Sunday, November 28, 2004

Ferðaútbúnaðarpælingar


Meeting in the Kilimanjaro group, originally uploaded by eirasi.

Ég settist niður í vikunni með hinum fræknu hetjum sem ætla að þramma á Kilimanjaró með mér eftir áramótin. Voru miklar spekúlasjónir um alls konar útbúnað. Hluti hópsins fór í þar seinustu viku í dótabúð Dóra, þ.e. Fjallakofann. Ég komst ekk en eftir því hvernig þeir sem fóru létu þá tókst Dóra að dáleiða þá af sinni al kunnu snilld. Ég man ekki hvað allt þetta flotta dót sem þeir sáu hjá honum hét. Mér er nefnilega að fara að skiljast að það er ekki nóg að vera bara í sinni flíspeysu, ullarbol, stakk og kannski dúnúlpu til að komast þarna upp.

Nei, því núna eru komnar alls konar tegundir af flísefnum sem heita eitthvað power stretch og power shield. Ég reyndi að draga eitthvað fram úr mínum reynsluheimi og malda í móinn en það var ekki við það komandi. Pewer stretch skal það vera og power shield. Ég var dálítið eins og bóndi austan af landi á átjándu öldinni sem var vanur að láta vaðmálsbrók og sauðskinnskóna duga.

Þessi flísefni þeirra voru reyndar af þvílíkum ofurgæðum að það endaði með því að þeir sannfærðustu ákváðu að sleppa jafnvel stakknum. Það væri nóg að taka bara regnslá í staðinn úr Bónus eða næstu bensínstöð með. En reyndar hafa þeir það til síns máls að líklegast rignir nokkuð lóðrétt þarna í hitabeltinu. Þó mér lítist ekki alveg á að fara stakklaus á fjöll.

Annars er þetta allt saman fínt dót og Dóri í Fjallakofanum má líka eiga það að hann vildi ekki selja þeim neitt heldur sagði þeim að reyna að fá einhvern góðan díl hjá 66°N eða Cintamani. Reyndar verst að það sem mig vantar helst af nýju dóti eru almennilegar regnbrækur (heitir reyndar orðið "göngubuxur" eftir Fjallakofaheimsóknina - en í minni orðabók er "göngubuxur" eitthvað allt annað) sem ég þarf að versla mé nýjar þar sem Cintamani brókin sem ég á hefur alltaf míglekið.

Síðan stendur til að kaupa sem mest af herlegheitunum áður en við förum ferðina á Fimmvörðuháls um næstu helgi svo það er best að fara að ákveða sig. Ég ætla samt að vona að það komi enginn með regnslá með sér á Fimmvörðuhálsinn.

Reyndar á ég ekki von á því að neinn komi í regnslánni í það ferðalag enda eru þetta allt hinir mestu skynsemdarmenn sem ætla með mér í ferðina þó ég geti farið mikinn þegar ég blogga um það. En einhvern veginn var þetta allt saman eins og það væri verið að kenna gömlum hundi að sitja.

No comments: