Saturday, April 03, 2010

Eldgosið á bakvið Bröttufönn

Maður veit ekki alveg hvað skal segja!

Eldgosið á bakvið Bröttufönn

Sýnin að eldgosinu sem mér og öðrum túristum var boðið uppá!



Þar lá mælirinn grafinnVið bræður tveir fórum inn í Þórsmörk. Fyrst var reyndar á dagskrá að fara inn í Hvannárgil til að athuga hvað gengi að mæli Vatnamælinga Veðurstofunnar í Hvannánni sem gaf eitthvað undarlegar leiðniniðurstöður. Við þurftum sérstakt leyfi lögreglu enda gert ráð fyrir baneitruðum lofttegundum. Við fengum lögreglufylgt inn gilið. Allt gott um það að segja í sjálfu sér enda alveg örugglega hættuspil að halda eitthvað langt inn í gilið. Við höfðum annars ekki alveg árangur sem erfiði því viðgerð var ekki möguleg. Eftir flóð sem hafði komið í ána var mælirinn kominn á kaf í framburð árinnar og hann því ekki að mæla leiðni rétt.



Svo var farið inn í Bása

Á leiðinni uppá Morinsheiði mættum við fólki sem við þekktum og dásamaði það sýnina þar uppi enda hafði það haft tök á að komast upp á Bröttufönn þar sem gæsla björgunarsveitar hafði víst eitthvað klikkað um miðjan daginn.

Eldgosið séð frá ofanverðum Kattarhryggjum

Séð til eldgossins frá ofanverðum Kattarhryggjum


En frá Kattarhryggjum var hægt að skoða gosið svona nokkuð vel úr mjög öruggri fjarlægð. Og áfram héldum við.

Þegar upp á Morinsheiði kom blasti dýrðin við eins og sést á efstu myndinni. Það var fallegt á að horfa en svo sem ekkert meira en það. Dálítið eins og að horfa á sólarlagið. Reyndar dálítið skondið að við sáum "sólarlag" í tvær áttir. Bæði til vesturs eins lög gera ráð fyrir en líka svona nokkurn veginn beint í suður þar sem upplitaðir gufubólstrar blöstu við. Tilkomumikið? Ég er ekki viss en þetta var voðalega fallegt.

Á brúninni við Heljarkamb voru björgunarsveitarmenn í fullum herklæðum og gættu þess að enginn færi yfir í hina stórhættulegu snjóbrekku. Okkur eins og öðrum túristum var ætlað að horfa á alla dýrðina.

Hraunið rennur í stríðum straumum

Hraunflóðið séð af Morinsheiði



Hraunáin eða hinn svo kallaði hraunfoss blasti við af heiðinni og var auðvitað fallegur á að horfa. Yfir heiðinni var svo hið síbreytilega sólarlag sem gerði veröldina alla hina æfintýralegustu.

Sólarlagið yfir Bröttufönn

Sólarlagið yfir Bröttufönn


Þetta er vissulega voðalega fallegt en sem ljósmynd finnst mér þetta hundómerkilegt og dálítið bara svona smella af og sólarlagið komið í rammann. Fyrir minn smekk þá er þetta ekki eitthvað sem vekur áhuga á nokkurn hátt.


ERS_5154

Jeppaliðið austan hraunstraumsins


Það var kannski skondnast á vissan hátt að fylgjast með jeppaliðinu austan hraunárinnar sem komst reyndar í návígi við hraunið. Þar frétti ég af einhverjum jeppatúrista sem stökk upp á storknað væntanlega hraunið til að komast í hvarf til að geta pissað í friði. Þrátt fyrir alla stýringuna á svæðinu þá tókst ekki að koma í veg fyrir slíka sjálfsmorðstilraun!

ERS_5166

Ljósafestin í Fljótshlíðinni

Svo í hina áttina var hægt að fylgjast með bílunum í Fljótshlíðinni. Það skondna er það að þar sem við vorum í um kílómeters fjarlægð frá gosinu og sáum í raun ekkert gos heldur bara rauðlita gufubólstra og jú hraunstrauminn. En þeir sem voru akandi í Fljótshlíðinni sáu vel til gossins en reyndar úr aðeins meiri fjarlægð!

Þegar upp er staðið


Eldgosaskoðunarferð þar sem girðingar eru út um alt til að koma í veg fyrir (sem tókst samt ekki) að einhverjir kjánar fari upp á hraunið til að pissa verður eiginlega algjörlega til þess að áhugaverðasta náttúruundur verður fyrir mig álíka óáhugavert ganga á göngustígnum við Geysi og horfa á gos í Strokki úr öruggri fjarlægð. Eitthvað sem ég hef ekki gert árum saman og hef afskaplega takmarkaðan áhuga á að gera nema til að sýna útlendingum eitthvað sem þeir jú, kannski þurfa að sjá.

[ekki búið enn...]

  • Fjölmiðlamenn sem fara nær en aðrir fá að fara og geta ekkert sagt fréttnæmt annað en að það sem þeir fengu að sjá hafi verið rosalega merkilegt og rosalega mikil upplifun fyrir þá. Það eina fréttnæma sem kom frá fréttamanninum var það að hann varð fyrir áhrifum sem hlustendurnir hafa ekki leyfi til að upplifa.
  • Fjölmiðlar eiga að segja frá því sem er að gerast en fréttirnar eiga ekki að snúast um það hvað þeir sjálfir verða fyrir stórkostlegum upplifunum. Það er bara til að auka á svekkelsi okkar sem erum ekki fréttamenn og hefur ekkert fréttagildi.
  • Þegar vel búnu göngufólki er meinað að ganga upp á Bröttufönn á sama tíma og þyrla fær að lenda þar með fólk sem er jafn vel á háhæluðum skóm!
  • Þegar settir eru upp lögregluborðar hér og þar uppi á Fimmvörðuhálsi á sama tíma og kokkur frá Hótel Holti bíður upp á. Eða var þetta kannski bara aprílgabb hjá Fréttablaðinu sem fór einum degi of snemma í loftið!
  • Af hverju segja björgunarsveitarmenn og yfirvöld að það sé of vont veður uppi á Fimmvörðuhálsi og það sé búið að "loka Fimmvörðuhálsi" á sama tíma og ég veit af miðlungi reyndum göngumönnum þar ágætlega útbúnum og voru langt fram á kvöld og fengu á sig tvö él en voru bara í ágætum málum?
  • Og samt komu allar þessar takmarkanir ekki í veg fyrir að stelpan á jeppanum stykki upp á hraunið til að pissa.
Og þessar lokanir - hver má gera hvað?
  • Á laugardeginum viku eftir að gosið hófst og við gengum upp á Fimmvörðuháls í reyndar frábæru ferðalagi, þá var töluverð traffík af jeppum sem ég veit að af hluta voru frá ferðafélaginu Útivist. Það var reyndar þannig að þegar við loksins komum niður af hálsinum þá var hið harðlæsta hlið bara opið og allir gátu farið þar um að vild. Var lokunin bara í gildi að degi til eða var hún bara fyrir alla aðra en þá sem voru eitthvað merkilegir hjá Ferðafélaginu Útivist?


Og hvað er hættulegt?

Ég er nokkuð viss um að ef allir þessir bílar sem hafa ekið Mýrdalsjökul hefðu reynt að fara akandi yfir t.d. Vatnajökul þá væri einhver búinn að álpast ofan í sprungu og banaslys orðið að raunveruleika. Af hverju er þá ekki bannað með lögum að fara yfir Vatnajökul. Það varð banaslys á Langjökli? Af hverju var þá ekki bannað að aka þar og jöklinum bara lokað fyrir alla?

Ég veit reyndar ekki alveg hvernig þetta á að vera. Þegar ég kom að hraunbrúninni á Fimmvörðuhálsi laugardeginum viku eftir páska þá blöskraði mér hvernig fólk lét. Sumir kveiktu sér í sígarettu af hrauninu og margir stilltu sér upp til myndatöku við hraunbrúnina. Ekki lítið spennandi að geta giskað á hvort ljósmyndarinn myndi ná að taka mynd áður en hraunið kastaði bjargi yfir fólkið. Ég varð eiginlega hálf hissa á að það varð ekki alvarlegt slys þarna.

[Af hverju...]