Saturday, March 17, 2018


Í dag var skilst mér sóparadagur í Hæðargarðinum og víðar í hverfinu. Ég náttúrlega á fjöllum en sópaði a.m.k. fyrir framan hjá mér áður en arkað var á eitt Búrfellið!

En svo sýnist mér að það þurfi að verða málaradagur einhvern tímann þegar líður á vorið eða sumarið!

Saturday, March 10, 2018

Framhaldssagan um vigtun fitabollunnar

Bara nokkuð sáttur með sig að þykjast í skóginum við Rauðavatn

Það fór þá aldrei þannig að maður væri ekki kominn í eitthvað átak til að verða léttari og það jafnvel bara að svínvirka. Er stundum aðeins farinn að óttast að ég sé að verða of heltekinn af því hvort ég er 100 grömmunum þyngri eða léttari. Er búinn að vera alveg þokkalega duglegur í hreyfingu og líklega éta eitthvað aðeins minna en áður. En samt... er næstum því ennþá alltaf síétandi. Ávaxtasafar í massavís og kaup á sætakexi almennt séð samt bönnuð en er þó alveg að laumast t.d. í afganga af rjómaís sem voru frá afmælinu mínu í febrúar.

Er að ná að hreyfa mig eitthvað sæmilega flesta daga en samt ekkert endilega alla daga. Suma daga er ég hálfpartinn að gera út af við mig eins og laugardag fyrir viku þar sem eftir fjallgöngu með FÍ var farið út að racerhjóla einhverja 20km. Eða á fimmtudaginn þegar ég fór heim úr vinnunni frekar snemma til að racerhjóla einhverja 20km en fór svo aftur hjólandi lengri leiðina í vinnuna til að vinna meira. Fór þá lengri leiðina í báðar áttir og það í þessum fjandans skítakulda sem er er búinn að vera hér á ísalandinu síðustu vikurnar.

Endomondo fyrir undanfarna daga... oftast nær fitabollan að gera eitthvað!

Þetta byrjaði raunar hjá mér bara með því að ég vigtaði mig endalaust eða kannski bara annan hvern dag og ætlaði að léttast með því! Veit það svo sem ekki en áttaði mig á því einhvern tímann þegar leið á janúar að maður léttist ekkert sjálfkrafa þó maður vigti sig ótt og títt. Það þarf víst eitthvað meira til! Einhverju var þá bætt í hreyfingu og meira spáð í hvað væri verið að éta!

Og þá fór vigtin að færast aðeins niður. Vonandi mátulega hratt þar sem ei er flas til fagnaðar í þessum efnum. Hef annars hálfpartinn óttast á stundum að ég sé að léttast of hratt þar sem ég varla flokkast sem offitusjúklingur.

Markmiðið var upphaflega bara 1 kg á mánuði sem er ein lárétt lína á grafinu hér til hliðar á milli kúlnanna sem sýnir núverandi markmiðslínu. Er núna eiginlega 2.5 kg fyrir neðan það markmið. Heildarmarkmiðið er 12 kg fyrir árið... eða ef hraðar gengur þá 12 kg hvenær sem það næst. Held ég hafi ekki gott af meiri léttingu... væri þá í BMI = 24.2 en byrjaði í rúmlega 27. Já það er líklega af einhverju að taka! Er núna svona að losa mig við upp undir 2kg á mánuði sýnist mér.

Núna í dag er ég búinn að racer hjóla eitthvað um 20km í helvítis skítakulda að eigin mati. Á engar nógu hlýjar hjólabuxur en það er andstyggilega kalt að racerhjóla í hita undir frostmarki. Þurfti aukinheldur að snúa við á einum stað þar sem klakabunkar voru þykkir á stíg við Elliðaárnar. Svo er ég að velta fyrir mér eigin dugnaði að fara aftur út en núna á fjallahjól í skóginn við Rauðavatn. Þar er ekki klaki að ráði, þar er sæmilegt skjól í skógi og þar sem hægar er farið í þannig hjólatúr þá verður manni ekki jafn rosalega kalt!

Baðandi út öllum öngum á Rauðu eldingunni í Fossvogsdal fyrir einhverjum dögum síðan.