Wednesday, April 28, 2004

Ég skil ekki þessi læti út af þessu "Fjölmiðlafrumvarpi"


Það er ákaflega margt sem ég skil ekki í þessu öllu saman.

Yfirleitt leggur þessi ríkisstjórn mjög fá mál fram sem ég er ekki á móti. Ég get ekki séð að þetta sé neitt verra en margt annað sem stjórnin hefur gert.

Þegar ríkisstjórnin leggur fram góð mál (sem ég efast um að þetta mál flokkist undir) þá verð ég yfirleitt á móti þeim út af frekjulegum málflutningi og yfirgangi þeirra sem leiða ríkisstjórnina. Davi okkar hefur líklega sett persónulegt met í frekjumálflutningi í þessu máli. Hvers konar vinnubrögð eru það eiginlga að láta gera skýrslu og þykjast svo halda henni leyndri. Síðan þegar einhver gagnrýni heyrist þá þarf ekkert að taka mark á henni þar sem skýrslan á bara að vera leyndarmál áfram. Og frumvarpsómyndin var lögð fram á sama hátt.

Er þetta ekki bara hinn venjulegi davíðski framgangur sem stjórn landsins hefur búið við lengur en ég man eftir. Eða var þetta kannski dropinn sem fyllti mælinn, kannski.

Það sem mér reyndar gengur verst með að skilja er hvernig Sjálfstæðisflokkurinn sem merkisberi haftaleysis og frjálshyggju fer eiginlega að því að leggja fram svona hrikalegt haftafrumvarp. Að minnsta kosti verður þetta ekki til að auðvelda það að einkavæða Ríkisútvarpið. Líklega verður eina leiðin til að losa RUV undan ríkisafskiptum að leggja stofnunina hreinlega niður!

Mér finnst annars verst að fáránlegasta ákvæðið sem ég heyrði um einhvern tíman hafi ekki endað þarna inni, að það þyrfti leyfi til að gefa út dagblað. Þá hefði þetta eiginlega verið eins og var einhvern tíman á hinum íslensku síðmiðöldum þegar ég held að það hafi verið bannað eða að minnsta kosti leyfisskylt að eiga prentvél!

Ef það hefði verið þá hefði ég líklega farið að óttast um það að ritvélin mín yrði innkölluð. Nei bara að grínast, ég veit að það hefði aldrei komið til þess út af því að ég á enga ritvél!

Fyrir þá sem hafa áhuga þá er Frumvarpið hér og skýrslan er hér! Tekið af síðu Helga Hjörvars

En...


Hvað er svona ofboðslega hættulegt við það að fyrirtæki í markaðsráðandi aðstöðu eigi sjónvarpsstöð? Sjónvarpsstöðvar sem leggja mesta áherslu á það að senda út ameríska framhaldsafþreyingu og mis vondar bíómyndir. Svona eins og að Kassagerðin og Oddi sem eiga prentmarkaðinn á Íslandi færu að senda út eitthvert sjónvarpsefni.

Hvað er svona hættulegt við það að einhver útvarpsstöð eigi eitthvað í einhverju dagblaði? Sé ekki að það sé hægt að rökstyðja að það sé ekki hættulegt af því að það er einfaldlega kjánalegt að það sé hættulegt. Svipað eins og að hafa áhyggjur af því að bíó færi að reka internetþjónustu, skipafélag að selja bíla eða eitthvað svoleiðs. Það geta engin alvöru rök verið þarna á bakvið.

Ég get ekki heldur séð neit ofboðslega hættulegt við það að einhver aðili eigi meira en 25% í einhverjum fjölmiðli. Mín stjórnunarreynsla segir frekar að til að fyrirtæki sé stjórnað af einhverju viti þá þurfa að vera einhverjir ráðandi aðilar sem eiga þau. Annars er þeim eiginlega ekkert stjórnað.

Það sem gæti orðið eitthvað slæmt væri ef það væri bara einn alvöru fjölmiðill í landinu. Ef annað hvort RUV eða Stöð tvö myndi leggja upp laupana þá værum við í vondum málum. En nei, það er að sjálfsögðu ekkert um það í frumvarpinu til að minnka líkurnar á því að það gerist.

Ekki frekar en það voru nein alvöru lög í landinu til að koma í veg fyrir að eitt fyrirtæki eignaðist matvörumarkaðinn eins og hann leggur sig. Ég veit ekki með þig en ég var að enda við að borða dýrindis grillsteik. Og hvar var hún keypt, jú hjá þessum Baugsfyrirtæki einhvers staðar, alveg eins og diskurinn sem ég borðaði af og grilltöngin sem ég ég notaði minnir mig.

Svo er það annars rétt. Þessari lagasetningu er ekkert sérstaklega beint að Baugi eða þeim félögum þar. En vandamálið er hins vegar að ef maður reynir að skoða hvernig það virkar fyrir einhverja aðra þá verður það yfirleitt eins og grín eða allt að því argasta klám.

Tuesday, April 27, 2004

Er orðinn aulingi


Narraði sjálfan mig í Esjugöngu í kvöldsólinni. Heldur var hún nú blaut. Komst að því á seinustu metrunum að það er búið að hækka fjallið um töluvert marga metra. Held að það sé að nálgast að minnsta kosti 1200 metra. Sprakk á leiðinni og náði ekki nema upp að klettunum á klukkutímanum. Gekk reyndar ágætlega framaf en seig hægt og rólega á ógæfuhliðina eftir því sem ofar dró.

Appelsína og Lionbar reyndist síðan vera galdrameðal þarna uppi og gat ég tekið gleði mína á ný. Var reyndar held ég fljótastur upp af þeim sem voru samferða mér. Vorum reyndar eins og stundum bara samferða á leiðinni niður en ekki upp. En þetta var að minnsta kosti töluvert hressandi þó ég sé ennþá eiginlega algjörlega uppgefinn eftir þetta puð.

Reyndi að verða skáldmæltur á leiðinni niður en gat ekki neitt á því sviðinu frekar en öðru. En eftir heitt bað, lestur í lykli Da Vincis og ediláns indverskt kjúklingasull kom þetta:


Þeir stikuðu stóruhug'á fjallið
Um leið og að komið var kallið
því leiðin bar greið
en ekki mjög breið
og upp'í þeim ólgaði gallið.




Monday, April 26, 2004

Jeg skal til Dene


Haldðekki að minn og stóri bró hafi kaupt sér miða fram og til baka KEF-KÖB!
Ferður farið í júníog gert ráð fyrir að hjólhestar tveir ógurlegir verði með í farangrinum.

BTW tók eitt svona test af Herdísarsíðu af því ég hafði allt of mikið að gera

Athena
Athena


?? Which Of The Greek Gods Are You ??
brought to you by Quizilla

HMMMMM
ÉG hlýt að hafa logið alveg hroðalega þegar ég svaraði þessum spurnignum!
Held reyndar að ég hefði átt að vera þessi hér, reyndar eins og Herdísi tókst að vera, passar held ég betur við mig:



En kannski er ég bara eitthhvað að breytast eða kannski hef ég aldrei þekkt sjálfan mig.

Saturday, April 24, 2004

Var að lesa

Da Vinci lykillinn, eftir Dan Brown
Ætlaði nú eiginlega ekkert að vera að lesa en var í Kringlunni og fékk skyndilega ómótstæðilega löngun til að setjast niður á Kaffitár og lesa bók. Fór þess vegna bara í Eymundsson og keypti bók til að lesa. Alltaf gaman að vera bóhemlegur og lesa skáldsögu á kaffihúsi, jafnvel þó það sé í Kringlunni.

En vá hvað ég var síðan heppinn að sleppa við þetta sem var bara rétt eftir að ég yfirgaf Bóhemlífið í Kringlunni!

Þetta er síðan svona hroðalega spennandi bók sem maður getur eiginlega ekki farið að sofa eftir að hafa verið að lesa! Ætli mig dreymi ekki einhver hræðileg miðaldabræðralög á nútíma sem dunda sér við það að murka lífið hvert úr öðru.

Hvað ég þoli það ekki þegar Mogginn kemur ekki

Alveg ótrúleg dreifing á einu blaði. Hingað á efribyggðir Laugavegarins koma haugar af alls kyns óumbeðnu rusli og síðan óumbeðið lesefni í tonnatali sem er svo sem ágætt sumt hvert, Fréttablaðið og svona. En það eina sem ég er að myndast við að borga fyrir blessaður Mogginn. Nei hann lætur ekkert á sér kræla í dag. Hélt reyndar að hann væri þarna en þegar ég var búinn að koma mér makindalega fyrir sá ég að "Mogginn" minn var bara annað eintak af Fréttablaðinu.

Síðan ef ég hringi til að kvarta þá (hef reyndar bara kvartað yfir þessu einu sinni og þá gerðist þetta) að einhver sérlega þjónustilipur starfsmaður Moggangs spurði mig bara hvort ég væri með sérstaka lúgu bara fyrir mína íbúð. Nei ég varð að játa það. Þar með var sönnunarbyrðin orðin mín megin og ég þurfti beinlínis að sanna það að blaðið hefði ekki komið inn um lúguna. Var að hugsa um að koma fyrir myndavél sem tæki mynd af öllum sem kæmu þarna að lúgunni. Kannski báðum megin því þá gæti ég gómað þjófinn. En sá að mér enda dálítið miklar aðgerðir fyrir eitt blað, þó það sé Mogginn, málgagn allra landsmanna.

En sem sagt núna hef ég um þrennt að velja:
Nr. eitt: Hringja niður á Mogga alveg brjálaður

Nr. tvö: Þjófkenna nágrannana mína

Nr. þrjú: Gera ekkert í málinu, lesa bara Fréttablaðið betur og reyna að finna hvort Lilja blaðamaður eigi einhverja grein þar.

Og ætli ég geri ekki það síðastnefnda. Nenni ekki að gera mig öskureiðan í símann og skammast, enda held ég að það muni ekki bera neinn árangur. Hef engan áhuga á að láta nágrannana mína halda að ég sé vænissjúkt fífl auk þess sem það hvarflar eiginlega ekki að mér að neinn hér í húsinu sé að stela Mogganum frá mér elsta íbúa hússins sem hefur orðið búið hérna lengur en allir hinir til samans og jafnvel næstum því líka þó tekið sé mið af því að í hinum íbúðunum eiga sums staðar alveg tveir heima. Annars tók hún Auður á fyrstu hæðinni einu sinni Moggann minn en var ekki meiri þjófur en svo að hún skilaði honum aftur áður en ég kom heim og lét mig líka vita að Mogginn minn væri lesinn. Get ekki séð að hún sé mjög mikið efni í stórglæpamann á dagblaðasviðinu!

En ætti kannski að flytja eitthvað annað og athuga þá áður hvort Mogginn hafi yfir almennilegum blaðbera að ráða á svæðinu. Ætli blaðburðarbörn / fólk hafi annars áhrif á fasteignaverð?

Það er annars dálítið fyndið að Liljan [ sem vann einu sinni á sama stað og ég sko, ég er svona frægur fyrir að hafa unnið með henni sko ] sé orðin blaðamaður á alvöru blaði. Ég fór svona að skoða blaðið hennar betur og sá þá að sums staðar voru skrifaðir höfundar undir greinum en í svona minni greinum stóð ekki neitt. Líklega eru þeir sem eru að byrja oft settir í að skrifa þessar litlu greinar geri ég ráð fyrir og þá sé ég auðvitað aldrei hvað hún skrifar. En jú það verður ekki neinn vandi að finna það. Maður leitar bara uppi bloggstílinn hennar því hann hlýtur alltaf að koma upp um hana!


Síðan til að gera ástandið töluvert verra en ella þá er komin þessi dásamlega sumarlega reykvíska rigning sem gerir mann alltaf svona einhvern veginn þunglyndislega letilega kæruleysislegan og maður nennir þá ekki að gera neitt viturlegra en lesa einhver dagblöð eða í besta falli bulla blogg á netinu. Hef reyndar svona 10 sentimetra af ólesnum Moggum liðinnar viku einhvers staðar dreift um íbúðina en mig langar auðvitað í Moggann í dag.

Síðan finnst mér að ég þurfi að skrifa tvö skelfileg pólitísk blogg. Annað um fjölmiðlafrumvarpið sem er afturhvarf til 16 aldar þegar það var bannað að eiga prentvélar og síðan um jeppaakstur á hálendinu og þann sértrúarsöfnuð sem ég víst tilheyri, fólk sem vill ganga um ósnortna náttúru.

Og síðan svona viðbættur brandari


Skrifaðu 100 sinnum:
Ég mun ekki kasta skutlum á meðan ég er í skólanum



Thursday, April 22, 2004

Ég held að sumarið hafi bara komið gær


Þó það ætti ekki að koma samkvæmt dagatalinu fyrr en í dag.

Það var sumarblíðan í hádegisskokkinu í gær og undir kvöld var hægt að spóka sig léttklæddur niðri í bæ sötrandi kaffi eins og hver annar bóhem.

Lenti síðan í alls kyns flugnabardögum þegar heim var komið. Kúlukaga loðkögglarnir hunangsflugurnar gerðu heldu betur vart við sig og meira að segja kom hann sköllótti frændi þeirra langi mjói illskeytti í njósnaleiðangur líka. Annars voru þetta frekar illa gefnar hunangsflugur. Þeim datt ekki í hug að reyna að komast út annars staðar en í gegnum lokaðan þakglugga í svona fimmmetra hæð. Ég gat ekkert gert hvorki til náðar né miska annað en að horfa á vesalingana og opna almennilega út á svalir. Þær voru sko tvær þarna í einu og létu frekar ófriðlega. Hurfu reyndar báðar á sömu sekúndunni og sá ég þær ekk meira það kvöldið.

Ekki fyrr en ég vaknaði við háværan reiðifyrirlestur þriðju vinkonunnar sem hamaðist á glugganum í svefnherberginu hjá mér. Er reyndar búinn að komast að því að þessar elskur eru árrisular þar sem klukkan var ekki nema rétt rúmlega 6. Var síðan rétt að festa blund þegar ég var vakinn með öðru suði. Var það aðeins stærri haugsuga og appelsínugulari, nefnilega götusóparar borgarstjórans. Ég á alltaf jafn erfitt með að skilja þetta hreingerningaræði í miðbænum að þurfa endilega að vera að rúnta um með þessa voðalegu hávaðaseggi klukkan sjö að morgni á háheilögum sumardeginum fyrsta!

Annars, gleiðlilegt sumar bara!

Sunday, April 18, 2004

Hvað er eiginlega að þessum auglýsendum


Þegar ég fer inn á moggavefinn þá kemur einhver fáránleg græn Létt og laggott klessa yfir það sem ég ætla mér að lesa. Þetta á að vera auglýsing sem ég skil ekki hvernig er hugsuð. Ég þarf að leita að einhverju litlu kjánalegu exi til að loka þessum óskapnaði og því miður fyrir Létt og laggott, ég var það lengi að loka þessu spami að ég sá alveg hvað verið var að auglýsa. Ef ég væri að kaupa Létt og laggott dags daglega þá myndi ég líklega hætta því ef ég lífsins mögulega gæti.

Hvernig dettur einhverjum í hug að leiðinleg uppáþrengjandi truflun verði til þess að maður kaupi eitthvað. Í mínu tilfelli þá er þetta síðan auðvitað tvöfalt áreiti því ég þurfti að blogga um það líka ;)

Annars þá var ég að sjá að það er vís Osta- og smjörsalan sem framleiðir líka Létt og laggott. Kannski ég farið bara að borða innflutta osta og Sólblóma í mótmælaskini.

Geisp og gap

Óttaleg vitleysa að vaka fram á rauða nótt og lesa glæpósögu til þess eins að komast að því að maður sá alla fjárans bókina fyrir eftir að hafa lesið þriðja part af henni. Vetrardrottningin eða Fyrsta mál Fandoríns ríkisráðs eftir Boris Aknúnin.

Ég veit ekki hvort ég er eitthvað öðru vísi innréttaður en aðrir menn, ætti kannski að fara að vinna hjá löggunni eða einhver öryggismál en mér fannst plottið í bókinni liggja ljóst fyrir næstum því alla bókina. Aulinn sem var að rannska málið skildi ekkert í sinn haus fyrr en á síðustu þrjátíu blaðsíðunum.

Aftan á bókinni er því svo lýst að "rannsóknin" leiði ríkisráðinn útum allar trissur en gátan leysist á óvæntan hátt alveg í lokin. Jú það er rétt, á óvæntan hátt fyrir þann sem skilur ekki neitt í neinu og þar með talið þann sem bókin fjallar um. Þessar bækur eru greinilega fyrir fólk með eitthvað undarlegt greindarstig. Síðan eru þarna líka einhverjar asnalegar lofrullur gagnrýnenda um að þetta sé hin besta skemmtun. Jú reyndar, þá var ekkert afskaplega leiðinlegt að lesa um þennan vitgranna lögreglumann sem rambaði á lausn málsins fyrir slembilukkur (já í fleirtölu). Síðan er þess líka getið að þarna sé kominn einhver vinsælasti glæpasagnahöfundu Evrópu. Ég verð að játa að ef þessi er með 10 bestu þá er Arnaldur Indriðason í góðum málum. Reyndar líka hún Birgitta sem ég man að hefur skrifað ágætar glæpasögur líka. Það sem ég hef lesið eftir hana er að minnsta kosti ekki svona aulalega augljóst.



En jæja


Ætlaði austur um sveitir í mín frábæru skógrækt í dag en fór hvergi sakir leti og ómennsku. Fór þess í stað á sýninguna hans Ólafs Elíassonar. Sýningin var nákvæmlega eins og ég átti von á en verð eiginlega að taka undir orð Ragnars Reikáss um sýninguna um að þetta sé náttúrlega stórkostlegt að fá svona listamann hingað til okkar heimsfrægan um allan heim, það er ekki spurning en hvar voru allar myndirnar.

Mér fannst speglasalurinn vera svona salur bara. Hefði verið gaman að hafa eitthvað af myndum á veggjunum. Ljóslistaverkið á annarri hæðinni fannst mér sniðugra. Var síðan með nýju fínu myndavélina með mér og festi ósköpin í "núll og einn".

Friday, April 16, 2004

Framfarafélagið fagnaði frumvarpinu


Þar sem afstaða þessa merkilega félags er ljós í málinu þá þarf kannski ekkert lengur vitnanna við um hvorn listann vitiborið fólk á frekar að skrifa sig á!

Thursday, April 15, 2004

Rasisti eða ekki rasisti...


Ég lét skynsemina ráða og fékk mér páskaegg í kvöldmat. Málshátturinn var:

Allir eru vinir meðan vel gengur

Og er síðan að hugsa um að skrifa undir. Vill einhver giska á hvað?

Og löngu seinna


eftir að ég var búinn að kingja páskaaegginu tók ég eitthvað kjánapróf með fáránlegri niðurstöðu ..... eða er það ekki????

Loose Livestock



Your Sign Is: Loose Livestock


Whoa, wild child! What hasn't gone on in that bedroom you like to call a dungeon?

Your bedroom is a total sexual fun house, with kinky surprises in every corner.

You're a mirrors on the ceiling, whips in the closet kind of lover. And that's cool...

Just make sure that your neighbors don't know about any sheep stored in the garage.



What's Your Street Sign?

More Great Quizzes from Quiz Diva




Wednesday, April 14, 2004

Fjárskotans


Núna verð ég greinilega að fara að taka afstöðu, með eða á móti.

Að vera eða ekki vera ... rasisti!







Tuesday, April 13, 2004

Myndavélareigandi


Jám, í dag er ég hæstánægður myndavélareigandi!

Monday, April 12, 2004

Fermingraraveislur


Ekki alltaf leiðinlegt að fara í fermingarveislur. Fór í eina í dag. Veit ekki alveg hvað það segir manni að vinir manns séu að halda sína síðustu fermingarveislu af þremur. Þeir fara líklega hvað úr hverju að gifta frá sér krakkagríslingana sína. Þetta eru líklega einhvers konar ellimerki, líka þegar það er farið að skipuleggja fertugsafmæli á árinu. En hvað um það, það er gaman að fara í fermingarveislur og hitta vinina sína sem maður hittir allt of sjaldan. Reyndar komið að mér að halda partý næst var mér tjáð. Annars ætti ég kannski að halda mánaðarleg partý þangað til ég næ öllum hinum. Yrði kannski um áramótin.

Annars komu sumir vinir eitthvað seinna en aðrir vinir og sérstaklega Sigga Vala sem kom mér til mikillar furðu í þessa fermingarveislu og voru furðurnar þrjár:

1: Ekki hafði ég grun um að hún myndi vera þarna
2: Hún kom þegar veislan var búin
3: Hún var með eikkuddn kaddl með sér

Jæja, gott hjá henni en kannski var hún bara í vinnunni sinni og ekkert að mæta í fermingarveislu. A.m.k. er undarlegt að mæta klukkan fimm þegar veislan byrjar klukkan tvö! Jafnvel ég myndi ekki mæta svo seint - en ég er nú ekki alveg normale eins og sumir vita. Stóðum við Maggi eins og dyraverðir við innganginn þegar hún var að koma en eiginlega allir farnir. Hún átti kannski bara að hafa svona síðbúið söngatriði þarna í veislunni. Hvað veit ég.

Jæja, spennandi á morgun: Eignast ég nýja myndavél eða ekki. Kemur í ljós.

Sunday, April 11, 2004

Var þá ekki krummi búinn að verpa í eldhúsinu hjá mér


Ég verð að játa að ég varð verulega undrandi í morgun. Hefur ekki einhver krummaskömm laumnast inn um opinn eldhúsluggann hjá mér og gert sig heldur betur heimakominn. Hann var reyndar sjálfur á bak og burt þegar ég vaknaði en hann var búinn að verpa þessu líka fína súkklaðieggi á eldhúsborðið.

Hér sést hinn kolsvarti hrafnsungi sem prýddi hið dularfulla skilaboðaegg
krumma og mónu og fannst í eldhúsinu á efstu hæð í græna húsninu
við Laugaveginn að morgni páskadags 2004

Reyndar dálítið undarlegt að unginn var ekki innaní egginu eins og ég átti von á heldur ofan á því. Innan í egginu var síðan alls konar góðgæti og einnig ákaflega dularfull skilaboð:

Penninn er máttugi en sverðið

Undirskriftina skildi ég samt engan veginn. Það stóð undir "Móna"

Veit einhver hver þessi kona móna er. Stendur hún í einhverju leynilegu ástarsambandi við þessa krummaskömm eða er ég bara að verða vitlaus.

Annars er Páskadagsmorgunn hér í slömminu í miðbænum ekki svo rosalega friðsæll. Ég sver það að ég heyrði ekki betur en að götusóparinn hefði verið að fara um götuna einhvern tíman milli 8 og 9 í morgun. Já það þarf auðvitað allt að vera hreint og fínt á páskadag en mér finnst nú að fólk megi sofa fram yfir klukkan 9 eða 10 á páskadag.

Síðan er búið að ganga á stöðugri merkjagjöf á milli hringjaranna hjá Hallgrími á Skólavörðuholtinu og honum kollega hans á Háteigi. Það heyrðist jafnvel óma eitthvað úr norðri þar sem Laugarnesshringjarinn er væntanlega líka að fara hamförum. Og svo til að skemma þetta endanlega þá er ekkert í útvarpinu annað en messa og þessi aulalegi stjörnuspekiþáttur.

Jæja, fer bara að spíla eikkuddn disk og borða meira af hrafnsegginu góða. Er annars ekki örugglega alltaf löglegt að fá sér ekk í morgunmat. Var reyndar að hugsa um að spæla það og hafa beikon með.

Saturday, April 10, 2004

Hmmm ég hefði kannski átt að ...


Að setja upp þetta Linux sem ég var eiginlega búinn að ákveða að setja upp um páskana. Þá hefði ég kannski skorað hærra á þessu geek prófi en raun bar vitni:

23.86588% - Geek


En ummmm föstudagslangahumarinn og lúðan hjá mömmunni var algjör snilld!

En samt:

Doctor Unheimlich has diagnosed me with
Einar ragnaritis
Cause:stress
Symptoms:itching, dolphin noises, sudden murderous rage
Cure:click heels together three times
Enter your name, for your own diagnosis:

Friday, April 09, 2004

Komið mál að fara að hátta


Það er nefnlega búið að útdeilda heilum fjórum málsháttum. Það er:


Sigþór: Milt er bóðurhjartað
Ég sjálfur: Hundstungan græðir en kattartungan særir
Ragnhildur: Enginn verður óbarinn biskup
Kristján: Sjaldan kemur dúfa úr hrafnseggi


Soldið sérstakt


Þrefalt ammæli í sumarbústað enda ammælisveisla sem átti að standa í 12 tíma. Varð reyndar tómst svindl þar sem henni lauk einum til tveimur tímum fyrr en mér hafði verið lofað. Ef manni er boðið í afmæli kl. 19-7 þá á það auðvitað að standa til klukkan sjö morguninn eftir. Jafnvel þó það sé á föstudaginn langa.

Svo var þetta alveg ómulegt því það var ekkert nema eitthvað tölvunörda (eða bara nörda) og bloggara lið þarna. T.d. þessi og kallinn hennar hann þessi (sem líka átti ammæli) og ógleymdri henni Þessari sem var svo óforskömmuð að senda myndir jafnóðum á bloggið sitt en hún átti líka alveg voðalegt stórafmæli þarna og var mætt með þessum sem er sko hinn helmingurinn af henni. Annars er ég enn að vandræðast með að ég er viss um að ég hef hitt hana einhvers staðar áður í einhverju fyrralífi eða einhvern tíman.

Nú svo var þarna líka þessi var ég að fatta með kaddlinum sínum honum þessum sem var líka svo mikill dóni að útvarpa jafnóðum myndum af ammælinu.

Nú svo voru einhverjir aðrir þarna eins og hann Stebbi sem bjótti mér í ammælið og eiga ekki neina bloggsíðu, a.m.k. ekki sem ég veit um. Enda var þarna aðallega fullt af fólki sem ég hef aldrei hitt áður eða fólk sem ég hafði ekki hitt í 15 ár eða svo. Þannig að ef það vantar linka á einhverja sem létu sjá sig þarna þá er mér bara alveg sama.

Annars var kannski eins gott að þetta partý stóð ekki nema í rétt rúma 10 tíma þar sem það tók á sig all skuggalegar hliðar á köflum eins og meðfylgjandi mynd ber með sér!


Thursday, April 08, 2004

Ekki tókst mér nú að verða Ísland, onei, ég var:




You're Sudan!

Every time you get a headache, you reach for some aspirin, only to
realize that someone destroyed it.  That's just how things are going for you right
now... it's hard to eat, hard to sleep, hard to not have a headache.  You try to
relax, but people always jump on you about something that doesn't make sense.  If
you were a goat, you'd be a Nubian.

Take the Country Quiz
at the Blue Pyramid


Ég skil reyndar alls ekki þessa niðurstöðu því ég svaraði sko alls ekkert svona!

Er annars frá Herdísi, sem var Mexíkó!

Wednesday, April 07, 2004

Mér finnst að það eigi að endurskoða Björn Bjarnason


Það getur vel verið að jafnfréttislög séu börn síns tíma en mér finnst að Björn sé ráðherra löngu liðinna tíma!

Hvurslags dómsmálaráðherra er það eiginlega sem telur sig vera yfir það hafinn að fara að lögum í landinu út af því að hann telur þau úrelt?

Ég þarf síðan að geta þess sérstaklega að mig vantar páskaegg!

Monday, April 05, 2004

Var að lesa einhvern tíman

Líflæknirinn, eftir Per Olov Enquist
Telst nú varla til spennusagna en er samt mun meira spennandi en "spennusagan" sem ég las síðast, þ.e. hin auma vetrardrottning.
Já jafnvel meira spennandi þó ég geti bara gáð í danska túrhestabók til að lesa hvernig bókin endar, fyrir utan að það stendur aftan á henni líka.
En sem sagt: Mæli meðenni ðessari!

Sunday, April 04, 2004

Alveg ótrúlegt hvað þetta skattframtal getur reynt á mann!


Er búinn að vera að hamast við þetta frá því eldsnemma. Var byrjaður einhvern tíman uppúr klukkan ellefu. Byrjaði þá reyndar með hjartað í buxunum að athuga hvort ég kæmist inn í framtalið. Og vit menn það virkar ennþá. Það er sem sagt ekki búið að loka á mig og ég hef því enn tækifæri til að gera þetta almennilega. Dagurinn hefur því liðið hratt við framtalsgerð sem hefur m.a. falist í því að:

Finna til fullt af nótudóti til að gera grein fyrir vísindastyrk og rekstri.

Komast að því að þegar ég skilaði VSK skýrslu í febrúar þá hef ég gleymt að taka með alveg fullt af frádrætti sem ég veit ekkert hvað ég á að gera við núna.

Komast að því að ég á einhverja þúsundkalla í banka og fékk einhverjar krónur af þeim í vexti og borgaði síðan einhverja aura af því öllu saman í fjármagnstekjuskatt.

Fara út að hjóla og í sund.

Labba niður Laugaveginn og kaupa pulsu.

Og blogga smá sem ég er að gera núna.

Það er sem sagt greinilega ekki tekið út með sældinni að gera þetta skattframtal. Sérstaklega þegar veðrið er eins og það er í dag.

Næsti hluti skattframtalsins er fólginn í að lesa Fréttablaðið og síðan reikna ég með að finna einhverjar tölur til að setja í einhverja reiti.

Það er reyndar kannski allt í lagi að það komi líka fram að þessi leti mín og ómennska varðandi framtalsgerð stafar að einhverju leyti af því að ég er með agnaragnar rekstur og það gerir þetta allt saman dálítið flókið. Fram að þeim tíma lagði ég metnað minn í að vera aldrei meira en hálftíma með framtalið!

Biflíusögur í bíó


Fór í kvöld að sjá þessa voðalegu mynd og ég verð eiginlega að segja að miðað við hvernig mér leið yfir þessum tortúr og hve aldraður ég er orðinn þá ætti myndin að vera bönnuð innan 38 ára eða kannski bara fólki eins og mér og flestum öðrum.

Ég veit reyndar ekki hvort það var súri kjúklingurinn sem ég át í kvöldmat eða myndin sjálf en mér varð hálf flökurt yfir á sumum stundum í myndinni. En mér fannst hún samt góð. A.m.k. áhrifarík. Og ég held að þeir sem eru mest að gagnrýna hana séu að gera það einhvern veginn litaðir af því að vera of mikið trúaðir eða of mikið trúlausir. Þó þetta hafi verið áhrifarík mynd þá held ég að hún hafi ekki breytt neinum skoðunum mínum á kristindómi, gyðingum eða öðru ágætu fólki.

En þetta er allt í lagi. Núna er ég bara farinn að horfa á "When Harry met Sally" á Skjá einum. Hin fullkomna mynd sem maður getur treyst. Held meira að segja að í einhverju netprófi hafi það verið myndin um mitt eigið líf.

Saturday, April 03, 2004

Melónur og vínber fín....

og líka gúrkur


Var að lesa Fréttablaðið og þar var einhver stórmerk grein um sálfræði stórmarkaða. Reyndar ættu forsvarsmenn margra verslana á Íslandi að kynna sér þetta því oft á tíðum þá bókstaflega þarf ég að flýja hroðalegan tónlistarsmekk þeirra sem ráða ríkjum. Man t.d. einu sinni í Hagkaup á dönskum dögum að danskt sápupopp frá níunda áratugnum var stillt á hæsta og ég eiginlega þurfti að hlaupa út úr búðinni. Hefði sett í mig eyrnatappa ef ég hefði verið með þá. Spurði stelpuna á kassanum hvort hún væri ekki löngu búin að missa vitið af þessum hávaða. Hún horfði á mig augum sem vildu helst drepa einhvern og sagðist ekki ráða þessu sjálf. Ég held að ég viti hvern hún vildi helst drepa. Ég held að ég hafi ekki verið á þeim lista.

En greinin. Það var rannsókn sem sýndi að fólk (bæði karlar og konur) kaupa melónur í stíl við þá brjóstastærð sem er í tísku þá og þá stundina. Melónuræktendur þurfa sem sagt að vera meðvitaðir um brjóstatískuna og kenna melónunum að vaxa í samræmi við það. Þetta getur vel verið satt og rétt en þá finnst mér að það eigi að gera sambærilega rannsókn á gúrkum og það undireins. Maður náttúrlega fyllist alveg þvílíkri minnimáttarkennd þegar maður hættir sér inn í vígi grænmetisætanna og sér þessar gúrkur sem eru a.m.k. einhverjar 10 tommur og allt upp í svona 40 til 50 sentímetra. Ég er viss um að gúrkur í almennri meðalstærð svona 6-7 tommur skv. einhverri könnun myndu seljast miklu betur auka kaupgleði almennt all verulega!

Svo er það þetta með vínberin...

Friday, April 02, 2004

Það er þetta með bílastæði og gangstéttar


Það er nefnilega ekki sami hluturinn sko


Af því að ég var svo mikill snillingur á miðvikudaginn að slíta hljóðkútinn undan sjálfrennireiðinni þá þurfti minn eðal vagn á verkstæði. FAnn þetta líka sallafína pústverkstæði svo vel staðsett að ég var í göngufæri. Keyrði því þangað og gekk síðan þaðan í vinnuna.

Göngutúrinn varð hinn áhugaverðasti. Framan af stundaði ég massaða fuglaskoðun og var meira að segja farinn að reyna að taka myndir af tveimur krúnkandi hröfnum. Náði reyndar engri mynd þar sem myndavélin var við það að verða batteríslaus og foglarnir eitthvað sneggri á sér en myndavélin, þrátt fyrir að krummarnir hafi yfirleitt ekki verið þekktir fyrir sérlega snöggar hreyfingar.

Þegar ég nálgaðist vinnuna mína fór gamanið að kárna. Ég náttúrlega reyndi að tryggja mitt eigið öryggi með að ganga á til þess gerðum gangstéttum eða til þess hélt ég að þessar steypubrautir meðfram akbrautnum væru. En nei ég komst að því að steypubrautirnar eru í mörgum tilfellum hugsaðar meira sem sérhönnuð bílastæði.

Og þetta höfðu ökumenn K 426, AB 829 og MZ 558 blessunarlega gert sér grein fyrir!









Skammistykkarsvo!

Thursday, April 01, 2004

Það virðast allir vera að flýja og kannski ætti ég bara að gera það líka!


Mér sýnist að allar íbúðir í námunda við mig séu komnar á sölu. Þessi hérna síðast. Og þetta er eiginlega alveg ótrúlega vel heppnað. Íbúð sem ég held að sé svona frekar pínulítil virkar eins og verulega stór þriggja herbergja íbúð í auglýsingunni. En þetta er allt svo sem ágætt. Veit annars ekki hvort íbúarnir hafa laumast til að lesa bloggið mitt en hvað um það. Ég ætti kannski bara að fara að flytja sjálfur. Hvur veit, gæti vel tekið upp á því

Annars ef ég vil bara flytja til að flytja þá gæti ég flutt á hæðina fyrir neðan mig, eða í næsta hús við hliðina eða þar fyrir neðan nú eða hinum megin við götuna. Þetta virðist allt vera í sölu. Ætli ég hafi þessi áhrif á fólk.....

En ekki í kvöld. Er orðið hálf íllt ímaganum eftir að hafa borðað í kvöldmat heilt kílí af emmogemm. Verð örugglega feitur af því ef ekki óléttur.

Ég náði síðan því afreki áðan að setja mynd inn á Fotologgið mitt áðan. Og lagði inn pöntun fyrir nýrri og fínni digital myndavél Nikon D70. Á samt eftir að koma í ljós hvort mér takist að eignast hana í þessari atrenu.

En þessi aprílgöbb. Hverju dettur í hug að trúa því að það eigi að fara flytja styttuna af danska kónginum fyrir utan stjórnarráðið mér er spurn. Aulalegra aprílgabb hef ég ekki séð lengi. En samt voru þeir búnir að vanda sig alveg rosalega. Voru með Davíð Oddsson með í gríninu og allt saman. En Baggalútur var bestur. Lýsti því bara yfir að á þeim bænum yrði ekki gert eitthvað grín með ósönnum fréttum heldur myndu þeir bara halda sínu striki og hafa sannleikann að leiðarljósi nú sem endranær.

hí hí aprílgöbb


Alveg ótrúlegt hvað maður er vitlaus. Ég verð að fara að gera eitthvað í þessu.

Það var sko nefnilega gabbað mig......

Í morgun kom tölvupóstur um að það væri nammi í afgreiðslunni. Ég hljóp nú ekkert af stað en ætlað að fá mér svona eins og eitt nammi um leið og ég væri að fara á einhvern fund. Fattaði síðan á leiðinni að það væri auðvitað verið að plata mig og ætlaði ekki að láta leika á mig. En lét þar með leika á mig því það var nefnilega nammi í afgreiðslunni.

Þetta er síðan hrein snilld. Var að lesa um alls konar aprílgöbb þegar ég rakst á þetta og hvað ég varð forvitinn. Er þetta SETI ruggl loksins að skila einhverjum niðurstöðum. Man að fyrir svona fimm árum setti ég þetta upp á einhverjum tölvum og þótti rosalega sniðugur. Ja ég hljóp ekki fyrsta apríl en ég smellti fyrsta apríl!

Hversu mikið nörd er maður


Ef maður er að hugsa um eyða páskunum í að setja Linux upp á heimatölvuna sína.

Í morgun [eða í gær þar sem þetta fór fram yfir miðnættið, maður ætti kannski að fara að koma sér í bólið frekar en að vera að bulla þetta á netinu] var ég á fundi um grænt bókhald [ já svona umhverfis eitthvað] sem er svo sem ekki í frásögur færandi. Var meira að segja fundarstjóri sem er svo sem ekki heldur í frásögur færandi nema kannski fyrir það að ég mætti þess vegna í skárri fötunum í vinnuna í dag. En það sem er í frásögur færandi er að á þessum fundi var ég eina ferðina enn manaður til að gera eitthvað kjánalegt. Og núna var gert út á nördaduldina í mér og ég lofaði að prófa að setja upp Linux á tölvuna mína heima hjá mér um páskana. Páskarnir eru hvort sem er ónýtir. Ég sé ekki að ég komist eitt né neitt almennilega á skíði og á auk þess eftir að gera skattfamtalið mitt. Til að bjarga mér frá almennu andlegu þunglyndi þá er kannski ráðið að gera eins og ég lofaði, þ.e að tölvunördast bara.

Ef það hættir allt í einu að heyrast eða spyrjast um mig einhvern tíman um eða eftir páska þá er það ekki út af því að ég hafi étið endanlega yfir mig af páskaeggjum heldur út af því að Linux skrímsli hefur borðað mig sjálfan í morgunmat.

Páskaegg annars.
Er ekki hægt að banna þetta. Seinast þegar ég át páskaegg þá var það allt of stórt og búið til úr allt of vondu súkkulaði. Ég held eiginlega að ég hafi hent restinni af því. Eintóm leiðindi, vont bragð, ofvaxin bumba og skemmdar tennur. Síðan man ég þegar ég var lítill að þá fékk ég aldrei nógu stórt páskaegg og alltaf einhver annar með miklu flottara páskaegg en ég. Aumingja mamma mín, þetta hefur verið kvöl og pína fyrir hana.

Síðan er ekki þverfótandi í verslunum fyrir þessum ósóma. Þessu drasli er stillt upp einhvers staðar þar sem maður er vanur að geta tekið sitt gúrme dót til að gera almennilegan mat en nei í staðinn fyrir það finnur maður ekkert nema hallærisleg illa útlítandi súkkulaðiegg með ógeðslega strumpa ofaná. Eru engin takmörk fyrir því hvað hægt er að plata mann til að kaupa mikið drasl?

Það eina sem er sniðugt við þetta eru reyndar málshættirnir. Reikna þess vegna með að kaupa nokkur egg til að eiga málshætti handa gestum og gangandi. Og ætli maður láti sig ekki hafa það að éta eitthvað af þessu dóti líka.

En ef nördaskapurinn mun ráða ríkjum um páskana þá verður líklegast bloggað eitthvað um árangurinn af því.