Sunday, October 31, 2004

Hver er Raggi in Afganistan?

Án þess að ég ætli að vera með bölmóð þá gengur frekar margt hjá mér þessa dagana ekkert sérstaklega vel. Í raun ekkert sérstakt til að gleðjast yfir nema kannski traffíkin á blogginu mínu. Var í dag að setja persónulegt met held ég þegar þúsundasti gestur októbermánaðar leit dagsins ljós.

Og þar sem heimsóknir á bloggsíðuna mína eru mitt aðal gleðiefni þessa dagana þá hef ég dálítið verið að fylgjast með henni og hef þá séð tvennt.

Það er verið að gera ritgerð einhvers staðar um bókina Símon og Eikurnar þar sem það hafa ótrúlega margir farið inn á síðuna mína með þeim leitarorðum.

Hitt er sem vekur vekur mesta athygli mína er allt þetta fólk sem er að leita að nafna mínum í Afganistan. Þ.e. það hefur verið 1-2 á hverjum degi undanfarna daga sem hefur komið inn á síðuna með leitarorðunum "Raggi in Afganistan". Mér er spurn, hver er þetta eiginlega og er maðurinn í einhverri hættu þarna í Talíban?

Var það annars nokkuð einhver Ragnar sem var sprungt þarna austur frá?

En sem sagt. Sá sem álpast næst inn á síðuna mína að leita að nafna mínum í Asæi, vinsamlegast skilja eftir skilaboð um hvaða preláti þetta er eiginlega! ;-)

Reyndar náði ég einu sinni eitthvað meira en 1000 gestum einn mánuð fyrir margtlöngu en það var bara út af því að Katrín.is linkaði dáltið á mig. Það var því ekkert að marka það þá enda fékk ég held ég næstum 1000 heimsóknir þá bara á einum degi.


En jú annars. Eitt gengur rosa vel ennþá að minnsta kosti og reyndar eins gott að það haldi áfram að ganga vel því annað gæti verið hættulegt. Trip Kilimanjaro gengur fínt. Er farinn að hlaupa sæmilega reglulega til að verða í almennilegu formi og svo eins og áður hefur komið fram þá verður blaðamannafundur um uppátækið á þriðjudaginn. Reyndar bara útvalinn blaðamaður sem er boðinn!

Félagsmálaráðherra og íslenskt þrælahald

Ég var að heyra áðan í fréttunum að félagsmálaráðherrann okkar væri búinn að átta sig á að það væri eitthvað skrýtið við það hvernig útlendingar geta fengið að búa á Íslandi. Þeir þurfa nefnilega tvö leyfi. Fyrir það fyrsta þá þurfa þeir dvalarleyfi en það geta þeir ekki fengið nema þeir geti sýnt fram á hvernig þeir komi til með að framfleyta sér á Íslandi. Að framfleyta sér þýðir að hafa vinnu og til þess þarf útlendingurinn að hafa atvinnu. Það ætti nú að vera hægt að bjarga því einhvern veginn útlendingurinn þarf bara að finna eitthvað fyrirtæki sem vantar mannskap. Já en til að það sé hægt að ráð hann þá þarf hann atvinnuleyfi. Allt í lagi, fá sér bara atvinnuleyfi en þá þarf hins vegar dvalarleyfi.

Já krullótti félagsmálaráðherrann okkar er búinn að átta sig á að þetta er eitthvað skrýtið. Hann meira að segja skilur ekki almennilegra hvernig nokkur einasti útlendingur hefur getað komist í gegnum þessi ósköp.

Annars kom hann mér enn meira á óvart þegar hann fór að setja spurningamerki við að það væru fyrirtækin sem sæktu um atvinnuleyfið og fengju það fyrir útlendinginn en ekki þannig að útlendingurinn fengi atvinnuleyfið og færi svo og fengi vinnu á þeim grundvelli. Það fer að læðast að mér sá grunur að hann sé á leiðinni að fara að afnema það sem mér hefur alltaf fundist bera leiðinlegan keim af þrælahaldi.

Ég ætlaði nú reyndar aldri að gera þetta aftur

En að hreinsa eina íbúð eftir veru tveggja katta var bara of mikið þannig að ég tók asnalegt netpróf.

Jess


What Gilmore Girl's character are you?
brought to you by Quizilla
Hmmmmmmmmm

Annað hvort hef ég misskilið þessar spurningar illilega, skrökvað meira en góðu hófi gegnir eða þetta er endanleg staðfesting á því að ég skil ekki baun í sjálfum mér! Ég hefði helst haldið að ég væri misheppnaði gaurinn sem rekur subbulega matsölustaðinn. Man auðvitað ekkert hvað hann heitir enda myndi hann ekki muna það sjálfur.

En sem sagt. Aldrei aftur netpróf, fyrr en kannski ég þarf að gera svona kattarþvott á heilli íbúð. Orðið kattarþvottur er nefnilega að fá á sig nýja merkingu hjá mér. Ætli það hafi einhvern tíman verið kannað hvað einn og hálfur köttur getur skilið eftir sig mikið af hárum á þremur vikum? Nei líklega ekki en ég er að bæta úr því nákvæmlega núna. Og ég get fullvissað alla um að það eru mörg hár. Rosalega mörg. Veit ekki alveg hvað niðurstaðan verður nákvæm. Líklega einhvern veginn svona: Rosa-svaka-hroða-hrottalega-fáránlega mörg.

Og þetta er framleiðsla á hárum. Ég hef grun um að einn köttur búi til þyngd sína af kattarhárum á einu ári. Ætli það megi ekki nýta þetta eitthvað. Þetta eru lauflétt fiðurkennd hár. Af hverju í ósköpunum er ekki hægt að kaupa sér kattahárssæng? Ég bara spyr. Nó er að minnsta kosti af þessum hárum.

Saturday, October 30, 2004

Alþingismannalistinn

Vá, ég veit ekki hvað ég á að halda!

Hafði ekkert heyrt um þennan lista althingismenn.tk fyrr en áðan á Baggalúti.


Er þetta rógburður?
Eru mennirnir að framfylgja réttlætinu?
Eða er þetta bara einhver pólitískur áróður?

Ég held að minnsta kosti að þetta sé tómt bull að gera svona lista og þjóni takmörkuðum tilgangi. Ég sem er einkar illa að mér í pólitík veit hvort sem er ekkert hvaða fólk þetta er og ef ég þekkti fólkið þá annað hvort vissi ég að viðkomandi væri eitthvað í pólitík eða ég myndi draga það verulega í efa.

Ætli mennirnir muni ekki lenda í einhverjum vandræðum út af þessu. Mér finnst það líkleg því það er til opinber mynd af að minnsta kosti tveimur þessara kauða sem sjá má hér að neðan. Helsta einkenni þeirra er að þeir eru með brúna bréfpoka á hausnum.


Sjá nánar hér

Það er líklega vissrar að vera ekkert að spóka sig á almannafæri með bréfpoka á hausnum á næstunni. Maður gæti lent í alvarlegum vandræðum vegna þess.

Það var síðan gerður annar listi með einhverjum dópsölum fyrir nokkrum vikum. Um hann má lesa hér.

Mjá... engin kisa lengur

Jæja það er engin kisa lengur hérna hjá manni. Það kom fjórheilög sendinefnd uppúr hádeginu og tók bara báðar kisurnar með sér eftir að hafa étið mig út á gaddinn.

Sit hér sem sagt matarlaus, kattarlaus og allslaus. Það er nú reyndar ágætt að vera laus við þær í bili. En væri samt ágætt að fá eins og einn kött í póstium. Myndi ekki flokkast sem spam.

Það var annars árleg spurningakeppni vinnunnar minnar í gærkvöldi. Það var svaðalegt stuð að minnsta kosti á borðinu sem ég var á. Reyndar svo mikil læti í okkur að það kom næstum til álita að dæma okkur úr keppninni. Samt eins gott að það var ekki gert því liðið sem ég var í stóð sig vonum framar og endaði í öðru sæti á eftir Haglélsliðinu.

Keppnin var annars haldin úti á Nesi og þegar henni lauk fórum við nokkur á Rauða Ljónið. Það var ágætt nema kannski fyrir utan að það voru einhverjir tveir sem voru eitthvað að reyna að spila á gítar þannig að það heyrðist stundum ekki mannsins mál. Annars var spilamennskan þeirra ágæt. En ég verð að segja að þessi staður má muna sinn fífil fegurri. Ég held að ég hafi reynar ekki komið þarna í heil 15 ár en þá var fólk þarna alveg út um allt að þjóra bjór. Núna á föstudagskvöldi var þetta meira eins og Jensen í miðri viku þegar enginn Skýrrari er mættur á staðinn. Svona 5 þreyttir fastagestir en annars enginn.

Drykkjuskapur kvöldsins kostaði það síðan auðvitað að bíllinn var skilinn eftir. Það hafði þær hetjulegu afleiðingar að minn fór skokkandi út á nes í morgunsárið til að sækja farskjótann. Hafði meira en gott af því. Jafn vel bara of gott.

Friday, October 29, 2004

Útskýring hermanns á innrásinni í Írak

Heyrði þessa snilldar röksemd í útvarpinu í morgun frá tindáta af vellinum.

Jú það var sko ráðist á okkur og við urðum að bregðast við og þess vegna réðumst við inn í Afganistan af því að þar voru þeir sem réðust á okkur.

Og þess vegna þurftum við að ráðast inn í Írak enda höfðum við fengið upplýsingar um að þar væru gjöreyðingarvopn.

Og hvort þau hafi fundist? Það veit ég ekki. Það getur vel verið að þau hafi fundist en það hafi bara ekki verið sagt frá því.

Verð að játa að það er sjaldgæft að heyra svona djúpa speki

Minnir mig dálítið á eitt mjög skynsamlegt samtal sem ég átti við svona einhvers konar Vesturíslending nokkrum mánuðum áður en ráðist var á Írak:


Ég:
Finnst þér virkilega rétt að ráðast inn í Írak? Trúir þú virkilega að eftir allar hörmungar þjóðarinnar síðustu 10 ár hafi hún getað komið sér upp einhverjum gjöreyðingarvopnum sem allir þessir vopnaleitarmenn hafa ekki getað fundið

Hann:
Maður veit aldrei. Ein vetnsissprengja er ekkert svo stór. Kemst fyrir inni í einum bíl þannig að á meðan við getum ekki verið viss þá verður eiginlega að gera innrás.

Ég man þetta reyndar ekki orðrétt hvorugt samtalið en þau voru eitthvað í þessa veruna!

Kanar eru klikk, jafnvel þó þeir séu 1/8 íslenskir.

Kötturinn varð óður

Það var búið að segja mér að bröndótti kötturinn sem ég er með væri ofvirkur. Hann þyrfti endalaust að komast upp á allt og léti ekkert í friði. Hann hefur ekki slegið slöku við og hreinsað ofan af skápum borðum og öllu mögulegu. Reyndar tók ég af honum ómakið og hreinsaði sjálfur geisladiskana ofan af sjónvarpinu og dreifði þeim yfir stofuborðið í staðinn. Þar hefur geisladiskahrúgan verið hið mesta æfintýraland fyrir hann og kettina reyndar báða held ég.

Það var líka búið að vara mig alvarlega við því að sá bröndótti væri stórhættulegur lifandi fólki því hann hefði þann leiða sið að bíta fólk reglulega. Ekki það að hann væri neitt svangur heldur hefði hann bara þennan undarlega ávana að fá sér eins og einn og einn bita.

Ég hef reyndar ekki orðið mikið var við þetta enda stöðugt verið á varðbergi. Svo var það meira að segja þannig að það var hinn kötturinn sem beit mig. En það var ekki hann sem varð óður. Það var sá bröndótti.

Bithneigðin og "Uppáallthneigðin" sameinuðust á þann undarlega hátt að hann ákvað að fara upp á hausinn á mér. Sem ég sat við morgunverðarborðið þá laumaðist hann aftan að mér og tók undir sig stökk. Að sjálfsögðu algjörlega hljóðlaust enda hefur árásaraðferð kattarins verið að þróast frá því áður en við komum niður úr trjánum. Ég vissi ekki fyrri til en ég fann kattarklær læsast í bakið á mér. Fötin sem ég var í tættustu í sundur og blóð fossaði út um allt. Ég snérist snarlega til varnar og hvissaði susssususss og gretti mig á hinn hroðalegasta hátt. Sá bröndótti sá sitt óvænna og hörfaði undireins en skildi samt auðvitað ekkert í þessu viðbrögðum. Hann var bara búinn að sjá út að það væri einkar snjallt að fá sér sæti uppi á hausnum á mér til að fylgjast sem best með því hvað ég væri eiginlega að gera þarna.

Og við erum ekki enn orðnir vinir aftur þó það sé kannski hætt að blæða og ég komin í önnur föt í staðinn fyrir þau sem urðu fyrir barðinu á kattarklómnum.

PS
Vissuð þið það að Friðrik Skúlason getur ekki verið ekki ofvirkur því villupúkaforritið hans þekkir ekki einu sinni orðið!

PSS
Og kannski líka. Þessi kattarárásarsaga er dagsönn fyrir utan örlitlar ýkjur þar sem minnst er á blóðslettur.

Thursday, October 28, 2004

Érað hugsa um að gera eitthvað mikilvægt

Kannski ætti maður að taka sér malasíska verkfræðinginn S. Moganasundar til fyrirmyndar en hann ákvað að gera eitthvað sérstaklega mikilvægt einhvern tíman í lífinu og þess vegna ákvað hann að hlaupa 30 kílómetra afturábak. En um þetta má lesa í Mogganum, málgagni allra landsmanna og sá snepill lýgr nú aldreigi. Fyrir vikið komst hann í Malasíumetabókina en það gefur náttúrlega lífinu raunverulegan æðri tilgang. Enda staðfesting á að hafa gert eitthvað mikilvægt. Alveg eins og frænka hans sem var orðin leið á öllum vinum sínum og flutti þess vegna til sporðdrekanna.

Ég er annars ekkert viss um að ég þurfi að skakklappast alla þessa þrjátíu kílómetra afturábak. Líklega dugar að afturábakast bara niður Laugaveginn. Reyndar er mér vitanlega Ísalandsmetabókin ekki enn komin út en þá líka þeim mun auðveldara kannski að komast í hana fyrir að gera eitthvað mikilvægt.

Verð annars að blogga það að ég lenti í raunverulegum lífsháska í vinnunni í dag. Drapst næstum úr hlátri. Það gerðist eftir að ég horfði á þetta 500 ára gamla myndband sem sýnir kynningu á nýjustu upplýsingatækninni, þ.e. bókinni sem tók við af rollunni.

Af tunglmyrkvaglápi og fleiru

Ekki varð nú mikið af tunglmyrkvaglápi hjá mér í gærkveldi. Fór bara að sofa en svaf nú ekki sérlega lengi. Hrökk upp með andfælum eftir svona tveggja tíma svefn, orðinn viðþolslaus af spenn og hugðist berja náttúruundrið augum. Og jú það var búið að slökkva á helvískum mánanum en því miður draga líka fyrir. Tunglið sást allaveganna hvergi.

Þetta var reyndar synd og skömm því ég man ennþá hvað tunglmyrkvinn sem ég sá fyrir nokkrum árum var flottur. Þá var farið upp að Hafravatni, bílljósin slökkt og horft á dýrðina. Þó það hafi ekki verið umferðaröngþveiti þar þá var svona slangur af fólki þar [segir maður annars ekki slangur?]. Karlskömmin tunglingu varð þá appelsínugul í framan eins og klementína.

Af henni Afríku er annars tvennt að frétta. Við Helgi [aðalskipuleggjari sko] notuðum tækifærið réðumst á sprautugæjann sem var að dæla inflúensuefni í lýðinn og spurðum hann um hvað þyrfti vegna hennar Afríku.

Þetta var greinilega rétti maðurinn því hefur séð um að sprauta þá sem eru að fara í svona túra. Það er víst nóg að tala við hann í byrjun febrúar en þá þarf að stinga mann nokkrum sinnum til að koma í veg fyrir hina hroðalegustu sjúkdóma og einnig láta mann éta einhver ókjör af pillum. Þetta var held ég malaría, lifrarbólga, stífkrampi og einhverjir hræðilegir sjúkdómar sem ég þorði ekki einu sinni að leggja á minnið. Hann varð meira að segja svo óforskammaður að fara að segja okkur einhverjar voðalegar sjúkrasögur af fólki sem hefur farið þarna. Já það er ekki öll fífldirfskan eins!

Hitt sem er af Afríkunni að frétta er að það fer að myndast keppni um hver eignast útgáfurétt á ferðasögunni. Til kynningar mun verða haldinn blaðamannafundur í næstu viku.

Fyrir áhugasama um kattavitleysingana sem ég var [og er reyndar líka] með að þá eru þeir hérna ennþá. Eru alveg hættir að stríða hvor örðum en ætli ég losi mig ekki samt við þá til síns heima um helgina.

...........
Veit síðan einhver hver Raggi í Afganistan er? Það eru einhverjir tveir frá mismunandi IP tölum búnir að villast inn á síðuna mína til að leita að þessum nafna mínum í hinu stríðshrjáða fyrrvrandi talibnanana veldi.

Taka tvö í bíó tókst betur

Jæja það tókst í tilraun tvö að komast í bíó. Núna komumst við á rétta mynd og reyndar ekkert erfitt að finna salinn þar sem myndin var komin niður í kjallara.

Það voru alls fimm manns á myndinni. Tvær konur sem mér heyrðist að hefðu ekki farið í bíó síðan á síðustu öld og síðan einhver einn kaddl fyrir utan mig og minn brója.

En ég segi og skrifa að mér finnst Næsland meiriháttar mynd! Mátulega mystísk fyrir minn smekk og fullt af stórundarlegu fólki í henni.

En vitiði hvað. Tunglið er meira fullt núna en það er vant að vera og það verður rétt strax slökkt á því... svo kviknar aftur á því einhvern tíman um miðja nóttina og þá verður það ennþá jafn sneisafullt.

Það verður nefnilega örugglega flott að skoða tunglmyrkvann núna á eftir. Sérstaklega þar sem það er svo skemmtileg tilviljun að tunglið er alveg fullt núna á nákvæmlega sama tíma.

Það er reyndar spurning hvort einhver sjái rugglið í þeirri tilviljun!

Tuesday, October 26, 2004

Fjallið færist nær

Ég fékk tölvupóst í dag og í honum stóð m.a.:

Ferð:  CLASSIC KENYA SAFARI & KILI CLIMB  - Ferðarnúmer  Special departure   brottför   18.3.2004   lengd ferðar  17 dagar    ferðalok í London   3.4.2004

Svo á ég líka að fara að borga eitthvað. Mér sýnist á öllu að það verði ekki hætt við héðan af. Ég skal víst til Afríku á endanum!

Síðan á ég að fara að gefa upp alls konar upplýsingar eins og í hvern eigi að hringja ef tígrisdýrin í Afríku verða of nærgöngul. Annars ekki mikil hætta á því eins og dýrvissir vita líklega. En fjallið er flott!


Monday, October 25, 2004

Þegar einhver brosir til manns

Einhvern tíman fyrir rosalega löngu las ég í skólablaði sem reyndar er kennt við bjúga viðtal við hana Elenu, stelpu frá Ítalíu sem var skiptinemi hér á klakanum fyrir roslega löngu.

Ég man að þegar hún var spurð hvað henni findist um íslendinga og þá sérstaklega strákana þá sagði hún að þeir væru dálítið erfiðir því þeir virtust yfirleitt halda að ef hún talaði við þá, þá héldu þeir að það þýddi að hún væri eitthvað hrifin af þeim. Ég tók hana auðvitað mjög bókstaflega og varð sérstaklega afundinn þegar einhver af hinu kyninu tók upp á því að tala við mig. Sérstaklega ef einhver af hinu kyninu tók upp á því að brosa til mín eða haga sér undarlega á annan hátt. Ekki vildi ég haga mér eins og einhver íslenskru afdala sveitamaður.

Mér datt þetta nú reyndar bara í hug því það var brost til mín í dag en ég geri nú reyndar ekkert neitt ráð fyrir að það þýði eitt eða neitt. Enda ef að ég væri hrifinn af öllum sem ég brosi til þá væri ég líklega dáinn úr hrifningu.

Auk þess verð ég líklegast að fara að átta mig á því að bros er ekki sama og bros. Það rann nefnilega upp fyrir mér fyrir svona 13 og hálfu ári að það er sitthvað að einhver brosi til manns eða einhver brosi að manni. Svipað og munurinn á því að vera fyndinn og hlægilegur. Kannski var ég bara broslegur í dag. Ég óttast að ég standi mig oft betur í því að vera hlægilegur en að vera fyndinn. Reyndar kannski svo að ég verð bara fyndinn fyrir vikið. Það er kannski ekkert svo slæmt. Hláturinn lengir jú lífið eins og karlinn sagði rétt áður en hann drapst úr hlátri. Ætli það hafi annars einhver einhvern tíman dáið úr hlátri. Gæti verið skárri dauðdagi en hver annar. Einu sinni heyrði ég um einhvern sem drapst úr hræðslu í bókstaflegri merkingu. Mig minnir að hann hafi verið hjá tannlækninum sínum og verið alveg að drepast úr hræðslu. Adrenalínið æddi um líkamann og einhver önnur efni sem losna úr læðingi við ofsahræðslu. Þegar þetta blandaðist saman við eitthvað efni í deyfingunni sem þessi vesalings maður fékk þá varð einhver svakaleg eitrun og hann bara drapst með það sama. Hann drapst sem sagt úr hræðslu hjá tannlækninum sínum. Þarna er kannski komin ástæðan fyrir að ég læt aldrei deyfa mig þegar það er verið að krukka í tönnunarnar mínar.

Jæja, þurfti bara að segja þetta [eða eitthvað af þessu] áður en við förum að sofa. Ég og kisurnar sko. Eða reyndar þá held ég að þær sofi á daginn þegar ég er í vinnunni. Þær virðast stunda eltingaleik og mjálmkeppni allar nætur. Guðsélof reyndar að þær fara brátt að komast til síns heima. Reyndar synd þar sem þær eru nú eiginlega hættar að láta eins og hundur og köttur hérna hjá mér.

Sunday, October 24, 2004

Kisurnar og heimilistækin

Alveg er það undarlegt hvaða heimilistæki vekja áhuga kisuhugans.

Þvottavélin var strax stimpluð sem hið hættulegasta óargadýr. Fyrst eftir að fyrri kisan kom í pössun þá flúði hún alveg lágmark undir stól ef ekki upp á háaloft í hvert skipti sem ég tók upp á því að þvo. Þessi hræðsla við þvottavélina hefur reyndar eitthvað rjátlast af henni og kannski líka hugrekkið vaxið við að fá annan kött í lið með sér til að ráðast á skrímslið.

Uppþvottavélin hefur ekki verið álitin jafn hættuleg og var litli Bjartur alveg ólmur að komast undir hana þegar hún fór í gang í morgun. Ískápurinn er síðan álitinn hið al dularfyllsta fyrirbæri. Held að báðar kisurnar viti að þar inni er eitthvað alveg sérstaklega spennandi.

Það sem báðar kattaskammirnar hafa mestan áhuga á er samt tölvuprentarinn. Það hreyfist eitthvað dularfullt ljós innan í honum og hann spýtir út úr sér pappír. Núna var Lottukisan rétt í þessu að reyna að veiða útprentanirnar mínar og var komin á bakvið prentarann til að reyna að komast að því hvaðan í ósköpunum þessi pappír eiginlega kæmi. Hún áttaði sig sem sagt á því að þetta gæti varla verið maskína sem væri bara að búa til pappír.

En nóg komið af bulli í bili, verð að fara að gera eitthvað af þessu sem ég þóttist ætla að gera í kvöld.

Baldvin Þorsteinsson stímir á

Það er eitthvað með þetta skip. Ætli það hafi verið sami skipstjórinn að stýra hér og hér?

Ég held að þetta þarfnist einhverrar frekari athugunar!

Mynd vikunnar er frá í sumar: The thinking Mask

Ekki varð það nú að mynd vikunnar væri frá í gær, heldur fann ég eitthvað gamalt dót og fór að fikta í því.

Tók þessa mynd í gamla Hampiðjuhúsinu á menningarnótt í sumar sem leið. Verst ég veit ekki hver gerði sjálft listaverkið því þetta er náttúrlega bara mynd af einhverju sem einhver annar gerði.
the mask


Sjá líka á dpchallenge.

Gluggaþvottur uppi á þaki

Ég sá í morgun að við svo búið mátti ekki standa. Gluggarnir sem ég býð kisunum að horfa út um voru orðnir svo skítugir eftir skítviðri síðustu viku að það sást varla út um þá lengur. Enda var ég fyrir nokkrum dögum búinn að átta mig á að það var ekki einleikið hvað þessi þoka virtist ætla að vera þrautseig.

Ég fann til einhvern aflóga svampkúst, bleytti vel í sápuvatni, prílaði upp á stól, opnaði gluggann upp á gátt, mundaði kústinn, skvetti vatni út um allt á leiðinni og ... SVAMP! Það heyrðist hátt og myndarlegt skvamp þegar sampdruslan lenti á gangstéttinni átt metrum neðar. Þar sem ég bý nú bara við Laugaveginn þá er náttúrlega sjaldan fólk þarna á ferli þannig að það var nú ekki nein sérstök hætta á ferðum.

Var nú gerð önnur tilraun. Tekinn annar kústur ekki jafn aflóga en enginn svampur á honum heldur bara hefðbundinn skúringakústur. Ég þorði reyndar ekki fyrir mitt litla líf að setja tusku á hann heldur notaði kústinn bara beran. Það gekk betur og eftir dálítinn gusugang og e.t.v. einhverja blauta vegfarendur er glerið aftur orðið gegnsætt. Annars er ekkert svo mikill umgangur af fólki hérna ofarlega á Laugaveginum. En ef þú rekst á aflóga þvottasvamp á Laugaveginum þá máttu hugsa mér þegjandi þörfina fyrir slóðaskapinn og þú mátt eig'ann ef þú vilt.

Rétt á meðan ég skildi annan gluggann eftir galopinn gerði vösólfurinn Bjartur sig líklegan til að stökkva bara beint út, enda ekki mikið mál fyrir hann. Hefði nú samt ekki boðið í það að hann hefði farið að vega salt á gluggasyllunni og að minnsta kosti 8 metrar niður á gangstétt fyrr neðan. Reyndar hefði verið mjúkt að lenda á svampinum en kannski ekkert einfalt að hitta beint á hann!

Ég er annars að verða vitlaus á þessari kattapössun. Sá bröndótti eigrar um íbúðina heilu og hálfu næturnar og vælir viðstöðulaust eins og stunginn grís. Kannast samt ekkert við að hafa stungið hann. Er farinn að óttast að ég verði dæmdur í útlegð á næsta húsfundi. En þessu lýkur nú reyndar fljótlega. Það sem ég held að ég hafi lært af þessari kattapössun er að einn köttur er að minnsta kosti alveg meira en nóg.

Fór annars í gær í góðaveðrinu og ætlaði að taka einhverjar ódauðlegar myndir á meðan ég var ekki að slappa af eða vinna, elda eða éta, horfa á sjónvarpið eða ráða krossgátu en ég held ég hafi ekki haft erindi sem erfiði. Það kemur samt kannski ný mynd á síðuna bráðum.

Friday, October 22, 2004

Gangsterar úti á götu

Okkur kisunum báðum brá alveg rosalega fyrr í kvöld. Það heyrðist búmm og svo aftur búnk, krasjh og krúsjh. Mér krossbrá og það hljóp hland fyrir hjartað á mér og kisunum örugglega líka. Ég óttaðist fyrst að ég þyrfti að fara að beita skyndihjálp og leit út um gluggann til að kanna aðstæður.

Var þá einhver rauður sportbíll búinn að klessukeyra líklega þrjá kyrrstæða bíla. Sportbíllinn var hins vegar ekkert ánægður með þetta. Bakkaði bara út úr þvögunni og reykspólaði síðan í burtu. Ég held annars að þetta sé sami staður og einhver bíll [sem nota bene var líka sportbíll] í kappakstri við annan bíl fór flikkflakk helgjarstökk þarna á sama stað. Sá gat reyndar ekki reykspólað í burtu því hann endaði á hvolfi.

Nú svo kom löggan og svona en reyndar held ég ekki fyrr en eftir dúk og disk. Reyndar ekki langt fyrir þá að fara en hvað veit ég. Kannski var hún komin eitthvað fljótlega. En maður ætti kannski að fara að flytja á átakaminni stað í henni Reykjavík. Þetta er náttúrlega ekki nokkur hemja og það er nokkuð ljóst að ég mun aldrei þora að leggja bílnum mínum í þetta bílastæði og ekki ganga um þessa gangstétt nema hafa varann á mér. Og passa mig sérstaklega á öllum sportbílum.

Kattavitleysingarnar [svo ég noti tungutak karls föður míns] eru síðan bara að spekjast og kvæsa ekki hvor á annan nema svona af og til. Gátu jafnvel hnusað hvor af öðrum áðan eins og þeir væru næstum því vinir.

Ég er að lokum ekkert sérstaklga ánægður með daginn að öllu leyti fyrir utan það að ég fór sérstaka frægðarför í morgun til tannlæknirsins míns og hann fann ekkert athugavert við munninn á mér. Fór meira að segja að hafa orð á því að það skemmdist bara ekki nokkur skapaður hlutur lengur þarna uppi í mér fyrir utan eina og eina brotna fyllingu. En hann tók nú alveg heilar 7 þúsund krónur fyrir þetta blessaður öðlingurinn. Enda vildi ég ekki vinna uppi í munninum meira og minna hálfókunnugu fólki allan daginn á einhverjum kennaralaunum.

Thursday, October 21, 2004

Enginn var kúkur

Af því að Stína frá Kína spurði og svarið varð svo langt að það átti ekkert heima í skilaboðakerfi þá kemur það hér.

Hann F. Kúkur sem er á myndinni fyrir í þar seinustu bloggfærslu eða þarumbil er auðvitað ekkert á myndinni heldur bara nafnið hans því það er Gunnar Dal sem er í þungum þönkum á myndinni.

Hann F er gamall félagi sem hefur ekki verið mjög við eina fjölina felldur. Hann var einhver einarðasti bindindismaður sem um getur og stundaði helst ættfræðigrúsk sér til dægrastyttingar á fyrri hluta táningsáranna. Altsvo þegar hann var ekki á fundum hjá Heimdalli, Varðbergi eða einhverju þaðanaf gáfulegra. Hætti síðan að vera bindindismaður og varð dálítill sukkar en hélt reyndar áfram um stund að grúska í ættfræði og vera blár í gegn. Gaf út ættfræðital og gegndi mikilvægu hlutverki á landsfundum flokksins. Varð sér út um kærustu og gerðist enn meiri sukkari held ég. Síðan slitnaði nú uppúr sambandinu eins og gerist og hann fór að reka sj0ppu. Sem gekk ekki of vel því hann mátti ekkert vera að því að afgreiða og var bara með fólk í vinnu til að sinna slíkum störfum. Enda hann hátt hafinn yfir það að afgreiða í sjoppu heilt kvöld sérstaklega þar sem viðskiptavinirnir voru oft teljandi á fingrum annarrar handar. Enda fór það svo að sjoppan fór á hausinn held ég.

Nú hann var í vinfengi við mikilvæga menn og man sérstaklega eftir sögum hans af Ármanni nokkrum Reynissyni sem rak þá Ávöxtun með hvílíkum glæsibrag að undrum sætti. Einnig var hann að grúska í alls kyns dulrænum fyrirbrigðum og gerðis mikill áhugamaður um Nýalssinna.

Ég frétti síðan lítið af honum Ingimar í mörg ár. Held að hann hafi einhvern tíman farið í meðferð en veit svo sem ekkert um það. Einhvern tíman heyrði ég líka að hann ætti kærasta en ég veit heldur ekkert um það og getur verið lygimál.

Ég hitti hann síðast þegar hann var að afgreiða í Geysi niðri í bæ sem hlýtur að vera langt síðan því það er löngu búið að rífa húsið sem búðin var í og síðan hafði ég áreiðanlegar heimildir um að hann byggi hjá gamalli ekkju í Grímsey þar sem hann væri barnaskólakennari.

Kann ég sögu hans ekki lengri og veit ekkert um hvar hann er niðurkominn núna en hann er með sérstakari persónum sem ég hef fyrirhitt um dagana.

Myndin sem er ein af mínum uppáhaldsmyndum er af Gunnari Dal þegar hann kom í lok dags til að fræða okkur félagana í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti um heimspeki í sérstökum aukaáfanga um það fag sem við stofnuðum félag um að fá kenndan.

Í þetta skiptið var hann eitthvað seinn fyrir og til að fá listræna útrás þá var taflan skreytt á hinn margvíslegasta hátt. Einhver skrifaði nafnið hans af því að hann hafði sest í kennarastólinn en kúkurinn var málinu eitthvað algjörlega óviðkomandi. Síðan þegar lærimeistarinn loksins kom var hann eitthvað í þungum þönkum en væntanlega lak spekin af honum eftir það í stríðum straumum.

Það var hins vegar nokkrum árum áður sem Gunnar Dal kenndi mér stafsetningu með undarlegum aðferðum sem svínvirkuðu.

Ég man það að við fengum allir A í einkunn en það var með því skilyrði að við myndum eitthvað láta kveða að okkur á lífsleiðinni og lágmarkið var að einhvern tíman myndum við að minnsta kosti skrifa blaðagrein um það sem við værum að fást við á lífsleiðinni. Þar sem ég er að stelast til að blogga þetta en á að vera að skrifa grein í tímarit þá er líklega nokkuð ljóst að ég stóð undir einhverjum af þeim væntingum.

Félagið starfaði síðan í meira en 10 ár og fékk alls kyns fyrirlesara til sín. Hittist reglulega í Turnherbergi Hótel Borgar og fyrsti fyrirlesarinn sem kom þangað var reyndar Sigurður Líndal sem er auðvitað stjúpi hennar Stínu frá Kína.



.
.
.

Kattfræðilegt atferli

Heimili mitt er orðið vettvangur kattfræðilegra rannsókna.

Gamla kisan sem var í pössun ein hjá mér þangað til í gær er nefnilega ekkert glöð með fjölgunina sem varð þegar nýja kisan kom inn á heimilið í gærkvöldi. Það var kvæst dálítið í báðar áttir og aðeins tekist á en reyndar varð nú enginn almennilegur kattaslagur úr þessu hjá þeim. Síðan er það þannig að nýja kisan, rummungurinn sá bröndótti virðist hafa tögl og hagldir á meðan gamla kisan Lotta litla fer með veggjum og lætur sem minnst fyrir sér fara nema kannski þegar hún kvæsir. Það er nefnilega litla Lottukisan sem kvæsir á slöttólfinn hann Bjart.

En þetta tekur nú allt enda. Ef að líkum lætur verð ég aftur orðinn karl hinn kattlausi um helgina. Ja nema ég haldi í aðra hvora kattarómyndina. Veit það nú ekki alveg. Finnst frekar í lagi að fá kisu svona aðeins til mín í heimsókn en að fá kisu hingað fyrir fullt og allt. Enda get ég varla opnað út á svalir með þessa ferfætlinga hérna. Er búinn að sjá það út kisan myndi stökkvað beint út á þakið á næsta húsi og vera þá horfin veg allrar veraldar eða í besta lagi vera komin í hina skelfilgustu sjálfheldu og ég þyrfti að hringja á slökkviliðið til að bjarga henni til baka rétt eins og einhver gömul kona í Vesturbænum.

Annars um þessa ketti. Ef einhver fór á leikritið um Jón Odd og Jón Bjarna fyrir svona tveimur árum síðan þá var sá bröndótti þar sem lítill kettlingur í hlutverki hans Jóns Sófusar!

Wednesday, October 20, 2004

Einhleypir

Undarlegt þetta blogg. Þegar maður nennir ekki að gera það sem maður þarf að gera þá fer maður að blogga einhverja vitleysu.

Ég heyrði einhvers staðar fyrir ekki löngu að það væru núna til tvær tegundir af einhleypu fólki. Annars vegar lítið menntaðir karlar með lágar tekjur ef yfir höfuð einhverjar. Og síðan vel menntaðar konur með háar tekjur. Fór að vandræðast með að setja mig inn í þett módel. Menntun er líklega umdeilanleg og kannski þarf ég kauphækkun. Það er að minnsta kosti einfaldara en kynskiptiaðgerðin. En svo var ég að lesa á bloggi Stínu útlaga að konur hafa ekkert við mann lengur að gera.

Annars er þetta ekkert fyndið. Einhleypar konur voru samkvæmt fréttinni einhleypar af því að þær voru allt of góðar þannig að þær vildu engan en einhleypir karlar voru einhleypir af því að þeir voru allt of lélegir. Ég held hins vegar að ég sé bara auli.


Ég er annars alltaf að hafa meiri og meiri áhyggjur af því hvað ég er að verða slappur í stafsetningu. Ég ætlaði núna áðan að fara að skrifa einhleypinginn með einföldu i-i.

Fyrir martlöngu kenndi þessi snillingur mér hér að neðan stafsetningu upp á 10,0 en það er líklega að verða of langt um liðið.

En ég elska í öllu falli þessa mynd!



Guðbergur þó
En talandi um ljósmyndir. Ég var að horfa á endurtekinn Mósaíkþátt og ég sá Guðberg Bergsson vera hálfpartinn að dissa íslenska ljósmyndara alla með tölu og segja að spænskar myndir sem hann er með á sýningu séu allt öðru vísi en íslenskar myndir því þær sýni hugmyndir. Grunnurinn að góðri ljósmynd verði að vera hugmynd en á íslenskum myndum séu bara fjöll. Engar hugmyndir. Reyndar er til ákaflega mikið af ljósmyndum sem eru bara af einhverjum fjöllum og geta bara verið mjög fallegar sem slíkar en að segja að það sé ekkert varið í íslenska ljósmyndun því þar sé aldrei nein hugmynd, það er bara dónaskapur.

Það er síðan að frétta af tveimur köttum að það er ákveðin valdabarátta í gangi hjá þeim blessuðum!

Tveggjakisupassarinn

Það bættist loksins við einn bröndóttur núna í kvöld þannig að núna er ég orðinn tveggja kisna maki.

Verst að þær komast ekki með mér á Íslenska dansflokkinn annað kvöld því Ralldiggnur rann úr skaftinu núna áðan og mér sýnist að ég fari ekki neitt. Ekkert gaman að fara einsamall. Er því bara heldur fúll. Reyndar kannski lán í óláni að ég mátti eiginlega ekkert vera að því heldur að fara þetta en ætlaði nú samt og finnst fúlt að fara ekki neitt.

En þetta verður ágætt með kisurnar. Þær eru aðeins búnar að kvæsa hvor á aðra svona eins og til málamynda. Reyndar leist Ralldiggni held ég svo illa á þetta kvæs þeirra að líklega sefur hún ekki fyrir áhyggjum á meðan ég sef ekki fyrir kattaslag.

Jám en líklega best að fara að taka til í íbúðinni. Mér skilst að sá nýkomni bröndótti sé alvarlega ofvirkur og muni henda öllum geisladiskunum mínum 300 ofan af sjónfvarpinu og líklega setja íbúðina í rúst. Ég vil frekar rústa henni sjálfur við minn hátt.

Tuesday, October 19, 2004

Nú er það ljótt

Allt bloggið mitt orðið svart!

Og ekki betra að ég svaf næstum ekkert í nótt. Varð ekki svefnsamt fyrir þessum djöfulgangi í veðrinu. Komst reyndar að því þegar ég gafst upp á þessu og skoðaði veðrið í tölvunni að þetta voru bara eitthvað skitnir 10-15 metrar á sekúndu ef það náði þá því, sem ég vissi nú ekki að væri mannskaða veður. Ég átti von á að minnsta kosti svona 20-30 metra roki.

Það gnauðaði og söng í öllu eins og ég vissi ekki hvað og varla heldur hún kisa. Það eru einhverjir gluggar hjá mér sem hefðu gott af endurnýjun þéttilista held ég. Að minnsta kosti fannst mér vera rok hjá mér. Þó ekki svo slæmt að sængin væri að fjúka af mér en ég vil meina að það hafi samt stundum legið við. Og náttúrlega skítkalt.

Það varð síðan ekkert úr að það bættist við köttur í hópinn í kvöld. Þökk sé veðurguðunum. Ferð hins kattapassarans Gunna um fjöll og firnindi til vatnsmælinga frestast nefnilega skilst mér út af óveðrinu. En það gæti nú komið ný kisa í staðinn annað kvöld.

Og svo ef úr rætist í veðri þá er stefnt á línuskauta um helgina í kvennafansi uppá Grafarholti eða hvað fjöllin heita þarna sem fólk er að álpast til að byggja á.

Verðr gaman :)

Monday, October 18, 2004

Afríka í sjónmáli

Einhvern tíman hef ég bloggast á [að "bloggast á" er bloggíska fyrir að minnast á ef þú veist það ekki] að ég sé kannski á leiðinni til hennar Afríku eftir svona hálft ár eða varla það. Þetta fer allt að skýrast. Í þessari viku þarf nefnilega annað hvort að fara að byrja að borga eitthvað inn á ferðina eða hætta bara við allt saman. Og þar sem ég hef eiginlega verið að þykjast vera með í að skipuleggja ferðina þá á ég dáltið bágt með að fara að draga mig út úr þessu.

Það eru því allar líkur á því að buddan verði orðin 45 þúsund kallinum léttari í lok þessarar viku og að bloggið mitt fari að verða Afríkulegra þegar nær dregur. Þetta verður annars óttaleg popparaferð bara með ferðaskrifstofu en reyndar tímamótaferð líka. Ef allir sem ætla núna fara í ferðina og komast upp á hann Kili þá verður þetta Íslandsmet. Aldrei mun stærri hópur Íslendinga hafa staðið á tindi Kilimanjaró í einu.

Og ætli ég endi ekki á að verða frægur fyrir þetta ferðalag. Að minnsta kosti er búið að ámálga við mann viðtal í víðlesnu blaði út af þessu

Annars er ekkert að frétta af mínum. Eiginlega allt of mikið að gera á öllum vígstövðum til að eitthvað geti frést. Var reyndar partýstand um helgina í áttræðisafmæli uppi í Breiðholti sem stóð fram undir morgun. Jám það er að eiga svona aldraða vini.

Það er síðan útlit fyrir fjölgun í kattapössuninni hjá mér. Það mun nefnilega einn bröndóttur bætast við annað kvöld reikna ég með.

Að lokum. Skil ekki eitt. Hvaðan kom þessi voðalegi vetur sem er allt í einu kominn hingað? Ef hann getur hætt að blása kuldabola í gegnum mig og í staðinn gert dáltinn alminlegan snjó þá yrði ég ánægður með þetta.

Thursday, October 14, 2004

Dópsalalistinn

Vá, ég veit ekki hvað ég á að halda!

Hafði ekkert heyrt um þennan lista dopsalar.tk fyrr en áðan í fréttum í Sjónvarpinu.


Er þetta rógburður?
Er maðurinn að framfylgja réttlætinu?
Eða er þetta bara dópsalaauglýsing?

Ég held að minnsta kosti að þetta sé tómt bull að gera svona lista og þjóni takmörkuðum tilgangi. Ég sem er einkar illa að mér í dópheiminum veit hvort sem er ekkert hvaða fólk þetta er og ef ég þekkti fólkið þá annað hvort vissi ég að viðkomandi væri eitthvað vafasamur pappír eða ég myndi draga það verulega í efa.


Þetta var síðan dálítið kúnstugt í sjónvarpinu. Þeir nefndu engin nöfn eins né neins á listanum til að taka ekki þátt í rógburði. Sýndu svona hluta af vefsíðunnu úr fókus þannig að ekkert kæmi fram en gáfu svo slóðina upp!!!

Ætli það hafi ekki verið ágætis traffík á henni á eftir. Ég kíkti að minnsta kosti.

Mér tókst það

Komst í WorldClass aftur í annað skipti á einni viku. Ætlaði reyndar að fara í gær en komst ekki því það var ekkert bílastæði í kílómeters radíuss út af einhverjum ólukkans fótboltaleik sem við ísslndingar gátum síðan ekkert í.

Var svo hroðalega óheppinn að rekast á tvo félaga úr vinnunni og fara að hlaupa við hliðina á þeim. Ég gat reyndar tekið þá í nefið á hlaupabrettinu en á eftir varð ég auðvitað að lyfta með þeim. Þeir aumkuðu sig yfir mig og drógu yfirleitt helminginn af lóðadraslinu af stönginni þegar ég var að reyna mig og ég fékk líka að vera súkkulaði og lyfta bara svona eins og ég nennti sem var sjaldan. Mér tókst samt held ég að fá þessar hroðalegu harðsperrur sem meðal annars lýsa sér í því að ég get varla beitt höndunum á lyklaborðið núna. Ég er sem sagt orðinn aumingi.

Annars ætti ég ekkert að vera að blogga þetta þar sem ég las einhvern tíman hjá ofurbloggaranum katrin.is að það væri ekkert hallærislegra en að blogga um að fara í líkamsrækt. En ég get ekkert að þessu gert. Lifi bara ekki meira spennandi lífi en þetta. Ég skal samt lofa að blogga ekki um hvert skipti sem ég drusslast þarna. Eða að minnsta kosti ekki ef mér tekst að gera þetta að föstum lið.

Vogarskömmin þarna sýndi síðan algjöran dónaskap og taldi mig vera yfir 94 kílóum. Þetta getur bara ekki staðist. Enda tók ég ekkert mark á þessu og er búinn að úða í mig köku með rjómaslettu síðan. Nammi namm.

Og síðan annars. Er þetta útlit á blogginu mínu ekki orðið dáltið þreytt. Er að hugsa um að breyta því. Gera það bara svona einhvern veginn steril. Eða hvað?

Wednesday, October 13, 2004

Skítapakk sem stelur Mogganum mínum

Það hefur galla að hafa ekki sér póskassa fyrir sína íbúð heldur að vera bara með einhverja sameiginlega lúgu fyrir alla. Það er einhver í húsinu sem ég er farinn að flokka sem skítapakk. Skammist ykkar. Ég er að hugsa um að hengja eitthvað svona upp við lúguna:
STOPP


Ef þú ætlar að lesa Moggann þá þarft þú að vera áskrifandi að Mogganum.

Ef þú endilega verður að lesa hann samt, þá vinsamlegast skila honum áður en ég kem heim úr vinnunni...


Jábbs, helvítis skítapakk sem stelur Mogganum manns.

Og sárt að sjá hann þarna þegar maður fer í vinnuna á morgnanna og svo þegar maður kemur heim er han gjörsamlega hvorfinn.

En mér er síðan spurn. Hvað er það eiginlega með þetta landslið? Jafnvel þegar allir eru búnir að afskrifa það þá getur það ennþá ekki neitt!

Mynd vikunnar: Some parts of some parts of an old white house

Þar sem ég er alltaf að þykjast vera svo mikill ljósmyndari er ég að hugsa um að setja eina svona mynd á bloggið í hverri viku.

Þessi var tekin fyrir keppni á Dpchallenge þar sem viðfangsefnið var að taka mynd af hluta einhvers. Mér datt ekkert annað í hug en að taka mynd af húshluta og þá helst til að myndin væri örugglega í samræmi við það sem átti að vera þá hafði ég líka á henni hluta af glugga og dyrum hússins.



Sjá nánar á dpchallenge. Myndin þótti annars ekkert sérstök og komst ekki á topplistann minn sem er nú samt ekki neitt sérstaklega hár!

Monday, October 11, 2004

Hvers á aumingja Bush eiginlega að gjalda

Mér finnst þetta ekki fallegt að ráðast svona að aumingja manninum og að bera það á hann að litli kassinn á bakinu á honum sé senditæki er náttúrlega bara fáránlegt.




Hann segist sjálfur vera bara með ónýtan skraddara en ég held að það sé bara fyrirsláttur. Það er greinilegt að maðurinn er orðinn kripplingur, sem kemur svo sem ekki á óvart undan öllu oki hryðjuverkanna. Og það er ekki fallegt að menn verði fyrir aðkasti vegna líkamlegra lýta eða annarra slíkra vandamála.

Kannski ætti hann að sækja um sem hringjari við eina kirkju í París eftir kosningarnar.

En þessar ásakanir eru hvílíkt kjánalegar að það þarf ekki einu sinni að ræða þær. Enda er aðallega verið að bulla um þetta á Internetinu og eins og allir vita þá er aldrei neitt satt eða rétt sem er þar. Og eins og einhver á vegum Búss litla sagði að þá er ekki meira að marka þetta Internet en að einhver spekingurinn sagði víst þar að Elvis Presley myndi stjórna einhverjum kappræðufundinum. Nei ef slíkt heyrist einhvers staðar þá er auðvitað sjálfgefið að allt annað sem heyrist þar er bull og þvaður.


En þessu ótengt. Ég heyri útundan mér í gjallarhornum Baltasar Kormáks held ég. Það er verið að gera bíó hérna í neðar í götunni.

Ræktin rokkar og mér er íllt í buddunni - eða kannski frekar í Visakortinu

Það gerðist margt hjá mér í dag en ekkert merkilegt. Ég sá að Visareiningurinn er ekki kominn upp í nema 39 þúsund. Og miðað við hvað langt er liðið á mánuðinn þá finnst mér það harla gott. Reyndar vantar sukk síðustu helgar þarna inn. Les: Átveisluna sem var bloggað um í gær.

Ég tók síðan endanlega ákvörðun um að við núverandi slen og letilíf má ég ekki lengur búa og var strunsað niður í Laugardal og beiðst endurnýjunar á árskorti. Ég þóttist fá áfall þegar ég sá hvað það kostaði. Þurfti reyndar ekkert að þykjast en bar mig aumlega. Sérstaklega þar sem ég hafði séð einhvers staðar staðgreiðsluafslátt upp á 10% sem núna var hvegi minnst neitt á. Stelpan sem var að afgreiða hafði ekki mikinn skilning á þessum miðaldra karli sem veinaði eins og stunginn grís og hún hafði ekki vit á því að benda mér á að staðgreiðsluafslátturinn sé bara kominn inn í verðmiðann því ég held að þessi upphæð sem ég borgaði hafi verið afsláttarverðið sem ég átti von á að borga. En lága Visa upphæðin sem ég var búinn að sjá í hillingum sem sem sagt horfinn út í buskann.

Síðan þegar inn kom. Þetta var fínt en á dauða mínum átti ég von en ekki að það gæti verið svona skelfilega margt fólk þarna í einu. Ég held að ég hafi ekki séð jafn mikið af fólki síðan á menningarnótt. Það var reyndar hægt að komast á hlaupabretti og þetta var bara ágætt. Maður þarf að minnsta kosti ekki að vera einmanna á svona stað!

Síðan komst ég að því á hlaupabrettinu að ég er ekki enn orðinn að algjörum aumingja þó það nálgist nú reyndar. Vigtin þarna í er síðan meira biluð en venjulega. Svo ég ljóstri upp leyndarmáli, þá heldur vogardrusslan því fram að ég sé 93,9 kg og það á typpinu *roðn*


....

Friday, October 08, 2004

Hálf bíóferð... eða hálfvitar að fara í bíó?

Ég fer líklega ekki nógu oft í bíó. Dró brójann minn með mér í kvikmyndahús fyrir tveimur dögum frekar en einum. Við ætluðum að sjá Næsland myndina. Jújú hún er sýnd í Háskólabíó.

Brójinn var á undan mér í miðasöluna og ég heyrði hann biðja um miða í sal eitt. Þannig að ég bara bað um eins miða. Það voru eitthvað undarlega fáir á myndinni fanst mér. Já auðvitað rifjaðist upp fyrir mér þegar auglýsingarnar byrjuðu. Fólk er náttúrlega alveg hætt að mæta í bíó fyrr en hálftíma eftir að myndin átti að byrja því þá fyrst eru auglýsingarnar búnar. Við fórum samt að fá eitthvað frekar óþægilegt á tilfinninguna. Af hverju eru svona fáir á þessari mynd? Er ekki nýbyrjað að sýna hana? Fer enginn lengur að sjá íslenskar myndir eða hvað?

Jæja ég hætti að hugsa um það. Reyndi bara að þrauka öll þessi brot sem þurfti að sýna úr einhverjum væntanlegum myndum sem ég mun örugglega ekki sjá. Er þó búinn að sjá einhver brot úr þeim.

Svo byrjaði myndin og hinn illi grunur varð staðfestur. Wimbledon heitir hin dásamlega mynd sem við höfðum álpast inn á. Er svona heimildarmynd um Wimbledon keppnina og einkum ástaræfintýri einhverra keppenda þar og afskipti föður hennar af sambandinu. Já mjög svo áhugavert. Ég veit reyndar ekki af hverju en mér fannst eiginlega meira gaman að horfa á sýnishornin úr væntanlegu myndunum. Það gæti verið af sömu ástæðu líka að sætin okkar voru auð eftir hlé.

En sem sagt. Ég á enn eftir að sjá Næsland og ég treysti bróður mínum ekki aftur til leiðsagnar um kvikmyndahús.

Reyndar sáum við á leiðinni út að snillingarnir sem reka Háskólabíó eru búnir að breyta númerunum á sölunum. Stóri salurinn heitir bara "Stóri salur" eða eitthvað álíka frumlegt. Hinir salirnir heita síðan áfram bara svona númer 1 og 2. Ætli þetta séu ekki áhrif frá Smárabíói þar sem einhver salurinn heitir Lúxusalur.


....

Annað dularfullt símtal

Það er mið nótt


Ring ring
ring ring
ring ring ... Það er sko mið nótt og þá vaknar maður ekki alveg strax
ring ring ... Hvur skrambinn ætli eitthvað hafi komið fyrir í vinnunni.
Ég: uuhh Halló (bæði syfjulegur og óttasleginn)
hviss bang krussjh (skruðningar)
Hinn: Hello... hvert har jeg ringet to
Ég: Du har ringet til Issland
Hinn: Hvad ?
Jeg: Ja, det er Island....
Den anden: Eitthvað illskiljanlegt tuldur á dönsku, færeysku eða einhverju þaðan af verra
Jeg: Ja-ja.. bless

Svo lögðum við bara báðir á. Það er ekki á hverjum degi sem maður hringir í skakkt númer á milli landa eða lendir í því að einhver úkklendingur hringir óvart í mann um miðja nótt.


Minnir mig annars aðeins á ástand sem var heima hjá mér fyrir svona 15 eða 20 árum. Þá var alltaf einhver að hringja heim í skakkt númer frá Júgóslavíu minnir mig. Það var á meðan allt logaði þar í ófriði. Mig minnir eiginlega að þetta hafi verið íslendngur. Að minnsta losti var hann alltaf að reyna að ná sambandi við fjölskyldu sína sem bjó þarna annars staðar í Breiðholtinu. Línunum sló einhvern veginn svona undarlega saman en yfirleitt náði hann rétt í svona fimmtu tilraun. Stundum hafði hann síðan ekki tíma til að hringja svo oft og þá kom það fyrir að hann lét okkur fyrir skilaboð og svo hringdum við bara áfram innan Breiðholtsins í fjölskyldu mannsing og létum vita að það væri allt í lagi með hann í hinni stríðshrjáðu Júgóslavíu.

En síðan eru liðin mörg ár. Ekki lengur jafn mikill ófriður í Júgóslavíu, maðurinn vonandi löngu kominn heim til sín, ég ekki lengur í Breiðholtinu heldur kominn niður á Hlemm eða þannig en símakerfi heimsins ennþá örugglega bilað einhvers staðar og ennþá hringja menn í röng númer. Svona stundum að minnsta kosti og þurfa þá að spyrja í angist "hvor har jeg ringt til?" þegar það svarar einhver með undarlegru svefnþrungnu íslensku "Hallói".

Af okkur kisu er annars allt gott að frétta. Hún er reyndar hætt að vilja vera svo mikið í feluleik. Er að byrja á nýjum leik sem heitir "Elta netsnúruna sama hvað það kostar".

Wednesday, October 06, 2004

Þegar maður keyrir á sinn eiginn bíl


Ég hef átt tvo bíla lengi. Að minnsta kosti í mörg ár. Einkar snjallt að geta haft tvenns konar bíla í eini. Annar er sko jeppi en hinn fólksbíll. Já svona annar til að fara á fjöll en hinn til að snattast á í bænum gæti maður haldið. En nei reyndar ekki í mínu tilfelli þar sem jeppinn hefur verið eitthvað lasinn upp á síðkastið og ekki farið í marga útreiðartúra.

En til hvers? Jú það er alltaf rosalega gott að eiga einn jeppa á stórum dekkum þó hann keyri nú ekki mikið. Uppgötvaði síðan í morgun alveg nýja fítus í þessum bílamálum mínum. Tveir bílar eru nefnilega forsenda þess að maður geti keyrt á sinn eigin bíl. Það tókst mér sko í morgun. Ég var ekki kosinn ökuþór fyrirtækisins fyrir ekki neitt sko.

Hafði lagt bílnum sem vill keyra beint fyrir aftan hinn kvöldið áður og svo þegar ég var að leggja af stað þá rann sá keyrandi 5 sentimetra áfram og á hinn og *bölv* það brotnaði aðeins úr einhverri skrambans *bölv* grjóthlíf á ökubílnum. Það sá náttúrlega ekki á stöðubílnum, enda sér ekki á svörtu og heldur ekki von á miklum beyglum þegar einhver vesæll fólkgsbíll keyrir undir stuðarann á alvöru jeppa [sem reyndar keyrir aldrei neitt lengur].

Síðan til að fullkomna daginn fyrir mín ökuæki þá tók löggan upp á því áðan að gera einhverja athugasemd við græna miðann á ökubílnum minum. *bölv* aftur og *ragn* bara líka. Og til að auka enn á gleði mína yfir þessu öllu þá varð veskan mín með ökuskírteininu mínu eftir í vinnunni í dag. Og ég alveg skilríkjalaus. Líklega bara heppinn að hafa ekki lent í grjótinu!

Ég er að hugsa um fara gangandi í vinnuna á morgun.


PS þessi kattarómynd er orðin svo kelin við mig að hún nuddar sér stöðugt upp við hendurnar á mér þannig að ég er farinn að vélrita tóma vitleysyygbvsjsfnf fisjf.

Dagur eitt í lífi kattapassara


Það er ekki tekið út með sældinni að passa kött. Að minnsta kosti ekki ef kötturinn er Lottufrottuprott eða þannig.

Ég lofa eiginlega guð fyrir að búa ekki í stærri íbúð eða einhverjum búngaló. Ég myndi ekki bjóða í það. Nógu erfitt er nú að finna kattarómyndina í mínum 80 fermetrum eða hvað slotið er nú.

Ég og kisa eigum nefnilega tvo uppáhaldsleiki, sem reyndar eru afskaplega ólíkir. Annar heitir feluleikur og er nokkuð klassískur en reyndar aðallega þá innan mannheima. Ég hef að minnsta kosti aldrei farið í feluleik við kött áður. Reyndar má gera ráð fyrir því að kisugreyið hafi álitið að ég væri í feluleik þegar ég bara hvarf í morgun og fór í vinnuna. Hún veit náttúrlega ekkert um það hvað vinna er eða í hverju maður getur lent þar. Nei, hún sá mig bara hverfa og áleit að ég væri svona suddalega góður í feluleik. Þannig að hún bara faldi sig líka. Ég held að það hafi tekið mig heilan klukkutíma að finna kattarómyndina þegar ég kom heim úr vinnunni. En það tókst.

Og núna vill hún ekkert leika meiri feluleik í bili. Núna er það leikurinn bannað að hætta að snerta mig. Sá leikur gengur út á að halda snertingu eins lengi og mögulegt er. Jábbs, gæti verið voða rómó en þetta er nú bara svona lítil kisa eða þannig.

En sem sagt eftir að hún hætti í feluleiknum er ég búinn að vera önnum kafinn í kisuklappi og kalla ég nú reyndar ekki allt ömmu mína í þeim efnum.

Núna er hún síðan bara að horfa á sjónvarpið. Ég þarf raunar á fund í kvöld út í bæ. Já eitt af þessum félögum sem ég hef látið plata mig til að verða formaður í. Kannsi ætti ég að hafa kveikt á imbanum fyrir hana á meðan ég bregð mér af bæ. Það skiptir annars ekki miklu. Hún gerir líklegast ráð fyrir að ég sé bara í feluleik og svona rosalega klár að fela mig.


....

Dularfulla símatalið


Stundum fær maður bara svona símtöl!


Ringring (Síminn sko)

Sæll Helgi (Sá sem var í símanum sko)

Ha já? (Ég sko. Ég heit reyndar ekkert Helgi en maðurinn í símanum var bara svo ákveðinn í að ég væri Helgi)

Er frúin heima?

Ha nei, hvert ætlaðir þú að hringja?

Er þetta ekki hjá Guðrúnu?

Ha... nei.

Nú þá hef ég hringt eitthvað vitlaust.

Já greinilega

Er þetta annars símanúmer 5678988?

Ha já

Jæja biðst afsökunar


Ég er bara að velta fyrir mér, hver þessi Helgi eiginlega sé og hvort að hún Guðrún viti af þessu.

Tuesday, October 05, 2004

Það er komin kisa


Haldðekki að það sé komin kisa á heimilið. Reyndar fékk ég hana bara að láni en hún er alveg lifandi samt. Getur malað og allt.

Hún var reyndar eitthvað ferlega stúrin fyrst. Byrjaði á að fela sig uppi á háalofti í einn klukkutíma. Skreiddist síðan undir rúm en var að koma út og er búin að mala smá fyrir mig og allt. Enda er ég alþekktur kattavinur eins og alþjóð veit, ja eða svona sumir. Stóð ekki einhvers staðar þjóð veit þá þrír vita.

Þetta kemur síðan til af góðu bara. Það er mamma manns sem á þessa kisu og reyndar þrjár til viðbótar. Já hún er ekki alveg normale sko eða þannig. Og þar sem hún er að fara á sjó þá kom hún öllum kisunum í pössun til okkar frændsystkina þeirra kisanna sko sem eru þá systkinin mín. Ein kisan reyndar fékk bara að vera heima í pössun hjá pabba sínum.

En þetta verður bara gaman, svo framarlega sem hún stingur ekki af. Æðir upp á þak eða eitthvað. Og svo hef ég yfirleitt meira en lúmskt gaman að því þegar mamma mín að nálgast sjötug er bara stokkin á sjóinn og kemur ekki heim fyrr en eftir mánuð. Jám það er töggr í okkur af mínum ættum báðum reyndar.

Er síðan held ég að ná einhverri heilsu aftur. Lét mig meira að segja hafa það að fara í bæinn til að taka mynd fyrir myndakeppni á dpchallenge eftir vinnu. Það var bara ein þykkapeysan, húfa og vettlinar í kuldanum. Sé svo í fyrramálið hvort myndin gerir einhverjar rósir. Ég er að minnsta kosti sæmilega sáttur við hana.

En best að fara bara að sofa. Það kemur nýr dagur á morgun ætla ég rétt að vona.

Sunday, October 03, 2004

Live nude club á Hlemmi


Ég skrapp út í búð áðan til að eiga eitthvað umdeilt hollt/óhollt múslí með súkklaði með morgunamtnum í fyrra málið. Sá þá að meiriháttar framkvæmdir voru í gangi. Það ar verið að setja eitthvað dularfullt "prosptect - new innovation" skilti á KBúnaðarbankann. Fannst meira undarlegt að það var heill her af alls konar skiltaköllum þarna að setja upp skilti alveg út um allt. En nei annars, mér fannst þetta ekkert undarlegt og fór bara inn í 1111 þar sem enginn var að kaupa neitt þegar ég kom inn í búðina nema einhver úkklensk hjón sem gætu líklega keypt júgursmyrsl í staðinn fyrir smjör (heyrði einhvern tíman um einhverja útlendinga sem fannst skrítnast hvað smjörið hérna var afspyrnu vont. Höfðu leitað að einhverju með kú utaná í kaupfélaginu og fundu ekkert þannig nema eitthvað sem á stóð "Júgursmyrsl".) Þegar ég var búinn að kaupa mitt eðal músl og úkklensku hjónin aftur orðin einsömul í búðinni (reyndar með stelpunum sem voru að afgreiða sko) þá skoðaði ég betur þessi skilti.


"Singles bar" stóð á einhvers staðar.
Á spilavítinu á móti Hlemmi var komið risaskilti sem ástóð "live nude"


Nei þetta er ekki einleikið. Annað hvort er búið að gera byltingu eða það á svei mér þá að fara að gera bíó hérna í nótt. Ætli það verði nokkur svefnfriður fyrir þessu?

En kannski fréttir af mínu hroðalega heilsuleysi. Gafst upp í dag (eða reyndar nótt þegar ég var hættur að geta sofið fyrir skipsvélinni sem malaði innan í hausnum á mér) og dreif mig til læknis.

Ég veit ekki fyrir hvað ég borga þessa hálfu millu á ári sem mér taldist einhvern tíman til að ég borgaði í heilbrigðishítina í gegnum skattana mína. Hitti á einhverja ákaflega elskulega konu sem sagði að það væri ekkert að mér lengur. Ég væri bara með einherja dularfulla vökvasöfnun í eyrunum og öllum göngum og leiðslum í hausnum á mér. Það væri bara ekkert við þessu að gera nema bara að bíða. Þetta gæti tekið svona einn mánuð eða svo. Já takk kærlega - heilan mánuð. Og ég á sem sagt bara að vera eins og inni í búri í heilan mánuð og skilja varla hvað sagt er við mig. Það eina sem á að geta hjálpað er að ég haldi fyrir nefið og blási hressilega.

Síðan þá hef ég sem sagt verið mjög upptekinn við að blása og kvása hausinn út eins og ég veit ekki hvað. Ja fyrir utan það að reyna að gera meiri rósir í þessa voðalegu sunnudagskrossgátu hennar Ásdísar. Held reyndar að ég hafi náð svona um 20 orðum. Ekki slæmt. Næstum eitt orð á klukkutíma síðan ég fékk blaðið hendur

Það er ekki tekið út með sældinni að vera allt í einu kominn með vatnshöfuð.

Ég veit síðan ekki hvað mikið er að marka það en ég þykist vera eitthvað skárri. Eða ég svona reyni að ímynda mér það. Maður getur varla verið slappari en manni finnst maður vera sjáfur.

Friday, October 01, 2004

Það er loftræstikerfi inni í hausinum á mér


Mér er stundum tíðbloggað um heisluleysið á mér þegar það er heilsuleysi á mér. Það er núna eins og sumir vita. Það er einhver ólukkans prakkari búinn að setja loftræstikerfi inn í hausinn minn og það heyrist í því.

Ég er alla vikuna búinn að vera meira og minna einhvern veginn eins og í fjarska við allt og alla. Alveg einstaklega ömurlegt eitthvað. Hef varla getað haft eðlileg samskipti í vinnunni. Kannski þess vegna sem mér hefur að vissu leyti orðið vel að verki.

Þetta er dálítið eins og það sé einhver skán á milli heilans og eyrnanna. Ef einhver segir mér eitthvað sem ég þarf að skilja þá virkar það til dæmis alls ekki. Eftir þriðju eða fjórðu tilraun fer ég svona að kinka skilingsvana kolli og vona að ég skilji eitthvað einhvern tíman.

Síðan geta þetta ekki verið almennileg veikindi með háum hita og óráði eða uppköstum. Neinei. Ég rétt næ 37 gráðunum og get ekki hóstað eða sogað upp í nefið nema svona rétt til hátíðarbrigða. Svona til að senda út beiðni um smá meðaumkun. Sem ég hef nú reyndar fengið stundum. Að minnsta kosti vita orðið flestir sem eru að vinna með mér að ég er eitthvað ferlega slappur. Enda ekki eðlilegt að segjast ekki komast út á Jensen tvo föstudaga í röð vegna einhvers undarlegs krankleika.

Var síðan búinn að panta miða á Hárið með vinnunni minni í kvöld og fór bara. Það var reyndar alveg frábært. Hártónlistin yfirgnæfði alveg loftræstikerfið og ég var svona bara nálægt því að vera ég sjálfur og með sjálfum mér. Til allar guðsblessunar vinn ég bara með svona miðaldra fjölskyldufólki þannig að það varð ekkiert næturgölt á eftir. Allir fóru bara til síns heima. Ég líklega einn um að vera gangandi og kom við á Devitos og fékk mér tvær sneiðar í síðbúinn kvöldverð.

En þetta er síðan alveg voðalegt dónastykki. Ég meina, allt í einu voru bara allir á sviðinu komnir úr öllum fötunum og ég veit ekki hvað. En svona er víst ungdómurinn nútildags - það kann enginn lengur að skammast sín.

Ég veit annars ekki hvað í ósköpunum ég á að gera með þetta heilsuleysi. Hvort ég eigi að halda endalaust áfram að vera svona eitthað hálf veikur og fara kannski til læknis. Ojbara ég þoli ekki að fara til læknis. Það er svo leiiiiiðinlegt.

Er frekar að hugsa um að gefa bara skít í allan þennan krankleika minn og fara jafn vel í sumarbústaðaferð sem stóð til um helgina. Með heitum potti og alles. Fara síðan á mánudaginn og endurnýja WorldClass kortið og taka bara hraustlega á því. Væri örugglega snjallast. Og svo er ekki seinna vænnna fyrir mig að fara að koma mér í almennilegt form. Það styttist í hana Afríku.