Heimili mitt er orðið vettvangur kattfræðilegra rannsókna.
Gamla kisan sem var í pössun ein hjá mér þangað til í gær er nefnilega ekkert glöð með fjölgunina sem varð þegar nýja kisan kom inn á heimilið í gærkvöldi. Það var kvæst dálítið í báðar áttir og aðeins tekist á en reyndar varð nú enginn almennilegur kattaslagur úr þessu hjá þeim. Síðan er það þannig að nýja kisan, rummungurinn sá bröndótti virðist hafa tögl og hagldir á meðan gamla kisan Lotta litla fer með veggjum og lætur sem minnst fyrir sér fara nema kannski þegar hún kvæsir. Það er nefnilega litla Lottukisan sem kvæsir á slöttólfinn hann Bjart.
En þetta tekur nú allt enda. Ef að líkum lætur verð ég aftur orðinn karl hinn kattlausi um helgina. Ja nema ég haldi í aðra hvora kattarómyndina. Veit það nú ekki alveg. Finnst frekar í lagi að fá kisu svona aðeins til mín í heimsókn en að fá kisu hingað fyrir fullt og allt. Enda get ég varla opnað út á svalir með þessa ferfætlinga hérna. Er búinn að sjá það út kisan myndi stökkvað beint út á þakið á næsta húsi og vera þá horfin veg allrar veraldar eða í besta lagi vera komin í hina skelfilgustu sjálfheldu og ég þyrfti að hringja á slökkviliðið til að bjarga henni til baka rétt eins og einhver gömul kona í Vesturbænum.
Annars um þessa ketti. Ef einhver fór á leikritið um Jón Odd og Jón Bjarna fyrir svona tveimur árum síðan þá var sá bröndótti þar sem lítill kettlingur í hlutverki hans Jóns Sófusar!
No comments:
Post a Comment