Wednesday, December 19, 2012

Aðventuferð bræðra í Fellsmörk

Séð til Búrfells

Ætli það sé ekki að verða árvisst að fara á aðventu í Fellsmörk. Sýnist nú samt að það hafi kannski ekki verið farið á fyrir tveimur árum en í ár og í fyrra og fyrir þremur árum en núna var farið um síðustu helgi.

Stjörnikíkir var með í för og ætlunin að nota lognkyrrt stjörnubjart kvöldið og dást að undrum alheimsins en það brást. Vissulega var stjörnubjart en það var ekki lognkyrrt heldur helvítis þræsingur meira og minn allt kvöldið. Nokkurn veginn snjólaust og þurrt þannig að það lá við sinubruna út frá grillinu! Held meira að segja að það hefði endað illa ef ég hefði ekki slökkt í því sem byrjaði að brenna - en svo sem engin hætta á meðan grillið var vaktað.

Fullt af dauðum músum inni í húsinu. Dularfullar þurrkaðar leyfar af þeim. Hálf ótrúlegt reyndar hvernig þær fóru að því að komast inn, drepast og þorna og verða að engu á þeim tíma sem var liðinn frá síðustu heimsókn okkar í Fellsmörkina.

Svo ágætur göngutúr um Hlíðrabrautina og inn í gilið þar fyrir innan sem myndin að ofan var tekin úr.

Svo síðan einhverju sé haldið til haga þá hringi MTG nokkur í mig í morgun með hugmynd að jarðfræðilegu mastersverkefni í jarðeðlisfræði sem mér leist ágætlega á svona að heyra því lýst en þarf að hugsa það kannski aðeins meira samt. En það lítur sem sagt út fyrir það að ég verði eitthvað af meiri alvöru í þessu námi næstu tvö árin - þó á sama tíma séu sjóðirnir mínir að verða uppurnir og ég að komast á vonarvöl. En manni hlýtur að leggja eitthvað til!

Já og svo er komin ein einkunn og núna þarf ég víst að fá hærra en 9 til að ná að hækka meðaleinkunnina. Það getur varla talist gaman!

Rómverkur riddari


Já... rétt upp hend sem sjá rómverska riddarann í ísnum...

Friday, December 14, 2012

jæja, þá er ekkert eftir... ekkert próf sko í bili

Einhvern tímann hef ég sagt síðustu vikur eða mánuði að ég hafi í raun verið upptekinn síðan einvern tíman í lok júlí og það er eitthvað til í því líklegast. Núna er svo allt í einu allt búið eða þannig. A.m.k. einhver hluti af því sem ég hef verið upptekinn af ekki lengur til staðar. Þessi önnin búin með sínum prófum og ég búinn að lofa sjálfum mér því að á næstu önn verður fjöldi eininga eitthvað í stíl við það að ég sé í svona a.m.k. hálfri vinnu. Vona að það verði bara eitthvað úr þessu í framhaldinu hjá mér.

Tuesday, December 11, 2012

jæja... eitt próf eftir

Það var munnleg jarðeðlisfræðileg könnun í gær. Gekk eiginlega snurðulaust fyrir sig fyrir utan að ég stóð á því fastar en fótunum að P bylgjuhraði í efni hækkaði með hækkandi eðlismassa og svo reyndar vafðist mér eitthvað tunga um tönn þegar Gylfi fór að spyrja mig um eitthvað sem var ekki hægt að svara. En held að ég ætti ekki að lækka meðaleinkunnina mína með frammistöðunni í gær. Svo var ég að klára mig af skýrslunni úr nánsmkeiðinu með allra handa mælingum á snæfellsnesi. Held að híun sé alveg þokkaleg á köflum.

Þarf núna síðan að komast í gírinn með að geta Matlab forritað af einhverju viti á föstudaginn og eftir það er ég bara kominn í jólafrí... eða þannig. Verð víst dálítið Stakur það sem eftir lifir mánaðar að reyna að vinna upp kæruleysi fyrri hæluta mánaðarsins.

Svo má halda því til haga að það er víst verið að fara í námsferð til Danmerkur í vor að skoða jarðfræðifyrirbrigði þar. Fékk staðfest að ég mætti fara í ferðina þó ég sé ekki búinn með einhverja efnafræðikúrsa.

Tuesday, December 04, 2012

Fyrsta prófið búið

og ég dálítið búinn á því... STRAX! :-(

current crustal raunir

Öll jörðin undir - reynt að kortleggja alla helstu fleka jarðarinnar og allt sem gerist á mörkum þeirra

Veit ekki hvernig mér gekk en er samt dálítið búinn á því andlega eftir fyrsta prófið. Ég þoli greinilega ekki neitt lengur! Gekk svona upp og ofan. A.m.k. ekki verr en það að ég skoðað hvað hugsanlega var vitlaust til að finna út hugsanlega einkunn en var ekki að tína það saman sem væri hugsanlega gert rétt. Einhverjir skálftar að vefjast fyrir mér og einhver flekamörk sem var erfitt að átta sig almennilega á í prófinu. En mar vonast til að þetta verði svona ekki til að skemma meðaleinkunnina en varla til að hækka hana mikið.

En svo er það jarðeðlisfræðileg könnun, hvar ég á eftir að klára verkefni með Markúsi hinum unga.

Er svo að bíða eftir að einkunnin úr skrambans jarðfræðikortagerðinni birtist. Það fer að koma að þremur vikum þar frá skýrsluskilum. Er samt ekkert of viss um að þeir prlátar virði það neitt of mikið. Verst að ég missti af því að hella úr skálum ... minnar í kennslumati blessaðra kennaranna ... eða kannski bara eins gott að ég sat á strák mínum. Það fóru sem betur fer bara ekki nein komment frá mér nema þau jákvæðu að þessu sinni.

Wednesday, November 21, 2012

Nýju glerin rúla!

Untitled

Gömul gleraugu en ný gler... reyndar bara gömul mynd en sömu gleraugu og þá ný gler núna

Það eru eitthvað rúm 20 ár síðan ég gafst upp á því að sjá ekki neitt frá mér og fór til augnlæknis. Hvort sem það var nú út af því eða einhverju öðru þá hækkuðu einkunnirnar mínar á þeim tíma í verkfræðinni um svona næstum því tvo heila! Eitthvað hefur þetta verið að endurtaka sig í jarðfræðinni núna. Fyrst með því að ég sé eitthvað verulega illa það sem er nálægt mér með gleraugum en þá hefur málið bara verið að rífa þau af sér. Virkar reyndar ekki ef maður er með linsur en þá geta "Hagkaupsgleraugu" komið að sömu notum.

En það var verrara þegar ég var allt í einu ekki farinn að sjá almennilega frá mér heldur á stundum. Ég kenndi reyndar fyrst bara um lélegum skjávörpum en komst svo að því að aðrir sáu þetta allt mikið betur en ég. Það var því farið til augnlæknisins og núna er ég kominn með ný gler og bara farinn að sjá aftur. A.m.k. fannst mér ég almennt sjá það sem ég átti að sjá í dag og það var sem sagt vel

Næst er svo reyundar á dagskrá að fá sér tvískipt gleraugu. En einhver sagði að það þýddi bara eitt: ókeypis í sund!

Monday, November 19, 2012

Loksins Fellsmörk

Sló helginni eiginlega upp í kæruleysi... og er enn að með að vesenast með að vera að blogga!

Músahúsið í Hliðinni

Músahúsið í Hliðinni

Það var rosalega gott að komast í Fellsmörkina um helgina. Fórum bræður á laugardagskvöldinu og gerðum ekki margt. Aðallega svona smá spígspor. Við áttum reyndar næstum því von á að húsið væri fokið um koll því það varð vís hvassara um daginn en dæmi eri um. En það var allt með kyrrum kjörum eða þannig. Mikið hafði greinilega gengið á. Fullt af dóti hafði dottið niður úr hillum, glös og alls konar. Emn skondið að það eina sem var brotið var kaffiskeið úr plasti. Svo var stálpanna kengbeygluð eftir að hafa fallið niður og skoppað undir rúm.

Svo átti Gunni von á að húsið væri fullt af músum því við vitum að mýs komast inn en reyndar ekki út. Það virðist vera þannig að sá músastofn sem vissi um inngönguleiðina hafi allur farið þangað inn í fyrra og sé núna dáinn út því hver mús yfirleitt endaði daga sína einhvers staðar inni í húsinu. Ofan í fötu, bara á gólfinu einhvers staðar eða á bakvið útvarpið og bjó þar til ekki allt of góða lykt.

Það var reyndar allt fullt af músasporum út um allt og á einum stað rakti ég slóð og þar sem ég hélt að slóðin lægi bara til baka á einhvern dularfullan hátt var ein lítil hola. Gerum við ráð fyrir að músagrey eigi heima þar!

Músahola Músaspor

Svo var gaman að ganga niður á varnargarðana og skartaði allt sínu fegursta í sólinni. Annars skondið að það var spáð hávaða roki þarna en það hreyfðist vart hár á höfði manns. Bara svona einhverjar myndir. Líka af flottu frosnu vatni.

Á einum varnargarðinum

Two phases of water

Tveir fasar vatns

Svo fannst mér merkilegt að sjá eitt sem ég hef líklega aldrei séð eða tekið eftir áður almennilega en það var grunnstingull sem var þarna í Lambánni. Eins og Gunninn sagði þá voru þarna tölvuerðar ístru-flanir!

Grunnstingull í Lambá

Grunnstingull í Lambá

Saturday, November 17, 2012

Jarðfræðikortagerð lokið í bili

Jarðfræðikortagerð!

Jarðfræðikortagerð in memorium. Holufylling úr Úlfarsfelli og Olavskuðungur af Tjörnesi liggja hlið við hlið á velktum sniðborða af Melabökkum ættuðum úr grein Óla Ingólfs úr Jökli og bjargað af Ívari og starfsmönnum jarðvísindastofnunar HÍ. Kuðungurinn líkela uppi svona milljón árum áður en setlagið myndaðist og holufyllyngin fór þá væntanlega að myndast eitthvað síðar - eða útfellingin þar sem þetta er nú eiginlega ekki nein almennileg holufylling - en var nú samt í holu sko!

Búinn að vera dálítið á haus í allt haust. Held ég sé eiginlega búinn að vera upptekinn síðan einhvern tíman í júlí! Er eiginlega búið að vera of mikið. Núna í síðustu viku var klárað risaverkefnið í jarðfræðikortagerð sem var farið að ganga nokkuð nærri geðheilsunni. Ekki alveg sáttur við allt í því verkefni svona eins og það að kennararnir sáust ekkert heilu og hálfu dagana heldur voru bara einhvers staðar annars staðar - kannski áttum við að segja þeim að koma en þeir sögðust víst yfirleitt ætla að koma en sáust frekar lítið - og máttu vart af hvor öðrum sjá. Reyndar var það bara þannig í Melasveitinni því það var ekki þannig í Tjörnesi eða Úlfarsfelli. En það er gott að það sé búið að skila þessu - veit bara ekkert hver niðurstaðan verður en er þokkalega sáttur við Úlfarsfellshlutann og hina svona eftir einhjverjum atvikum.

Svo var farið í dag með Ferðafélagi á eitt fjall í mánuði. Það var Ármannsfell og það var hvasst og það var snúið við. Í fyrsta skipti sem þessi hópur þarf að snúa við en ég er nokkuð viss um að ákvörðunin var alveg hárrétt. Fólk var við það að fjúka og ekki hefði bætt úr skák að enda með alla örþreytta. það hefði bara getað endað illa.

ER0_3294

Við Ævar líklega að reka lestina á niðurleiðinni rétt eftir að snúið hafði verið við. Ég hefði ekki viljða hafa allan hópinn örþreyttan í þessari brekku!

Saturday, October 27, 2012

Jöklamælingar og allt of mikið að gera!

Base stöð við Far

Grunnstöðin komin upp við Farið.

Það er eiginlega sorglega mikið allt of mikið að gera. Stelst samt til að blogga smá. Ætti núna að vera að byrja göngu dagsins með nýliðunum mínum eða þá að vera á leið upp í Hengil með FÍ að gæda eitt fjall á mánuði en er fjarri því gamni heima hjá mér og ætti annað hvort að vera að læra um viðnámsmælingar, invers föll, gera jarðfræðikort eða þá sem ég verð að klára í dag að finnat til myndir í ársskýrslu HSSR. Fer svo væntanlega í kvöld upp í Hengil að vita hvort liðið mitt sé ekki í sæmilegu lagi!

From glacier measuremtents:  Hagafellsjökull Vestari in Langjökull

Jökulrispur við Hagafellsjökul Vestari

Það er búið að mæla báða Hagafellsjöklana. Fórum í vestari jökulinn um miðjan september. Þar voru rosalega flottar jökulrispur komnar fram á klöppum sem komu undan jökli fyrir örfáum árum, sbr. myndina að ofan þar sem jökuljaðarinn var fyrir þremur árum, þ.e. 2009.

Svo er búið að mæla Eystri jökulinn líka og það í tveimur áföngum. Fyrst gleymdist stokkurinn þ.e. tækið til að fá gögnin úr Trimble GPS mælingunum. Þá var því mælt með handtækjum. Svo var farið aftur viku seinna í frábæru veðri og mælt aftur. Þá líka tekinn prófíll upp allan jökulinn, líklega heila 2km.

Dularfullur jökulgarður

Jökulgarður á jökli

Það sem kannski helst vakti mína furðu voru litlir jökulgarðar sem voru þarna út um allt. Veit ekki hvernig þeir eru að myndast en líklegast efni sem hefur komið upp með sprungum. Geta varla verið vegna framrásar að sumarlagi því þeir eru allt of þéttir til þess. Það sem truflar mig síðan er að í sumum feltferðum hafa svona garðar strax verið álitnir vera hörfunargarðar. T.d. við Fláajökul síðasta vor.

Smágárar í jökulárseti / jökullónseti við Hagavatn

Smágárar í jökulárseti

Svo voru fróðlegir ripplar eða smágárar í setinu við Hagavatnið. Ég er ekki viss um að þetta hefði ég tengt beint við þetta umhverfi ef ég hefði séð þetta löngu seinna rifið úr samhengi við það sem er þarna.

En ætli það sé ekki best að fara að gera eitthvað af því sem maður þarf að gera!

Mælingadót á jökli

Mælingadót á jökli

Monday, August 20, 2012

Jarðfræðikortagerð

Jarðfræðikortagerð

Ívar að kenna að logga!


Ætlaði að skrifa eitthvað en ekki mikill tími til neins. Það var verið í jarðfræðikortagerðarfelti meira og minna frá 10 ágúst til byrjun september. Var að verða dálítið þreyttur á því þegar fletvinnunni þar loksins lauk. Og þá var haldið út á Snæfellsnes í jarðeðlisfræðifelt!

Sunday, August 19, 2012

Að þykjast vera textílhönnuður

prjónapeysa

Svona eitthvað að byrja að prjóna hið sérhannaða munstur!



Það er dálítið gaman að gera eitthvað sem upp á eigin spýtur. Jafnvel að stunda svona kvenlegar dyggðir sem það að sitja við prjónaskap er. Peysu skömm er að byrja að taka á sig mynd hjá mér! Design by me!

Wednesday, August 08, 2012

Er ekki lengur á vaktinni

Hálendisvaktinni minni lokið að sinni

Kristjón, Lambi, óli Jón og Eirasi sjálfur í Dreka fyrir framan Reyk 2 og Hötturinn í baksýn - Mynd sem Óli Jón tók en tekin af Landsbjargarvefnum


Búinn að vera á hálendisvaktinni norðan Vatnajökuls. Verulega fróðlegt. Hef aldreigi farið þannig áður og var náttúrlega bara snilld þó það gengi á ýmsu. Flest ef ekki öll viðfangsefnin sem hægt er að tala um snérust um bilaða bíla og oftar en ekki var það okkar eigin bíll. Að einhverju leyti tengt bíltúr hópsins á undan um Gæsavatnaleið hvar vel var sprett úr spori.

En ósköpin hjá okkur hófust á malbikinu rétt austan við Kröflu þar sem dekkjaviðgerð gaf sig. Það var svo sem allt í lagi fyrir utan að dekkið var svo illa farið að við gátum ekki gert við og fyrir utan að dekkið sem við fengum að láni fyrst passaði ekki undir og fyrir utan að veggkanturinn gaf sig þannig að bíllinn rann út af fyrir utan að við þurftum kranabíl til að koma bílnum aftur inná og fyrir utan að eftirköstin urðu t.d. þau að allir felguboltarnir slitnuðu hægt og rólega dagana á eftir. Við sluppum þó við þau ósköp að missa dekkið undan inn við Öskju sem hefði getað gerst með smá meiri óheppni.

ER0_0682

Mývetningar mættir á staðinn með kranabíl til að tjakka upp og koma bílnum inn á veginn



ERS_9455 Það var svo sem ekkert að ástæðulausu að ég valdi hálendisvakt núna til að fara. Það var farið á hálendið norðan Vatnajökuls. Svona staður sem er og verður alltaf mér í huga. Það eru víst komin 6 ár síðan ég eyddi góðum hluta sumarsins þarna og það var einhver hellingur af minningum út um allt. Verulega gaman að sjá myndirnar mínar ennþá þarna uppi á vegg. Eins og vatnslitamyndina í Strýtu af Strýtu og Herðubreið sem ég málaði eitthvert kvöldið í Strýtu. Hildur Landvörður mundi eftir mér og svo var Hrönn þarna líka. Undarlegt hvernig lífið breytist einhvern veginn í bara einhverjar áttir án þess að maður átti sig við eða ráði við nokkuð.

ER0_1001

Eygló landvörður hellir eðalbrugguðu te í krús handa mér og Lamba

Það var farið út um allt svona þegar við sluppum úr dekkjaviðgerðum okkar eigin og einhverra bílaleigubíla út um allt. Fórum í Kverkfjöll og í Hvannalindir. Þar gaf Eygló landvörður okkur hvítt eðalbruggað te og ekki síðra kaffi. Ég fékk te og kaffi ást á henni með það sama og Óli heillaðist upp úr skónum. Það var allt saman bara gaman. Svo hittum við líka Hönnu Kötu sem var á leiðinni í Hvannalindir með stelpunin sinni sem er alveg eins og Davíð en heitir eins og memó og pabbi HK þ.e. Þórhildur og svo Jökla til að hafa þetta almennilegt fjallkonunafn.

...

Friday, August 03, 2012

Gömul lopapeysubloggfærsla vinsælust hjá mér!

A new beginning

Ég get flett upp hvaða bloggfærsla er mest skoðuð síðan einhver teljar hjá bloggernum fór að virka og flestar færslur eru nú ekki mikið skoðaðar. Nokkrar skera sig þó aðeins úr og sérstaklega ein sem er frá 2005 um það að lopapeysan hafi komist í tísku öllum að óvörum.

Kannski ég ætti að fara að blogga meira um lopapeysur eða kannski breyta blogginu bara í tískublogg. Hver veit en ætti kannski þó að fara að monta mig meira af prjónaskap. Peysan sem ég er í á myndinni að ofan er fyrsta munstraða peysan sem mér tókst að koma saman og varð eiginlega rosalega vel heppnuð og ljósmynduð við mismunandi undarlegar aðstæður!

surprised my lopapeysa

Bloggfærslan vinsæla er hins vegar hér:

  • girl in icelandic sweater

Thursday, August 02, 2012

Nýjasta útgáfan af hjólreiðadellunni

Hjólaslóðirnar frá í gær og fyrragær

Það nýjasta nýtt er samt það sem ég fór að gera í fyrragær. En það var að fara upp á Hólmsheiði með Gráu-Þrumuna vopnaður GPS tæki og hjóla alla stíga góða sem slæma. Mikið gaman en verst hvað þeir eru sumir leiðinlegir eftir ýmist mótorhjól eða hesta. Reyndar eru sumir stígarnir hestastígar og þar verða þeir víst að fá að vera og ég hjólandi gestur en ég dreg dálítið í efa að þeir sem eru á mótorhjólunum séu nákvæmlega þar sem þeir ættu að vera.
Ég held annars að það ætti bara að banna þessi skramns torfærumótorhjól með lögum. Þau ættu hvergi að vera nema þá á einhverjum lokuðum svæðum. En það er nú samt varla raunhægt!

Wednesday, August 01, 2012

Friðrik á Snæfellsnesi

Ferðafélagið Friðrik á toppi Botna-Skyrtunnu Ég er ekki alveg klár á því hvort það sé gönguklúbbur eða ferðafélag en Friðrik heitir hann. Væri skemmtilegt ef það væri Ferðafélagið Friðrik því þá væri það annað "FF". En hvað um það, svo einhverju sé haldið til haga þá var sum sé farin ferð á Snæfellsnes með Friðrik. Árleg ferð þar sem á föstudegi var gengið umhverfis Kerlingarfjallið mis hátt í hlíðum þess. Byrjað í Kerlingarskarðinu og svo Kerlingin og Karlinn skoðuð sem og Grímshellir sem ekki margir vita hvar er. Gengið um Grímsskarð og endað í Kerlingarskarðinu aftur. Um kvöldið var étið pasta af bestu lyst.

Á laugardeginum var farið á Botna-Skyrtunnu hvar hópmyndin var tekin. Alveg edilonsfín ferð!

Ljósmynd líklega sæmilega heppnuð

Ljósufjöll
Hef lengi haft efasemdir um að það séu endilega flottar myndir sem fólk á Flickr skoðar en þó komst ég að því að myndin að ofan sem ég er nokk ánægður með er að fá bara þokkalegt áhorf á Flicr síðunni. Gerði ekkert til að "auglýsa" hana fyrir utan að láta hana birtast fremst af þeim myndum sem ég setti á vefinn frá ferðinni á Snæfellsnes.

En er í öllu falli búinn að fá hauga af kommentum og jú, hef samþykkt allar hópbeiðnir um myndina en ekki sett hana sjálfur í neinn einasta hóp. Sólarlagið frá Kenya er nú samt meira skoðað í dag!

Tuesday, July 31, 2012

Leitin að granófírnum

Hafnarfjallshlíðar og Flyðrur

Hafnarfjallshlíðar og eiginlega örugglega Flyðra sem ber við himinn í hlíðinni


Það var fyrr í honum júlímánuði sem ég fór á Hafnarfjall með einsmánaðargönguhópi FÍ að Örvar fór að segja sögur af gabbrói í Hafnarfjalli sem ég held að eigi ekki við mikil rök að styðjast en þar er þess í stað að finna aðra bergtegund, granófír. Hvort tveggja er djúpberg en Gabbró er með efnasamsetningu eins og Basalt en granófír er með efnasamsetningu eins og líparít eða rhýolít, það er að segja súrt berg.

Í millitíðinni var Ragnhildur búin að segja mér að það væri einfalt að komast að þessum granófýr molum undir Flyðrunum og einnig truflaði það mig mikið að það sem átti að vera granófýr úr Snæfellsnesferð í vor og tekið á Skorrholtsmelum, leit ekki út eins og mér virtist að granófír ætti að líta út.

Það var því ákveðið að skoða þetta eitthvað þegar farið væri áleiðis á Snæfellsnes í gönguferð ferðafélagsins Friðriks. Já, Ragnhildur sagði að best væri að stoppa við námu þarna undir fjallinu sem við fundum en þar var allt harðlæst með keðju og við ókum aðeins áfram. Gengum svo upp snarbratta skriðuna og söfnuðum alls kyns grjóti en ekkert var eins og ég vildi hafa Granófýrinn nema kannski var eitthvað ljóst þarna innan um en held að það hafi verið holufyllingadót. Leit í öllu falli ekki út eins og neitt djúpbergsinnskot. Fórum ekki alveg upp að klettabeltinu enda orðnir seinir og þegar Sigþór hringdi og ég sagðist vera við Hafnarfjall þá fannst honum við vera komnir frekar stutt á veg. Veit ekki hvað hann ætlaði að halda þegar ég sagði honum að við værum ekkert undir Hafnarfjallinu, heldur í því!

Fórum því niður aftur en þómeð nokkur kíló af einhverju basalt grjóti. Á heimleiðinni horfðum við betur á þetta. Þar sem við fórum upp voru engin djúpbergsinnskot sýnileg heldur bara hallandi hraunlög. Það sem ber hins vegar við himinn og bent er á með pílunni á myndinni að ofan lítur meira út eins og djúpbergsinnskot og aukin heldur er dreif af ljósum grjóflögum þar fyrir neðan. Það þarf sem sagt að fara þarna einhvern tíman aftur þegar vel liggur á manni.

Thursday, July 26, 2012

Fimmvörðuháls

Á Magna Á Magna

......

....

Fjallabak

Lúxustrússferð HSSR

VMM_9814

Hópurinn allur við Hvanngil - hægt að smella á myndina til að fá hana í fullri upplausn

VMM_9676

......

......

Tuesday, July 17, 2012

Fellsmörk og Höfðabrekkujökull 14. til 16. júlí

VMM_9101
Gunni við upptök Múlakvíslar þar sem hún kemur undan jöklinum,
VMM_9211
......

Könnunarferð á Snæfellsnes 8. til 10. júlí

VMM_8277

Bræður Elli og Sigþór rétt búnir að kasta mæðinni eftir að hafa klifið upp úr hyldýpisgilinu sem ég dró þá inn í!


Sprungufylling á SnæfellsnesiÞað var farin eðalfín könnunarferð á Snæfellsnes til að kanna hvar skal ganga seinna í mánuðinum með fólki sem sér ekki of vel. Fann eitt og annað eins og þessa upp undir 20cm þykku stilbíts sprungufyllingu.

Rauða pílan á myndinni bendir á kvarðann sem nær aðeins út fyrir fyllinguna en kvarðinn er 20cm langur.
Ég sjálfur hef í öllu falli ekki fundið annað eins áður!

Hugmyndin var að ganga upp á Miðtind í Ljósufjöllum en ekki leist mér of vel á öll snjólalögin þar og verður niðurstaðan líklegast sú að reyna við Botna-Skyrtunnu. Snjólítil, virkar ekki á mig of brött en veit svo sem ekki með torfærið að öðru leyti.

Mynd að neðan.

VMM_8295

Fjallanöfninn í Ljósufjöllum



Smá viðbót sett inn seinna
--------------
Ekki alveg klárt að Soldeyjardalur sé rétt merktur á myndina að ofan. Það sem er kallað Snasi gæti einnig heitið Kattareyra. Kortum ber ekki öllum saman hverju við annað og ekki heldur við Evelin sem þar þekkir hverja þúfu.
En hópurinn í sjónskertri gönguferðinni fór þar upp á Botna-Skyrtunnuna í hreinni snilldarferð seinna í júlímánuði.

Hafnarfjall 7. júlí

IMG_6389

Arkað upp eina af fyrstu brekkunum, upp á Tungukollinn


Ein ágæt ferð á Hafnarfjall með mánaðarfjallshópi FÍ. Lagt af stað í súld og sudda en stytti upp og glaðnaði aðeins til á köflum.

Gekk í það heila alveg ágætlega. Dálítið rólegt hjá sumum með slöpp hné og mikinn áhuga á blómskrúði. Örvar ágætur þegar hann sagði að í Hafnarfjalli væru landsins stærstu gabbró innskot. Held að það sé eitthvað takmarkað gabbró í Hafnarfjalli en hins vegar eru þar Flyðrur sem eru hugsanlega stærstu Granófýr innskot landsins. Í öllu falli ku vera þar Granófýrr

Svo líka skondið að þetta með gabbróið kom í þættinum "Út um græna grundu" en þá var Örvar Aðalsteinsson kynntur til leiks sem Ævar Örvarsson. Það er þá líklega bara meðaltalið af þeim bræðrum en Ævar var ekki með í ferðinni að þessu sinni.

IMG_6442

Flyðrur væntanlega séðar ofan frá... en þó kannski bara ekki en þær eru í öllu falli einhvers staðar þarna í þessum hlíðum

Flutningar R og M

VMM_8131

Fremristekkurinn kominn í pappakassa.

Tvisvar höfum við bræður fengið að geyma hjól hjá Frænku okkar og hennar manni í Köben auk þess að fá að gista og alls-lags. Svo er hún Ragneiður líka mjög fín frænka okkar og Matti hennar maður ekki síður fínn og ekki síður ættmóðirin Ingibjörg. Það var því hið besta mál að hjálpa þeim við flutninga.

Sumt í flutningnum gekk betur en annað. Til dæmis kom í ljós að það er afleitt að ætla sér að koma tvíbreiðu rúmi í einu lagi upp þröngan stiga en svo kom líka í ljós að þeir eru skilningsríkir í IKEA.
VMM_8153

Matti og Ragheiður, komin á Skólavörðustíginn.

....

Plöntudagur Fellsmerkur 30. júní

VMM_8049

það var farið í Fellsmörk daginn eftir heimkomuna frá Evrópu. Heppnaðist vel en ég fór snemma heim á sunnudegi með foreldrunum því ég ætlaði á fund í verkefni á Veðurstofunni sem síðan reyndar varð ekki því hinn maðurinn mætti ekki neitt.

Í Fellsmörkinni var það ég, Gunninn, mamman og pabbinn. Gaman að þau skyldu koma líka!

VMM_8065

Drukkið kaffi eða eitthvað í músahúsinu!

Hjólað frá Berlín til Prag: 18 - 28 júní

Hjálpast að við að laga slitna keðju Dostans

VMM_7637 Það var farið í framhaldi af Vatternrundan. Gekk ágætlega ef undan eru skilin æfintýri á flugvöllum. Held ég fari helst ekki aftur með tvö hjól á flugvöll í einu og eins veit ég núna að skynsamlegast er að reyna að panta hjólafar áður en farið er í flug eða kannað hvort eða hvernig flugfélög sem fljúga innan Evrópu vilja flytja reiðhjól. Þetta er ekkert mál til og frá Íslandi en á milli annarra Evrópu landa virðist þetta vera risavaxið vandamál! VMM_7594

Á tjaldstæði við Bad Schandau



En ferðin/leiðin varð alls um 600km með hjólamennsku í einn dag í Prag. Byrjuðum að hjóla á mánudagshádegi í Berlín og komum til Prag að kvöldi þriðjudags viku seinna. Var mjög mátulegt. Aldrei of langt á neinum degi og við náðum svona almennt að njóta ferðarinnar. Samt vorum við ekki að skoða neitt þannig séð heldur snérist ferðin um að hjóla.

Matseðillinn samanstóð af morgunmat, hádegismat sem var ýmist pasta eða brauðmáltíð, nokkrum bjórum og steik um kvöldið ásamt nasli yfir daginn. Niðursaðan var 5kg þyngdartap alls! VMM_8037

Hjólið við heimkomuna tekið úr kassanum fyrir utan Leifsstöð. Ég gerði eiginlega ráð fyrir að hj´lið væri ónýtt miðað við útlitið á kassanum en það var í alveg þokkalegu lagi!

......

Vatternrundan 15-16 júní

Það var farið eins og undanfarin ár!



Gekk bara vel og náði betri tíma en áður. Núna eitthvað rétt yfir 12 klst. Fyrir fjórum árum var það um 16, svo um 14 í fyrra um 13 og núna um 12. Ágæt bæting.

Stærri hópur en áður sem náði býsn vel saman!