Málið snýst bara um hvort það verður "Ísland ögrum skorið" eða "Ísland er land þitt".
Núna er þörf á að endurnýja þennan gamla sálm sem er greinilega algjör tímaskekkja. Við þurfum að eignast okkar alvöru þjóðernisbaráttusöng sem við getum til dæmis sungið hástöfum á íþróttakappleikjum þegar við tökum aðrar þjóðir í bakaríið á leikvellinum nú svo maður tali nú ekki um þegar stappa þarf stálinu í hinn íslenska friðargæsluher sem fer land úr landi í kjölfar hans Búss og hans pótintáta.
Og enda er þjóðsöngurinn okkar núna algjörlega ómögulegur og óskiljanlegur. Það væri auðvitað mikið betra að fá einhvern söng eins og "Ísland ögrum skorið" sem hvert mannsbarn getur skilið. Reyndar heyri ég ekkert marga tala um hið ögurskorna land eða skikkan skaparans sem kemur þar aðeins síðar en það má þá bara kenna þjóðinni það.
Eða "Ísland er land þitt". Það er svo fullkomið lag að ég held reyndar að það sé ekki hægt að syngja það öðru vísi en með sínu nefi. Að minnsta kosti kemur það alltaf rammfalskt út úr mér.
Mér líst vel á þetta:
- Seljum hálendið
- Fáum popplag sem þjóðsöng
- Stofnum her
- Og leggjum svo Alþingi niður enda löngu orðið úrelt.
Get ég ekki bara fengið að syngja "Stál og hnífur" sem minn þjóðsöng eða "Yfir kaldan eyðisand"?
Annars minnir þessi bull umræða á Alþingi mig á það þegar einhver kverúlantinn vildi endilega fara að breyta klukkunni hjá okkur þannig að við gætum verið í kaffi á sama tíma og þeir í Brussel.
No comments:
Post a Comment