Sunday, February 27, 2005

Rífum Laugaveginn...

Af því að mér leiðist að vera á móti án þess að vita hvað ég er að tala um þá fékk ég mér göngutúr niður Laugaveginn eftir hádegið í gær og skoðaði þessa húskofa sem er búið að gefa tortímingarleyfi fyrir. Var með myndavélina með mér og má sjá hér.

Og vissulega er það rétt. Við Laugaveginn er fullt af ljótum skúrbyggingum sem var hróflað upp af vanefnum á síðustu öld og eru kannski ekki eitthvað sem maður á von á að sjá í miðbæjum höfuðborga forríkra þjóða. Og það er kannski eðlilegt að rífa slíkt.

En það er hins vegar fullt af húsum þarna sem á að rífa sem eru alls engar skúrbyggingar og það er líka eitthvað af húsum þarna sem á ekki að rífa en eru óttalegir skúrar. Það er það sem ég eiginlega skil ekki. Og almennt þegar ég skoðaði hvað átti að rífa og hvað ekki þá gat ég ekki séð nein skynsamleg rök fyrir því. Almennt á samt að rífa miklu meira fyrir norðan Laugaveg en fyrir sunnan Laugaveg. Hentistefnustjórnun datt mér reyndar í hug.

Síðan eru ein aðal rökin fyrir því að rífa húsin að það sé gert til að efla verslun á Laugaveginum því eins og allir vita þá kemur enginn á Laugaveginn eins og hann er núna. Samt var það þó einhvern veginn þannig að fyrr um daginn hafði ég ætlað að keyra niður þennan sama Laugaveg en gafst upp á því vegna þess að hann var sneisafullur af bílum. Endaði á að rölta með myndavélina enda miklu meira gaman að labba innan um allt fólkið.

Það er nefnilega yfirleit þannig að maður kemst hvorki lönd né strönd á bíl niður Laugaveginn (a.m.k. um helgar og í lok dags) og ef maður fær sér göngutúr þar niður þá mætir maður einhverjum hundruðum held ég, þó ég hafi svo sem aldrei talið.

Ég efast verulega um að nýbyggingar hjálpi kaupmönnunum þarna sem sjá aldrei neitt fólk á Laugaveginum. Einhvers staðar er til orðatiltækið að árinni kenni illur ræðari. Ætli það gæti átt við þarna?

En nokkrar myndir úr þessari myndasýningu minni:

Þessi á að rífa:
73 Kaffi Vin og Midbarinn X
45 X

29 X


Þessi á ekki að rífa:
48 NEI
32-daman NEI
Ég get ekki að því gert að ég get ekki kallað þetta annað en skúra (það er þetta efra) en mér skilst að þá eigi að "vernda" eða að minnsta kosti ekki rífa. Átti ekki að vernda það sem átti ekki að rífa annars.
66 NEI
Þetta hús lýsir því síðan ákaflega vel hvað ég óttast. Sá sem telur að þetta hús sé mjög smekklegt er ekki sérlega smekklegur að mínu mati.

Eða þetta hér:
18-2 NEI

Síðan skal það alveg játast að margt af því sem hefur verið gert síðustu ár er bara nokkuð smekklegt:
22 NEI

Og mér skilst að það eigi ekki að rífa Laugaveg 22.



Niðurstaðan er eiginlega sú að ég skil engan vegin af hverju eitt er rifið en ekki annað. Sumt sem á að rífa finnst mér að sé ekki bein þörf á að rífa og sumt sem á ekki að rífa finnst mér að ætti að rífa sem fyrst. Ég er sem sagt ekkert alfarið á móti þessu eftir að hafa fengið mér göngutúrinn en ég held að það sé ekki rétt að þessu staðið og þetta er allt of mikið og líklega tilviljanakennt hvað er rifið og hvað ekki.

Það sem ég óttast síðan mest er að þetta verði tómt klúður. Öll nýju húsin muni þykja forljót skipulagsmistök eftir 30 ár eða svo og einnig óttast ég að framkvæmdirnar sjálfar gangi af Laugaveginum dauðum. Það er nógu slæmt ástandið núna þó það sé bara ein hola þarna þ.e. þar sem Stjörnubíó er. Og þar er samt bara búið að gera eina fjárans holu. Það er ekki búið að byggja neitt.

Heimildirnar um hvað á að rífa fann ég á mbl.is. Leitaði fyrst á borgarvefnum en fann ekkert um þetta þar þó borgarstjórinn hafi sagt í útvarpinu að þar væru myndir af öllum húsunum.

En skv. Moggafréttinni þá á að rífa:
Fram kemur í svari Skipulagssviðs, að húsin, sem heimilað hefur verið að rífa eru númer 4, 5, 6, 11, 12B, 17, 19, 20, 20A, 21, 22A, 23, 27, 28B, 29, 33, 35, 38, 41, 45, 55, 65, 67, 69 og 73 við Laugaveg.

Saturday, February 26, 2005

Uppgangur í glæpaheiminum

Nei ekkert merkilegt.
Rakst bara á þessa bloggfærslu hér um stórkrimmann sem gerði þau alvarlegu mistök að stela frönsku kartöflunum.

Sá síðan frétt um hvernig tekið er á illa gerðum veðurfræðingum í Russía. Ef þeir koma með einhverjar bull spár þá þurfa þeir bara að borga sekt og hana nú.

Mun líklega gera sig þannig að ef þeim verður það á að spá ekki fyrir snjóstormi þannig að engar göturnar verða ekki mokaðar þrátt fyrir fannfergi og allir koma of seint í vinnuna segjum um hálftíma að meðaltali. Þá þurfa þeir væntanlega að borga í sekt öll þau laun sem töpuðust.

Síðan ef þeir spá snjókomu og sem ekkert verður úr þá þurfa þeir að sjálfsögðu að borga fyrir óþarfan snjómokstur.

Ég myndi finna mér einhverja aðra vinnu ef ég væri veðurfræðingur þarna austur frá. Ætli þeir sem geta ekki borgað (sem eru þeir líklega allir) verði ekki sendir í Gúlagið. Já Sovét er greinilega ennþá til þarna einhvers staðar. Gott að það sé tekið á málunum með almennilegri festu!



Varðandi bloggleti mína síðustu viku þá stafaði hún kannski af því að ég skuldaði eina örstutta blaðagrein og kunni ekki við að vera að bulla blogg á meðan ég var í skömm með það.

Tuesday, February 22, 2005

ljosmyndakeppni.is = nöldurvefur ársins

Af því að ég er með þessa voðalegu ljósmyndadellu eins og kemur fram út um allt mitt blogg þá fór ég að skoða vefinn ljosmyndakeppni.is. Hann er (eða var) hugsaður fyrir alls konar ljósmyndaumræður og ljósmyndakeppni held ég en hefur einhvern veginn snúist upp í það að vera endalaust karp um ekki neitt eða að minnsta kosti eitthvað sem ekki er hægt að komast að neinni niðurstöðu með.

Umræðurnar eru ótrúlega mikið farnar snúast um það hver hafi verið að dissa hvern og hver ætti að fara í bann og svo framvegis.

Það sem ég sá þarna síðast og er svona grín sem maður getur skoðað þegar manni leiðist og er búinn að skoða dilbert en það er umræðuþráðurinn um skítakommentin. Það byrjaði með því að einhver fór að kvarta yfir að komment um myndir væru allt of neikvæði (sem reyndar er hárrétt þar sem það er eitthvað undarlega þenkjandi lið þarna sem hefur það áhugamál að gera lítið úr öðrum) og að það yrði bara að gera eitthvað í málinu. Þetta byrjaði einhvern tíman í gær og núna er hver mannvitsbrekkan á fætur annarri þarna búin að taka undir og vera á móti til skiptis. Síðan koma svona skot þarna inn á milli um að þetta sé fáránleg umræða og þá er hægt að hafa umræður um að umræðan sem verið er að taka í sé fáránleg.

Þetta er reyndar dálítið leiðinlegt því inn á milli kemur sæmilegt efni þarna inn og ýmsir með alls konar reynslu segja frá hvernig hægt er að gera hitt og þetta. En einhvern veginn óttast ég að þeir/þær hljóti að hrökklast í burtu frá þessu. Að minnsta kosti nenni ég ekki að taka þátt í svona bulli.

Ég hef svo sem ekki tekið þátt í mörgum umræðuvefjum en ef þeir eru allir svona þá guð hjálpi oss. Ekki meir ekki meir!

Botnssúlur á laugardegi


Til undirbúnings Kilimanjaró göngunnar og til almennrar skemmtunar var farin fjallaferð á Blotnssúlur laugardaginn 19. febrúar.

Það var lagt snemma af stað úr bænum og ætt austur á Þingvöll. Tók reyndar dálítið langan tíma að komast af stað því lengi er von á einum. Safnast var saman við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum. Þar var sólarupprásin í algleymingi og kraftlyftingamót eins og það gerist best. [þetta með kraftlyftingamótið er svona frekar lókal og þeir sem voru á staðnum skilja það meira að segja fæstir, en þetta er dularfull tilvitnun í Heimsljós minnir mig]



Þegar ekki var von á neinum til viðbótar og hægt að halda af stað og var farið inn í Bolabás og inn að eyðibýlinu við Svartagil. Þar fékk Indriði upphafsmaður ferðarinnar og sérlegur fararstjóri á uppleið, þá snilldarhugmynd að festa jeppann sinn. En naut hann þar dyggrar aðstoðar heldur slaks framdrifs.


Eftir að breska heimsveldið hafði kippt festunni í liðinn var haldið af stað.

Gömlu mennirnir fengu smá forskot enda ætluðu þeir að fara eitthvað styttri leið upp heldur en við yngri menn og Kilimanjaró farar hugðumst fara.

Sjást þeir arka þarna fremstir á myndinni.
Svo þeir skilji sem ekki vita þá má koma fram að þessir gömlu menn voru Ari Traustu Guðmundsson og Árni Árnason sem hugðust fara einhverja klifurleið þarna upp. Voru þeir vopnaðir hinu ólíklegasta klifurdóti svo það hringlaði í.

Við hinir hefðbundnari gengum á okkar hraða. Það stóð reyndar til að reyna að ganga hægt þarna upp til að æfa gönguhraðann fyri Kilimanjaró. Veit nú reyndar ekki alveg hvernig það tókst.

En náttúran skartaði sínu fegursta þennan dag þó reyndar væri alls ekki heiðskírt enda ekkert gaman að því. Eftir að ferlegur ljósmyndarinn var búinn að brenna skýin út í eitt þá var þetta allt orðið svona dálítið speisað!


En upp á toppinn komumst við samt öll á endanum og fengum okkur smá að borða

Og sumir fóru bara að skoða Fréttablaðið. / ættum kannski að fá þá sem styrktaraðila eftir þetta!


Á niðurleiðinni voru teknar meiri myndir og sprellað aðeins líka




En niður komumst við öll einhvern veginn


Það er síðan hægt að skoða í einhvern tíma meira af myndum og í stærri útgáfu hér:
http://kilimanjaro.heima.is/myndir/botnssulur2005/index.html


Kort sem sýnir leiðina:
http://photos6.flickr.com/5460704_24b33ca416_o.jpg

Monday, February 21, 2005

Myndin mín

On the road again

Já þetta er nefnilega ég sko.

Er dáldið montinn af henni en líka alver rosalega fúll. Hún var nefnilega að koma úr myndakeppni á DPC og fékk rosalega háa einkunn en samt engin verðlaun þar sem það voru einhverjar þrjár aðrar ólukkans myndir sem fengu hærri einkunn.

Það eina sem ég get kannski huggað mig við er að ég varð þó fyrir ofan alla hina Íslendingana þarna á DPC (og það er ekki lítið afrek get ég samt þeim sem ekki vita) og síðan kannski líka að þá reiknaði ég ekki með neinum voðalegum afrekum af þessari mynd í upphafi ef ég svona miða við þær hrakfarir sem ég fer yfirleitt þarna.

En samt þá held ég að það hljóti að flokkast undir svindl á þessum vef þarna að eiga mynd með einkunn 7,3 eitthvað en hafa ekki fengið nein verðlaun fyrir það. Já tómt svindl.

En jú líklega er Þetta ágætis mynd. Veit þó ekki alveg hvernig hún lýsir mínum persónuleika...

En síðan um afmæliblogg þá geri ég alltaf eins og mér er sagt. Fyrst var mér sagt að halda afmælispartý og svo aftur og síðan enn aftur. Stundum sagði ég já og stunum sagði ég svona humm en aldrei sagði ég nei. Síðan var farið að segja mér að halda ekki afmælispartý og þannig endaði það auðvitað að ég hélt ekkert partý. Bauð reyndar svona systkinum og foreldrum í mat og það var auðvitað alveg steikt... Hvað þýðir annars þetta steikt?

Ég fór síðan í frábæran fjallgöngutúr á laugardaginn. Það koma myndir frá því einhvern tíman seinna í dag geri ég ráð fyrir.

Tuesday, February 15, 2005

Þarf að læra að segja nei

Er dálítið að krebera [eða segir maður krepera, hvurslags orðskrípi er þetta eiginlega? - hef aldrei skrifað svona áður held ég]

Það er allt of mikið að gera og ég kann ekki að segja nei. Var núna síðast að ákveða að hafa pínulítið afmælispartý og bjóða í mat á föstudaginn. Já nauðsyn að sýna vinunum einhvern tíman að maður kunni eitthvað að elda. Já verður örugglega ekki neitt mikið eitrað.

Fékk síðan í afmælisgjöf frá þessum ólukkans DPC vef að sjálfsmyndin mín sem ég var með hérna á síðunni um daginn þar sem ég er frosinn á Krísuvíkurveginum [eða er það Krýsuvíkurveru, man það ekki en það er vitlaust á skiltinu þanga eða er það skylti. Ég man bara ekki neitt lengur er að verða vytlaus... vá vitlaus er fáránlegt með y... fer að ryfjast upp fyryr mér að eyn stepla sem vann í skirr hélt þvý fram að ég væry lélegur í stafsetningu... en það er ekky satt... nota bara i dálýtið undarlega...] en enývey... þá fékk ég það í afmælisgjöf þarna frá þessum vef að myndin mín er að fá einhverja fáránlega dóma á þessum vef.

Mjá,, trallalallala!

Annars er ég eiginlega búinn að sjá að það er alveg hroðalegt að fá góða dóma fyrir mynd þarna. Núna er maður að fara á taugum yfir hvort maður vinni keppnina eða hvað og þá hvort myndin manns verði ekki dæmd úr leik fyrir ólöglegar breytingar. En það er samt gaman af þessu.




....

Sunday, February 13, 2005

Svona lít ég út

Cest moi
Reyndar var ég með mynd hér að ofan sem er á DPC keppni en þar sem hún er að gera sæmilega hluti þá ákvað ég að setja aðra mynd af mér í staðinn. Bara ágæt líka.
.... sorrí Krúsi að með þessum hamskiptum á myndum verður kommentið þitt hálf kjánalegt.

Ég ætlaði reyndar að blogga eitthvað um hvað ég er í hroðalega vondu skapi en nennti því ekki. Veit ekki af hverju ég komst í svona vont skap. Hugsanlega tengist það þessari mynd eða kannski myndinni sem mér tókst ekki að gera almennilega. Það er nefnilega myndakeppni í gangi, já á vef dauðans þarna sem er alltaf að dissa mig og viðfangsefnið er sjálfsmynd. Ég hafði þá fannst mér stórgóðu hugmynd að taka mynd af sjálfum mér vera að taka mynd af sjálfum mér. Ætlaði að gera þetta heima hjá mér og var kominn með eitthvað herjarinnar ljós til að nota í lýsinguna. Það er skemmst frá að segja að þetta tókst með eindæmum alls ekki fannst mér og það sem helst kom í ljós var ótrúlegt magn af ryki og skít sem þessi ljósdrusla sýndi mér.

Pakkaði ég draslinu saman, losaði mig við versta skítinn og drulluna og fékk mér að borða afgang síðan í gær. Róaðist aðeins við þetta og sendi bara vegamyndina hér að ofan í keppnina. Hún er skítnógu góð fyrir þennan vanþakkláta skríl þarna á DPC.

Síðan er fýlukastið mitt kannski líka eitthvað út af því að ég var að átta mig á öllu því sem ég ætlaði að gera um helgina en er auðvitað ekki búinn að gera frekar en fyrri daginn.

Annars er skapið eiginlega alveg sloppið fyrir horn held ég.

Saturday, February 12, 2005

Að vera eða vera ekki óákveðinn

Ég hata sjálfan mig fyir að geta aldrei ákveðið mig. Hvað lífið yrði auðveldara ef ég gæti bara ákveðið mig strax og verið viss um að ég hefði tekið rétta ákvörðun. Núna er pælingin um myndavéladót þannig að þeir sem nenna ekki að lesa svoleis vinsamlega ýti á "page down" hnappinn og haldi þar áfram". Ef þú finnur ekki "page down" hnappinn athugaðu þá hvort hann sé ekki við hliðina á "any key". Annars með "any key" brandarann þá hef ég fengið svona meldingu á skjáinn hjá mér þegar lyklaborðið var ekki í sambandi: "Keyboard not ready. Press any key to continue."

En um myndavéladótið. Þá er málið að mig vantar eiginlega eina linsu á myndavélina mína fyrir ferðina til Afríku í næsta mánuði. Og ég þarf að fara að drífa mig í að útvega mér hana því hún verður væntanlega pöntuð frá USA.

Þetta dót kostar allt ógeðlslega marga peninga eða að minnsta kosti sumt af þessu. Dýrasta linsan sem ég er að spá í kostar svona 1300 dollara og er auðvitað tómt rugl á meðan maður hefur ekki atvinnu af ljósmyndun en mig langar bara samt dáltið í hana. Síðan er önnur sem kostar ekki nema 300 dollara en er líka alveg ágæt og kannski bara betri fyrir mig. Að minnsta kosti léttari og minni ofan í bakpoka og þannig. Síðan eru einhverjar linsur sem kosta eitthvað þarna á milli.

Já sá á kvölina sem á völina.

Síðast þegar ég keypti mér lisnu þá var ég rosalega glaður þegar hún var komin. Prófaði hana aðeins og fattaði auðvitað strax að ég hefði átt að fá mér einhverja aðra linsu. Nóttina á eftir þá lá ég andvaka og skipulagði leiðir til að senda hana aftur til Bandaríkjanna og fá einhverja aðra linsu í staðinn. Var mest að spekúlera í hvernig ég ætlaði að fá virðisaukaskattinn til baka af linsunni sem ég var búinn að kaupa. Gerði reyndar ekkert í málinu og linsan er svo sem ágæt en hin linsan sem ég hefði kannski átt að fá mér í staðinn hefði verið snilld líka.

....

Síðan um myndir þá stendur til um helgina að taka myndir í einhverjar myndakeppnir. Það eru endalausar svona keppnir í gangi á dpchallenge.com og ljósmyndakeppni.is. Það vantar núna sjálfsmynd, mynd af neikvæðu rými (negative space, en það er svona mynd sem er aðallega ekki með neitt) og loks mynd af brú. Núna vantar mig aðallega betra veður til að geta tekið myndirnar en prófaði einhverjar brúarmyndatökur um daginn með hæpnum árangri held ég.


Vatnsveitubrú :  Aqueduct

Hmmmm ætti kannski bara að fara að finna mér eitthvað annað áhugamál...

Wednesday, February 09, 2005

Ég veit af hverju það snjóaði í dag

Tókst loksins að gera það....

Er rosalega happý

Kaupt nefnilega ný skíði í dag. Nú mega jöklar landsins fara að vara sig og það all verulega!

Á reyndar eftir að skrúfa bindingar á þau en það kemur innan skamms!

Sunday, February 06, 2005

Að verða fitabolla!

Ó-ó-æ ... þú bolludagur. Nú held ég að minn sé orðinn feitur.

Fór í hið árlega bolluát til mömmunnar og það var sko borðað þangað til allir stóðu á blístri. Það var meirasegja boðið uppá súkkulaði þykkt a la mama þannig að það var hægt að stífa það úr hnefa.

Til að halda heilsu verður samt snætt svín í kvöldmat með alls kynns karrí samsulli. Namm.

Annars talandi um fitabollur. Þá er fullt af íslensku megrunabloggi til á vefnum. Ég man ekki hvenær eða af hverju en það er einhver íslensk kona í Svíþjóð sem ég fór að lesa bloggið hjá. Henni hefur annars gengið bara vel í sinni megrun og er eiginlega alveg að verða mjó eins og hún segir sjálf.

Síðan var það strákurinn sem kom í Kastljósi um daginn með leikaranum feita sem er ekki lengur feitur en ég kalla altaf Þorlák þreytta því í því leikriti sá ég hann fyrst. Það var reyndar fyrir svona 20 árum síðan eða meira og þá var Guðmundur Ólafsson [eða heitir hann ekki það annars] þá þegar orðinn eitthvað sver minnir mig.

En það fyndna [eða kannski frekar sorglega] er að hann strákurinn þarna og konan í Svíþjðóð [eða maðurinn og stelpan eftir því hvernig á það er litið] fóru í hár saman í kommentakerfum hvors annars. Já það er líklega erfitt að vera í of mikilli yfirvigt.

Annars er ég sjálfur með alþyngsta móti núna þessa dagana [þó ég verði reyndar ekki tekinn marktækur hjá þeimn sem halda úti alvöru megrunarbloggi] og þarf eiginlega að ná einhverjum kílóum af mér áður en ég ræðst á Kili. Það telur eflaust hvert gramm þegar maður dragnast upp á 5.895 metra hátt fjall!

Hluti af því er planað 9 km hlaup í hádeginu á morgun.

En til að koma í veg fyrir allan misskilning um þetta megrunarblogg þá dáist ég að fólki sem er að taka á sínum málum og koma sér í betra form en það hefur verið í áður.

Saturday, February 05, 2005

ÉG ER EKKI HOMMI

Nei nei, haldið ykkur þetta er engin sérstök yfirlýsing. Ég fór bara á leikrit í gær. Var reyndar kynning fyrir stjórn starfsmannafélsagsins míns og er ég að velta fyrir mér tölvupóstinum sem verður sendur út til að kynna hugsanlega hópferð starfsmanna. Titillínan í póstinum verður auðvitað að vera titillinn á leikritinu.



Fyrir þá sem ekki vita en hafa samt áhuga á að vita þá er þetta leikrit kolsvört kómedía um homma eða eiginlega frekar afstöðu til homma. Og gott sem slíkt. Það á svo eftir að ákveða með hópferðina.

Í stíl við leikritið þá fór ég með gjaldkera starfsmannafélagsins, sem sagt tveir karlmenn saman að fara á leikrit um homma. Hmmmm.... Kannski ekki vanþörf á að endurtaka titil leikritsins og bloggsins um að ég sé sko samt ekki hommi. Las reyndar einhvers staðar að það færi varla nokkur maður í leikhús til að hafa gaman af nema vera svoleis. Hommi sko. En það er allt í lagi því leikritið er einmitt m.a. gera grín að þannig hugmyndafræði.

Á eftir var skundað á kaffihús þar sem við hittum hið skuggalega gengi Siggu og Krúsa nýbloggara og Snorra og kvendið hans hana Hafdísi. Sátu þau úti í horni á skuggalegu veitingahúsi og drukku kaffi og súkkulaði drykki úr glösum og bollum.

Gátu þau enga frekari skýringu gefið á grunsamlegum ferðum sínum en að þau hafi verið á salsa æfingu. Nei ég er nú eldri en tvívetra, þau voru greinilega með súkkulaði sósu í munnvikunum en enga salsasósu.

Annars er bloggið þeirra Krús og Siggu hér.

Friday, February 04, 2005

Bjartur Lottuson

Eina fyrir mömmu núna sko. Rakst á þessa ágætu mynd af Bjarti Lottusyni stórleikara úr Jóni Oddi og Jóni Bjarna þegar ég var að skruna í gegnum myndir síðasta árse einhven tíman um daginn.
Bjartur Lottuson

En talandi um leikara. Ég er víst að fara í leikhús. Eins gott að fara að sjæna sig svoltið. Sit hér í lopeysu, skítklat á tánum og er eins og einhver lúlli. Er jafnvel að spá í að raka mig í framan sko í tilefni dagsins.

.
.
.

Æji, nenni ekki að fara að raka mig í framan eða einhvers staðar annars staðar. Fer bara í einhvern jakkagarm í staðinn fyrir lopeysuna. Dugar ábyggilega fínt.

Og ekki spyrja mig hvað sé að vera algjör lúlli. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um það sjáfur.

Thursday, February 03, 2005

Vá sástu þetta? Ég var næstum hættur að blogga!

Já bara næstum því.
Bloggaði annars eitthvað þunglyndisblogg fyrir einni viku af því ég var eitthvað í fúlu skapi en strokaði það svo út þannig að ókunnugt fólk færi ekki að halda að ég væri einhver fýlugemsi.

Afríkuundirbúningurinn er svona dálítið á fullu.
Til að göfga andann þá keypti ég smásagnabók með Hemingway þar sem var að finna söguna um snjóinn á Kilimanjaró. Fannst hún reyndar dálítið þreytandi en líka ákaflega Hemingway leg. Svona dálítið vopnin kvödd leg. Hef annars eiginlega bara fílað eina bók/sögu eftir hann almennilega, nefnilega söguna um gamla manninn og hafið. Er reyndar eitthvað það besta sem ég hef lesið. Hef reyndar ekki lesið neitt mikið eftir hann og ætti kannski að fara að drífa í því. Jú annars, las eina um nautaat á Spáni. Hún var dálítil stemning svona.

Er síðan farinn að skokka aftur úti. Fór meirasegja í hádeginu í dag með skrokkurunum í vinnunni. Veit reyndar ekki alveg hvernig ég antisportistinn á að skilja þetta þegar fólk segir upp í opið geðið á manni að maður sé mesti íþróttamaðurinn og hlaupi þess vegna mest og eitthvað. Helv. bull og vitleysa. Ég verð að fara að leggjast í meira hóglífi!

Mynd vikunnar

Einhvern tíman var ég að blogga mynd vikunnar. Og kannski ekki úr vegi að blogga eina svoleis.

Styttur kirkjunnar

Þessi mynd (reyndar aðeins öðru vísi útfærð) er annars núna í keppninni á DP Challenge og er reyndar ekki alveg að gera í buxurnar þar eins og þessi mynd hér gerði sem mér finnst reyndar alveg hroðalega fyndin:

I want to get out of here
Átti aldrei von á að myndin mín myndi vinna keppnina en skil nákvæmlega alls ekki af hverju þessar tvær voru t.d. á undan minni:


Hvort tveggja myndir sem ég myndi aldrei senda frá mér og þá aldrei í neina keppni nema til að tapa og myndir sem ég gaf alveg skítlága einkunn sjálfur í þessu.
Jæja mín er kannski líka bara svona léleg. Ég er bara svo lélegur að fatta það ekki.

En þessi af styttunum við Hallgrímskirkjuna er hins vegar að gera það sæmilegt. Fær svona 6 í endanlega einkunn geri ég ráð fyrir en það kemur í ljós í fyrramálið.