Sunday, October 14, 2018

Sporðamælingar

Í gær var farinn árlegur könnunarleiðangur að Hagafellsjökli eystri, núna með Haraldi Gunnarssyni. Breytingar á jöklinum eru gríðarlegar síðasta áratuginn. Þar sem jökulsporðurinn er slitróttur er erfitt að gefa eina tölu um hop en er líklega á bilinu 55m til 706m eftir því hvaða jaðar á að miða við. Breytingar síðustu 11 árin á meðfylgjandi mynd tala sínu máli! Heildar hop jökulsins á þessum tíma er mælt 1834 metrar. Hafa þarf hér í huga að Hagafellsjöklar eru í eðli sínu framskriðsjöklar sem eiga ekkert ósennilega eftir að fara í tímabundið framskrið aftur. Núverandi staða er að nálgast það sem hann er þekktur með sína hæstu stöðu frá 1972 áður en hann hljóp fram þá.
Fleiri myndir hér.

Og úr ferðinni til að mæla vestari jökulinn, sem var í september.

Wednesday, June 06, 2018

Í sjöunda himni á Hvannadalshnúki


Ég hafði eiginlega ætlað að gera þetta fyrir einhverjum árum að fara með þá Stakavinnufélögum á Hvannadalshnúkinn. En það var ekki farið fyrr en núna og þá Stakafélagarnir orðnir að Deloitte vinnnufélögum. Að auki bættust við nokkrir meira orginal Deloittar.
Þetta varð eiginlega fyrsta ferðin á þennan mesta jökul landsins þar sem ég sá um allt skipulag og bar ábyrgð á ferðinni - þó ég hafi ekki verið launaður gæd þá virkaði þetta nákvæmlega þannig. Ferðin gekk í alla staði ljómandi vel og ekki reyndi sérstaklega á æfingar í júmmi og spekúlasjónir með sprungubjörgun. Eina sem reyndi á var að fylgja þeim seinustu niður. Bakpokinn minn hræðilega þungur og alveg að gara út af við mig hvernig hann lá á öxlunum á mér. En ég annars ágætur í fótunum. Enda ég a.m.k. rúmum 5kg léttari sjálfur en ég var fyrir t.d. ári síðan.

Eins og ég setti þetta upp þá voru markmiðin þrjú og þau náðust öll!
  1. Komast upp
  2. Hafa gaman í ferðinni
  3. Komast niður
Mikilvægi markmiðanna var algjörlega í öfugri röð við upptalninguna. Þ.e. mestu skipti að komast niður en minnstu máli að komast upp. En það tókst auðvitað líka!

Fallegt útsýni þegar við komum uppúr láglendisþokunni

það var lagt af stað í svarta þoku og gott að vera með GPS tækið uppi við þar sem stígurinn er ekki alls staðar mjög greinilegur. Hefði verið klúður að villast með hópinn þarna á fyrstu metrunum. Lögðum af stað rétt upp úr kl. 1 eftir miðnætti aðfararnótt laugardags 2. júní. Hálftíma fyrr hafði Alla leið hópur FÍ farið af stað með Hjalta Björnsson í broddi fylkingar og öðrum hálftíma fyrr eða svo hafði stór hópur Vilborgar Örnu lagt af stað. Alls voru þetta um 100 manns að ganga á fjallið. Eitthvað uppsöfnuð þörf því ekki hafði verið almennilegt veður neinn einasta frídag í maí þetta vorið.

Séð til efri hluta Virkisjökulsleiðarinnar. Sprungur greinilega gera leiðina illfæra.

Hnúkurinn sjálfur fannst mér vera frekar sprunginn en samt gekk þetta stóráfallalaust að klöngrast yfir þær á snjóbrúm sem voru hér og hvar. Línan var höfð þokkalega strekkt!

Hnúkurinn sjálfur frekar sprunginn. Hópur frá Tindar-Travel efst og svo Ferðafélag Íslands, Alla leið hópur undir stjórn Hjalta Björnssonar


Niðurleiðin gekk í sjálfu sér ágætlega en það var frekar lítil fjallgöngureynsla í minni línu og einvherjir urðu rosalega þreyttir á leiðinni niður. Kannski átti ég einhverja sök á því þar sem mjög hratt var farið í línunni neðarlega í löngu snjóbrekkunni. Gerði kannski hálfpartinn út af við þá sem varð þreyttust. En niður komumst við skref fyrir skref í lokin sem sum hver voru mjög stutt. Heildartími varð um 15.5 klst. hjá mér.

Mér telst annars til að þetta hafi verið ferð nr. 7 þarna upp.
  • Með Fí 1985 um 17 júní, Virkisjökulsleið.
  • Með vinnufélögum frá Ráðgarði þegar Einar Rúnar var okkar leiðsögumaður og við fórum Hnappaleiðina.
  • Með vinnufélögum frá Skýrr og Íslenskir Fjallaleiðsögumenn að leiðsegja. Eina ferðin sem ég hef farið með því kompaníi og hef aldrei farið með jafn ófaglegum leiðsögumönnum sem t.d. skildu einn farþegan eftir sem gafst upp undir Dyrhamrinum á meðan aðrir kláruðu. Sá sem beið þurfti að dúsa þar í svona 6 klst!
  • Aftur með Skýrr og núna undir leiðsögn Árna Þórs úr HSSR. Fyrsta skiptið sem ég fór Sandfellsleiðina.
  • Enn aftur með Skýrr. Sandfellsleið og ég gekk upp á fjallaskíðum. Það var erfitt en ljúft að renna sér niður. Aðalleiðsögumaður var Raggi Ant frá Skýrr.
  • Sem gæd með FÍ vorið 2017. Fyrsta skipti sem ég var að gæda þannig ferð á launum.
  • Núna vorið 2018 og ég sem aðalleiðsögumaður fyrir starfsmenn Deloitte.

Sunday, April 29, 2018

Mússikk dót keypt þegar ég átti eiginlega að vera að skurka áfram verkefnum í vinnunni!


Var búinn að hugsa þetta frekar lengi. Eiginlega frá því fyrir einhverjum árum þegar ég átti engan aur til að kaupa eitt né neitt. Verslaði mér mússikkhljómborð, rafmagnspjanó eða hvað fólk vill kalla það. Stærstur hluti gærdagsins seinnipartinn fór víst í þetta, fyrir utan hraðgöngutúr á Esjuna. Það er síðan kannski ljóst að ef ég ætla að nota þetta eitthvað þá verður maður að æfa sig eitthvað. Spurning hvort það þurfi að finna sér píanótíma? !

Af megrunarléttingarheilsuátakinu má það annars færast til bókar að skv. hefðbundnum BMI skala náði ég því á vigtinni eftir Esjugöngutúrinn í gær að verða normal og vigtin sýndi eitthvað um 10 kg minna en þegar hún taldi mig vera þyngstan. Það kannski skondnasta við þetta er að það hefur enginn minnst á það við mig að ég hafi hugsanlega mjókkað eitthvað!

Tuesday, April 24, 2018

Eyjafjallajökull þveraður öðru sinni


Sem gæd hjá Ferðafélagi Íslands að fara yfir Eyjafjallajökul öðru sinni. Fór aðra sambærilega fína ferð fyrir tæpu ári. Þessi gekk líka mestan part ágætlega.

Setti samt líklega persónulegt met í ómanngleggni þegar ég þekkti ekki fólk sem ég átti að þekkja og var í línunni hjá mér. Kenni kannski fésbók og öðrum slíkum um. Þegar maður sér bara myndir af fólki en hittir það ekki í raunheimum þá gleymir maður kannski bara hvernig fólkið lítur út svona augliti til auglitis.

Gædamennskan gekk annars bara vel. Var reyndar eitthvað rosalega mikið eins og ég vissi ekki hvað ég væri að gera þegar ég var að koma mér sjálfur í klifurbeltið og fólkið í línuna. Hefði kannski bara átt að fatta hver var með mér í línunni og láta hana sjá um þetta - það hefði alveg gengið fínt.
Dálítið af sprungum á leiðinni niður, líklega í svona 1200 metra hæð. Uppi á jöklinum við Goðastein og Ónefndan sérstaklega var meiri snjór en fyrir ári.

Ágætt veður þannig séð en ekki mikið skyggni þegar við vorum á efstu tindum. Fórum bara á Ónefndan (Gígtind) og Hámund. Slepttum bæði Goða- og Guðnasteini. Goðasteinn sást varla og Guðnasteinn hefði ekki bætt miklu við þannig séð.

Var að prufukeyra eitthvað af nýju dóti. Nýir BD mannbroddar og var ekki alveg sáttur við hvernig þeir voru að passa undir skóna. Svo var það dálítið turn off að ég rann einhverja cm á þeim nokkrum sinnum. Veit ekki hvort það var út af því að það var í sjálfu sér ekki broddafæri alls staðar sem við vorum í þeim eða hvort þeir séu ekki nógu beittir. En ljóst að ég þarf að skoða þá eitthvað betur.
Var svo að trakka í fyrsta skipti langa gönguleið á nýja Garmin Fenix 5 úrinu. Það var dálítið leiðinlega mikið í rugli með hæðina. Var að gefa of háar tölur miðað við GPS hand-tækin til viðmiðunar sem virtust vera að gefa mjög rétta niðurstöður. Svo sýnist mér að úrið sé að ýkja gengna vegalengd um eitthvað 5-10%. Fannst það seinna varla vera ásættanleg frammistaða fyrir GPS úr af dýrustu gerð - kostar eins og tvö þokkaleg GPS tæki!

Svo að lokum, þá var það skemmtilegt að ég tók líklega eina þokkalaega góða mynd af því grjóti sem ég kalla Guðnastein:




Svo má færa til bókar það sem leit út fyrir að vera skelfilegt en varð ekki svo slæmt þegar upp var staðið. Það brotnaði tönn síðasta vetrardag með morgunskorpubrauðsneið og ég óttaðist að það væri eitthvað lítið eftir af tönninni. Þetta var þó ekki jafn alvarlegt og leit út. Í raun bara fyllingin sem hafði brotnað af en var sem sagt stór hluti af tönninni. það var sem sagt farið til tannlæknis í gær og svo hálfpartinn skrópað í vinnunni eftir hádegið - enda ég dálítið búinn á því eftir fjallgönguna og tannlæknisheimsóknina.

Friday, April 13, 2018


Nýtt dót prufukeyrt. Garmin eitthvað Fenix 5. Rosaleg græja geri ég ráð fyrir en samt ekki alveg að fatta mig. Ef ég skildi apparatið rétt þá segir það að ég eigi að hvíla mig í 29 klst eftir klukkutíma langa hjólatúr... og með þessum eina hjólatúr vantar mig bara einhverjar 5-10 mínútur að ná hreyfimarkmiðum vikunnar. Það er greinilega gert ráð fyrir að ég sé kominn frekar nálægt grafarbakkanum. Svo sýnist mér að ég sakni ennþá einhverra fítusa sem voru í gamla Garmin forerunner 305 sem ég átti. En þetta er nú samt voðalega fínt held ég.

Gamli Bell hjálmurinn minn var orðinn eitthvað lúinn um daginn þannig að það var pantaður nýr Bellhjálmur af vörulista Chainreaction án þess að máta að sjálfsögðu. Síðast þegar ég keypti Bell hjálm þá virtust þeir vera betri og passa betur eftir því sem þeir voru dýrari. Það var því pantaður einn rúmlega miðlungi dýr! Og hann mátast þvílíkt vel á hausinn á mér og er svo þægilegur að ég er að hugsa um að sofa með hann í nótt... og kannski líka úrið til að fá að vita hvort það séu einhver svefngæði hjá mér. Já, þessi tækniöld lætur ekki að sér hæða!

Hjólatúrinn á Strava... og hann fór þangað bara sjálfkrafa!!!

Saturday, March 17, 2018


Í dag var skilst mér sóparadagur í Hæðargarðinum og víðar í hverfinu. Ég náttúrlega á fjöllum en sópaði a.m.k. fyrir framan hjá mér áður en arkað var á eitt Búrfellið!

En svo sýnist mér að það þurfi að verða málaradagur einhvern tímann þegar líður á vorið eða sumarið!

Saturday, March 10, 2018

Framhaldssagan um vigtun fitabollunnar

Bara nokkuð sáttur með sig að þykjast í skóginum við Rauðavatn

Það fór þá aldrei þannig að maður væri ekki kominn í eitthvað átak til að verða léttari og það jafnvel bara að svínvirka. Er stundum aðeins farinn að óttast að ég sé að verða of heltekinn af því hvort ég er 100 grömmunum þyngri eða léttari. Er búinn að vera alveg þokkalega duglegur í hreyfingu og líklega éta eitthvað aðeins minna en áður. En samt... er næstum því ennþá alltaf síétandi. Ávaxtasafar í massavís og kaup á sætakexi almennt séð samt bönnuð en er þó alveg að laumast t.d. í afganga af rjómaís sem voru frá afmælinu mínu í febrúar.

Er að ná að hreyfa mig eitthvað sæmilega flesta daga en samt ekkert endilega alla daga. Suma daga er ég hálfpartinn að gera út af við mig eins og laugardag fyrir viku þar sem eftir fjallgöngu með FÍ var farið út að racerhjóla einhverja 20km. Eða á fimmtudaginn þegar ég fór heim úr vinnunni frekar snemma til að racerhjóla einhverja 20km en fór svo aftur hjólandi lengri leiðina í vinnuna til að vinna meira. Fór þá lengri leiðina í báðar áttir og það í þessum fjandans skítakulda sem er er búinn að vera hér á ísalandinu síðustu vikurnar.

Endomondo fyrir undanfarna daga... oftast nær fitabollan að gera eitthvað!

Þetta byrjaði raunar hjá mér bara með því að ég vigtaði mig endalaust eða kannski bara annan hvern dag og ætlaði að léttast með því! Veit það svo sem ekki en áttaði mig á því einhvern tímann þegar leið á janúar að maður léttist ekkert sjálfkrafa þó maður vigti sig ótt og títt. Það þarf víst eitthvað meira til! Einhverju var þá bætt í hreyfingu og meira spáð í hvað væri verið að éta!

Og þá fór vigtin að færast aðeins niður. Vonandi mátulega hratt þar sem ei er flas til fagnaðar í þessum efnum. Hef annars hálfpartinn óttast á stundum að ég sé að léttast of hratt þar sem ég varla flokkast sem offitusjúklingur.

Markmiðið var upphaflega bara 1 kg á mánuði sem er ein lárétt lína á grafinu hér til hliðar á milli kúlnanna sem sýnir núverandi markmiðslínu. Er núna eiginlega 2.5 kg fyrir neðan það markmið. Heildarmarkmiðið er 12 kg fyrir árið... eða ef hraðar gengur þá 12 kg hvenær sem það næst. Held ég hafi ekki gott af meiri léttingu... væri þá í BMI = 24.2 en byrjaði í rúmlega 27. Já það er líklega af einhverju að taka! Er núna svona að losa mig við upp undir 2kg á mánuði sýnist mér.

Núna í dag er ég búinn að racer hjóla eitthvað um 20km í helvítis skítakulda að eigin mati. Á engar nógu hlýjar hjólabuxur en það er andstyggilega kalt að racerhjóla í hita undir frostmarki. Þurfti aukinheldur að snúa við á einum stað þar sem klakabunkar voru þykkir á stíg við Elliðaárnar. Svo er ég að velta fyrir mér eigin dugnaði að fara aftur út en núna á fjallahjól í skóginn við Rauðavatn. Þar er ekki klaki að ráði, þar er sæmilegt skjól í skógi og þar sem hægar er farið í þannig hjólatúr þá verður manni ekki jafn rosalega kalt!

Baðandi út öllum öngum á Rauðu eldingunni í Fossvogsdal fyrir einhverjum dögum síðan.

Saturday, February 24, 2018

Þjóðbrautir Heiðmerkurinnar skíðandi



Eitthvað hefur greinilega verið gert í gegnum tíðina :-)
Það hefur í einhver ár verið sérstakt áhugamál að finna nýjar mér áður óþekktar leiðir um Heiðmörkina. Sumt af því sem er fjölfarið á þessari mynd eru ekki alveg hefðbundnir stígar.

Fann annars einn ágætan tengistubb í fyrragær sem verður líklegast eitthvað notaður í góðum snjó í framtíðinni!

Þá hafði verið rigning einhverja daga á undan og ég óttaðist að snjóleysi væri farið að há skíðastubbi. En það var ekki raunin og hægt að fara meira og minna út um allt.
Hafði samt þær eftirstöðvar 10km labb á um 2 klst um ótroðnar slóðir að ökklinn var eitthvað í klessu á eftir og er fyrst núna tveimur dögum seinna að verða sæmilegur.

Svo má upplýsast að létting fitabollunnar er að ganga þolanlega.

Sunday, February 11, 2018

Afmælisbarnið Ásta

Hrefna Vala spilar á flautuna sína í afmælisveislunni


Föðursystirin hún Ásta náði þeim áfanga að verða níræð föstudaginn var og í gær á laugardegi var haldin afmælisveisla. Það hefur gengið á ýmsu í ellinni hjá henni Ástu en núna er hún komin á Grund og í ágætum málum þar. Við ættingjarnir héldum sem sagt litla afmælisveislu í risherbergissal sem þar er.

Ásta komin inn í herbergið sitt eftir afmælisveisluna

Vigtun fitabollunnar

Fitabollan að taka á því í henni Heiðmörk - hvar æfintýralandið er!

Einhvern veginn hafði mig grunað þetta... að ég væri að þyngjast. Fannst ég stundum vera eitthvað uppþembdur... sýndist að ég væri að verða einhver skrambans spikvömb á einherjum ljósmyndum og var farinn að forðast að fara í ákveðnar skyrtur. Það var því ákveðið að gera eitthvað í málinu strax eftir áramótin.

það var byrjað með krafti snemma í janúar og farið í Elkó og keypt þessi líka eðalfína digitalvog... og grunurinn var á rökum reistur. Vogarfjandinn sýndi þriggja stafa tölu! Hef reyndar einhvern tímann séð þannig tölu á kílógrammavog en það var tilfallandi og bjargaðist strax aftur. En núna virtist þetta vera komið til að vera en markmiðið var einfalt... eitt kíló á mánuði af að meðaltali fyrir þetta ár og þá væri ég kominn í þá þyngd sem ég vildi svona helst kannski vera í. Þetta gæti því ekki orðið mjög flókið.

Strategían var einföld. Ég myndi vigta mig á morgnanna og skrá niðurstöðuna samviskusamlega niður og fylgjast með hvernig þyngdin myndi færast niður. Og jú þetta gekk ljómandi vel þar sem ég léttist um alveg hálft kíló eða eitthvað fyrsta daginn og svo einhver parhundruð grömm kannski daginn eftir en svo hætti þessi vigtun að virka því ég þyngdist aftur og varð einhvern tímann orðinn enn þyngri en ég hafði verið í fyrstu vigtuninni. Þetta plan var því ekki alveg að gera sig.

Til að gera árangursleysið enn vandræðalegra var t.d. að ég hafði keypt mér ný og alveg sérdeilisflott ný gönguskíði sem virtust ekkert létta mig - jafnvel þó ég hefði þau úti í bíl tilbúin að fara í fjöllin einhverja dagana. Þetta var sem sagt ekki að ganga.

Kannski gæti þetta tengst því eitthvað að ég væri að éta helst til of mikið. Eitthvað aðeins meira fór ég þá að spekúlera í því hvað ég væri að láta ofan í mig - og kannski eitthvað sem ég mátti alveg fatta að þegar þyngdin fór upp í hæstu hæðirnar þarna um daginn þá var það eftir að ég hafði étið eiginlega stanslaust heilt kvöld.

Það fór því af stað einhver smá spekúlasjón um hvað ég væri að éta og að það væri bannað að:
  • Ekki éta stjórnlaust
  • Ekki vera að éta eitthvað drasl endalaust heilu kvöldin
  • Borða svona almennt bara temmilega í hádeginu
  • Fá sér bara svona eitthvað smávegis í morgunmat - nema það eigi að fara að hreyfa sig strax
Svo þegar það kom þessi rosalega flotti snjór þá var stutt á skíði í hana Heiðmörk. Reyndar helsta vandamálið að það var yfirleiutt alltaf lokað út úr bænum og ég fyrir náð og miskunn að fá að komast framhjá lokunarpóstum félaga minna í HSSR. Samviskubitið eiginlega verst að vera ekki að sinna því að taka þátt í lokunarpóstinum almennilega.

Svo fór þetta eitthvað aðeins að virka og þyngdin að færast niður og a.m.k. núna er ég fyrir neðan markmiðslínuna hræðilegu.

Friday, February 02, 2018

Skíta-skíða-færi í vondu veðri

Ég kalla nú ekki allt ömmu mína þegar vont eða erfitt skíðafæri er annars vegar - en ef ég skil orðatiltækið rétt þá myndi ég kalla þetta ömmu mína! Stalst á skíði í Heiðmörk þegar veðrið var að verða vont og hélt að veðrið yrði vandamál. Það varð ekki enda alltaf gott veður í henni Heiðmörk. En ég held að ég hafi aldrei reynt að skíða í jafn hroðalegu klessuskíðafæri. Var ekki með neinn áburð til að minnka viðloðunina svo ég gafst eiginlega upp á þessu enda voru skíðin svona þegar ég kom í bílinn til baka!

Svo á eftir þá var komið við í foreldrahúsum og snæddir súrsaðir hrútspungar á meðan múttan var að útbúa sviðasultu af miklum móð!

Thursday, January 25, 2018

Sakramentið þegar ég uppgötvaði nýtt uppáhalds

Ég held að ég hafi aldrei áður lesið neitt eftir Ólaf Jóhann Ólafsson. Skoðaði einhvern tímann fyrir langalöngu eitthvað eftir hann en komst að því að bækurnar hans væru ekkert að höfða til mín. Fólk með svipaðan bókasmekk og ég var ekkert að fíla bækurnar hans. Svo var eitthvað, umfjöllun í Kiljunni eða eitthvað sem sagði mér að bókin "Sakramentið" sem kom út fyrir síðustu jól væri eitthvað sem ég gæti lesið. Ætlaði að gefa hana í jólagjöf fyrst en ekkert varð af því. Sat uppi með eintak sem ég hafði kannski ætlað mér að skipta fyrir mat úr Bónus - en þar sem ég kom því ekki í verk og enda ekkert að farast úr peninga eða matarleysi þá dagaði hún uppi hjá mér. Byrjaði að lesa hana síðasta laugardag í Fellsmörk og að vissu leyti fór lífið að snúast um þessa bók.

Er núna búinn að skoða eitthvað meira bókadóma um hana svona professional dóma og þeir eru allir mjög jákvæðir en samt þannig að bólkinni er lýst út og suður.

Sumir fjalla um hana sem glæpasögu og vissulega er það rétt það er í bókinni ofbeldi, líkamlegt, andlegt og kynferðislegt sem verið er að rannsaka og eftir allt þá er líka morð í bókinni og að auki sjálfsmorð. Drifkrafturinn í sögunni er samt alls ekki það að einhver glæpur hafi verið framin. Í einhverri vanhugsaðri umfjöllun um bókina kom fram hver var drepinn eða dó og það hefði skemmt upplifun lestarins mikið að vita um það fyrirfram.

Flestir fjalla um bókina a.m.k. líka sem einhvers konar ádeilu á kaþólsku kirkjuna á Íslandi og það sem hefur komið í ljós með ofbeldi gagnvart nemendum skólans í Landakoti. Einhvers staðar las ég að sá vinkill bókarinnar myndi koma við marga eða eitthvað slíkt. Veit ekki með aðra en það kom ekkert sérstakega við mig hvað kaþólska kirkjan hefur gert enda hefur það verið almennt fréttaefni síðustu ár.

En það var a.m.k. einn gagnrýnandi sem fannst þungamiðja bókarinnar vera persónusköpun systur Jóhönnu, samkynhneigðrar franskrar nunnu og hvernig fordómar kirkjunnar og eiginlega frekar kristninnar bönnuðu henni að vera hún sjálf. Leit hennar að sannleikanum þar sem mikilvægasti sannleikurinn var ekki hver hafði framið hvaða glæp heldur hvers konar lífi hún sjálf hafði lifað og hvort hún hefði verið elskuð eða ekki. Afleiðingar þess að standa ekki alltaf með sjálfri sér og vera föst í fordómum annarra.

Hvað sem öllu líður þá varð þessi bók strax á upphafssíðunum ein af mínum uppáhalds. Endirinn varð einhvern veginn samt hálf snubbóttur. Ekkert ósáttur við hvernig bókin endaði og hvernig lá í hlutunum og líklega hefði sagan aldrei gengið upp nema á þann hátt sem henni lauk en einhvern veginn vantaði samt eitthvað fannst mér.

Ef ég hefði ekki vitað hver skrifaði bókina, hefði mér aldrei dottið annað í hug en að kona hefði skrifað þessa bók. Þannig er maður nú forpokaður þó maður þykist vera eitthvað annað!

Læt svo fylgja með mynd af kirkjunni á Landakoti, mynd sem ég tók fyrir... gvöð hjálpi mér... eitthvað um 14 árum!


Svo maður bæti við eigin hugrenningar. Þessi mynd mynnir mig alltaf dálítið á mikið flottari mynd sem mig minnir framhaldsskólanemi sýndi í Ásmundarsal fyrir meira en 30 árum undir nafninu ragsi sem var sett á hana án þess að hún fengi nokkru um það ráðið. Ætli hún hafi ekki orðið neinn ljósmyndari? Hún var a.m.k. með bestu myndirnar þar en einhverjir aðrir sýnendur hafa unnið hálfa æfina sem atvinnuljósmyndarar.

Ætli mér finnist Vetrarborgin vera lélegasta bók Arnarldar?

Ég ætlaði annars aðallega að blogga um eitthvað sem ég var að lesa og þá er það fyrst vetrarborgin hans Arnaldar. Byrjaði að lesa hana í vinnuferð til Stokkhólms í líklega þar síðustu viku.

Verð að játa að ég held að mér hafi ekki fundist jafn lítil til koma nokkurrar annarrar bókar frá Arnaldi sem ég hef lesið. Sumt gekk ekkert upp í bóikinni eins og að börn hafi verið týnd í heilan dag eða meira án þess að það væru kallaðar út björgunarsveitir til að leita að þeimn - og svo fannst sá týndi í öskutunnugeymslunni heima hjá sér. Það hefði einhver með snefil af leitartækniþekkingu átt að vera búinn að leita þar.

Svo var glæpurinn óttalegt hnoð og leystist dálítið afþvíbara fannst mér og morðið svona eiginlega líka eitthvað afþvíbara.

Sterkasti punkturinn var hliðarsaga um einhvern ógæfumann sem kom svo sem meginsögunni ekkert við.

Þar sem þetta er ekkert opinber bókadómur þá get ég alveg sagt að mér fannst þessi saga vera óttalegt prump!

Wednesday, January 24, 2018

Og nýr... gamall bíll... reyndar frá því fyrir áramót !

Mér bárust ekki góðar fréttir frá fúlu bílaverkstæði rétt fyrir jólin. Fagri-Blakkur var víst bara fagur á ytra byrðinu en hið innra var hann að verða ryði að bráð. Skil reyndar ekki annað en að það hafi verið brögð í tafli þegar hann fór án slíkra athugasemda í gegnum skoðun rétt áður en ég keypti hann vorið 2016 og líklega verður hann að teljast verstu bílakaup mín til þessa. En hann samt kostaði ekki nein ósköp þannig að ég verð nú ekki neitt gjaldþrota út af þessu.

Enda var það svo að eftir að hafa eitthvað skoðað og eiginlgea bara mjög lítið og hafa ætlað að kaupa eitthvað allt annað þá varð ég líklegast á öðrum degi milli jóla og nýárs, orðinn eigandi V6 Suzuki Grand Vitara. Og vonandi ekki að drepast úr ryði þar sem seljandinn var Ryðvarnarskálinn. Hann fær að heyra það Jón Ragnarsson ef bíllinn verður ónýtur af ryði eftir eitt til tvö ár. Annars hef ég tröllatrú á Jóni þar sem ég ætlaði fyrst að kaupa allt annan bíl hjá honum en hann fullvissaði mig um að sá bíll væri ekki góður til að eiga eða nota!

Þessi súkka annars er held ég í alvörunni alveg eðal. Er komin yfir fermingaraldur en ekki komin með bílpróf og ekin miðað við það. En hún er samt dálítið eins og ný finnst mér og af svona súkkum sem ég hef prófað þá er þetta sú lang besta. Alveg draumur í dós að keyra hana!



Svo var farið til Fellsmerkur um helgina eins og sést af þessari mynd. Hafði ekki komist þangað síðan í ágúst. Eiginlega of mikið að gera í vinnu til að fara þangað!

Ný skíði á nýju ári

Það er víst komið 2018 og fyrst mánuðurinn langt kominn. Best að halda einhverju til haga eins og stundum áður!


Ætli það sé ekki á þriðju viku að ég verslaði mér ný gönguskíði - svona af því að ég átti innleggsnótur og mig hafði langað í brautarskíði í mörg ár. Hafði ekki neinn aur fyrir einu eða tveimur árum - eða taldi mig a.m.k. ekki hafa nægan aur en núna vella peningar út úr eyrunum á mér má næstum segja. Það var a.m.k. hægt að kaupa ný skíði.

Þetta var laugardag þá fyrir tveimur helgum og það var farið í skjóli myrkurs í Bláfjöll til að prófa. Þessi skíðaprik runnu alveg óskaplega verð ég að játa eða eiginlega frekar alveg óstjórnlega. Reyndar aðallega áfram á meðan verið var í braut en í einhverjum brekkum sem ég hafði ekki áttað mig á að væru á þessu svæði í Bláfjöllum þá tók ég á það ráð að fara út úr brautinni til að tempra hraðann. Meðalhraðinn þrátt fyrir þær hrakfarir milli 8 og 9 km/klst er held ég allt í lagi ef ég miða við hvað ég sé frá öðrum þarna á Strava.

Svo kom skítviðristíð, ég þurfti til útlanda og svo var allt of mikið að gera í vinnunni til að komast á nein skíði í síðustu viku - en sjáum hvað setur. Setti annars í gærkvöldi persónulegt hraðamet á gömlu riffluðu stálkantaskíðunum á ísaðri grjótbraut á útsporuðum göngustígum Heiðmerkurinnar.