Alveg er það undarlegt hvaða heimilistæki vekja áhuga kisuhugans.
Þvottavélin var strax stimpluð sem hið hættulegasta óargadýr. Fyrst eftir að fyrri kisan kom í pössun þá flúði hún alveg lágmark undir stól ef ekki upp á háaloft í hvert skipti sem ég tók upp á því að þvo. Þessi hræðsla við þvottavélina hefur reyndar eitthvað rjátlast af henni og kannski líka hugrekkið vaxið við að fá annan kött í lið með sér til að ráðast á skrímslið.
Uppþvottavélin hefur ekki verið álitin jafn hættuleg og var litli Bjartur alveg ólmur að komast undir hana þegar hún fór í gang í morgun. Ískápurinn er síðan álitinn hið al dularfyllsta fyrirbæri. Held að báðar kisurnar viti að þar inni er eitthvað alveg sérstaklega spennandi.
Það sem báðar kattaskammirnar hafa mestan áhuga á er samt tölvuprentarinn. Það hreyfist eitthvað dularfullt ljós innan í honum og hann spýtir út úr sér pappír. Núna var Lottukisan rétt í þessu að reyna að veiða útprentanirnar mínar og var komin á bakvið prentarann til að reyna að komast að því hvaðan í ósköpunum þessi pappír eiginlega kæmi. Hún áttaði sig sem sagt á því að þetta gæti varla verið maskína sem væri bara að búa til pappír.
En nóg komið af bulli í bili, verð að fara að gera eitthvað af þessu sem ég þóttist ætla að gera í kvöld.
No comments:
Post a Comment