Ég hefði haldið að það að hafa nögladekkin í skottinu væri svipað og að hafa vaðið fyrir neðan nefið. Reyndar treysti ég þessu ekki almennilega og sá mitt óvænna þegar þetta hvíta fór að hrannast upp á götunum og fór snemma heim. Enda kominn með kvef og hálfgerða vesöld og tók ekki sénsinn á að lenda í einhverju slarki.
Heimleiðin gekk síðan mjög rólega. Það voru svo allt of margir ekki með sín nögladekk í skottinu og því spólandi vitlausir út um allan veg. Ég komst klakklaust heim eftir að hafa verið stopp út í Skipholtinu út af einhverju sem ég aldrei vissi hvað var. Þorði reyndar ekki inn á bílastæðið þar sem ég er vanur að leggja þar sem mokstur á því hefur mér vitanlega aldrei farið fram nema fyrir guðs mildi [les - mildan hita yfir frostmarki - og ég veit ekkert hvenær slík mildi mun eiga sér stað næst - vonandi seint.]
No comments:
Post a Comment