Sunday, August 31, 2014

Er sagan frá Kröflu að endurtaka sig?

Smá vangavelta frá matarborðinu í kvöld þegar jarðhræringar bar á góma á meðan lasagna var tuggið.

Minna þessar jarðhræringar á það sem gerðist við Kröflu fyrir nokkrum áratugum? Jú það má eflaust segja það en á hvern hátt. Flest eldgos síðustu áratugi á Íslandi hafa verið gos í Heklu eða Grímsvötnum. Gos í megineldstöð með kvikuhólf þar sem kvika kom upp skammt undan. Það velkist líklega enginn í vafa um að það sem núna er að gerast er annars eðlis þar sem virkni er á sprungurein eldstöðvakerfis og þá er spurningin hvenær það hefur gerst áður. Jú, það var auðvitað í Kröflueldum en ef til væru betri upplýsingar um jarðhræringar á sprungureinum fyrri alda, er þá alveg víst að það sem núna er að gerast yrði flokkað helst með Kröflueldum? Hvað um fyrri virknitímabil t.d. í Bárðarbungukerfinu.

-smá viðbót af vangaveltum-----------
Það sem í huga leikmannsins einkenndi kröfluelda voru stutt eldgos með mjög stuttu millibili. Ef þetta eldgos dregst á langinn þá er það ekki eins og Kröflueldar. Bárðarbunga er á Íslenskan mælikvarða mjög stórt kerfi, mikið stærra en Krafla og askjan mikið stærri. Ég man ekki hvað virknin í Kröflu var raunverulega tengd öskjunni þar en í Bárðarbungu þá a.m.k. hófst virknin þar þó kvika hafi síðan farið annað.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar og smávegis bætt við í samræmi við það sem var hugsað þarna í lok ágúst.

Friday, August 29, 2014

Túristagos sem er ekki fyrir túrista


Í nótt hófst sá hluti jarðhræringanna sem er frústrerandi. Lítið túristagos en mjög óaðgengilegt þeim sem vilja skoða, jarðvísindafólki sem öðrum, fyrir utan þá sem hreinlega verða að komast þangað til að setja upp mæla eða annað slíkt. En hvað um það. Það eru til hnit á sprungunni sem voru reyndar gefin upp með fyrirvara um ekki mikla nákvæmni: 64°52'4''N 16°49'34''V til 64°52'28''N 16°51'20''V. Hnitin eru byggð á hitafráviki sem sást á gervitunglamyndum. Setti þessi hnit inn á kort sem sýnir einnig jarðskjálfta síðustu daga.



Það sem vekur t.d. athygli er að gossprungan er þvert á sprungustefnuna. Gæti stafað af ónákvæmni hnitanna eða því að um svo stutta sprungu er að ræða og lítið gos að gossprungan er í einhverjum mjög staðbundum veikleika þarna í jarðskorpunni en er ekki að fara inn í spennusvið svæðisins í heild. Tel samt einfaldast að kenna um ónákvæmni hnitanna sem eru byggð á staðsetningu hámarks hitafráviks í tengslum við gosið en ekki neinni beinni mælingu á sprungustefnunni sjálfri.

Um stærð gossins má velta fyrir sér hvort þetta litla gos hafi náð að vinna á þrýstingi kvikunnar í bergganginum. Það hefur verið áætlað að berggangurinn sé 1-4m á þykkt, 2-8km að hæð og e.t.v. 40km að lengd. Ef teknar eru þar meðaltölur með L = 40km, h = 4km og þykkt = 2m þá er rúmmál kvikunnar sem um ræðir 320 milljón rúmmetrar. Ef því er deild niður á þann tíma sem gangurinn hefur verið að myndast og segjum að það séu 13 sólarhingar þá er það um milljón rúmmetrar á hverri klst. Ef gosið stóð í 3 klst hefði það átt að skila 3 milljón rúmmetrum, bara til að halda í við myndun gangsins. Ef sprungan er 1km að lengd og 100 metra breitt lag gosefna myndaðist þá myndi það gefa um 30m þykkt lag. Ég efast um að þetta gos nái því umfangi þannig að gosið hefur í raun ekkert gert til að minnka þrýstinginn á svæðinu. Er bara dálítið eins og slys þar sem aðeins slettist út fyrir í gangagerðinni.
----------
Fljótlega kom í ljós að sprungustefnan var mjög hefðbundin og raunar fór í eldri gossprungu Holuhraunsins. Upphaflega stefnan sem var fengin frá hitafráviki á radarmynd sýnir e.t.v. hraun sem rann frá sprungunni og varð fljótlega mest áberandi í hitafrávikinu.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Thursday, August 28, 2014

Sigkatlar suðauastan í Bárðarbungu

skjalftakort 15-28 agust-katlar


Sigkatlarnir skv. upplýsingum frá fésbókarsíðu Jarðvísindastofnunar færðar inn á jarðskjálftakort sem ég setti saman.

Full upplausn á kortinu er hér.
Ég verð eiginlega að játa að staðsetning sigkatlanna kemur mér talsvert á óvart, eins og svo margt annað! Rauði hringurinn á myndinni er um Gjálp, þar sem eldgosið varð árið 1996 sem olli stóru flóði í Skeiðará. Þetta er því ekkert langt þar frá og nokkuð ljóst að allt bendir til þess að vatn sem þarna bráðnar fari í suður átt.

Á FB síðu jarðvísindastofnunar stendur:

"27. ágúst 2014 kl. 21:56 - upplýsingar úr flugi

Magnús Tumi Guðmundsson, Jarðvísindastofnun Háskólans, skrifar eftir flugferð með TF-SIF:

Suðaustan við Bárðarbungu – nokkur sig, grunn en stór, 4 til 6 km að lengd með hringsprungum.

Hnitin – eru um einum km austan við sigin:
64°33,2N 17°21,8V
64°33,8N 17°23,5V
64°34,2N 17°24,4V
64°34,6N 17°25,7V

Hringsprungurnar eru um einn km að breidd. Tíu til fimmtán sprungur kringum hvora dæld, áætla sigið 10-15 m í miðju siganna. Þessar upplýsingar eru ekki alveg fullkomnar, ekki útilokað að sig sé að myndast á fleiri stöðum, en skyggni og myrkur leyfði ekki nákvæmari eða meiri skoðun."

Sjá: https://www.facebook.com/jardvis?fref=ts

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Saturday, August 23, 2014

Hvar eru eldstöðakerfin?

Eldstöðakerfi skv. korti Veðurstofunnar og ágiskaðar línur undir jökli viðbættar skv. bók um náttúruvá.

Ég heyrði grínast með það fyrr í dag að ef sprungan, berggangurinn eða virknin (hvað svo sem við viljum kalla það) við Bárðarbungu héldi áfram að lengjast meira til norður þá færi á endanum að gjósa í Öskju. Kannski bara sagt í gríni en þá má skoða hvar eldstöðvakerfi í Vatnajökli eru talin liggja. Þá er ekki hægt að sjá annað en að virknin hafi færst út af því svæði sem hefur hingað til verið talið til Bárðarbungueldstöðvakerfisins. Virknin í gær og fyrradag var í raun mitt á milli Kverkfjallakerfis og Bárðarbungu kerfis. Með því að færast í norður hefur virknin hins vegar náð að mörkum Öskjukerfisins.

Virknin hefur hins vegar á allan hátt verið út frá Bárðarbungu og því ekki hægt að álíta neitt annað en að þetta sé atburður með upprunna í Bárðarbungi, óháð því hvar hann endar.

Það má einnig skoða þetta út frá t.d. gosinu í Gjálp. Núna er Grímsvatnakerfið látið ná aðeins í norður eins og ég merki á myndina, þannig að Gjálparsprungan passi þar inn. Ég held að fyrir gosið í Gjálp hafi Grímsvatnakerfið ekki verið látið ná svona langt norður. Sama má segja með Lokahrygg sem er á milli Grímsvatna og Hamarsins, þ.e.nær á milli tveggja eldstöðvakerfa og þvert á ríkjandi sprungustefnu og varð mjög virkur í framhaldi af gosinu í Gjálp árið 1996.

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Wednesday, August 20, 2014

Tilraun til að túlka GPS mælingarnar við Bárðarbungu

Smá vangavelta fyrir þá sem nenna að lesa og jafnvel hafa skoðun - vera sammála eða ósammála mér. Fór eiginlega að hugsa þetta fyrst og svo skrifa þar sem mér gekk eitthvað illa að átta mig á því af hverju GPS stöðvarnar í Hamrinun og sérstaklega í Vonarskarði hreyfast öðru vísi en ég hafði átt von á. Vangavelta sem e.t.v. er röng en kannski ekki alveg röng og er í öllu falli það sem ég fór að hugsa.

Áfram með þetta skemmtilega ekki eldgos - sem auðvitað gæti líka orðið eldgos. Aðal gögnin sem hægt er að skoða eru jarðskjálftagögn Veðurstofunnar (http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/vatnajokull) og svo GPS gögn sem Sigrún Hreinsdóttir gerir aðgengileg hér: http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/#VATN.

Það sem vekur athygli mína í gps gögnunum var fyrst að stöðvarnar í Hamrinum og Vonarskarði hafa verið að færast í austur. Ef kvika er að streyma inn fyrir austan stöðvarnar þá ættu þær að vera að færast í vestur, þ.e. kvikan myndi ýta þeim burt. Mín skýring er að það sé kvika undir Bárðarbungu sem er að fæða berggang sem kemur fram á jarðskjálftamyndunum, berggang sem liggur niður Dyngjujökul með stefnu áleiðis að Kverkfjöllum. Þar sem Vonarskarð er greinilega að færast í austur þá ætti það að passa við að kvikan sé að færast í burtu frá Vonarskarði og það gæti þá þýtt að það væri ekki að koma ný kvika inn i kvikuhólfið undir Bárðarbungu heldur að það sé í raun að byrja að tæma sig.

Í upphafi hreyfinganna hins vegar var Vonarskarð að færast lítillega í vestur og það gæti þá þýtt að í byrjun var kvika að safnast í kvikuhólfið undir Bárðarbungu en þegar Vonarskarð fór að færast í austur þá var kvikuhólfið að byrja að tæmast - eða kannski frekar að minnka. Það er afar ósennilega að tæmast sem slíkt.

GPS stöðin á Dyngjuhálsi færðist markvisst í norð-vestur sem passar við að berggangurinn suð-austan við stöðina hafi verið að myndast. Ef tekið er mið af því að jarðskjálftarnir núna eru komnir álíka norðarlega og Dyngjuháls stöðin er, þá mætti maður eiga von á að stöðin myndi hætta að færast í norður þar sem staðsetning skjálftanna og þá nýmyndum berggangsins beint fyrir austan hana. Það enda passar því Dyngjuhálsstöðin er hætt að færast í norður og meira að segja farin að fara í suður aftur. Heldu hins vegar sínu striki áfram í vestur eins og áður.

Grímsfjall færðist í suður til að byrja með en hætti svo að færast og það passar líka við það að fyrst var að koma inn ný kvika fyrir norða Grímsfjall en síðan þegar kvika hætti að streyma að, þá hætti stöðin að færast.

Það sem mér tekst helst ekki að koma inn í þessa mynd mína af kvikuhreyfingunum er að Vonarskarð hefur líka verið að færast aðeins í suður. Það gæti stafað af kvikuhreyfingum við Kistufell.

En svo á meðan ég var að skrifa þetta þá er óróagrafið farið hærra upp en það hefur farið áður - þ.a. e.t.v. er gosið að fara að brjótast upp!

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Sunday, August 17, 2014

Bárðarbunga

Bárðarbunga seen from Gæsavatnaleið Bárðarbunga séð frá Gæsavatnaleið. Líklega Kistufell lengst til vinstri.

Hvernig er það með þessa fjölmiðla, eiga þeir ekki neina mynd af Bárðarbungu. Ég á eiginlega bara eina sem ég man eftir en hún er tekin af Grímsfjalli og þaðan að sjá er Bárðarbubga afskaplega flöt! https://www.flickr.com/photos/eirasi/14942149301/ Sá svo að Oddur Sigurðsson á verulega flotta mynd, sem fjölmiðlar ættu að falast eftir að fá að nota.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar. Mér sýnist annars að þetta sé það fyrsta sem ég gaspraði á FB tengt jarðhræringum Bárðarbungu.

Sunday, August 03, 2014

Slasaður

Fellsmörk

Það hafði rignt um daginn. Ekki neitt sérstakt vinnuveður. Vorum eitthva úti við en svo var líka flatmagað í koju þegar mest rigndi. Ég held að Hjalti og Júlía hafi bankað upp á þann daginn. Tveimur dögum fyrr hafði allur innrásarherinn farið til Reykjavíkur og við bræður bara einir í kofa. Það hafði verið rifist og það hafði verið kveikt upp og þetta var í sjálfu sér bara ágætt.

Eftir að hafa fundið út hvernig best væri að kítta bjálkana í kofanum fór smíðin að ganga í sjálfu sér ágætlega og þetta mjakaðist upp röð fyrir röð. Ég var eitthvað farinn að huga að því að leggja spýtur ofan á gólfbitana til að fá öruggari og þægilegri vinnuaðstöðu. það gekk samt ekki betur en svo að þegar ég var búinn að leggja eitt borð, þá bara gekk ég fram af því og datt. Meiddi mig samt ekkert þá.

Slysið

það hafði rignt og var að fara að rigna meira og við eiginlega að fara að koma okkur inn í kofa, fá okkur kaffi eða eitthvað þegar ósköpin dundu yfir. Ég steig á gólfbita, rann og snérist í hálfhring, bar fyrir mig hönd og hún næstum því af. Gunni hélt reyndar að ég hefði rekið hnéð illa í en það var ekki það versta. Ég var úr axlarlið á hægri hendi. Greindi það held ég á svona tvemur sekúndum. Ég lagði strax af stað niður slóðann. Hræddur um að detta á hálum stígnum en slapp við það. Komst inn í bílinn hans Gunna og svo var haldið af stað.

Gunni tók með kók til að drekka og ég saup á þegar hann helti upp í mig. Hægri hendin var ónýt en sú vinstri var notuð til að halda þeirri hægri fastri. Í sambandi við neyðarlínuna komumst við að því að það væri skynsamlegast að halda á Selfoss.

Fljótlega fór dofi að gera vart við sig í hendinni og áður en við vorum komnir að Álftagróf var höndin algjörlega tilfinningalaus upp á upphandlegg. Fingurinr urðu slakari en ég vissi að þeir gætu orðið. Þessi útlimur var mér ekki lengur viðkomandi, minnti mig mest á dauðan kolkrabba eða eitthvað hveljukennt ógeð. Ég óttaðist að allt blóðflæði væri farið úr hendinni (sem reyndar var líklea ekki raunin heldur var ég með illa klemmda taug) og heimtaði ég sjúkrabíl sem kom á móti okkur frá Selfossi.

Fljótlega eftir að við vorum komnir niður á þjóðveg fór ég að fá smá tilfinningu í hendina þannig að ég hætti að verða svo hræddur um að ég ég væri beinlínis að missa hendina - en það var það sem ég hafði óttast. Sjúkrabíllinn var þá hins vegar farinn af stað og varð ekki snúið við.

Í sjúkrabílnum og á spítalanum á Selfossi

Við mættum sjúkrabílnum líklega einhvers staðar nálægt Þorvaldseyri en hann hafði komið frá Hvolsvelli. Það var reyndar einhver læknir á Hvolsvelli en hann vildi frekar að ég færi áfram beint á Selfoss þar sem hægt yrði að taka af mér röntgen mynd einnig. það var því haldið á Selfoss. Sjúkrabíllinn var einn af þessum nýju og verð ég að játa að óþægilegra ferðalag hef ég sjaldan upplifað. Var það ekki bara handleggurinn heldur líka það hvað sjúkrabíllinn var rosalega þröngur. Sjúkrarúmið sem ég var í virtist vera nokkrum númerum of lítið og spyrnti ég mér í glugga og jafnvel vegg á sjúkrabílnum til að detta ekki á gólfið. það gekk illa að koma æðalegg í mig en tókst að lokum. Þáði eftir smá umhugsun eitthvað morfín en það virtist ekki gera mikið fyrir mig. Sötraði kók þess á milli.

Á meðan hafði Gunni ekið til baka í Fellsmörk til að ganga frá og ætlaði hann svo að sækja mig á sjúkrahúsið að því loknu.

Á Selfossi var nýlega útskrifaður læknir. Man ekki lengur almennilega hvað hann hét en hann sprautaði einhverjum óminnishegra í mig og skellti mér svo í liðinn. Ég rankaði við mér eftir myndatökuna og lá þarna í einhveja klukkutíma til að bíða eftir Gunnanum, sme kom eftir langa mæðu. Hann hafði auðvitað tafist eitthvað við það að ganga sæmilega frá eftir okkur. Vissi auðvitað ekkert hvenær hann myndi far næst austur.

það var svo komin nótt þegar ég sofnaði í rúminu mínu, liggjandi á bakinu með hendina í fatla.

Laugardagur með lítilli lukku

Ekki man ég núna þegar þetta er skrifað einum og hálfum mánuði seinna hvernig ég svaf þessa nótt en ég vaknaði að minnsta kosti. Var svona fram eftir morgni að átta mig á því að það að vera einhentur er ekkert grín. Það er erfitt að skrúfa saman kaffikönnu og ég lenti í hálfgerðum bardaga við ananast sem ég reyndi að skera í bita til að fá mér í morgunmat. Hinir einföldustu hlutir urðu alveg skelfilega flóknir. Komst t.d. seinna að því að það er eiginlega ekki hægt að reima skó með einni hendi - eða ég komst að minnsta kosti ekki upp á lag með það. Áttaði mig dálítið á því að ég er alveg skelfilega rétthentur og það sem er kannski merkilegast er að ég í raun hugsa með hægri hendinni. Ef ég get ekki punktað hjá mér það sem ég er að velta fyrir mér - þá get ég eiginlega ekki velt neinu fyrir mér almennilega. Náði engan veginn að einbeita mér. það var reyndar ekki þennan dag en seinna fór ég að reyna að lesa einhverjar jarðfræðigreinar og það var eiginlega ekki hægt að henda reiður á þeim ef ég gat ekkert punktað hjá mér. Endaði á því að fara að tala inn á upptöku á símanum mínum. Stóð mig annars illa í því að lesa greinar eða gera nokkurn skapaðan hlut.

Mest hafði ég kviðið fyrir að segja mömmunni minni frá þessu. Óttaðist að hún færi á einhvern dularfullan hátt að kenna sjálfri sér um þetta því það er verið að byggja bjálkahúsið fyrir hana mestmegnis. En hún tók þessu bara ágætlega yfirvegað og gerðist með það sama mín einkahjúkrunarkona.

Svo varð það úr að ég fór heim á Urðarstekk til að fá kvöldmat þannig að ég væri ekki bara einsamall heima hjá mér. það voru hálfgerð mistök. Þar voru allir og talsverð læti og ég ekkert alveg í stakk búinn fyrir slíkt. Endaði það með því að mér fannst að ég væri aftur að fara úr liðnum. Gunni keyrði mig heim en í staðinn fyrir að fara í Hæðargarðinn fór ég upp á slysó.

Laugardagsnótt á slysó

Við bræður eyddum fyrri part nætur í að bíða eftir að komast að. Ég hafði greinilega ekki borið mig nógu aumlega til að fá neinn forgang og þurfti því bara að bíða og bíða. Það var reyndar mjög athyglsivert og um leið sorglegt að skoða fólkið sem var þarna í biðstofunni. Eftirminnilegust á jákvæðan hátt var finnska konan á níræðisaldri sem var eitthvað veik í meltingarveginum líklega en sagði samferðarkonu sinni endalausar sögur af fólki sem hún hafði hitt á lífsleiðinni. Minnti samtalið hjá þeim dálítið á skáldsögu - líklega Nóttina eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur. Eftirminnilegust á sorglega háttinn var stelpan í neyslunni sem vildi bara komast yfir spritt eða eitthvað. Sá reyndar að starfsfólkið þekkti hana. Eftir að ég var farinn inn úr biðstofunni kom löggan víst og tók hana. Hún átti alveg hræðilega bágt stelpugreyið. Heyrðist reyndar að starfsfólkið væri eitthvað að reyna að koma henni í meðferð - en ég gat ekki séð annað en að hún væri að drekka og dópa sig í hel.

En af mér sjálfum. Hún líklega Margrét Sigurðardóttir, læknakandídat byrjaði á því að beygla á mér hendina þangað til mér varð alveg rosalega illt. Þá sendi hún mig í röntgen og svo tók enn ein biðin. Við vorum þar reyndar þrjú sem vorum að verða málkunnug að bíða. Ég með mína öxl, strákur sem var með putta sem hafði farið úr lið eftir að hafa dottið á hjóli (reyndar eftir að drekka smá bjór - en hann var nú samt ekkert ofurölvi sýndist mér) og svo konan sem minnti mig svo mikið á Björgu í Blóðbankanum og var með dóttur sína með sér sem var brún á brá. Konan hafði dottið á hjóli og handleggsbrotnað.

Eftir alveg endalausa bið fékk ég úrskurðinn að ég væri með brot í öxlinni og mætti ekki byrja neina sjúkraþjálfun fyrr en eftir fjórar vikur. Ég held að ég hafi hálfpartinn drepið Margréti með augnaráðinu sem ég gaf henni - en þarna áttaði ég mig allt í einu á því að ég var raunerulega slasaður en ekki bara eitthvað dottinn úr lið. Ég sá mastersverkefnið mitt í upplausn, kofabyggingu í upplausn og eiginlega allt í upplausn. Það var Ægir Amín læknir sem hafði gefið þennan úrskurð og fékk ég að sjá eitthvað óljóst á röntgenmyndum sem ég sá ekkert á. Ætlaði að fá eitthvað second opinion hjá einhverjum öðrum axlarsérfræðingi - en gerði svo sem aldrei - enda var þessi greining mjög líklega alveg rétt. Einhver áhöld voru um meðferðina en ég var settur í fatla, átti að vera þannig í tvær vikur án þess að hreyfa neitt og svo mátti ég eitthvað fara að rétta úr hendinni og svo fara í sjúkraþjálfun fjórum vikum seinna.

Ég áttaði mig sem sagt á því að ég væri hálfpartinn fokked á vondri ensku.
-----
Skrifað eftir minni í september, eins og ég held að mér hafi liðið þarna þessa fyrstu helgi í ágúst - sem var dálitið erfið.