Thursday, July 14, 2022

Komist upp að honum Steini og meira að segja hjólað smá líka!

Við hann Stein - reyndar kominn í ullarbol en ekki lengur bara á stuttermabolnum

Batavegurinn reyndist vera í Esjuhlíðum - kom kannski ekki á óvart svo mikið. Dagurinn hefði átt að vera óhappa þar sem það var 13. júlí en veðrið var gott og ég lét vaða fyrir hádegi upp að Esjusteini. Í kvartstutthlaupabrók og stuttermabol náði ég þangað upp og meira að segja innan þess eins klukkutíma marks sem er oft talið skilja á milli feigs og ófeigs. Þetta var nú samt næstum því 20 mínútum lakari tími en ég var á þarna í vor. En ég má víst bara teljast góður að Covid fór ekki verr með mig en þetta.

Svo var deginum breytt í frídag og afslappelsi eitthvað. Þar sem veðrið var eðal og ég ekki alveg búinn á því þannig séð þá var hjólað eitthvað. fyrir valinu varð hringur umhverfis Helgafell þeirra Hafnfirðinganna og gekk það barsta ágætlega.

......

....

Saturday, July 09, 2022

Eftir Covid - eða ekki alveg eftir Covid

Búin að vera skelfilega leiðinleg veikindi. Endalaust kvef núna og ekki góð líðan á nokkurn hátt. Er eitthvað frekar slappur á sálinni út af þessu og kannski öðru líka.

Ákvað í gær að láta reyna á hvort ég gæti eittvað og gengið áleiðis á Esju. Rétt fyrir ofan lækinn á eystri leiðinni sneri ég við. Hellan á hægr eyranu á leið inn í hausinn og sá ég fram á að ef ég héldi áfram myndi mér líklegast slá niður. Virðist svo sem ekki hafa látið stórkostlega á sjá eftir þennan göngutúr en óttalegur aumingi er ég þessa dagana.

En ég á þó allavegana flotta lopapeysu :-)

Svo má færa til bókar að ég er kominn með nýjan síma sem virðist ekki virka sérstaklega vel með Drónunum mínum. Fæ bara svartan skjá fyrir Mavic Mini og frosinn svarthvítan skjá með Mavic 2.

Saturday, July 02, 2022

Þá náði Covid mér!

Ég var í alvörunni farinn að halda að ég myndi sleppa við þessa Covid skepnu - en það er líklega ekki í boði nema með endalausri einangrun. Ég hef svo sem ekkert verið að einangra mig neitt sérstaklega en er svo sem heldur ekkert útum allt innan um allt og alla... introvert extrovert sem ég er. En eftir að hafa farið í minn fyrsta gædatúr með hóp útlendinga þá endaði það með smiti í hópnum - hvaðan sem það nú kom og hvert sem það nú fer.

Kom heim seint á föstudagskvöld og var svo í minni venjulegu vinnu á mánudeginum. Hjólandi í vinnuna og eða en alveg rosalega þreyttur eittvað e hjólaði samt langa leið heim. Þá var ég orðinn eitthvað skrýtinn. Kominn með beinverki í hnén og ekkert í of góðu standi. Lagði mig og varð mér svo út um Covid próf, sem var ekkert auðvelt því þau virðast núorðið bara vera til í apótekum. En mitt test arna fyrst, var bara eins og venjulega neikvætt!

Slappur veikur heima allan þriðjudag og reyndar verst að þetta var eiginlega alveg eins og upphafið að hræðlegu veikindunum eiginlega nákvæmlega fyrir ári síðan. Ég var farinn að óttast það versta. En svo frétti ég af því að það væri Covid smit í hópnum og test númer 2 hjá mér er hér að neðan.

Heyri svo í fréttum að þennan eina dag sem ég greindi sjálfan mig með þennan stórhættulega sjúkdóm sem hefur drepið milljónir á milljónir ofan - er það mikið grasserandi á Íslandi um þessar mundir að þann daginn greindust opinberlega yfir 400 manns með Covid á Íslandi. Ég er ekki þar á meðal því ég sá ekki neina sérstaka ástæðu til að fara í einhverja opinbera greiningu. Varla þörf á því nema ég yrði (eða hefði orðið) eitthvað hroðalega veikur. Ég skil hins vegar alls ekki hvað er erfitt að verða sér útum Covid sjálfspróf ef Covid er þetta mikið útbreitt í þjóðfélaginu núna.

Það helsta sem er líklega vitað um Covid er að þetta er ókikindatól og þetta eru undarleg veikndi. Er alveg hroðalega þreyttur, jafnaðargerð fyrir því að eitthvað sé ekki að virka rétt í fyrstu atrennu er eiginlega ekkert og ég er eiginlega bara leiðinlega viðskotaillur. Kannski eins gott að það reynir ekkert mikið á mannleg samskipti hjá mér í þessu nema þá í gegnum síma.

Núna á laugardegi búinn að vera hitalaus í líklega frá á fimmtudag og Garmin er ekki lengur að greina neitt einkennilegt. Ég ætti a.m.k. að geta hvílt mig og safnað kröftum aftur. En mikið djöfull er þetta leiðinlegt!

Í fyrsta skipti að gæta erlendra túrista

Túristi og gæd við Hver í Námaskarði

Það var eitthvað mánuði fyrr að það var spurt mig eitthvað sem þótti ólíklegt, hvort ég myndi stökkva til og fara með sem fararstjóri með hóp Bandaríkjamanna þar sem það vantaði aukafararstjóra því hópurinn var kominn yfir mörk sem var miðað við fyrir einn fararstjóra. Ég kom á óvart og stökk til.

Það að fara með hóp útlendinga í lúxusferð í hótelgistingu og gönguferðum á hverjum degi er dálítið annar vinkill en ég hef verið að fara sem fararstjóri hingað til. Eiginlega mjög margt sem ég þurfi að undirbúa mig, hugsa eða haga mér öðruvísi en í öðrum ferðum.
  • Öll leiðsögn yrði á ensku
  • Þar sem þetta var dálítið dýr ferð þá mætti gera ráð fyrir að fólkið gerði talsvert miklar kröfur
  • Margra daga ferð með fólkinu yfir daginn og á hótelum um kvöld kallar á talsvert flóknari fatapælingar en í öðrum ferðum
  • Ferð um Norðausturland á gönguleiðum út frá þjóðvegum - eitthvað sem ég hef í raun ekki veri að gera sjálfur í áratugi.
  • Mig langaði mikið til að standa mig sæmilega í þessu því ef ég myndi ekki klúðra þessu alveg þá gæti ég alveg fengið fleiri svona verkefni.
  • Og kannski ekki síður að þá hafði ég ekki mikinn áhuga á að klúðra þessu fyrir hönd samfararstjórans - en svo sem ekki mikil hætta á því.
Í heildina þá tókst þessi ferð okkar ágætlega en það gekk nú samt alveg á ýmsu flesta dagana. Upplýsingar ekki að skila sér rétt til hótela, ófyrirséðar breytingar á gistingu og fleira að valda álagi á köflum. En þetta slapp allt saman til og vel það og líklega allir ágætlega sáttir við þátt okkar fararstjóranna í þessu held ég. Það er spurningin hvort maður taki að sér svona aftur ef gefst... jú ætli það ekki :-)
Dettifoss