Okkur kisunum báðum brá alveg rosalega fyrr í kvöld. Það heyrðist búmm og svo aftur búnk, krasjh og krúsjh. Mér krossbrá og það hljóp hland fyrir hjartað á mér og kisunum örugglega líka. Ég óttaðist fyrst að ég þyrfti að fara að beita skyndihjálp og leit út um gluggann til að kanna aðstæður.
Var þá einhver rauður sportbíll búinn að klessukeyra líklega þrjá kyrrstæða bíla. Sportbíllinn var hins vegar ekkert ánægður með þetta. Bakkaði bara út úr þvögunni og reykspólaði síðan í burtu. Ég held annars að þetta sé sami staður og einhver bíll [sem nota bene var líka sportbíll] í kappakstri við annan bíl fór flikkflakk helgjarstökk þarna á sama stað. Sá gat reyndar ekki reykspólað í burtu því hann endaði á hvolfi.
Nú svo kom löggan og svona en reyndar held ég ekki fyrr en eftir dúk og disk. Reyndar ekki langt fyrir þá að fara en hvað veit ég. Kannski var hún komin eitthvað fljótlega. En maður ætti kannski að fara að flytja á átakaminni stað í henni Reykjavík. Þetta er náttúrlega ekki nokkur hemja og það er nokkuð ljóst að ég mun aldrei þora að leggja bílnum mínum í þetta bílastæði og ekki ganga um þessa gangstétt nema hafa varann á mér. Og passa mig sérstaklega á öllum sportbílum.
Kattavitleysingarnar [svo ég noti tungutak karls föður míns] eru síðan bara að spekjast og kvæsa ekki hvor á annan nema svona af og til. Gátu jafnvel hnusað hvor af öðrum áðan eins og þeir væru næstum því vinir.
Ég er að lokum ekkert sérstaklga ánægður með daginn að öllu leyti fyrir utan það að ég fór sérstaka frægðarför í morgun til tannlæknirsins míns og hann fann ekkert athugavert við munninn á mér. Fór meira að segja að hafa orð á því að það skemmdist bara ekki nokkur skapaður hlutur lengur þarna uppi í mér fyrir utan eina og eina brotna fyllingu. En hann tók nú alveg heilar 7 þúsund krónur fyrir þetta blessaður öðlingurinn. Enda vildi ég ekki vinna uppi í munninum meira og minna hálfókunnugu fólki allan daginn á einhverjum kennaralaunum.
No comments:
Post a Comment