Saturday, March 28, 2015

Gangandi á fjórum jafnfljótum

Fjölskyldan færist dálítið saman - a.m.k. svona hluti af henni. Mamman manns búin að vera einkabílstjóri, matráður, hjúkrunarkona og alls herjar reddari. Í dag fór hún með báða hækjukallana sína út að labba. Eða reyndar þá kom hún með þann eldri með sér í Hæðargarðinn þegar ég fékk mér göngutúr og við fórum því báðir á labbið eftir að hafa fengið okkur kaffi og með því í eldhúsinu appelsínugula.

Á röltinu með pabba sínum, báðir hækjukallar!

Er búinn að vera dálítið duglegur held ég í gönguferðunum en þær eru ennþá algjörlega á tveimur hækjum. Finn leiðinlega mikið til í ristinni sem er eiginlega ekki virka í neina alvöru göngu. Næ svona 30kg álagi með henni en þarf í raun að ná 100kg ef ég á að geta gengið almennilega. Er hins vegar að ná að setja alveg 70kg á fótinn flatann án þess að finna svo mikið til í honum. Hef ekki fundið til í sköflungnum sjálfum en fæ verk í ökklann eftir smá göngu. Hef verið að fara yfir 1km á dag undanfarna daga sem ég er bara nokkuð stoltur af.


Gamla settið sitjandi á einum ágætum Hæðargarðsbekk

Sunday, March 22, 2015

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Solar eclipse, 20-03-2015
Sæmilega útbúinn á Stórabílastæðinu í Heiðmörk

Man ekki hvenær ég frétti af því en það var fyrir margtlöngu. Árið 2015 er myrkvaár á Íslandi. Almyrkvinn reyndar fór rétt fyrir austan land en í Reykjavík var samt vel yfir 90% myrkvi. Eitthvað hafði mig langað til að vera meira undirbúinn, með stjörnukíkinn klárann en það fórst eitthvað fyrir að vera búinn að útvega sér sólarfilter á hann. Tókst reyndar að fá mér áætan filter á myndavélalinsur daginn áður. Í Fotoval af öllum búðum og sótti D200 hlunkinn hálfónýta í leiðinni.

Úr almanaki Þjóðvinafélagsins.

Ég var nú ekki búinn að gera ráð fyrir að mikið myndi sjást til myrkvans þar sem veðrið er búið að vera samsett úr endalausum umhleypingum svo lengi sem elstu menn muna. En eitthvað rofaði til og sólin bara skein þennan morgun, aldrei neinu vant. Reyndar undarlegt að fyrr í vikunn var eitthvað mesta norðurljósadrama sem um getur og þá var merkilegt nokk líka bjartviðri. Mér tókst samt ekki að nýta mér það á nokkurn hátt.

Gunninn aumkaði sig yfir fatlafólið og fórum við upp í hana Heiðmörk. Parkeruðum á Stórabílastæðinu. Smá snjór á víð og dreif enn þarna ofarlega í Heiðmörkinni og eiginlega dálítil upplifun fyrir mann að komast svona aðeins út í náttúruna. Vorum komnir rétt eftir að myrkvinn byrjaði. Það var myndað í gríð og erg - það kólnaði aðens - það dimmdi töluvert - meira var myndað og svo var haldið heim á leið.

The eclipse - Sólmyrkvinn

Í hámarki þá var sólin má segja greinilega í mikilli fýlu og setti upp þessa líka rosalegu skeifu. Enda vart við öðru að búast að loksins þegar henni tókst að skína eitthvað þá fór tunglið að þvælast fyrir!

The solar eclipse seen Close to Reykjavik, 20-03-2015

Ég setti svo saman eina mynd úr mörgum sem sýnir sólmyrkvann líklega ágætlega.  Bara sæmilega sáttur við niðurstöðuna. Hef samt séð annars staðar dálítið frumlegri mydnatökur af myrkvanum sem sýna eitthvað aðeins annað en bara þessa hálfétnu pizzu. Ætla annars næst (2026 sko) að taka líka mynd af umhverfinu á meðan það er að dökkna.

Það sem annars helst var að sjá í sólmykrvanum var sólblettur, líklega 2023 sem var einhvers staðar í Bandaríkjunum á sólinni séð - og er að fara að nálgast að hverfa á þessari mynd hér að neðan.


The eclipse and the sunspot

Saturday, March 21, 2015

Stífur ökkli og hálfgróið bein

Fór á fimmtudag í fyrsta tímann í sjúkraþjálfun hjá Árna sem ætlar að kenna mér að ganga upp á nýtt og komast á fjöll einhvern tímann... kannski samt ekki fyrr en í haust. Hann er vonandi bara að passa sig á að lofa mér ekki of miklu!

Það gekk samt ekkert svo illa hjá honum. Að minnsta kosti lét hann eins og þetta væri ekkert svo óeðlilegt hjá mér að beinið væri ekki alveg gróið og að það væir bara hið eðlilegasta mál að það liti út á röntgenmyndinni eins og það væri allt mölbrotið ennþá. Sprungur myndu sjást á röntgen mynd jafnvel í tvö ár eftir að beinið brotnaði.

En hann sendi mig í öllu falli bara heim með fjórar beisik æfingar sem ég er svona eitthvað að reyna að gera. Get nú annars ekki mikið. Held að hann hafi mælt hreyfigetu ökklans upp í 15° til 45°. Þ.e. bara 30° alls sem ég get þá hreyft hann.

Fóturinn síðan er mér að finnast vera alveg hroðalega bólginn allur og útþaninn af bjúg. Veit ekki af hverju hann þurfti að verða þannig. Hélt ég hefði passað vel upp á að hafa hann alltaf einhvers staðar í góðri hæð.


Wednesday, March 18, 2015

Og ekki var það nógu gott

Hafði ekki þorað að vera mjög bjartsýnn og það er kannski bara eins gott. Röntgenmyndataka sýndi ógróin bein. Þetta er því alls ekki komið hjá mér þrátt fyrir allar þessar vikur. Mölbrotið var annars þannig að það þurfti margar röntgenmyndir til að ná öllum skrúfunum með á mynd - þær náðust ekki allar saman á eina mynd. Hef ekki hugmynd um hvað þær eru margar.

En skrúfufjöldinn er víst ekki aðal málið heldur frekar hvernig þetta er að gróa og það var alveg ljóst að þetta er alls ekki almennilega gróið ennþá hjá mér. Fór samt ekki aftur í gifs og á að fara að reyna að stíga eitthvað örlíið í fótinn en ég er ekkert á leiðinni að fara að sleppa hækjunum alveg strax. Það verða einhverjar vikur hjá mér ennþá þannig. Á tíma í röntgen aftur í lok apríl og þá ætti ég að vera farinn að ganga án þess að vera á hækjum.

Fóturinn leit annars vel út að sögn fólks á spítalanum sem sá fótinn en innaníið var sem sagt ekki alveg að gera sig. Ökklinn er síðan stokkbólginn og það sem mér fannst vera skrúfa að þrýsta á gifsið var líklega bara bólgan. Fóturinn síðan samsvarar sér eiginlega alveg hroðalega þar sem í kringum ökklann er hann í sverara lagi vegna bólgunnar en ofar þar sem ég átti einu sinni kálfavöðva er núna bara spóaleggur. Frá hné og fram á táberg er sem sagt svipað ummál á fætinum!

En ég má fara að byrja sjúkraþjálfun og er með pantaðan tíma þar á morgun. Það fer vonandi samt eitthvað að gerast þó hægt og rólega verði.

Tuesday, March 17, 2015

Á morgun gerist það!

Það er komin 7 1/2 vika síðan, ég tók eitt skref í snjó, rann fram af skaflinum, fótur einhvern veginn skrúfaðist til og ég fann það gerast. Bein voru brotin. Fluttur með þyrlu í bæinn og búinn að vera ógöngufær síðan. Á morgun fer ég í það sem er kallað "endurmat" hjá Ríkharði skurðlækni. Ég ber þá von í mínu brjósti að niðurstaða endurmatsins verði að beinin hafi gróið þokkalega saman, sem réttast og að ég megi fara að nota fótinn - og að það takist að nota fótinn.

Sunday, March 15, 2015

Þrír dagar eftir

Af fótbrotinu



Í dag er sunnudagur og eftir þrjá daga verður kominn miðvikudagur. Þá á ég heimsókn til læknis. Endurmat á endurkomudeild. Veit ekki hvað verður en það sem ég innilega vona er að það komi í ljós góður gróandi í beininu og ég fari út umbúðalaus eða þarumbil. Geri auðvitað ekki ráð fyrir að fara út skokkandi heldur að ég verði enn á hækjunum en geti farið að stinga í með fætinum og svo farinn að geta gengið eftir einhverja daga með tveumur hækjum fyrst, einni hækju svo og fljótlega engri hækju. Veit að sá sem heitir Barði var utskrifaði sjálfan sig frá sinu broti fimm mánuðum seinna í krefjandi fjallgöngu á Skarðsheiðinni. Mig langar svona til tæmis að geta t.d. farið út að hjóla.

Af trjabroti eða bara af veðrinu frá í gær...


Með veðrið síðan sem var í gær þá verð ég að játa að víst var þetta dálítið hvasst og ekki hvað síst hér rétt hjá mér. Líklega í þarnæsta húsi hinum meginn við Hólmhæðargarðinn brotnaði niður stærðarinnar Reynitré. En Það var allt með kyrrari kjörum hér heima hjá sjálfum mér. Sýnist ekki neitt alvarlega hafa fokið.

Saturday, March 14, 2015

Veturinn ætlar ekki að gera það endasleppt

Ég verð víst að játa að það er rok!

Mér fannst hvasst í morgun en ekki svo rosalega samkvæmt honum Belgingi. Veðurstofunni tókst nú samt að mæla 30m/s hér rétt hjá mér. Ragnhildurinn í sjokki yfir að hafa ekki upplifað annað eins rok síðan í rokinu ógurlega 1991 þegar trén í Urðarstekknum fuku hvert um annað þvert. Hún víst að horfa á trén sín fjúka.

 

En þó það hafi verið hvasst við Bústaðaveginn þá er það ekki neitt miðað við það sem er á flugvellinum sem telst vera í miðbæ höfuðborgarinnar.  


Og ef einhver hélt að þetta hefði verið hvasst þá ætti sá hinn sami að fara upp á Skarðsheiði þar sem næst mesta vindhviða íslenskra veðurmælinga mældist í morgun!



En veðurvitinn á Skálafelli er fjarri góði gamni. Annað hvort er hann fokinn veg allrar veraldar eða kannski frekar bara sambandslaus. Útvarpssendirinn þar ku vera dottinn út líka. Verður spennandi að sjá hvort eða hvað hann sýnir ef hann nær að senda einhver gögn!



En þetta með að gera það ekki endasleppt er að ég vil meina að þetta sé upphafið að endinum á vetrinum. Með þessum lægðum núna helst hitinn yfir frostmarki og öflug rigning herjar á snjóinn líka. Það verður snjólaust í henni Reykjavík sýnist mér sem gætu komið sér vel eftir miðvikudaginn þegar ég vonast til að losna við gifsið. Það væri jafnvel hægt að komast út að hjóla einhvern tímann. Það yrði hreinn og beinn unaður!

Sunday, March 01, 2015

Bók um galdur eða ekki

Það var lesin bókin "Galdur" eftir Vilborgu Davíðsdóttur

Líklega skrifar Vilborg Davíðsdóttir "kvennabókmenntir" og reyndar nokkuð klassískar kvennabókmenntir þar sem aðalsögupersónan er kona með ákveðnar skoðanir sem er að berjast við karlaveldið sem hún býr í. Samkvæmt kyngreiningu minni ætti mér lítið til slíkra bókmennta koma og helst forðast að lesa þær. Það hef ég a.m.k. lesið á knús vef eða einhvers staðar annars staðar sem ég nenni ekki að muna. Bækur Vilborgar eru fínar en eftir að hafa lesið nokkrar þá verð ég dálíið þreyttur samt á því að aðalpersónan í hverri bók er dálítið eins og endurtekning á sjálfri sér. En þetta eru kannski bara höfundareinkenni.

Ef ég væri bókmenntafræðingur gæti ég eflaust útskýrt hvernig þessi bók beri þess merki að vera eitt af fyrri verkum Vilborgar. Mér fannt það a.m.k. dálítið skína í gegnum bókina en get svo sem ekkert alveg sagt af hverju. Það hins vegar skemmdi ekkert bókina sem var skemmtileg og þægileg aflestrar.

Dálítið gaman að lesa þessar sögutengdu skáldsögur Vilborgar með hliðsjón af t.d. Íslendingabókinni á vefnum. Hægt er að skoða þar hvenær hver persóna var til og þá kemur í ljós að sumar þeirra virðast bara alls ekkert hafa verið til. Það eru þá persónurnar sem Vilborg hefur fullt skáldaleyfi fyrir. Persónurnar sem eru þannig eru oftar en ekki óskilgetin ambáttar eða frillubörn og eru þess vegna ekki með i Íslendingabókinni. Eins börn sem dóu mjög ung og náðu ekki að skapa sér neina sögu. Persónur sem eru þekktar úr sögunni fá hins vegar að halda sínu æfiskeiði í stærstu dráttum eins og það á að hafa verið.

Kannski það sem mér fannst einkennilegt var nafnið á bókinni. Ég veit ekki hvað hún hefði átt að heita en mér fannst hún ekki vera um galdra nema afar takmörkuðu leyti og galdrar voru ekki að mínu mati nein þungamiðja eða driffjöður í framvindu bókarinnar.