Wednesday, June 29, 2011

Heimkominn úr hjólatúr!

ERS_6746

Við bræður búnir að hjóla okkar árlega Vatternrúnt í fríðu föruneyti fyrrverandi og núverandi Skýrrara. Síðan að þvælasts aðeins um í Danmörku.

Í grófum dráttum:

Dagur 1:
Farið til Köben, bílaleigubíll, ferðahjól sett í geymslu hjá Ragnheiði og Matta, ekið til Motola

Dagur 2:
Rólegheitaundirbúningur í Motola, hjólin gerð klár

Dagur 3:
Átökin undirbúin

Dagur 4: (300km)
Hjólað alla nóttina til hádegis og þá farið að sofa

Dagur 5:
Ekið til Köben. Eðalis kjötbollur á Strandvejen úr eldamennsku Matta

Dagur 6: (13km)
Í Árósum

Dagur 7: (66km)
Til Ry þar sem er gott kaffihús og hægt að fá rosalega góða pizzu

Dagur 8: (55km)
Farið á Himmelbjerget og endað í Truust

Dagur 9: (61km)
Gist í farfuglaheimili í Randers

Dagur 10: (94km)
Mikið rok og endað á að gista í eðalfínu farfuglaheimili í Gjerrild. Mælt með því alveg sérdeilis!

Dagur 11: (84km)
Farið til Ebeltoft og Molbúalandið skoðað

Dagur 12: (98km)
Ferjudagurinn mikli og endað á einhverju ónefndu tjaldstæði

Dagur 13: (44km)
Til Köben og á Strandvejen

Dagur 13:
Fokdýr leigubíll og svo er maður bara allt í einu kominn heim!

Myndir eru hér

Wednesday, June 08, 2011

Dagur 4 í æfingaprógramminu

Hef raunar dálitlar áhyggjur af því hvað þessir 66km virtust eitthvað vera mikill hjólatúr!

Hafði eiginlæega ætlað að taka pásu þennan dag [-í gær sko-] en vera duglegur daginn eftir. Var samt búinn að sjá að þann dag færi ég ekki af stað í langan hjólatúr fyrr en eftir hádegið eða þá alveg rosalega snemma því ég á stefnumót í HÍ upp úr hádeginu. Þá var spáð vaxandi vindfjanda.

Það varð því úr að eftir HSSR fund var farið af stað.

Gekk vel framan af en varð hálf þreyttur og leiður að vera að þessu næturgölti eftir því sem á leið. Hafði ætlað að fara í helst 80km þar sem ég var eiginlega búinn að ákveða hvíldardag daginn eftir. En endaði í þessum rúmu 66km. Æfingaplanið hafði hins vegar sagt 70km þannig að ég náði því ekki einu sinni.

En svo sem ágætt en var hálf þreyttur þegar heim kom upp úr 2 um nóttina.



Dagur
Plan
Raun
Uppsafnað
plan
Uppsafnað
raun
Athugasemd
1
10
12,4
10
12,4
Fyrsta sinn eftir veikindin
2
30
35,3
40
47,4
Ágætur fílingur
3
50
51,0
90
98,7
Rétt slefaði í markmiðið – miðnæturhjól
4
70
66,4
160
165,1
Ætlaði meira en var kalt og það var nótt
5
90

250


6
110

360


7
130

490



Ég geri hins vegar ekki ráð fyrir miklum afrekum í dag sem ætti að teljast 5. dagur í æfingaplaninu.  Tek þá eitthvað í staðinn á morgun.  Helst ekki undir 100km.  Svo sér maður bara til.  Það gengur ekki að vera búinn að gera út af við sig í æfingaprógrammi viku fyrur keppnina!

Frá æfingadegi 3 þegar ég var kominn 36,9km:





Svo má þess geta að við erum orðnir heimsfrægir eða þannig eftir að Mogginn reit vora sögu :-)

Af eyrnahellunni ægilegu er síðan það að frétta að hún er þarna ennþá en aðeins á undanhaldi - nema ég sé bara farinn að venjast henni og taka hana sem eðlilegt ástand - samt ekki því ég er farinn að heyra mun meira og betur en á meðan hún var í algleymingi.  Fór til Sigurbjörns læknis í gær og hann sagðist sjá að hlust eða eitthvað inni í eyranu væri lokað og þyrfti að ná að opnast.  Fékk ég einhvern nef-meðala-brúsa til að reyna að bæta úr því.

Sunday, June 05, 2011

Törn hjá jarðvegsgerðarmanninum

Sló loksins garðinn... eða svona hluta af honum

Heilsuleysi, ótíð og ferðalög undanfarinna vikna hafa hafa komið algjörlega í veg fyrir að jarðvegsgerðarmaðurinn hafi staðið sig. Hann reyndar stóð sig svo afleitlega að hann kom ekki einu sinni grænmetis- og ávaxtgaafgöngum heimilisins út í safnhaug á tímabili. Þar kom til bæði tímaleysi og veikindi. Úr því var reyndar bætt einhvern tíman um miðja pestina. En núna var sem sagt slegið gras og ekki slegið slöku við!

Það er reyndar þannig að þegar áður en hægt er að hefjast handa fer fyrst fram sérstök skíthreinsun. Veit reyndar ekki alveg hvort hundaskítur er hæfur í safnhaug... held það reyndar samt en hef þó ekki áhuga á því. Hún nágrannakona mín á neðri hæðinni sem heldur hundinn ræður eiginlega ekki við að gera neitt annað en að hleypa hundinum út í garð... garðinn sinn verð ég eiginlega að segja og þá er ég sérlegur garðyrkjumaður hjá henni.

Það var einhver krakkafata (frekar lítil jú) sem mér tókst næstum að fylla með hundaskít. Náði samt alveg örugglega ekki öllu. Svo var slegið. Stóð alveg sæmilega held ég. Eithvað ójafnt slegið þannig að ég slí bara aftur þvert á og ætti þetta að vera orðið þokkalegt. Afraksturinn fór í safnkassann fína og þar fer vonandi að gerjast mold hvað úr hverju.

Það er annars algjörlega á stefnuskránni að skipta garðinum í tvennt. Þetta gengur eiginlega engan veginn. Ég þarf að passa upp á girðingar til að komast inn í garðinn því hundspottið má ekki sleppa út. Svo þarf ég að vaða hundaskít í hvert skipti sem ég far þarna um. Mér finnst síðan ekkert leiðinlegt að garðstússast en það er hálf súrt að vera bara að vinna í garði sem nágrannakonan á neðri hæðinni nýtir í raun ein... eða með hundinum sínum.

Komment á Flickr

Mér varð það á að kommenta á mynd á FLickr sem mér fannst alveg rosalega góð. Myndin sú er hér. Alver rosalega vel upp byggð mynd að mínu mati með góðan fókus í forgrunni og bakgrunni. Mér fannst því algjörlega tilhlýðilegt að hæla ljósmyndaranum örlítið. En eftir á að hyggja þá hefði ég látið það ógert.

Núna eru komin alls 137 komment á myndina og nokkuð góður hluti þeirra birtist mér í hvert skipti sem ég fer á upphafssíðu Flickr. Það væru svo sem alveg sök sér ef öll kommentin væru það sem ég get kallað "alvöru" komment en það er eiginlega alls ekki þannig. Stór hluti af kommentunum eru tilkomin af því að myndin hefur verið sett á síður sem eru þannig að ef maður setur inn eina mynd þá skal kommenta á 5 myndir í staðinn. Það er því stór hluti af kommentunum þarna tilkominn út af því að einhverjir úti í heimi hafa "neyðst" til að kommenta á einhverjar 5 myndir.

Svona frómt frá sagt þá finnst mér að sá sem geirr svona góða mynd eigi ekki að vera að dreifa myndinni sinni á einhverja svona síðu sem er búin til í þeim tilgangi að veiða komment. Myndin er allt of góð til þess.

En kannski ætti ég sjálfur að fara að gera svona til að markaðssetja sjálfan mig!


En af hjólreiðum....

Fór út um hádegisbil og kláraði rúma 35km. Markmiði dagsins hefur þar með verið náð en það var að fara 30km. Á morgun skal fara 50km og enga miskunn!

Fór loksins í gær út að hjóla með 50 kílóa gangstéttarhelluna í hægra eyranu

Og hafði held ég bara gott af því!


Antilópan komin heim aftur með knapann heilsutæpa. 12,44km að baki
Hvorki lengstur né mestur allra hjólatúra hjá mér en markar vonandi upphaf þess að ég sé ekki orðinn karlaægur aumingi. Hellan í eyranu svona til skiptist sótti í sig veðrið og virtist ætla að láta í minni pokann. En endaði líklega bara svipuð og þegar lagt var af stað. Hefði getað farið lengra en fannst þetta samt vera orðið bara ágætt svona til að byrja með.

Þetta var síðan í gær en í dag skal farið lengra. Verst að það er komin einhver rigningarúði. Veit ekki á hvaða hjólfák skal haldið af stað á. Í gær var það Antilópan gráa en í dag átti það að vera Eldingin rauða. Í rigningartíð og veikindafári er kannski betra að vera á farskjóta með eitthvert farangurspláss til að geta verið með auka húfu eða eitthvað slíkt. En Eldinguna langar hins vegar augljóslega til að bregða á leik.

Planið er að lágmarki:

  • Sunnudagur: 30km
  • Mánudagur: 50km
  • Þriðjudagur: 70km
  • Miðvikudagur: 90km
  • Fimmtudagur: 110km
  • Föstudagur: 130km
Dagana á eftir verður maður svo að hjóla sig aðeins niður og svo hvíla fyrir átökin í Motola.

Og ef ég get þetta allt án þess að gera alveg út af við mig, þá ætti ég að ráða við þessa 300km eftir tvær vikur í Motola!

Saturday, June 04, 2011

Að leggjast í lesindi

Hann heitir Hermann og var frískur eins og fiskur en er nú samt bara strákur í bók eftir Lars Saaby-Christensen

Þegar maður heldur áfram að vera aumur í eyra eða einhvers staðar þá er hægt að leggjast í bóklestur og það var gert núna.

Fann eina á bókasafninu í bleika herberginu. Var meira að segja í plastinu ennþá. Með merki Máls og Menningar og hvort hún var keypt til lestrar eða bara kom með öðrum kiljum Máls og Menningar á meðan ég var sérlegur styrktaraðili þess félags veit ég ekki en ákvað að lesa bókina.

Sá reyndar mér til gleði að Sigrún sem var þá í Gæðastjórnuanrfélaginu þýddi bókina. Kann svo sem ekkert að dæma þýðingar en það var þó eitt ranglega beygt orð og eitt rangt forkskeyti að mér fannst en það er svo sem ekkert að marka. Man að hún var hér í dentíð að dæsa yfir einhverju þýðíngarverkefni sem hún hafði tekið að sér og það var líklegast önnur skáldsaga eftir þennan sama höfund. Hún átti reyndar að vera frekar þykk en þessi var frekar þunn... í millimetrum talið sko.

Bókin var hins vegar ekkert þunnyldi þó ég hafi ekki verið neitt sérlega lengi að lesa hana. Var létt og skemmtileg og fyndin á köflum, stundum dálítið angurvær en líka með alvarlegan undirtón. Svona ákveðið sjónarhorn á lífið og tilveruna sem gat vakið mann til umhugsunar um allt mögulegt og ómögulegt.

En svona heilt út sagt, fín bók sem var fínt að lesa.



Nafnlausir vegir eftir Einar Má Guðmundsson


Og úr því maður er byrjaður að segja hvað hefur verið lesið þá þarf líklega að játa að það var lesin önnur bók í veikindunum. Byrjaði reyndar á henni eitthvert kvöldið í Suðurlandsferðinni um daginn en las hana í raun ekki fyrr en í fyrragær eða einhvern tíman þá.

Ágæt bók en svona dálítið rann út í eitt í lýsingum á fólki síðustu aldar sem átti allt á einhver hátt pínulítið bágt eða í öllu falli stundum dálítið erfiða daga. Svona mannlífs- og atburðalýsingar sem höfðu samt fansnt mér hvorki ákveðið upphaf né ákveðinn endi. Þó það sé óréttlátur samanburður þá var þetta örlítið eins og símaskráin. Fullt af góðum persónum og áhugaverðu fólki en söguþráðurinn dálítið óljós.

Friday, June 03, 2011

Finnst þetta vera orðið nokkuð gott

Að ganga í barndóm...beeing childish
Brautarteinarnir eftir að verkfræðingurinn í barndómnum komst í þá

Næstum viku á eftir áætlun kom Ragnhildur með sitt fríðasta föruneyti til heimsóknar, öskusýnasækingu, hraundeilna, Náttúrufræðingsendurheimtna, kaffi og Víkingasteplnubakkelsisheimsókn.

Svo eitthvað sé skýrt út af þessu þá tókst Ragnhildur alvöru jarðfræðingurinn sko alveg á loft þegar hún frétti að öskusýni og sögur af eldgosinu væru í boði í síðustu viku. Ætlaði að koma í heimsókn á föstudaginn var en kom loksins í gær eftir að ég er búinn að vera með (og er enn með) vesöld af verstu sort.

Öskusýnin voru frágengin og fín. Mín í rosalega pro túnfisks- og rækjusallatsboxum en fyrir Ragnhildina í plastpokum.

Svo þurftum við að þykjast verða eitthvað ósammála um hraunstorknun og bergmyndun. Líklega verður maður að láta eitthvað í minnipokann en held nú samt að við höfum bara alveg verið sammála án þess að hafa orðið sammála um hvernig við vorum sammála eða ósammála.

Svo var ég að skila henni Náttúrufræðingum sem ég notaði í próflestri í vor.

Víkingastelpnubakkelsið var síðan eitthvað kleinu og kanelsnúðadót sem ég keypti af held ég einhverjum handboltastelpum úr Víkingi auðvitað sem bönkuðu uppá og vantaði aur til að komast til útlanda. Ég verð að kaupa svoleis að minnsta kosti svona af og til. Ekki skemmtilegt að það verði álitið að óþarft sé að banka uppá hjá manni því manni sé annað hvort skítblankur eða þá sem væri enn verra, nísk nánös sem kaupir aldrei neitt. Ég heyrði nefnilega svoleis hjá einhverjum hér um daginn sem bönkuðu bara uppá hjá sumum.

Á meðan við ræddum landsins gagn og nauðsynjar var reynt að hafa ofan af fyrir systrunum tveimur, frænkum mínum með því að láta þær setja saman brautarteina á stofugólfinu. Það gekk svona upp og ofan. Helst höfðu þær auðvitað stundum meiri áhuga á einhverju sem þær áttu ekki að hafa áhuga á svona eins og glasadóti inn í skáp eða einhverju öðru stórhættulegu dóti. Kannskmi ætti maður að skipuleggja íbúiðína eitthvað öðruvísi þannig að ekki þurfi að koma til stórkostlegra breytinga á öllu innandyra ef einhver undir fermingu lætur sjá sig.

En eftir að þær voru farnar tók verkfræðingurinn við sem var genginn í barndóm og tók til við skipulagningu hinna ógnarlegustu brautarteina sem hafa sést norðan Alpafjalla. Já, þetta er ungt og leikur sér!

Að ganga í barndóm...beeing childish

Af mínum ekki svo skemmtilegu veikindum er hins vegar dálítið tíðindalaust. Það er þung hella yfir hægra eyranu núna. Var í vinstra eyranu í gær meira. Þetta lyfjadót virkar eitthvað hægar en ég hefði kosið. Er farinn að hafa verulega alverlegar áhyggjur af Vetternrúntinum þetta árið.



Smá viðbót: Svo eftir hádegið í dag fór ég með mína eyrnahellu út í Háskóla. Umsóknarfrestur er alltaf að renna út í einhverju sem maður veit ekki hvort maður ætlar sér að læra eða hvað. Núna var umsóknarfrestur um BS nám að renna út. Í stað þess að sækja um í einhverri vitleysu þá fór ég á skrifstofuna í Öskju. Er því ekki lengur skráður í dularfullt viðskiptafræðinám heldur jarðfræðinám en hún Ragnhildur Skjaldaar sem þarna ræður ríkjum ráðlagði mér að tala almennilega við þá Magnús Tuma og Hreggvið ef ég ætlaði að nýta þetta sem einhvern aukagrunn fyrir nám í jarðfræði eða jarðeðlisfræði á masterstigi. Hún talaði meira að segja þannig að það væri ekkert óhugsandi að ég gæti byrjað á þessu strax í haust... hvað er ég núna búinn að koma mér í ...

Thursday, June 02, 2011

Með hóstasaft í hjólabrúsanum

Ég veit ekki lengur hvernig þetta fer

Hér kemur minn barlómur:
Einhvern tíman í mars eða apríl var alltaf frekar risjótt tíð og ekki mikil tækifæri til hjólreiðaæfinga. Enda allt í góðu þar sem enn voru margir mánuðir til stefnu. Svo komu prófin og þá var ekki tími til neins og svo sem allt í lagi því enn var meira en einn mánuður til stefnu.

Svo voru prófin búin og þá skyldi nú heldur betur stigið á sveif. Eitthvað örlítið jú en það þurfti víst að fara bæði í Suðurlandsferð og svo Vatnajökulsferð og Vatnajökulsbíltúr til að skoða eldgos. Allt frábærar ferðir. Eftir þá fyrstu biðu mín helst til of mörg verkefni og einnig undirbúningur fyrir næstu ferð. Ekki varð mikið af hjólaafrekum þar.

Svo var komið úr Vatnajökulsferð HSSR með snúið hné og nei það var ekki farið út að hjóla þannig á sig kominn enda bara farið aftur á jökul. Svo tveir vinnudagar og þá eitthvað komið í hálsinn og núna herur maður verið að mestu innandyra í tæpa viku.

Ég veit ekki hvað barlómur er en mynd af slíku má sjá á bloggsíðu Kára Harðarsonar.



Síðustu vikuna hef ég innbirt ótæpilegt magn af náttúrlegri ólyfjan sem mín móðir hefur af góðum hug borið í mig. Kannski ekki ólfyjan en óbragðið af sumu því hefur verið all ógurlegt. Ekki hef ég heldur slegið slöku við í innbyrðslu galdraseyðanna enda hafa þau sum hver jafnt verið notuð innvortis sem útvortis. Anga ég líklega allur af hvítlauk og dularfullum olíum sem ég geri ráð fyrir að haldi öllu venjulegu fólki í góðri fjarlægð frá mér!

Í dag veit ég síðan ekki alveg hvort ég eigi frekar að skrönglast til læknis ellegar gefa frat í þessi veikindi og fara bara út að hjóla á racernum... með hóstasaftina líklegast í brúsanum!



Eftir að hafa kastað tíkalli uppá það hvað eftir annað var nokkuð ljóst að ég skyldi til læknis fara. Fór og fékk eitthvað pilludót. Vonum það besta um batann. Tel niður...