Monday, October 25, 2004

Þegar einhver brosir til manns

Einhvern tíman fyrir rosalega löngu las ég í skólablaði sem reyndar er kennt við bjúga viðtal við hana Elenu, stelpu frá Ítalíu sem var skiptinemi hér á klakanum fyrir roslega löngu.

Ég man að þegar hún var spurð hvað henni findist um íslendinga og þá sérstaklega strákana þá sagði hún að þeir væru dálítið erfiðir því þeir virtust yfirleitt halda að ef hún talaði við þá, þá héldu þeir að það þýddi að hún væri eitthvað hrifin af þeim. Ég tók hana auðvitað mjög bókstaflega og varð sérstaklega afundinn þegar einhver af hinu kyninu tók upp á því að tala við mig. Sérstaklega ef einhver af hinu kyninu tók upp á því að brosa til mín eða haga sér undarlega á annan hátt. Ekki vildi ég haga mér eins og einhver íslenskru afdala sveitamaður.

Mér datt þetta nú reyndar bara í hug því það var brost til mín í dag en ég geri nú reyndar ekkert neitt ráð fyrir að það þýði eitt eða neitt. Enda ef að ég væri hrifinn af öllum sem ég brosi til þá væri ég líklega dáinn úr hrifningu.

Auk þess verð ég líklegast að fara að átta mig á því að bros er ekki sama og bros. Það rann nefnilega upp fyrir mér fyrir svona 13 og hálfu ári að það er sitthvað að einhver brosi til manns eða einhver brosi að manni. Svipað og munurinn á því að vera fyndinn og hlægilegur. Kannski var ég bara broslegur í dag. Ég óttast að ég standi mig oft betur í því að vera hlægilegur en að vera fyndinn. Reyndar kannski svo að ég verð bara fyndinn fyrir vikið. Það er kannski ekkert svo slæmt. Hláturinn lengir jú lífið eins og karlinn sagði rétt áður en hann drapst úr hlátri. Ætli það hafi annars einhver einhvern tíman dáið úr hlátri. Gæti verið skárri dauðdagi en hver annar. Einu sinni heyrði ég um einhvern sem drapst úr hræðslu í bókstaflegri merkingu. Mig minnir að hann hafi verið hjá tannlækninum sínum og verið alveg að drepast úr hræðslu. Adrenalínið æddi um líkamann og einhver önnur efni sem losna úr læðingi við ofsahræðslu. Þegar þetta blandaðist saman við eitthvað efni í deyfingunni sem þessi vesalings maður fékk þá varð einhver svakaleg eitrun og hann bara drapst með það sama. Hann drapst sem sagt úr hræðslu hjá tannlækninum sínum. Þarna er kannski komin ástæðan fyrir að ég læt aldrei deyfa mig þegar það er verið að krukka í tönnunarnar mínar.

Jæja, þurfti bara að segja þetta [eða eitthvað af þessu] áður en við förum að sofa. Ég og kisurnar sko. Eða reyndar þá held ég að þær sofi á daginn þegar ég er í vinnunni. Þær virðast stunda eltingaleik og mjálmkeppni allar nætur. Guðsélof reyndar að þær fara brátt að komast til síns heima. Reyndar synd þar sem þær eru nú eiginlega hættar að láta eins og hundur og köttur hérna hjá mér.

No comments: