Friday, December 11, 2015

Dálítið búinn á því eftir prófatíðina!

götóttur ostur Át götóttan ost en gataði vonandi ekki á prófinu

Dálítið búinn á því eftir prófatörn. Reyndar eftir barlóm pósts fyrir svona viku þá var ritgerðarprófið sem ég var að taka þá óttalegt klúður hjá mér frá upphafi til enda. Átti að skrifa 3000 orða review paper og var dálítið þannig að ég tók eitthvað héðan og þaðan til að klessa inn í það sem ég var að gera. Ekki sérlega góð vinnubrögð og veit ekki hvaða umsögn ég fæ eftir það - en sleppur vonandi fyrir horn. Var búinn að hafa einhverjar vikur til að vinna þetta en komst ekkert til þess fyrr en seinustu vikuna. Það varð svo til þess að ég gerði ekkert í seinna prófinu fyrr en frekar seint. Átti að hafa um 10 daga til að vinna það en gat ekki nýtt nema 3-4 daga. Það var hins vegar alvöru heavy próf sem tók allan hugann þann tíma. Kom sjálfum mér jú bara þægilega á óvart með að geta eitthvað í því, því það fag var í hálfgerðri klessu hjá mér. Niðurstaðan þá sú að ég á von á að fá bágt fyrir það sem ég hélt að ég hefði dálítið á hreinu en svo frekar skárra fyrir það sem ég hélt að ég væri úti á túni með.

Monday, December 07, 2015

Er verið að spá vondu veðri

Versta veðurspá í áratugi?


Það er farið mikinn því von er á versta veðri síðan 1991 segja veðurfræðingar sem ljúga ekki - eða hvað? Kortið að ofan sýnir ástandið líklega þegar veðrið á að vera hvað verst og það er vont en samt kannski ekki alveg eins vont og talað er um.

Það er vissulega gert ráð fyrir rosalegum vindi á suðurlandi sem sést líka á næsta korti. Þ.e. gera má ráð fyrir vindhraða um eða yfir 40m/s undir Eyjafjöllum. En það er svipað og mig minnir að hafi orðið í febrúar síðasta vetur.


Það er hins vegar helst verið að bera þetta veður saman við veður sem varð 1991 sem er mesta rok sem ég man eftir í Reykjavík. Þá fauk margt. Tré rifnuðu upp, svalir fuku af húsum og einhverjir bílar eflaust fuku þó hið eiginlega Engihjallaveður hafi líklega verið 10 árum fyrr. En ef skoðað er hvernig spáin er fyrir hana Reykjavík núna þá sýnist mér að Reykjavík muni að mestu leyti sleppa við versta veðrið.

Þ.e. fer mest í um 20m/s í stærstum hluta Reykjavíkur. Ég myndi því ekki gera ráð fyrir neinu neyðarástandi í bænum. En það verður hins vegar hvassara á Kjalarnesi - en fólk þar er vant mun meiri vindi en í hinni upphaflegu Reykjavík.

Thursday, December 03, 2015

Það er vetur

Winter in Reykjavik

Ætli það sé ekki nákvæmlega ein vika síðan. Það byrjaði að snjóa. Fyrst bara frekar lítið þannig að mér fannst upplagt að fara út að fjallahjóla í snjónum. það var gaman. Daginn eftir var kominn hellings snjór - eða svo fannst mér þá. Það var líklega föstudagur. Þá var jólagleði í Staka. Ég var ekki lengi þar sem ég átti eiginlega að vera að taka próf - þriggja vikna heimapróf - tvær vikur búnar og ég ekki byrjaður á neinu.

Á laugardeginum var svo allt komið á kaf í snjó - eða svo hélt ég. 20cm jafnfallinn snjór í henni Reykhavík eða kannski var það eitthvað meira. Fór á gönguskíði með Gunnanum í Heiðmörk. Það var gaman og svo var ég að reyna að byrja að skrifa fjárans grein sem þetta heimapróf á að snúast um. Það var ekki jafn gaman. Valdi mér að skrifa um öskufall - það ætti auðvitað að vera gaman!

Á sama tíma hafði ég til að dreifa huganum helst til mikið óvæntan áhuga manneskju úr óvæntri átt. Kannski meira um það seinna. Gafst loks upp á því í bili - enda kominn langleiðina með að klúðra þessum prófum núna endanlega.

Frekar undarlegt að fyrir einu ári var ég að berjast í heimaprófi og þá var ég í alvörunni að reyna að ná 10 og varð ekkert of glaður með að fá bara 9.5. Núna er mér allt í einu eiginlega slétt sama hvað ég fæ. Veit ekki alveg hvað gerðist en einhvern veginn varð mér allt í einu bara dálítið sama um þetta í bili. Kannski það að há einkunn er bara tala á blaði - sé ekki að það skipti máli út fyrir það - veit svo sem ekki alltaf út af hverju ég er að þessu!

Sé annars eftir á að kannski er málið að mér finnst ég ekki hafa lært svo mikið í þessum kúrsum - þarf því ekki að sýna fram á með einhverri einkunn að ég hafi staðið mig vel - þar sem ég í rauninni var ekkert að standa mig vel.

Fékk mér síðan myndavélagöngutúr í Bónus í kvöld. Tók þá þessar myndir hér efst og neðst. Bíllinn hennar Ólafar á efri myndinni er við það að hverfa í snjóskaflinn. Það er spáð hálfgerðri stórhríð á morgun. Reyndar ekki mikil snjókoma en það verður hvasst með því. Í dag snjóaði meira í logni. Var samt dálítið blint. Fór með gönguskó í viðgerð vestur í bæ og var logandi hræddur um að einhver glanninn myndi keyra á mig. En það slapp til. Á neðri myndinni er eitthvað mér ókunnugt fólk að ganga yfir brúna á Miklubrautinni á móts við Hagkaup í Skeifunni - svona ef einhver fer að spá í þessar myndir. Ég annars nokkuð sáttur við þær.

En svo á ég að skila þessu greinaskrifaprófi á mánudag og svo andhverfa prófinu á föstudag. Veit ekki hvað kemur út úr þessum prófum hjá mér. Ef ég næ þeim þá ætla ég að láta það duga til að gleðja mig. Ef ég fell þá er það bara þannig. Ekki ætla ég að erfa það en hafa eitthvað meiri tíma til að gera það sem mér sýnist að þeim afloknum.

Winter in Reykjavik

Sunday, November 15, 2015

Af jöklamælingum, sjúkraþjálfun og annarri sjálfspindingu


Gunninn mælir sporð Hagafellsjökuls Vestari
Það náðist ein jöklamæling áður en allt fór á kaf í snjó. Það var vestari Hafafellsjökull sem var mældur og er hop frá því 2013 eitthvað innan við 110 metrar. Sem er bara nokkuð í meðallagi. Dálítið fúlt að hafa ekki mælingu frá í fyrra og úr þvíu sem komið er þá fæst engin mæling fyrir eystri jökulinn þetta árið.

Vestari jökullinn var mældur 18. október og var í sömu ferð komið við á Hlöðuvöllum til að bora á einum stað. Það tókst ekki alveg sem skyldi þar sem tvennt gerðist með borinn. Fyrst þá slitnaði ræsisnúran og við ekki með áhöld til að gera neina tilraun til viðgerðar. Svo á einhvern dularfullan hátt festist borinn í vélinni. Er hann þar ennþá! Það náðust bara tveir kjarnar nothæfir þannig að þessi mælistaður er í tómu tjóni. Gerðum tilraun til að fara helgina á eftir

Snjór á leiðinni inn að Hagavatni hvar snúið var við

Aftur var reynt viku seinna. Þá var hins vegar kominn talsverður snjór og líklega ófært að Hlöðuvöllum fyrir Nissan Norðlending - fórum samt upp frá Geysi. Við náðum með þokkalegu móti að komast upp brekkurnar við Mosaskarð en þar var hins vegar kominn allt of mikill snjór. Vegurinn ekki vel greinanlegur og alveg ljóst að við myndum lenda í alls konar basli þar á leiðinni. Ekki hjálpaði það heldur mikið til að ég var kominn með einhvern skrambans bakverk.

Á Hagavatnsvegi sem við reyndum líka við, snerum við við við kannski komnir hálfa leið inn að Einifelli. Það var kominn talsverður snjór en svo sem ekki ófært. Eflaust hefðum við komist en mér fannst ólíklegt að það yrði hægt að gera neina jöklamælingu af viti. Bakið líka að hrella mig.

Það var því snúið við en ég fékk þá eftir á að hyggja afar slæmu hugmynd að fara í Fellsmörk. Slæmu því ég þurfi annars vegar að vera að læra þessa helgi líka en ekki síður að ég held að þetta ferðalag hafi ekki gert bakinu á mér neitt gott.

Úr Fellsmörkinni var svo sem ekki margt að frétta. Nýja húsið er þannig séð tilbúið en veðrið var ekki upp á sitt besta í Fellsmörk, bakið að hrella mig og ég að reyna að læra eitthvað af veikum mætti. Skoðuðum varnargarða og þeir voru lítið skemmdir nema líklega eitthvað eytt af stubbunum á garðinum sem ekið er eftir.

Bakið var verulega slæmt á bakaleiðinni sem varð frekar fúlt viku seinna því þá var snjórinn að mestu bráðnaður og komið sæmilegt veður líka. Bakið er annars þannig að það er eiginlega fyrst að jafna sig eitthvað núna síðustu dagana, tæpum mánuði seinna. Núna er hins vegar kominn helst til of mikill vetur - eins og sjá má t.d. í Heiðmörkinni líka!

Svo sem ekki neinn gríðarmill snjór í henni Heiðmörk en samt þegar svona er komið þá má gera ráð fyrir snjó í öllum fjöllum!


Varðandi sjúkraþjálfun þá fór ég líka til Gunnars sérstaks bakþjálfa. Ég gerði líklega þau slæmu mistök að segja honum bara slysasöguna mína - en ekki að hann þyrfti að laga á mér bakið þannig að ég kæmist á skíði og út að hjóla. Hann svona meira leiðbeindi mér hvernig ég ætti að komast hjá því að reyna á bakið með því að gera helst ekki neitt og haga öllum hreyfingum þannig að ég myndi ekki reyna á bakið. Borferðir á Hlöðufell voru ekki til neinnar sérstakrar umræðu. Upphafið hjá t.d. Árna ökklaþjálfa var aðeins annað þegar ég kom á hækjunum til hans, með röntgenmynd sem sýndi mölbrotinn fót með sögu um að hann væri ennþá að mestu ógróinn en ég vildi hins vegar sjálfur helst fá að vita hvenær ég gæti farið í svona einhverja alvöru fjallgöngu. Ég klikkaði víst alveg á að láta Gunnar vita um það hvernig lífi ég lifi - eða vil a.m.k. lifa.

Svo má kannski líka færa til bókar að ég á að vera að læra andhverfar varpanir sem ég skil eiginlega ekki neitt í og raunar skil stundum ekki af hverju ég er að þessum masókisma þarna í háskólanum! Ég hefði a.m.k. átt að sleppa þessum hræðilegu andhverfum - hef varla erindi sem erfiði þar!

Lét ekki sjá mig á árshátíð HSSR sem var í Hrauneyjum. Bæði lærdómsvesen en líka þetta bak dálítið líka.

Og meðan ég man. Ólöf á neðri hæðinni er víst búin að finna sér hund til að koma í staðinn fyrir Guttann. Vona að hann verð án gelteiginleikanna.

Já og svo loks - þá er hugurinn dálítið hjá frönsku þjóðinni eftir hryðjuverk síðasta föstudags.

Sunday, October 11, 2015

Það var farið einn einn leiðangur á Hlöðufell

Áður en haldið var í hann upp á Hlöðufell. Fjallið búið að rífa af sér og allt hið bestasta! Ég tók reyndar engar frekari myndir í ferðinni. Ferðafélagarnir voru með betri myndavélar og sáu um það. Ég líka of upptekinn við mælivinnuna.

Veðurspáin var búin að sveiflast fram og til baka með tímasetingu á sæmilegu veðri við Hlöðufell. Stundum gott á föstudegi og stundum gott á laugardegi - stundum sæmilegt báða dagana. Að endingu var komin sæmileg spá bara fyrir laugardag en ekki fyrir föstudag þannig að það varð úr. Boð látin út ganga til sérlegra aðstoðarmanna, Gunna og Haraldar að það yrði farið í bítið á lagardeginum. Lagðir af stað úr bænum eitthvað uppúr klukkan 7 að morgni. Sem reyndist vera hin ágætasta tímasetning því Hlöðufellið var að rífa af sér þegar við nálguðumst það.

Fórum upp frá Gullkistu aðallega af því að ég gerði ráð fyrir ófærð norðan Skjaldbreiðar. Veit ekki hvort þar var ófærð en það var talsverður snjór fyrir ofan Laugarvatn eitthvað sunnan við Gullkistu og áfram á Miðdalsfjalli. Ruðningar á veginum og ekki björgulegt um framhaldið. Þetta var hins vegar bara staðbundinn snjór og þar sem farið var niður af Miðdalsfjalli var aftur orðið autt. Snjólaust að kalla inn á Hlöðuvelli.

Eftir að hafa boðið upp á ómerkilegt neskaffi en ágæta kanilsnúða og kleinur var haldið af stað upp á fjallið. Alls kyns hafurtask tekið með. Bæði til að mæla upp kjarnana sem höfðu verið boraðir tveimur vikum fyrr en líka búnaður til vetrarferða, broddar, axir, línubútur og slíkt þar sem ég gerði ráð fyrir talsverðum vetraraðstæðum í fallinu.

Uppferðin gekk afar vel og vorum komnir í fyrsta sýnatökustað. Gekk hins vegar ekkert of vel að finna hann þar sem GPS mælingar á honum höfðu klúðrast þegar kjarnarnir voru boraðir. Merkilegt nokk samt að punkturinn sem ég hafði búið mér til af korti af staðnum var bara með 2m skekkju þegar ég leit á tækið.

Í Kletabelti Hlöðufells. kjarnaborinn hitaður með prímusvatni! Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

En þetta var ekkert alveg að gera sig. Kjarnarnir gaddfreðnir inni í klettinum. Það var brugðið á það ráð sem ég hafði undirbúið að hita vatn á prímus og svo var borkrónu stungið ofaní og handborað í gegnum frosið borsvarf. A.m.k. tveir kjarnar brotnuðu og útlitið ekki of gott. Tókst þá eitthvað að bæta aðferðirnar og náði að hreinsa í kringum restina af kjörnunum.Mæling á kjörnunum var svo ekki alveg að gera sig því að þrátt fyrir að hann Hlöðufellið hefði rifið af sér skýjaslæðurnar þá var ekki það sama að segja um fjöllin í nágrenninu. En það var sæmilegt sólskin og því notað sólarmið - þannig að ég þarf víst að fara að reikna eitthvað! Til að auka enn á gleði mína vantaði strik á fyrsta kjarnann og hann því ónýtur. Frekar verulega fúlt. En þá var bara að vanda sig meira!

Tókum ekki kjarna efst í klettabeltinu við gönguleið þar sem mig langaði meira í aðra kjarna ofar í fjallinu. Gæti alltaf tekið kjarnana í klettabeltinu á bakaleiðinni.

Borkjarnar mokaðir upp í hraunstalli ofan neðra klettabeltis Hlöðufells. Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Í litlu árgili við lítinn hraunstall þurfti að moka smá til að komast í kjarnana. Þar var ekki margt um fína drætti við orienteringu á kjörnum þar sem skyggni var lítið og sólin horfin. Það var notaður steinn í ekki mikilli fjarlægð og svo lét sólin sjá sig af og til. Veit ekki alveg með gæði allra þeirra mælinga.

Uppi á Hlöðufelli. Búinn að moka upp kjarnana og að myndast við að handbora þá út með bornum sem var hitaður með vatninu í prímusnum sem sést líka á myndinni við annan fótinn á mér. Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Áfram var haldið alveg upp. Þar var allt á kafi í snjó og talsverður mokstur til að komast í kjarnana. Aðstæður ekki of góðar og til að hafa eitthvað mið var hugmyndin að Gunninn myndi gerast mið. Hann gekk eitthvað í burtu og var óðar horfinn sjónum okkar. Kom eitthvað nær og reynt að miða á hann. En sá sem hefur prófað að fókusera með augunum í gegnum lítinn spegil á einhvern mann í þoku í hvítri auðn veit líkleg að það er eiginlega ekki hægt að gera. Það var því súrt í broti að ekki var hægt að mæla segulskekkju við þessa kjarna af neinu viti við svo búið. Pökkuðum saman en þá bara allt í einu blasti við Högnhöfði og önnur fjöll. Áttavitinn og annar búnaður dreginn upp hið snarasta og náð að mæla segulskekkju fyrir öll sýnin sem voru tekin. Reyndar bara teknir líklega 6 kjarnar af þeim rúmlega 10 sem eru þarna. Sumir reyndra niður við jörð og því hefði verið meiriháttar mokstur að ná þeim upp!

En svona um hvernig happið er að á síðasta kjarnanum sem var mældur þá rétt náðst í miðið sem var notað. Hefði ekki mátt neinu muna.

Fallegt veður á leiðinni niður! Mynd frá Haraldi Gunnarssyni

Haldið af stað niður í hinu fegursta veðri. Það var farið að skyggja þannig að kjarnar efst í klettabelti fá að bíða betri tíma. Hvenær sem sá tími kemur. Geri ekkert sérstaklega ráð fyrir að fara aftur upp á fjallið fyrr en þá næsta sumar. Niðurleiðin gekk ágætlega svo sem. Minn brotni fótur alveg þokkalega að standa sig en þetta var samt óttalegt pauf. Þó það hljómi eins og argasta bull þá er mikið auðveldara fyrir mig að ganga upp á fjall en niður af fjalli!

Vorum komnir með hausljós á niðurleiðinni, smá brauðsnæðingur við bílinn og svo haldið heim á leið um Gullkistuveg um kl. 8. Gekk vel og vorum reyndar álíka lengi að komast til baka og uppeftir. Um 50 mínútur niður á þjóðveg. Komnir í bæinn vel fyrir 10 um kvöldið held ég. Sem sagt innan við tveggja tíma bíltúr

Vel heppnaðir ferð lokið og ég fyrir mína parta dálítið uppgefinn eftir það. Aksturinn tók reyndar líka aðeins á. Eitthvað uppundir 20 kjarnar í poka bíða núna frágangs og sögunar hjá Leó - þegar hann kemur heim úr Svíþjóðarferð eftir eina viku.

Annars líka í manns persónulegu frásögur fært að þetta var fyrsta gangan mín í snjó frá því að ég braut mig. Gekk í raun og veru bara mjög vel held ég!

Monday, October 05, 2015

Eitt og annað til að halda lífinu í blogginu

Gutti ekki lengur meðal lifenda


Our neighbour, Guttormur - called Gutti!
Guttormur fyrir svona 8 árum

Ekki væri nú gott ef blogginu mínu yrði bara lógað - eins og aumingja Gutta af neðri hæðinni var lógað í vikunni sem leið. Fyrir þá sem ekki vita þá var Gutti hundur, sígeltandi á meðan hann var upp á sitt besta en var reyndar orðinn of gamall og lasburða síðustu misserin til að gelta af einhverju viti. Ólöf (mamma hans sko) sagði mér frá þessu með tárin í augunum. Ég held að hún sé, þrátt fyrir að vera komin á níræðisaldur, farin að hugsa um að fá sér nýjan hund... einhvern lítinn sagði hún. Það óttast ég því minnstu hundarnir gelta yfirleitt hvað mest.

Af mínum fæti og af minni öxl

Engar fréttir eru góðar fréttir. Það fréttist annars dálítið af fætinum um mánaðamót júlí - ágúst, sem ekkert var bloggað um þá. Ég hafði gert ráð fyrir að fara að komast í felt vinnu um það leyti en þá snarversnaði mér í fætinum og kom sár stingverkur í ökklann. Sjúkraþjálfarar í fríi þá og ég haltur í svona tæpar tvær vikur. Var farinn að nota hækju aftur heima við :-(

Árni sjúkraþjálfari greindi þetta sem vandamál frá brjóskinu - sem er þá líklega raunverulega skemmt og miðað við hvernig hann varð á svipinn þegar hann var að skoða mig þá er þetta ekki mjög gott. Mér batnaði nú samt en feltvinna tafðist um tæpan mánuð. Er núna hjá honum svona 2-3 skipti í mánuði.

Já - og svo - Er að reyna að létta mig til að minnka álagið á fótinn. Markmiðið að komast a.m.k. niður í 90kg og helst 5kg betur. Er má segja hálfnaður úr 100kg og kominn í kringum 95kg. Er nú samt ekkert rosalega mikið í megrun en reyni að hreyfa mig sem mest og borða kannski aðeins minna. Kominn aftur með kort í Worldclass. Skondið að hitti þar Þorleif vinnufélaga. Hann sagði að það væri a.m.k. jákvætt að ég væri að gera eitthvað í mínum málum. Heldur fólk almennt að ég hreyfi mig ekki neitt - eins og hann virðist halda. Varð hálf kjaftstopp við þetta komment hans. Hef það sem af er ári hjólað og gengið um 2300km ef miðað er við það sem er skráð hjá mér á Endomondo. Göngutúrar hvers konar þar af tæpir 500km. Var 46 mínútur upp að Esju-Steini síðast þegar ég fór - um mitt sumar reyndar - áður en ég fór að finna til í fætinum að nýju - minnir mig.


Aðeins um öxlina, þá er hún bara eins og hún er. Raggi sjúkraþjálfi vill meina að ég sé ennþá að ná meiri hreyfigetu. Hreyfigetan er að mörgu leyti ágæt en samt ekki eins og hún á að vera. Finn fyrir öxlinni ef ég er að hreyfa hana upp, út og suður. Veit ekki hvort hún flokkast sem einhver örorka eða hvað - en það er líklega komið að því að skoða það einhvern tímann. Hef verið hjá Ragga helst vikulega þegar ég hef komist.

Af segulmælingum og annarri jarðvísindavinnu

Gunni borar í klettabelti Hlöðufells

Búið að ganga upp of ofan. Eftir að ég fór að treysta mér vegna míns fótar í alvöru fjallgöngur - eða svona einhverjar brattar utanslóðafjallgöngur - þá er veðrið búið að vera að stríða mér. Tekst til að ég sé búinn að fara tvisvar til þrisvar upp á Hlöðufell og á núna holur sem á eftir að sækja kjarnana í. Það er hins vegar kominn einhver snjór. Veðrið á laugardag hefði verið allt í lagi ef það hefði ekki verið kominn snjór. það rigndi líklega í gær þannig að ég sé til hvað verður.

Svo eigum við bræður eftir að mæla Hagafellsjöklana. Þar er væntanlega kominn einhver snjór þannig að það verður e.t.v. erfitt.

Í ofanílag er flóð í Skaftá nýafstaðið - eða varla það. Gunninn auðvitað í sinni vinnu að mæla flóðið en ég bara hef það hlutverk að sitja í mínu sæti og reyna að fá fólk til að vinna eitthvað sem það vill ekki vinna og enginn nennir að gera. Veit ekki af hverju þetta óréttlæti stafar. Hvað gerði ég eiginlega vitlaust. Er reyndar að skrópa í vinnunni núna en það er líklega allt í lagi þegar maður er bara í hálfri vinnu.

Aftur að námi þá er ég í einum kúrs núna um sprengigos. Svona hefðbundinn nemendafyrirlestrakúrs með Þorvaldi þar sem ég er einn íslendinga. Fáir nemendur og næstum helmingur þeirra í doktorsnámi. Ég einn í jarðeðlisfræði. Skil samt ekki alltaf hvernig getur staðið á því að stundum virðist ég vita meira um jarðfræði en þau.

Velti samt alltaf meira og meira fyrir mér af hverju í ósköpunum ég sé að leggja það á mig að læra þetta. Sé ekki fram á að vinna nokkurn tímann við nein jarðvísindastörf og eiginlega þegar ég útskrifast þá verði það bara end of story. Kannski bara kostur að þetta dragist á langinn ef mér finnst þetta á annað borð vera skemmtilegt. Kannski bara betra að holurnar mínar fenni á kaf og ég komist ekki í að klára felt vinnu fyrr en næsta sumar og þá teygist útskriftin fram á haust 2016. Gerði nú annars einhvern tímann ráð fyrir að klára þetta áður en ég yrði fimmtugur.

Tunglmyrkvi

Lunar eclipse 28. september 2015

Svo bar það til tíðinda að það varð tunglmyrkvi. Fór nú ekki langt til að skoða hann. Lét mér nægja að fara út í garð og út á götu!

lunar eclipse

Já og pínulítið undarleg haustverk

Ég fattaði reyndar einhvern tímann um helgina að ég hefði átt að fara á föstudagskvöldi austur í Fellsmörk, bara einsamall. Gista og fara svo á laugardeginum til að skoða flóðið í Skaftá. Hefði svo getað gist aftur á bakaleiðinni. En það gerði ég ekki

Þess í stað stóð ég í garðslætti í október. Reyndar hafði verið örlítill snjór, krap hér og þar í henni Reykjavík á laugardagsmorgninum en eftir að hafa farið stuttan fjallahjólatúr í Heiðmörk var farið á Urðarstekk og slegið gras sem hafði eitthvað lítið verið slegið um sumarið. Lenti reyndar í miklum vandræðum með rafmagnið þar því það sló alltaf út. Þurfti að tengjast 20A tengli með stórri Tichino kló til að geta haft sláttuvélina í gangi.

Svo þegar ég kom heim í Hæðargarðinn þá sló ég bara líka blettinn hjá mér, báðum megin hússins en reyndar eki hjá Ólöfu.

Monday, June 29, 2015

Kerfillinn tekur völdin



Þegar ég arkaði upp að Steini í vikunni sem leið, fór ég að velta gróðrinum aðeins fyrir mér. Ég man ekki hvernig þetta var þegar ég fór fyrst í göngutúr á Esju en held að ekki hafi þá verið fyrir miklum gróðri að fara. Einhverjar fjallaplköntur sem uxu þarna í mölinni.

Fyrir einhverjum árum voru lúpínubreiðurnar allsráðandi ef ég man rétt en núna er önnur tegund búin að ná yfirhöndinni að ég tel. Kerfilsbreiðurnar eru þarna alls staðar. Svo sem fallegt yfir að líta en vægast sagt frekar einsleitur gróður!

......

....

Nöldur

Um helgina þegar veðrið lék við landsmenn var minn leikur háður í roki og rigningu sunnan undir Mýrdalsjökli.

Í morgunn þegar veðrið var gott í henni Reykjavík mátti vart heyra mannsins mál fyrir einhverjum framkvæmdum utandyra og svo var ekki hægt að fara í bað því nær ekkert heitt vatn var í boði frá Orkuveitu Reykjavíkur (kannski tengsl á milli framkvæmdahávaða og vatnsleysis - en held annars að aðal hávaðinn hafi komið frá sláttuorfum), svo var ég með verk í baki og gat mig varla hreyft fyrir utan ökklann sem var með verra mótinu og svo til að gera útslagið og hrekja mig að heiman (ég sem hafði ætlað að vinna heima til hádegis) var geitungsóféti sem sveimaði um íbúðina í vígahug albúinn að gera árás.

Ég velti fyrir mér hvort þetta eigi eftir að versna eitthvað - en er annars bara góður!

...

Komst svo að því að heitavatnsskorturinn stafar af framkvæmdum. Það er víst vatnslaust í þarnæstu götu!



En ég hefði samt haldið að helvítis geitungarnir ættu að vera úti að leika sér en ekki inni heima hjá mér - búnir að hertaka íbúðina.

Wednesday, June 24, 2015

Esju-Steinn


Mér telst til að í dag séu 5 mánuðir frá því ég mölvaði á mér hægri fótinn. Hélt upp á það (reyndar án þess að hafa áttað mig á að það væri afmæli) með að skottast upp að Steini. Ferðin upp gekk eiginlega framar vonum. Þrátt fyrir að hafa stoppað í nokkrar mínútur á leiðinni upp til að spalla við Melkorka Jónsdóttir​ í þágufalli reyndar þá sýndi skeiðklukkan 57:53 þegar upp að Steininum var komið. Ég man ekki betur en að það séu 60 mínútur sem skilji þar á milli feigs og ófeigs.

Niðurgagnan er meira fyrirtæki fyrir farlama mann og var ég líklega um einn og hálfan tíma að komast niður. Ég held annars að ég hafi verið hálf undarleg sjón þar sem ég á köflum næstum því skreiddist niður en samt jafn sportlega búinn fyrir neðan mitti og alvöru Esjuhlaupari - eða kannski bara eins og hver annar kvenmaður - þ.e. í hlaupabrók. Ég þarf einhvern tíman að tjá mig eitthvað þessa undarlega tísku að sá klæðnaður sem mér finnst þægilegastur í sumargöngu í köldu íslensku sumri er eingöngu viðurkenndur á karlmanni ef hann er úti að hlaupa eða hjóla. Konur mega hins vegar klæða sig í þrönga brók þegar þeim bara dettur í hug og þykir held ég kúl. Ef ég tek upp á því þegar ég er ekki úti að hjóla eða hlaupa þá yrði ég hins vegar talinn eitthvað undarlegur.

Mikið djöfull var ég svo svangur þegar heim var komið. Verslaði ógeðslega vondan grillaðan kjúkling í Hagkaup og hann var étinn með soghljóðum!

Sunday, June 14, 2015

Eitthvað getur maður þó gert!


Kominn upp að læk á 39 mínútum með þumalinn á lofti... jú, hann er bæklaður eins og sumt annað í manni!

Eftir að hafa fengið dauðadóm hlauparans hjá Ríkarði lækni var verið hjá Árna sjúkraþjálfara daginn eftir. Hann sagði mér nú ekkert alveg að taka þessu sem endanlegum dómi að ég ætti aldrei eftir að hlaupa. Stakk upp á að ég færi í segulómun - sem reyndar er ekki hægt fyrr en búið er að taka járnadótið burt - og það verður ekki fyrr en á næsta ári. Þá kemur í ljós hver staðan á brjóskinu mínu í ökklanum er og þá kannski hægt að gefa endanlegri ráð um hversu viturlegt verði fyrir mig að fara að hlaupa aftur. En jæja - hann síðan eiginlega skipaði mér að fara á göngustíginn í Esjunni - sem ég gerði kvöldið eftir.

Esjugangan fyrsta gekk bara vonum framar. Fór með Gunnanum og var ekkert með of miklar væntingar fyrirfram. Lágmark að fara upp tröppurnar í fyrsta bratta kaflanum. Halda svo helst áfram að brúnni yfir Mógilsá. Halda áfram ef allt væri í góðu en fara kannski ekkert lengra en upp að læknum þar sem aftur er farið yfir hann. Þetta gekk allt eins og í sögu og var kominn þangað á um 55 mínútum. Nðurferðin tók einhverjum mínútum lengri tíma - og er eiginlega mikið meira mál þar sem ég vil ekki vera að trampa á aumingja ökklanum mínum.

Varð svo hálf slappur á föstudeginum - en reyndar búinn að vera með aðkenningu að einhvers konar hálsbólgukvefi dagana á undan. Lagðist á föstudagskveldi og missti af þriggja skólagöngu Dísanna tveggja.

Svo í dag á sunnudegi, þrátt fyrir að vera ennþá hálf slappur og rúmlega það var haldið af stað áleiðis á Esju. Núna var enginn Gunni með til að spjalla við og ég líka aðeins meira meðvitaður um hvað ég gæti. Tíminn upp að læk kominn niður fyrir 40 mínútur og það held ég að myndi samsvara því að komast upp að Steini á klukkutíma. Ég er sem sagt að komast réttum meginn við línuna sem skilur á milli feigs og ófeigs.

Niðurgangan gekk hægt fyrir sig en samt örlítið hraðar en á fimmtudeginum. Endaði niðurferðina á 55 mínútunum sem var uppgöngutíminn þá! Hálf datt held ég tvisvar og krossbrá í bæði skiptin. Ekkert gerðist og svo sem ekki nein sérstök hætt á ferðum - en áminning um að fara varlega.


En margt getur komið einum manni á óvart. Fékk ábendingu frá Þórhildi Jetzek um að það væri mynd af mér á Vatternrundan síðu. Og það er! Ég virðist vera eitt af andlitum Vatternrundan þetta árið - með mynd frá árinu 2009 ef ég man rétt. Í kjölfarið hafa skapast umræður og það stefnir allt í að farið verði að ári eina ferðina enn. Fóturinn er dálítið áhyggjufullur reyndar!

Wednesday, June 10, 2015

Ef ég hefði raunverulega ætlað þá hefði ég átt að vera búinn...

... að hlaupa maraþonhlaup.

Ég var hjá Ríkarði lækni í morgun. Allt svo sem ágætt en þessar heimsóknir til hans hafa líklega þann tilgang helstan að uppfræða mig hægt og rólega um það hvað ég get en sérstaklega hvað ég get ekki. Hann vill ekki að ég hlaupi nokkurn tímann aftur. Þannig að ef ég ætlaði að hlaupa maraþonhlaup, þá hefði ég átt að vera búinn að gera það áður en ég braut á mér fótinn.

Stundum talar fólk um að það læri eitthvað af svona áföllum. Held að flestir séu þá að meina að þeir eigi að læra það að passa sig og fara eitthvað varlegar en hafði verið gert. Það er ekki minn lærdómur. Minn lærdómur er meira sá að ef þú getur gert eitthvað sem þig langar til að gera - drífðu þá í að gera það því þú veist aldrei hvenær það verður orðið of seint!

En ég má gera ráð fyrir að geta farið á gönguskíði og ég má fara í fjallgöngur en verð bara að fara varlega þegar ég geng niður brekkurnar. Hjólreiðar eru ágætar en samt sér læknirinn ofsjónum yfir því slasaða fólki sem kemur á slysó eftir hjólreiðaslys.

Reyndar held ég að sem sárabætur fyrir þennan hlaupaúrskurð læknisins þá eigi ég að drífa í að fara að fá mér eitt hjól í viðbót - það er hvort sem er helst það sport sem ég get stundað!
Reyndar langar mig kannski meira í ultegra týpuna sem kostar 100 þúsund kall meira og er rautt og flott. Diskatýpan af þessu (105 grúppa með diskum) vil eg hins vegar síður því það er ljótara á litinn!


Síðan er til eðalflottur svartur fákur líka í GAP frá Cannondale. Þar er hins vegar 105 týpan skráð með 10 gíra kasssettu - og það hljómar of undarlega fyrir minn smekk til að vera valkostur.

Sunday, May 31, 2015

Þegar framfarirnar koma í stökkum


Kominn heim í Hæðargarðinn eftir fyrsta hjólatúrinn!

Fór með Gunnanum í Fellsmörk um síðustu helgi - hvítasunnuna. Gekk mest 8 km einn daginn, reyndar í þremur göngutúrum. Það var bara einni viku held ég eftir að ég fyrst fór út að ganga hækjulaus. Þetta gekk ágætlega en vikuna eftir það fannst mér að lítið væri að gerast. Sjúkraþjálfarar sögðust samt sjá mun á fætinum til hins betra.

Svo var það síðasta fimmtudag - en í dag er sunnudagur - að ég var bara nokkuð góður fannst mér eftir nudd og æfingar hjá Árna. Veðrið var sæmilegt og ég ákvað að gefa úti-hjólreiðum annan séns. Hafði prófað svona mánuði fyrr, áður en ég gat gengið almennilega og þá var það ekki að gera sig að hjóla á reiðhjóli. Ég réði engan veginn við að stoppa af neinu öryggi. En það var núna dálítið breytt þar sem ég get orðið notað veika fótinn mikið meira. Og þetta er eiginlega búinn að vera allsherjar unaður síðan. Er núna t.d. ný kominnn heim úr eitthvað um 35km hjólatúr þar sem meira að segja var farið upp brekkur í Elliðaárdal.

Núna er eiginlega spurningin - þegar ég fer að hitta Ríkarð lækni á miðvikudag í næstu viku, hvort ég mæti ekki bara hjólandi til hans. Hann verður varla ósáttur með það karlinn! Enda held ég að hann hafi skrúfað saman á mér fótinn til að ég myndi nota hann eitthvað aftur :-)



Hluti af hjólatúr dagsins

Monday, May 18, 2015

Heiðmörk - hefur þú nokkuð saknað mín?

Þetta var nú einhver skyndiákvörðun eiginlega. Hafði farið í fyrsta sinn líklega út að labba hækjulaus tveimur dögum fyrr. Og á sunnudegi þá var múttan manns - hver annar nennir að labba með manni - plötuð með upp í Heiðmörk og af stað var arkað!


Það var byrjað á Stórabílastæði og farið af stað stíginn sem liggur umhverfis veginn. Ekki viss um að allir viti um hvað er rætt en bróðir manns veit það líklegast og gæti rifjast upp fyrir systurinni líka. Ég stóð í þeirri meiningu að það væri hægt að komast á hliðarstígum upp á veginn til að stytta göngutúrinn en það var misminni eða bara falsvon. Það var gengið alla leið fyrir veginn og reyndar hann farinn til baka. Var samt ógreiðfærari en stígurinn. Var orðinn hálf þreyttur í lok göngunnar en samt bara þokkalega brattur. Fannst við háttatíma að fóturinn væri örlítið þrútnari en venjulega. Unnur í Gáska sagði að það væri nú ekki mikið að þrútna örlítið eftir svona labb. Enda varð þetta á fimmta kílómetra samkvæmt honum Endomondo.


Hringurinn sem var genginn

Tuesday, April 28, 2015

Læknirinn hringir ekki tvisvar

Ég átti að hringja í Ríkarð lækni í dag. Hann varð fyrri til og hringdi í mig.

Staðan sú að ég má fara að stíga í fótinn með vaxandi þunga og æfa mig á einum fæti á meðan ég finn ekki til. Má samt ekki hlaupa eða hoppa. Það stendur til næstu heimsóknar til hans sem verður 10 júní. Þá verða víst komnar tæpar 20 vikur frá því að fóturinn gaf sig. Það er þokkalega langur tími!

Verst að ég hafði plan um að fara í heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins sem er viku fyrr. Ég verð því bara gangandi þar. En ætli ég geti haldið yfir 7km gönguhraða eða meira... kemur í ljós! En það er e.t.v. kominn fylgdarmaður til að styðja mig í mark.

Og annars. Tók upp á nýju einu í Worldclass. Það má nefnilega nota hlaupabrettin þar sem eins konar göngugrind. Gekk sæmilega eðlilegu göngulagi heila 500 metra upp hóflega brekku.


Allt að 10km hækjulabb í hverri viku



Og svo 20-30km á dag á þrekhjólinu núna síðustu dagana!

Sunday, April 26, 2015

Að velja sér sport við hæfi

Sveifin stigin í Worldclass

Núna velur maður sér íþrótt við hæfi - og raunar líka að einhverju leyti verði. Bæði læknir og sjúkraþjálfarar hafa sagt mér að hjóla og sérstaklega Ríkarður læknir lagði upp úr því að ég væri að hreyfa fótinn nógu mikið. Núna er hann allur á iði.

Hjólatilraunin á alvöru hjóli eins og eitthvað var sagt frá í síðustu færslu, gekk ekki of vel. En mér sýnist að þrekhjólatúrar séu málið hjá mér núna. Er búinn að fatta a.m.k. mælaborðið á hjólunum í Worldclass og alveg þokkalega sáttur. Skil samt ekki alveg af hverju það er ekki haft almennilegt hjólasæti á þessum hjólum. Manni er ætlað sitja þarna í einhvers konar hægindastól ef miðað er við þá hjólahnakka sem ég er vanur.

Svo kannski skondnasti hlutinn við þetta er að þegar ég skakklappast inn í tækjasalinn í Worldclass á einni hækju þá er dálítið horft á mann. En svo eftir að hafa hamast í klukkutíma eða svo á hjólinu og flestir sem sáu hækjumann koma eru löngur farnir, þá verður fólk dálítið undrandi að sjá einhvern fara á hækju til baka eftir að hafa hamast á þrekhjóli heila eilífð!

Annars með aðstöðuna í Worldclass þá er frekar hallærislegt að þurfa að láta kveikja á lyftunni fyrir sig í hvert skipti sem halda skal niður. Og svo velti ég orðið mikið fyrir mér þessum bílastæðum sem eru merkt fötluðum. Hef ekki enn lagt í slíkt stæði enda er ég ekki með neitt bevís upp á það. Er samt enn á hækjunni.

En það ætti að fara að breytast - að ég sé á hækjunni alt svo. Er reyndar bara á einni núna svona almennt - og raunar sleppti ég að nota lyftuna í Worldclass núna áðan - þ.e. svona þar sem væla þurfti um að láta kveikja á henni.

Wednesday, April 22, 2015

Læknisheimsókn

Beðið milli vonar og ótta eftir að Ríkarður kallaði mann fyrir

Ríkarður var heimsóttur í morgun á Borgarspítalann. Hann sagði margt en ekki svo margt um fótinn á mér. Honum fannst hann held ég bólginn, rauður og ljótur. Sagði að ég mæti eiga von á því að hann yrði alltaf dálítið sverari en hinn fóturinn. Ekkert sérlega skemmtilegt það. Hann verður ekkert sverari af vöðvum heldur bjúg og bólgu geri ég ráð fyrir eða einhverjum gagnslausum vef sem myndast á áverkasvæðinu. Svo veit ég allt um það að hann er að fara við réttarhöld á mánudaginn og þá skal hann vera með bindi og það þrátt fyrir að vera með lægri laun við réttinn en réttur og sléttur lögfræðingur. Svo er hann með lægri dagvinnulaun en ég sjálfur. Finnst annars að hann eigi að vera á afar góðum launum því þó hann sé kannski ekki heimsins besti læknir í svona endurkomuheimsókn, þá þykist ég vita að hann sé með þeim allra bestu í að skrúfa mann saman - og það er það sem nýttist mér fyrir þremur mánuðum.

En það er BHM verkfall og enga röntgenmyndatöku að hafa á ríkisreknum Borgarspítalanum. Ég fór því með bevís í Domus Medica og lét mynda minn fót þar. Er kominn með myndir eins og sjá má.

Greiningin á myndinni er að þetta hafi ekkert haggast þannig að skrúfurnar halda. Það er kominn einhver gróandi og ég er að fá callus í sprungurnar sem er gott. Hins vegar (væntanlega út af notkunarleysi ökklans) er vaxandi osteopenia í ökklalið. Það er víst vísir að beinþynningu. Heildarniðurstaðan var að situs væri óbreyttur (sem er að brotið situr áfram rétt og vel - sem er gott, afar gott og grundvallaratriði miðað við hvernig brotið var) og svo er vaxandi gróandi (sem er líka afar gott).

Hvort þetta þýði að Árni megi fara að láta mig standa á öðrum fæti veit ég hins vegar ekki en ljóst að eftir kvöldgöngutúr eða jafnvel hvort sem hann var eða ekki, þá er ég með sá verk í miðjum leggnum.

En maður verður að vona hið besta enda er ég yfirleitt að skora nokkuð sterkt í Pollýönnuleikunum!

Já, og annars. Ríkarður sagði að ég ætti að fara bara út að hjóla - kannski ekki allann Elliðaárdalinn en eitthvað svona þægilegt. Reyndar kannski bara þrekhjól sagði hann líka. En það endaði með því að ég náði Antilópunni gráu niður af snaga, pumpaði í og hjólaði smá. Svona alveg 50 metra og til baka aftur. Leist eiginlega ekkert á þetta. Á bakaleiðinni tókst mér ekki að stoppa og þurfti að finna kant til að geta stoppað af einhverju öryggi. Það er víst eitthvað í að ég fari almennilega að hjóla á hreyfanlegu reiðhjóli. Spinning hjól verða að duga og kannski fær maður sér bara treiner og setur reiserinn á hann í stofunni.

Var svo eitthvað að lesa um brotna fætur og komst á alvöru læknasíður. Þetta lítur víst ekkert allt of vel út hjá mér held ég. Held ég geti alveg bókað það að ökklinn slitnar hratt ef ég næ að nota hann af einhverju viti. Spurning um að sérhæfa sig í hjólreiðum og kajakferðum. Verst að öxlin er ekkert of jákvæð fyrir kajakferðir. Annars þá var verslaður hjálparhlutur í dag. Keypti mér lítinn últra þægilegan bakpoka sem er möst að vera með ef hendurnar eru uppteknar af því að vera með hækjur. Á víst að vera sérhannaður hjóleiðabakpoki. Bara nokkuð ánægður með hann. Búinn að fara með hann í Bónus og Ríkið. Það er bæði hægt að hafa bland og bús í svona poka.

Af öðrum hjálpartækjum hafa verið verslaðar gúmmíteygjur og compressionsokkar. Mér telst til að ég muni vart ganga í öðru á næstunni.

Tuesday, April 21, 2015

Áreynsla

Í sjúkraþjálfun í síðustu viku líklega þá datt mér í hug að spyrja hann Árna að því hvort það væri eitthvað vit í að ég færi út að hjóla. Vissi ekki alveg hvað hann myndi halda þar sem ég er ennþá að skakklappast með eina til tvær hækjur. En honum leist bara vel á það. Ég samt gugnaði eitthvað á því en endaði á að fara í World Class áðan og hamast aðeins á þrekhjóli þar. Var reyndar líka búinn að prófa aðeins á þrekhjóli í Gáska líka í gær.

Veit ekki alveg hvað hjartað í mér hélt en það hefur líklega ekki slegið almennilega yfir 100 slög á mínútu síðan ég var að rölta upp á Lambafellið fótbrotadaginn ægilega. Efast um að hækjulabbið hafi gert mikið með hjartað eða þolið í skrokknum. Vona að ég nái mér aftur almennilega á strik - en ljóst að það gerist ekkert af sjálfu sér.

Fór svo annars á árshátíð Símans, Staka og allra hinna á laugardaginn. Það var bara ágætlega heppnað en ég dálítill rati að þekkja ekki fólk sem ég átti að þekkja. Þekkti nú samt hana Lóu sem vann með mér fyrir áratugum. Svo eru held ég aðrir sem þekkja mig ekki neitt lengur. Var annars skondið að vera á svona árshátíð þar sem ég þekki hvorki haus né sporð á forstjóranum sem var með einhverja svona la la ræðu þarna líka.

Er svo búinn að vera að reyna að komast aftur af stað með MS verkefnið mitt. Fór meira að segja aðeins að segulmæla í Öskju í síðustu viku. Byrjaði á að mæla á mér fótinn og innvolsið virðist ekki vera segulmagnað. Ætla helst að fara aftur á morgun eftir að hafa farið í endurkomu til Ríkharðs.

Já, það er nefnilega endurkoma á morgun hjá mér á Borgarspítalann. Veit samt ekki hvernig það verður. Geislafræðingar eru í frí þannig að ég veit ekki hvort ég fái röntgenmynd.

Wednesday, April 15, 2015

Tveir sem eru að reyna að verða jafnfljótir

Hlaupaskór sem hafa lítið fengið að gera það sem þeir eru gerðir fyrir

Ætli það geti ekki talist áfangi í dag. Það var farið út að ganga í tveimur hlaupaskóm. Það gekk reyndar bara vel. Kannski var eitthvað að virka til að minnka bólgur kælikrem sem ég bar á fótinn í gærkvöldi. Geri það líklega aftur núna í kvöld. Svo var ekki nóg með að gengið væri í samræmdum skófatnaði utanvegahlaupara heldur beitti ég líka nýrri aðferð sem ég fann upp sjálfur. Er á tveimur hækjum og beiti þeim eins fyrir báða fætur. Gekk sem sagt eins og ég væri með slas á báðum fótum. Það var gengið frekar rólega og göngulagið ekkert alveg eðlilegt en það varð nokkuð symmetrískt við þetta.

Spássitúr einn ágætur

Þetta voru 2.3km á tæpum 50 mínútum. Geri aðrir betur... á hækjum!

Sunday, April 05, 2015

Fóturinn


Í einum af göngutúrum liðinnar viku

Fóturinn er eitthvað í áttina en ég veit aldrei alveg hvað ég má vera að reyna á hann. Fór í Sjúkraþjálfun á miðvikudag til Unnar og sýndi henni myndirnar sem voru teknar þegar ég var tekinn úr gifsinu. Henni leist ekkert allt of vel á þetta fannst mér á henni. Sagði að þetta væri yfirleitt meira gróið 8 vikum eftir brot. Einhvern veginn fannst mér þetta vera allt í voða aftur eftir að hafa horft á myndirnar með sprungunum sem virtust í raun vera galopnar ennþá.


Röntgen mynd tekin 18. mars þegar fótur fór úr gifsi. 7 1/2 viku eftir slysið.

Fór svo seinna um daginn þann að lesa eitthvað blogg um gaur sem braut upphandlegginn báðum meginn. Hann ætlaði aldrei að gróa neitt og var alltaf að brjóta beinið upp aftur og aftur og jafnvel án þess að átta sig á því að hann væri að brjóta það upp. Las líka um einhverja stelpu sem fótbrotnaði og einhverjum mánuðum seinna var brotið alls ekki gróið. Þar var spekúlasjónin sú að ef brotið væri stórt þá tæki lengri tíma fyrir líkamann að láta það gróa. Svona eins og það væri einhver hámarks heildar afköst sem væri hægt að láta bein gróa og ef brotið væri dálítið djúsí þá tæki lengri tíma að láta það gróa. Mitt bein er augljóslega nógu brotið.

Ég var í raun farinn að setja talsverðan þunga á fótinn en fékk sem sagt einhverja bakþanka með það. Ef gaurinn á blogginu var að brjóta upp það sem var að gróa í handleggnum án þess að fatta það, þá er spurning hvað ég er að gera með hálf-ógróin bein í fætinum og setja á hann kannski 80kg þunga. Dílemman er svo sú að ég þarf að setja álag á beinið til að það fari að gróa meira en álagið má ekki vera það mikið að ég brjóti jafn harðan upp það sem er búið að gróa.

það var annars ágætt að fara í sjúkraþjálfun til Unnar og ætli ég reyni ekki að halda því áfram einu sinni í viku með því að vera tvisvar í viku hjá Árna.


Fóturinn að koma úr sturtu síðustu helgina í mars. Skurðsárið farið að líta ágætlega út.
Vinstri fóturinn er ekkert lengri en hann er líklega aðeins framar. Hann er hins vegar greinilega vel digur miðað við þann hægri.

Þar sem skurðsárið er búið að loka sér mjög vel þá fékk ég grænt ljóst á sundferð hjá Árna. Fór föstudag langa í sund með Gunnanum. Þar leiddi haltur blindan því hann hann kunni ekkert á að fara í sund - þar sem það er orðið frekar hátæknilegt. Það bjargaðist þó allt. Mér gekk ágætlega í sundinu en vissi ekki alveg hvað ég ætti að vera að gera í sundinu. Þorði ekki að synda að neinu marki þar sem ég óttaðist að sparka i eitthvað fast og tjóna fótinn. Gekk því bara 100metra í lauginni og fór svo í heitapottinn.

Er svo líka búinn að vera af og til í heit-köldu fótabaði til að örva fótinn og minnka bólgur. Ráðlegging frá Unni. Hann er annars þannig fóturinn þegar líður á daginn að hann er jafnbreiður upp að hné. Eðlilegur fótur breikkar við táberg, mjókkar við ökkla og er svo breiðastur á kálfvöðva. Minn fótur er svo bólginn um ökkla og kálfvöðvar svo rýrir að það má segja að hann sé jafn frá tábergi og upp að hné.

Af öðrum málum

Annars hefur tvennt borið til tíðinda þessa páskana.

Ég fór að rifja upp hvað ég er að gera í þessu mastersverkefni mínu. Þarf að fara að taka þann þráð upp aftur ef ég er ekki bara hættur því rugli. Unarlegt að vera að læra eitthvað í framhaldsnámi í háskóla sem maður sér ekki beinlínis fram á að vinna nokkurn tímann nokkurn við. Hafa hvorki efni á því að vinna þannig vinnu tekjulega séð og eiginlega á ég ekki von á að mér bjóðist neitt af slíkum störfum. Er dálítið að átta mig á að ég bara klára þetta MS nám og svo er því kannski bara lokið og ég dálítið á sama stað og ég var áður.

Uppfærði þá örlítið háskólabloggið mitt þannig að eitthvað kemur þar fram um verkefnið.
Hitt bar til tíðinda að e.t.v. bjargaði ég lífi hundskammarinnar á neðri hæðinni á föstudag langa. Það var gelt heilan djöfulmóð á þeim helgasta degi og ég bölvaði og ragnaði af því tilefni. Stappaði niður óbrotna fætinum og barði hækjunni í gólfið frekar illilegur. Svo heyrði ég að Guttaskömmin var komin út í garð að gelta. Skildi ekki alveg hvernig á því stóð þar sem ég var viss um að enginn væri heima á neðri hæðinni fyrir utan Guttann. Þegar ég var búinn að öskra út um stofugluggann eins og hver annar brjálæðingur til að fá hundfjandann til að hætta að gelta, þá sá ég að hann skalf úr kulda. Hann komst sem sagt ekki inn, hiti nálægt frostmarki og rigning. Ég sá aumur á honum og vildi nú ekki að hann færi að drepast þarna á föstudeginum langa. Fór niður og hleypti hinum inn til Ólafar. Svo kom hún reyndar heim skömmu seinna þannig að líklega hefði hann lifað þetta af. En Deginum ljósara að sumt fólk á ekki að eiga hund!

Heilt kíló af páskaeggi!

Sumir páskaeggja framleiðendur hugsa bara um magn en ekki gæði. Hálft kíló af tæplega miðlungsgóðu mjólkursúkkulaði og hálft kíló af blandi í poka... ég meina bland í eggi. Enginn ungi eða eitthvað skrautvesen en það kom þó einn málsháttur í ljós sem ég held að hafi ekki sannað sig: Lítið er ungs manns gaman.

Veit ekki hvernig málshátturinn getur gengið upp miðað við risastórt eggið. Ef ég væri dálítið mikið yngri hefði mér þótt þetta frábært en þá væri ekki rétt að segja að gamanið væri lítið því það hefði verið stórt! Til að hægt sé að átta sig á stærðinni þá er skalinn við hliðina á egginu ekki súkkulaði heldur vísindatæki og er 15cm langt. Eggið slagar í 30 cm sýnist mér!


þetta egg annars er starfsamannapáskaegg Staka. Jón tók þá sérkennilegu ákvörðun að versla Sambó egg handa staffinu í gegnum Snorra Pál væntanlega. Aðrir Símastarfsmenn fengu bara nokkuð temmileg egg frá Nóa Síríusi. Þegar ég byrjaði að vinna í Skýrr var þar Snorri Páll og ég verslaði risaegg af honum. Þá komst ég að því að það getur komið til álita að henda rest af páskaeggi í ruslið. Ég held að þetta fari í ruslið. A.m.k. langar mig ekki í það núna. Nammið innan í því er samt allt í lagi.

Saturday, March 28, 2015

Gangandi á fjórum jafnfljótum

Fjölskyldan færist dálítið saman - a.m.k. svona hluti af henni. Mamman manns búin að vera einkabílstjóri, matráður, hjúkrunarkona og alls herjar reddari. Í dag fór hún með báða hækjukallana sína út að labba. Eða reyndar þá kom hún með þann eldri með sér í Hæðargarðinn þegar ég fékk mér göngutúr og við fórum því báðir á labbið eftir að hafa fengið okkur kaffi og með því í eldhúsinu appelsínugula.

Á röltinu með pabba sínum, báðir hækjukallar!

Er búinn að vera dálítið duglegur held ég í gönguferðunum en þær eru ennþá algjörlega á tveimur hækjum. Finn leiðinlega mikið til í ristinni sem er eiginlega ekki virka í neina alvöru göngu. Næ svona 30kg álagi með henni en þarf í raun að ná 100kg ef ég á að geta gengið almennilega. Er hins vegar að ná að setja alveg 70kg á fótinn flatann án þess að finna svo mikið til í honum. Hef ekki fundið til í sköflungnum sjálfum en fæ verk í ökklann eftir smá göngu. Hef verið að fara yfir 1km á dag undanfarna daga sem ég er bara nokkuð stoltur af.


Gamla settið sitjandi á einum ágætum Hæðargarðsbekk

Sunday, March 22, 2015

Sólmyrkvinn 20. mars 2015

Solar eclipse, 20-03-2015
Sæmilega útbúinn á Stórabílastæðinu í Heiðmörk

Man ekki hvenær ég frétti af því en það var fyrir margtlöngu. Árið 2015 er myrkvaár á Íslandi. Almyrkvinn reyndar fór rétt fyrir austan land en í Reykjavík var samt vel yfir 90% myrkvi. Eitthvað hafði mig langað til að vera meira undirbúinn, með stjörnukíkinn klárann en það fórst eitthvað fyrir að vera búinn að útvega sér sólarfilter á hann. Tókst reyndar að fá mér áætan filter á myndavélalinsur daginn áður. Í Fotoval af öllum búðum og sótti D200 hlunkinn hálfónýta í leiðinni.

Úr almanaki Þjóðvinafélagsins.

Ég var nú ekki búinn að gera ráð fyrir að mikið myndi sjást til myrkvans þar sem veðrið er búið að vera samsett úr endalausum umhleypingum svo lengi sem elstu menn muna. En eitthvað rofaði til og sólin bara skein þennan morgun, aldrei neinu vant. Reyndar undarlegt að fyrr í vikunn var eitthvað mesta norðurljósadrama sem um getur og þá var merkilegt nokk líka bjartviðri. Mér tókst samt ekki að nýta mér það á nokkurn hátt.

Gunninn aumkaði sig yfir fatlafólið og fórum við upp í hana Heiðmörk. Parkeruðum á Stórabílastæðinu. Smá snjór á víð og dreif enn þarna ofarlega í Heiðmörkinni og eiginlega dálítil upplifun fyrir mann að komast svona aðeins út í náttúruna. Vorum komnir rétt eftir að myrkvinn byrjaði. Það var myndað í gríð og erg - það kólnaði aðens - það dimmdi töluvert - meira var myndað og svo var haldið heim á leið.

The eclipse - Sólmyrkvinn

Í hámarki þá var sólin má segja greinilega í mikilli fýlu og setti upp þessa líka rosalegu skeifu. Enda vart við öðru að búast að loksins þegar henni tókst að skína eitthvað þá fór tunglið að þvælast fyrir!

The solar eclipse seen Close to Reykjavik, 20-03-2015

Ég setti svo saman eina mynd úr mörgum sem sýnir sólmyrkvann líklega ágætlega.  Bara sæmilega sáttur við niðurstöðuna. Hef samt séð annars staðar dálítið frumlegri mydnatökur af myrkvanum sem sýna eitthvað aðeins annað en bara þessa hálfétnu pizzu. Ætla annars næst (2026 sko) að taka líka mynd af umhverfinu á meðan það er að dökkna.

Það sem annars helst var að sjá í sólmykrvanum var sólblettur, líklega 2023 sem var einhvers staðar í Bandaríkjunum á sólinni séð - og er að fara að nálgast að hverfa á þessari mynd hér að neðan.


The eclipse and the sunspot