Thursday, December 28, 2006

Jólakveðjan

betrarar er seint en aldreigi




Búinn að eiga hin ágætustu jól sem hafa verið meira í mannheimum en tölvuheimum. Jólakveðjan á blogginu því eitthvað sein fyrir.

Mynd frá páskum annars úr minni heittelskuð Fellsmörk þar sem ég vaknaðim ásamt minni heittelskuðu HáTá einn morgunn í tjaldi sem hafði nær fennt í kaf!

Thursday, December 21, 2006

Það var Fellsmörk um helgina

Og laufabrauðsbakstur


Búrfell in the morning
Jamms, föstudagur og í Fellmsörk skyldi haldið. Þar er lítill kofi kallaður hús og kenndur við mýs. Þar er alltaf gott að vera fyrir menn og jú... líklega mýs.


Þetta var annars sett þarna inn einhvern tíman en svo átti alltaf að setja einhvern texta inn en einhvern veginn er tíminn alltaf á hlaupum frá manni og maður bara hleypur ekki nógu hratt!


En sum sé. Það var farið austur í Fellsmörk. Eins og oft þá var komið myrkur þar austur frá. Ekki rigning eins og einu sinni þegar við lentum í hálfgerðum vandræðum á ónýtum slóðunum heldur smá svona snjófjúk. Þá vorum við líka bara á Ventó en ekki eins og núna á honum Cesurari. Hann iðaði í skinninu að sýna hvað í honum byggi. Það var bara spaugað með þetta þegar við komum að læknum þar sem vegurinn var í sundur.
Ég: "Líst þér eitthvað á þetta?"
HK: "Veit það ekki, hef aldrei komið hingað áður" - sem er bara bull því við vorum að grínast sko...
Og svo var bara látið vaða út í!

Það gekk auðvitað ljómandi vel því þetta var bara smá lækjarlæna sem lá þarna út frá jökulsánni. En við bara héldum áfram án þess að hafa of miklar áhyggjur af þessu. Nú er það svo að yfirleitt þegar maður ekur yfir á þá er það einhvers staðar þar sem vað er á ánni og einhver hefur lagt veg að ánni og metið það svo að á staðnum sem vaðið er þá sé gott að fara yfir. Og vaðið gjarnan skipulag þannig að hægt sé að aka niður undan straumi, úr hvorri áttinni sem maður er að koma! Þessu er ekki að heilsa þegar komið er að á sem hefur sópað einhverjum vegi í burtu.

Þetta var svo sem ekkert rosalega mikið vatn en hins vegar all nokkuð djúpt og góður straumur því breiddinni var ekki fyrir að fara þarna. En við út í. Fljótlegra sáum við þrjú, þ.e. ég sem var að stýra, Cesar sem var að keyra og HK sem veitti okkur báðum andlegan stuðning að þetta var allt saman eins og þetta á ekki að vera. Djúpur áll og þungur straumur sem flæddi upp á húdd. Frekar óhugnanlegt svona í niðamyrkri að sjá bílljósin lýsa í gegnum vatnið. En við þrjú tókum á honum stóra okkar og komumst yfir. Það rauk hressilega úr inniflum Cesars en hann hóstaði hvorki né stundi. En þar sem framhaldið var bara annar eins áll framundan þá var nokkuð auðveld ákvörðun að snúa bara við. Ferðin til baka yfir álinn djúpa gekk vel enda undan þungum straumi!

Nú. Maður gefst ekki svo auðveldlega upp eða hvað? Við fórum áfram eftir bakkanum og komumst framhjá þessi svæði sem áin rennur í vegarstæðinu. Þurftum bara að fara út í einn lítinn poll og svo komast upp á veginn og þá væri leiðin greið áfram. Við létum á þetta reyna. Reyndar var klaki yfir og ekki gott að finna bílinn sunka niður um ísinn en þetta var grunnt þannig að Cesar bara öslaði áfram. Svo fór hann að krafla sig upp á veginn og það gekk nú ekki nema bara svona og svona og endaði með þeim ósköpum að hann var kominn upp á farþegamegin en eitthvað ofaní polli (sem mér var seinna sagt að væri kviksyndisppollur) hægra megin. Hliðarhalli á að giska 45 gráður. Nú kom hin ágætasta setning frá HK: "Nú förum við ekki lengra, nú skulum við leita okkur aðstoðar".

Þó Fellsmörk sé ekki á fjöllum þá er þar ekki GSM samband og við þvi að arka af stað upp brekku og upp á hól til að komast í eitthvað samband. Bjargvætturinn er Sigurjón sem býr í Pétursey og hann kom þarna undir miðnættið á sínum eðal risa traktor með taug og allar grægjur. Var Cesar dreginn frekar lúpulega til baka og slapp þar með fyrir horn. Svo ókum við honum bara til baka þar sem öll ósköpin byrjuðu og parkeruðum honum þar. Gengum svo bara þessa nokkur hundruð metra sem við áttum eftir og komum okkur fyrir í kofanum. Einhverjar hugmyndir um að tjalda og vígja VE-25 fuku út í veður og vind og var sest að tafli og spilamennsku fram undir morgunn. Þá loks farið að sofa á meðan dagurinn sem sést á myndinni að ofan hóf innreið sína.

HK in Reynisfjara


blue nature

HK playing some scrabbleMe myself playing some scrabble




kneehole

The primus

Laufabrauðsbakstur


Laufabrauðsbakstur

Laufabrauðsbakstur

Friday, December 08, 2006

Norðurljós og Cesarur kominn með kraft í kroppinn

there were some lights in the sky last night
Það var fullt tungl í vikunni og það var að vera komið miðnætti þegar ég ákvað að svefn væri einhver skammtímaánægja og miklu viturlegra að steðja út og ná myndum af tunglskini, norðurljósum og alls kyns. Þetta var reyndar eitthvað á ljósmyndakeppni.is sem ég sá að það væri góð norðurljósaspá og einn búinn að fara út og taka alveg edilons fínar myndir.

Ég fór af stað. Sá engin norðurljós en hélt áfram og sló ekki af fyrr en einhvers staðar á afleggjaranum upp að Skálafelli. Sá reyndar bara svartan himininn og hélt þetta yrði ekkert flott. En reyndar var tunglskinsbirtan alveg ágæt.

En svo byrjaði norðurljósabíóið og það var bara rúmlega ágætt. Myndin er hér að ofan. Glöggir geta líka séð þarna Karlsvagninn!

Svo hélt ég áfram til Þingvalla og ætlaði að fanga meiri ljósagang á Almannagjárbrún. Það var víst eitthvað búið að deyfa ljósin í sýningunni þannig að ég fékk ekki meira svoleis en það var ekki slæmt að mynda sjálfan mig sem tvípersónu og Orion sjálfan að fylgjast með öllu saman!
walking in heaven

Og fréttir af Cesari

Cesar er merkilegt ökutæki eins og sumir hverjir vita en eitthvað er honum búið að vera íllt í maganum sínum síðustu vikurnar eða alveg síðan hann fékk þessa rosalegu vindverki og fretgang fyrir einum og hálfum mánuði. Helstu sérfræðingar Ingvars Helgasonar í bílalæknastétt kváðu upp sinn dauðadóm án þess að svo mikið sem líta á sjúklinginn. Hann er með alvarlega inníflasýkingu sögðu þeir og þarf að skipta flestum inníflunum meira og minna út. Líklega best áð kaupa bara nýtt inníflasett sem kostar eitthvað rúmlega milljónkall þegar það er komið í hann. Ekki leist mér nú mikið á það.

Svo fann ég eitthvað gamalt úrsér gengið inníflasett sem átti ekki að kosta nema svona 200 þúsundkall. Veit ekki hvort mér leist nokkuð betur á það en loks ákvað ég að fara með hann á læknamiðstöðina í Kistufelli sem ku vera nokkuð úrræðagóð í svona málum. Þá allt í einu fóru sérfæðingarnir hjá honum Ingvari að muldar eitthvað um að þetta gæti nú bara verið í ábyrgð.

Þá kom heilt stórt humm frá mér en niðurstaðan varð sú að þetta væri ekki ábyrgðarverk því lögguvitleysingarnir sem áttu Cesar einu sinni hér í dentíð vildu ekki leyfa alminlegu verkstæði að gera við einhverja botnlangabólgu sem hann var einhvern tíman með. Gátu snillingar Ingvars þá ekkert gert fyrir mig og fór hann Cesarur við svo búið til Kistufellsins með aðstoð hennar Vöku. Nú, þeir tóku þennan dauðadóm ekki sérlega trúanlegan og prófuðu að bara setja Cesarinn í gang og viti menn, hann fór bara í gang og gekk alveg ágætlega. Reyndar þurfti að skipta um eitt og annað í maganum á honum og endaði reikningurinn yfir tvöhundruðþúsundkall... en hvað um það. Tvöhundruðþúsundkall er dálítið betra en milljónkall og það er gott að vera kominn á þann bláa gæðing aftur!

Cesar is his name

Monday, December 04, 2006

Það er verið að rífa hús hjá mér...

Klink og bank er að hverfa hægt en örugglega, hvort sem manni líkar það betur eða verr...

Klink og Bank

Það er dálítið undarlegt að búa við hliðina á því sem einu sinni eða eiginlega ennþá er kallað Klink og Bank en einhvern tíman áður hýsti Hampiðjuna. Hús sem var kveikt í svona einu sinni í hverri viku í haust. Reyndar stundum á hverju kvöldi. Þá var slökkviliðið orðið fastur gestur hér fyrir utan og löggubílar meira og minna staðsettir á bílastæðinu hér fyrir utan. Núna eru komnar stórar vinnuvélar sem sjá um herlegheitin. Ég fyllist undarlegum tilfinningum en fer svo bara út með myndavélina mína og tek myndir af herlegheitunum.

Ég er ekki viss um hvað mér finnst. Ég sakna Klinks og Banks en ekki sérlega þessum reglubundnu heimsóknum slökkviliðsins síðasta haust. Annars var það bara farið að venjast. Við vorum bara hætt að kippa okkur neitt sérstaklega upp við það að einhverjir útigangsmenn hefðust við í næsta húsi og svo kæmi einhver skríll og kveikti reglulega í öllu saman. Nei það var bara partur af tilverunni að finna mismunandi mikla brunalykt í loftinu á hverjum morgni.

En þetta er dálítið merkilegt að fylgjast með en skiptir kannski ekki svo miklu máli þar sem við sjálf erum á förum héðan eftir ekki svo margar vikur. Húsnæðisleit stendur yfir. Verst að það er ekki lengur hægt að fá inni þarna í gamla Hampiðjuhúsinu. Einhvers staðar verður maður samt að fá að vera í framtíðinni.

En ég er bara ágætlega ánægður með myndirnar. Það er hægt að smella á þessar renningslegu panoramamyndir til að fá þær í alminlegri stærð!


Klink og Bank
Úti í porti eða innaní maganum á Klink og bank...Inside The Klink og  Bank

...hægt að smella á myndirnar til að fá þær risastórar!


Klink og Bank