Þetta var algjört dúndur.
Þeir sem arka Fimmvörðuháls í desmber af öllum mánuðum geta ekki verið normal. Það sagði að minnst kosti einhver við Árna þegar hann var eitthvað að hringja þegar við vorum að næra okkur við Fúkka.
Þurfti að drattast á lappir klukkan fimm um miðja nótt. Rétt eins og maður væri á leið til útlanda og þyrfti að komast í flug. En nei það var ekki. Nú skyldi bara stormað á Fimmvörðuháls. Brottför frá Rauðavatni var klukkan 6. Bara nokkuð stundvíslega.
Við Skóga öxluðu dvergarnir sjö bakpoka sína og örkuðu af stað í niðamyrkri en undir stjörnubjörtum himni. Staðstirnið út við sjóndeildarhring reyndist hvorki vera ljós á jörðu niðri, þyrla, tungl eða fljúgandi furðuhlutur heldur saklaus dagróðabátur.
Fljótlega vorum við komnir í snjó og byrjuðum að sjá eftir að vera ekki á skíðum. Færið þyngdist eftir því sem á leið og frostið herti. Mínum var orðið skítkalt á tánum og næstum hættur að geta talað fyrir frosnum talfærum.
En útsýnið og veðrið maður! Það var algjörlega magnað. Að sjá sólina koma upp hægt og rólega og hvernig birtan kom fyrst blá síðan rauð og gul og allt í einu var kominn dagur sem stóð ekki yfir nema í augnablik því það fór að dimma jafn skjótt og það hætti að birta. Ég var bara með gamla filmumyndavél þannig að ég veit ekki hvað eða hvenær eitthvað af því kemur á netið en aðrir voru með digital dót sumir hverjir. Ég dauðsá auðvitað eftir að hafa ekki tekið stóru digitalvélina með en var í aðra röndina feginn.
Færið varð fljótlega þungt og þetta varð erfiðara. Það varð nokkuð ljóst að við myndum varla ná allir niður í Bása milli fjögur og fimm eins og gert hafði verið ráð fyrir en þangað ætlaði Óli nokkur Halldórs að sækja hópinn á nýja fína Krúsernum sínum. En hann ætlaði síðan að vera mættur uppstrílaður í jólahlaðborð klukkan átta og því nokkuð tímabundinn.
Fúkki var harðfrosinn og þrátt fyrir nokkrar tilraunir með ísaxir var ekki nokkur leið að komast inn í fúkkafýluna þar. Það var ágætt en reyndar fannst tánum á mér það skítt.
Við ákváðum að skipta liði þannig að einhverjir myndu ná niður í Bása í tíma og fór ég í undanfaraflokknum. Þeir sem voru orðnir haltir og skakkir áttu þá að geta komið í humátt á eftir okkur.
Nú. Okkur hraðferðalöngum gekk aðeins að komast áfram en ekki betur en svo að seinagengið náði okkur við Bröttufönn. Komum því saman í einum hóp niður í Bása eftir að hafa fundið færar leiðir um Kattarhryggi og annað brattlendi.
En mikið skelfing varð maður þreyttur og slæptur eftir þetta. Annað hvort er allt form manns endanlega farið út í buskann eða þá að Fimmvörðuháls í desember í snjó sem nær manni í hné er ekki það sama og Fimmvörðuháls um mitt sumar jafnvel þó það geti rignt og blásið þá allhressilega.
Reyndar hallast ég frekar að því að þetta hafi verið aðstæðurnar sem gerðu þetta erfiðara. En í öllu falli. Algjörlega frábær túr og góð æfing fyrir Kilimanjaró!
No comments:
Post a Comment