmyndara alla með tölu og segja að spænskar myndir sem hann er með á sýningu séu allt öðru vísi en íslenskar myndir því þær sýni hugmyndir. Grunnurinn að góðri ljósmynd verði að vera hugmynd en á íslenskum myndum séu bara fjöll. Engar hugmyndir. Reyndar er til ákaflega mikið af ljósmyndum sem eru bara af einhverjum fjöllum og geta bara verið mjög fallegar sem slíkar en að segja að það sé ekkert varið í íslenska ljósmyndun því þar sé aldrei nein hugmynd, það er bara dónaskapur.

Það er síðan að frétta af tveimur köttum að það er ákveðin valdabarátta í gangi hjá þeim blessuðum!

Tveggjakisupassarinn

Það bættist loksins við einn bröndóttur núna í kvöld þannig að núna er ég orðinn tveggja kisna maki.

Verst að þær komast ekki með mér á Íslenska dansflokkinn annað kvöld því Ralldiggnur rann úr skaftinu núna áðan og mér sýnist að ég fari ekki neitt. Ekkert gaman að fara einsamall. Er því bara heldur fúll. Reyndar kannski lán í óláni að ég mátti eiginlega ekkert vera að því heldur að fara þetta en ætlaði nú samt og finnst fúlt að fara ekki neitt.

En þetta verður ágætt með kisurnar. Þær eru aðeins búnar að kvæsa hvor á aðra svona eins og til málamynda. Reyndar leist Ralldiggni held ég svo illa á þetta kvæs þeirra að líklega sefur hún ekki fyrir áhyggjum á meðan ég sef ekki fyrir kattaslag.

Jám en líklega best að fara að taka til í íbúðinni. Mér skilst að sá nýkomni bröndótti sé alvarlega ofvirkur og muni henda öllum geisladiskunum mínum 300 ofan af sjónfvarpinu og líklega setja íbúðina í rúst. Ég vil frekar rústa henni sjálfur við minn hátt.

Tuesday, October 19, 2004

Nú er það ljótt

Allt bloggið mitt orðið svart!

Og ekki betra að ég svaf næstum ekkert í nótt. Varð ekki svefnsamt fyrir þessum djöfulgangi í veðrinu. Komst reyndar að því þegar ég gafst upp á þessu og skoðaði veðrið í tölvunni að þetta voru bara eitthvað skitnir 10-15 metrar á sekúndu ef það náði þá því, sem ég vissi nú ekki að væri mannskaða veður. Ég átti von á að minnsta kosti svona 20-30 metra roki.

Það gnauðaði og söng í öllu eins og ég vissi ekki hvað og varla heldur hún kisa. Það eru einhverjir gluggar hjá mér sem hefðu gott af endurnýjun þéttilista held ég. Að minnsta kosti fannst mér vera rok hjá mér. Þó ekki svo slæmt að sængin væri að fjúka af mér en ég vil meina að það hafi samt stundum legið við. Og náttúrlega skítkalt.

Það varð síðan ekkert úr að það bættist við köttur í hópinn í kvöld. Þökk sé veðurguðunum. Ferð hins kattapassarans Gunna um fjöll og firnindi til vatnsmælinga frestast nefnilega skilst mér út af óveðrinu. En það gæti nú komið ný kisa í staðinn annað kvöld.

Og svo ef úr rætist í veðri þá er stefnt á línuskauta um helgina í kvennafansi uppá Grafarholti eða hvað fjöllin heita þarna sem fólk er að álpast til að byggja á.

Verðr gaman :)

Monday, October 18, 2004

Afríka í sjónmáli

Einhvern tíman hef ég bloggast á [að "bloggast á" er bloggíska fyrir að minnast á ef þú veist það ekki] að ég sé kannski á leiðinni til hennar Afríku eftir svona hálft ár eða varla það. Þetta fer allt að skýrast. Í þessari viku þarf nefnilega annað hvort að fara að byrja að borga eitthvað inn á ferðina eða hætta bara við allt saman. Og þar sem ég hef eiginlega verið að þykjast vera með í að skipuleggja ferðina þá á ég dáltið bágt með að fara að draga mig út úr þessu.

Það eru því allar líkur á því að buddan verði orðin 45 þúsund kallinum léttari í lok þessarar viku og að bloggið mitt fari að verða Afríkulegra þegar nær dregur. Þetta verður annars óttaleg popparaferð bara með ferðaskrifstofu en reyndar tímamótaferð líka. Ef allir sem ætla núna fara í ferðina og komast upp á hann Kili þá verður þetta Íslandsmet. Aldrei mun stærri hópur Íslendinga hafa staðið á tindi Kilimanjaró í einu.

Og ætli ég endi ekki á að verða frægur fyrir þetta ferðalag. Að minnsta kosti er búið að ámálga við mann viðtal í víðlesnu blaði út af þessu

Annars er ekkert að frétta af mínum. Eiginlega allt of mikið að gera á öllum vígstövðum til að eitthvað geti frést. Var reyndar partýstand um helgina í áttræðisafmæli uppi í Breiðholti sem stóð fram undir morgun. Jám það er að eiga svona aldraða vini.

Það er síðan útlit fyrir fjölgun í kattapössuninni hjá mér. Það mun nefnilega einn bröndóttur bætast við annað kvöld reikna ég með.

Að lokum. Skil ekki eitt. Hvaðan kom þessi voðalegi vetur sem er allt í einu kominn hingað? Ef hann getur hætt að blása kuldabola í gegnum mig og í staðinn gert dáltinn alminlegan snjó þá yrði ég ánægður með þetta.

Thursday, October 14, 2004

Dópsalalistinn

Vá, ég veit ekki hvað ég á að halda!

Hafði ekkert heyrt um þennan lista dopsalar.tk fyrr en áðan í fréttum í Sjónvarpinu.


Er þetta rógburður?
Er maðurinn að framfylgja réttlætinu?
Eða er þetta bara dópsalaauglýsing?

Ég held að minnsta kosti að þetta sé tómt bull að gera svona lista og þjóni takmörkuðum tilgangi. Ég sem er einkar illa að mér í dópheiminum veit hvort sem er ekkert hvaða fólk þetta er og ef ég þekkti fólkið þá annað hvort vissi ég að viðkomandi væri eitthvað vafasamur pappír eða ég myndi draga það verulega í efa.


Þetta var síðan dálítið kúnstugt í sjónvarpinu. Þeir nefndu engin nöfn eins né neins á listanum til að taka ekki þátt í rógburði. Sýndu svona hluta af vefsíðunnu úr fókus þannig að ekkert kæmi fram en gáfu svo slóðina upp!!!

Ætli það hafi ekki verið ágætis traffík á henni á eftir. Ég kíkti að minnsta kosti.