Saturday, January 22, 2022

Ruslabílaklessa


Tók daginn snemma þriðjudaginn 18. janúar... hafði ætlað á fund kl. 8:00 heima á Teams og eitthvað ætlað að skoða gögn fyrir fundinn. Var bara að drekka morgunkaffi svona korter í sjö þegar það heyrðist fyrirgangur og læti. Svakalega hefur hann sett snjótönnina harkalega niður hugsa ég... nei annars, hann hlýtur að hafa rekiða hana utan í eitthvað... hvað gerðist eiginlega?

Fyrir utan húsið var gulur ruslabíll kominn inn í bílaröðina í Hæðargarðinum og sat þar bara sem fastast. Fjórir bílar okkar íbúanna þar í kring í mismunandi mikilli klessu. Bílstjórinn gaf eftir einhvern tíma frekar ótrúverðuga skýringu að hann hefði verið að mæta bíl - sem gengur ekkert upp því þá mætti hann bílnum á öfugum vegarhelmingi sjálfur. Annað hvort hefur hann sofnað eða verið eitthvað upptekinn í símanum sínum. Vonandi ekkert verra en það en löggan tók hann til eitthvað frekari skoðunar.

Núna nokkrum dögum seinna eru báðir bílarnir mínir komnir í eigu tryggingafélags. Guðs lofandi feginn að vera laus við númerslausa Suzuki jeppann og ekkert alveg alvont að vera ekki lengur með Dustein sem gekk undir nafninu Draslerinn hjá mér.
Verkefnið hjá mér núna er víst að eignast annað ökutæki. Var búinn að sjá einn sem mér leist helvíti vel á en sýnist að sá bíll sem var búinn að vera einhverja mánuði á sölu hafi selst tveimur dögum eftir að ég sá hann. Jæja... þetta fer allt saman einhvern veginn!

Friday, January 21, 2022

Óvænt þorrablót!


Á heimleið frá vinnu, hjólandi í gær - enda hafði ég selt báða bílana mína fyrr um daginn - mætti maður bróður sínum - líka hjólandi auðvitað. Hann reyndar tók ekkert eftir mér. En þetta endaði í óvæntu afmælis-ör-þorrablóti á Urðarstekk. Til hamingju með afmælið í gær mamma mín
Fært inn af Facebook