Tuesday, November 30, 2004

Að hafa dýran smekk

Þegar ég var lítill var ég með smekk til að ég subbaði mig ekki allan út. Mig minnir að það hafi verið blá önd á þessum smekk og ég geri ekki ráð fyrir að hann hafi verið dýr. Núna er ég kominn með nýjan smekk. Það er engin sæt blá önd á honum heldur eitthvað rándýt. Það er hann að minnsta kosti.

Fyrir svona 10 dögum fann ég ekki úrið mitt einn morguninn. Ég þykist reyndar nokkuð viss um að ég var með það heima hjá mér kvöldið áður en þrátt fyrir að íbúðin sé ekki sérlega víáttumikil þá hef ég ekki fundið það ennþá. Fór þess vegna að svipast um eftir einhverju í staðinn.

Fór í Kringluna um daginn og sá þá að öll úrin þar voru forljót fyrir minn smekk.

Labbaði mér síðan niður Laugaveginn áðan og skoðaði í alla úralega búðarglugga sem ég komst yfir. Flest fundust mér þau ljót eða ómuleg fyrir minn smekk. Loksins fann ég eitt sem mér leist helvíti vel á. Já, alveg þangað til ég sá verðmiðann. Sextíu og eitthvað þúsund kallar. Nei ég þarf að fá mér einhvern annan smekk. Ef einhver á ódýran smekk handa mér með blárri önd á þá vinsamlegast látið mig vita.

Sunday, November 28, 2004

Jóladjammið

Það er rigning og þá nennir maður ekki neinu nema að blogga!

Jám, það var jóladjamm í vinnunni minni á föstudagskvöld. Tók alla nóttina með því að fara í bæinn og á hinn endurvakta stað, REX.

Þetta var allt ágætt. Stuð fyrst á Skydol keppni og hægt að hrista sig við gamla slagara á dansgólfinu. Síðan á Rex þá fékk ég mér Viskí sem var bæði það besta, dýrasta, elsta og sorglegasta sem ég hef nokkurn tíman fengið. Já: Það var gott - einfaldur kostaði eins mikið og tvöfaldur af öðru viskíi - það var búið að vera með kosningarétt í sjö ár minnir mig - en það sorglega var að þegar ég var hálfnaður með það þá lagði ég glasið frá mér og einhver tók það líklega í misgripum fyrir tómt glas og hellti guðaveigunum!

Síðan eftir kvöldið er ég mest spenntastur að vita hvort Þórhildur ætli að standa við það að fara að skokka með okkur Kilimanjaró förum. Ef hún gerir það þá verð ég að minnsta kosti að taka mig saman í andlitinu líka og skokka með þeim og henni. Ekki gengur að þeir villimenn gangi frá henni.

Ferðaútbúnaðarpælingar


Meeting in the Kilimanjaro group, originally uploaded by eirasi.

Ég settist niður í vikunni með hinum fræknu hetjum sem ætla að þramma á Kilimanjaró með mér eftir áramótin. Voru miklar spekúlasjónir um alls konar útbúnað. Hluti hópsins fór í þar seinustu viku í dótabúð Dóra, þ.e. Fjallakofann. Ég komst ekk en eftir því hvernig þeir sem fóru létu þá tókst Dóra að dáleiða þá af sinni al kunnu snilld. Ég man ekki hvað allt þetta flotta dót sem þeir sáu hjá honum hét. Mér er nefnilega að fara að skiljast að það er ekki nóg að vera bara í sinni flíspeysu, ullarbol, stakk og kannski dúnúlpu til að komast þarna upp.

Nei, því núna eru komnar alls konar tegundir af flísefnum sem heita eitthvað power stretch og power shield. Ég reyndi að draga eitthvað fram úr mínum reynsluheimi og malda í móinn en það var ekki við það komandi. Pewer stretch skal það vera og power shield. Ég var dálítið eins og bóndi austan af landi á átjándu öldinni sem var vanur að láta vaðmálsbrók og sauðskinnskóna duga.

Þessi flísefni þeirra voru reyndar af þvílíkum ofurgæðum að það endaði með því að þeir sannfærðustu ákváðu að sleppa jafnvel stakknum. Það væri nóg að taka bara regnslá í staðinn úr Bónus eða næstu bensínstöð með. En reyndar hafa þeir það til síns máls að líklegast rignir nokkuð lóðrétt þarna í hitabeltinu. Þó mér lítist ekki alveg á að fara stakklaus á fjöll.

Annars er þetta allt saman fínt dót og Dóri í Fjallakofanum má líka eiga það að hann vildi ekki selja þeim neitt heldur sagði þeim að reyna að fá einhvern góðan díl hjá 66°N eða Cintamani. Reyndar verst að það sem mig vantar helst af nýju dóti eru almennilegar regnbrækur (heitir reyndar orðið "göngubuxur" eftir Fjallakofaheimsóknina - en í minni orðabók er "göngubuxur" eitthvað allt annað) sem ég þarf að versla mé nýjar þar sem Cintamani brókin sem ég á hefur alltaf míglekið.

Síðan stendur til að kaupa sem mest af herlegheitunum áður en við förum ferðina á Fimmvörðuháls um næstu helgi svo það er best að fara að ákveða sig. Ég ætla samt að vona að það komi enginn með regnslá með sér á Fimmvörðuhálsinn.

Reyndar á ég ekki von á því að neinn komi í regnslánni í það ferðalag enda eru þetta allt hinir mestu skynsemdarmenn sem ætla með mér í ferðina þó ég geti farið mikinn þegar ég blogga um það. En einhvern veginn var þetta allt saman eins og það væri verið að kenna gömlum hundi að sitja.

Auglýsingamennskunni eru engin takmörk sett!


Moggin to day, originally uploaded by eirasi.

Þegar ég sótti Moggann í gærkvöldi þá sá ég að það voru ekki bara auglýsingaskrumblöð (svona ruslatunnumatur á mínu heimili) sem fylgdi málgagni sjálfstæðra manna að innanverðu heldur var þessi óværa orðin útvortis líka. Það hafði einhverri mannvitsbrekkunni hjá Mogganum dottið í hug að samþykkja að líma einhvern ótætis límmiða framan á blaðið.

Nú þegar ég syfjaður í morgun ætlaði að fara að skoða Moggann þá auðvitað rifnaði þetta allt í tætlur og við blöstu einhver dularfull augu af síðu þrjú. Varð ég svo skelfdur við þetta [það er þessi dularfullu augu] að ég hef ekki haft þor enn sem komið er til að opna blaðið. Sem er auðvitað hið verstasta mál því "eina ástæðan" fyrir að ég kaupi snepilinn er auðvitað krossgátan hennar nákvæmlega jafnöldru minnar sem kemur þarna í sunnudagsblaðinu.
.
.
.

Bíddu annars aðeins. Hún er í einu af þessu hroðalegu aukablöðum sem er troðið innaní. Kannski get ég náð því út þan þess að hljóta alvarlegan skaða af!
.
.
.

Jú það tókst. Þá er helgin endanlega ónýt og ég þarf að fara að leysa krossgátu.
Sé ykkur eftir viku.

Og Stína, ekki segja mér að hætta bara að kaupa Moggann!


Friday, November 26, 2004

Kilimanjaro ferðin í fréttum

Haldiði að það hafi ekki komið grein um ferðina manns í Fréttablaðinu í gær!

Alveg varð ég hissa!

Takk Lilja!

Vá, þetta voru þrjú upphrópunarmerki!

En reyndar ekki neitt takk fyrir að birta þessa fínu mynd af mér með greininni :-(

Wednesday, November 24, 2004

Það var bankað hjá mér í kvöld

Hrökk við með andfælum.

Var ekki bara pósturinn Pálína (eða þannig) komin með stóran stóran pakka handa mér - en reyndar grunsamlega léttan.

Þetta leit nú annars ekki vel út því þegar ég ætlaði að fara að borga þá voru debetkortin mín algjörlega útrunnin. Tókst reyndar að bjarga þessu í horn með að millifæra. Það bætti reyndar ekkert úr skák að það var eitthvað leiðindabréf þarna líka vegna einhvers miskilnings löggunnar um daginn af því að ég var ekki með ökuskírteinið mitt meðferðis.

En mér tókst að borga og taka á móti stóra stóra pakkanum sem var fullur af einni lítilli linsu.

Æddi út með það sama og tók mynd... af bara einhverju. Lækjartorg varð fyrir valinu.

Svo sem ekki merkileg mynd en alveg örugglega alvöru gleiðhornsmynd.

En nei, þessi kemst ekki að sem mynd vikunnar.

Monday, November 22, 2004

Nýr þjóðsöngur - vei vei vei !!!

Loksins fóru þingmennirnir okkar að tala um eitthvað af viti, auðvitað er löngu kominn tími til að losa okkur við þennan lummulega þjóðsöng sem þjóðin sameinaðist um þegar hún endanlega varð þjóð aftur með þjóðum.

Málið snýst bara um hvort það verður "Ísland ögrum skorið" eða "Ísland er land þitt".

Núna er þörf á að endurnýja þennan gamla sálm sem er greinilega algjör tímaskekkja. Við þurfum að eignast okkar alvöru þjóðernisbaráttusöng sem við getum til dæmis sungið hástöfum á íþróttakappleikjum þegar við tökum aðrar þjóðir í bakaríið á leikvellinum nú svo maður tali nú ekki um þegar stappa þarf stálinu í hinn íslenska friðargæsluher sem fer land úr landi í kjölfar hans Búss og hans pótintáta.

Og enda er þjóðsöngurinn okkar núna algjörlega ómögulegur og óskiljanlegur. Það væri auðvitað mikið betra að fá einhvern söng eins og "Ísland ögrum skorið" sem hvert mannsbarn getur skilið. Reyndar heyri ég ekkert marga tala um hið ögurskorna land eða skikkan skaparans sem kemur þar aðeins síðar en það má þá bara kenna þjóðinni það.

Eða "Ísland er land þitt". Það er svo fullkomið lag að ég held reyndar að það sé ekki hægt að syngja það öðru vísi en með sínu nefi. Að minnsta kosti kemur það alltaf rammfalskt út úr mér.

Mér líst vel á þetta:
  • Seljum hálendið
  • Fáum popplag sem þjóðsöng
  • Stofnum her
  • Og leggjum svo Alþingi niður enda löngu orðið úrelt.

Get ég ekki bara fengið að syngja "Stál og hnífur" sem minn þjóðsöng eða "Yfir kaldan eyðisand"?

Annars minnir þessi bull umræða á Alþingi mig á það þegar einhver kverúlantinn vildi endilega fara að breyta klukkunni hjá okkur þannig að við gætum verið í kaffi á sama tíma og þeir í Brussel.

Ég elska íþróttafréttir

Ég er að reyna að skilja þetta. Til hvers eru íþróttafréttir til annars en að flæma vitiborið fólk (eða vitlaust ef ég er svoleis) frá útvarpinu eða sjónvarpinu.

Ég hélt reyndar að ég myndi bara enda í alvarlegu ástarsambandi við sjónvarpið í kvöld þangað til Helgarsportið komst loksins á dagskrá og kom fyrir mig vitinu.

Stundum get ég bara ekki að því gert að þegar það er til dæmis farið að þylja upp hver skoraði í hvaða mark í hvaða leik í deildarkeppni í krummaskuði úti æi henni Evrópu þá þætti mér jafn gáfulegt að heyra hvað bæjarstjórinn sem var á leiknum tæki oft í nefið á meðan hann klóraði sér í eyranu.

Er þetta bara eitthvað sem hann vitlausi ég skilur ekki?

Sunday, November 21, 2004

Veikindablogg

Ég hef tekið eftir því að óvenju fáir eru að lesa bloggið mitt þessa dagana og þá eru það eiginlega sárafáir. Og ég er glaður með það þar sem bloggið mitt er búið að vera aðallega um veikindi og aumingjaskap míns sjálfs. Hvur gæti haft mikinn áhuga á því nema þá kannski manns næsttengdustu. Ég er þó ekki enn orðinn svo slæmur að vera farinn að blogga návkæm sjúkdómseinkenni eins og hvort ég hafi haft góðar hægðir í dag eða ég sé betri af fótsveppunum sem ég fékk í sundi nýlega. Ætti kannski að blogga um hvort tveggja en held að ég láti það vera.

Þar sem engin heimsendingarþjónusta var á helstu nauðsynjum sem voru að klárast [les: súkkulaði] þá brá ég undir mig betri fætinum eða reyndar betra bíldekkinu og fór bara fársjúkur maðurinn út í búð. Það endaði með að rifjaðir voru upp taktar í eldamennsku sem endar samt vonandi ekki með alvarlegri matareitrun.

Ég er reyndar að gera merkilega rannsókn á gildi súkkulaðis í lækningaskyni. Það eru margar þekktar staðreyndir til um súkkulaði s.s. að konum þyki það upp til hópa betra en kynlíf en ég hef ekki enn séð neitt um gildi þess í lækningaskyni. Það er ég núna sem sagt að prófa á sjálfum mér. Ég er samt kannski búinn að eyðileggja tilraunina með því að hafa eldað mér eitthvert karrýkjöt ala Raggi him self núna áðan. En það verður bara að hafa það. En ég var að átta mig áðan á því að ég er í alvörunni fárveikur þar sem ég var að komast að því mér til mikillar undrunar að ég hef gleymt að fá mér kaffi í allan dag. Slíkt hefur ekki gerst lengi! Bíð núna skelfdur eftir hausverkinum ógurlega.

Dóttir beinagræðarans

Var að lesa


Tókst að klára bók í veikindunum ´dag sem hef verið að lesa síðustu vikuna, Dóttur beinagræðarans eftir Amy Tan. Átakaleg lesning og að sama skapi góð bók held ég að ég verði að segja. Fann alveg innilega til með fólkinu í bókinni og gat ekki skilið af hverju lífið þurfti að vera svona hjá sumum en henni Amy Tan tókst samt að lýsa þessu án þess að þetta verða væmin eða gera bókina leiðinlega. Held að bókin flokkist seint undir spennubókmenntir en samt var meiri spenna í henni en mörgum bókum sem eiga aðallega að seljast út á spennuna. Hef reyndar lesið meira eftir sama höfund og bækurnar hennar virka oft dálítið mikið eins og hún sé raunverulega að segja frá sjálfri sér þó það sé tæpast raunin.

Saturday, November 20, 2004

Í slappleika sínum

Getur maður farið að skoða bloggið sitt. Alltaf rosalega gaman.

Sé að fyrir ári síðan fór ég út á lífið og dansaði við ljóshærða stelpu sem fannst ér líklega vera gamall karl. En ég hélt samt heilsunni eftir það.

Um seinustu helgi fór ég nebblega líka út á lífið og dansaði við ljóshærða konu sem fannst ég vera lítil barn.

Ekki veit ég hvort kvef mitt og almenn vesöld er frá henni komin en ekki yrði ég hissa þó hún bölvi mér núna í sand og ösku fyrir að ég hafi smitað hana sjálfa af þessu hræðilega kvefi.

Fyrir tveimur árum var ég nú síðan hvorki búinn að blogga mart né merkilegt en reyndar er elsta bloggfærslan mín í henni þessari netveröld að verða tveggja ára:


Monday, December 02, 2002
Fór í bæinn, enda ekki langt að fara. Labbaði bæði upp og niður laugaveginn í öfugri röð.
3:05 PM

Saturday, November 23, 2002
Eitthvað bara að prófa, er þetta ekki algjör vitleysa????

hmmmmmm......
4:51 PM


En þetta var sem sagt bloggað af mínum "áður en hann fór að blogga".

Friday, November 19, 2004

veiggúr

Líklega hef ég ekki tekið ullarpeysukepnina nógu alvarlega þar sem minn er kominn heim, upp í rúm með tærnar upp í loft. Sem sagt veiggur. Verkfræðingurinn er síðan búinn að mæla veikindin með vísindalegum aðferðum á hitaskala hvort um raunverulega veikindi sé að ræða. Og jú, ég er veiggúr.

Síðan ágætt að nota fartölvuna sem hitapúða uppi í rúmi... svona úr því að það býðst ekkert annað upp í rúm til manns.

Svo var ég að komast að því að ég ekkert svo mikill vatnsberi.

You are 67% Aquarius






Til samanburðar athugaði ég líka hvað ég er mikill krabbi og slapp fyrir horn. Ég er ekki nmea 33% svoeleis.

Thursday, November 18, 2004

Það er kalt

Tími ullarpeysunnar er runninn upp eina ferðina enn. Það er komin keppni um hver á þykkustu ullarpeysuna eða flestar peysuarnar. Dúnúlpur ku geta skorað nokkuð hátt líka í þessari keppni. Ég er kominn með átta stig í peysukeppninni en hef ekki enn skráð mig til leiks í dúnúlpukeppninni. Ef það snjóar meira gæti ég stolist til að fara á skíðum í vinnuna. Verst að þessi snjóruðningstæki eyðileggja alla skemmtunina sem maður gæti haft af þessu

Það er kalt.

Ég er síðan með hálfgerða vesöld og væri annars á skíðum uppi í Heiðmörk. Þó ég hafi ekki komið þangað í bráðum heila viku þá veit ég að það er kveikt á æfintýralandinu þar. Kannski ég þurfi að láta mér batna agnarlítið áður en ég kemst á skíðin. Hvort sem það verður nú upp í Heiðmörk eða bara í vinnuna mína.

Wednesday, November 17, 2004

Nögladekkin virka betur undir bílnum

Skildi bíldrússluna eftir á dekkjaverkstæði þegar ég var hálfnaður í vinnuna í morgun. Þessi fyrri partur af ferðinni í vinnuna gekk ekkert of vel. Þurfti ég að beita klækjum til að komast áfram og var reyndar aðal trixið að sneiða fram hjá öllum brekkum. Að minnsta kosti brekkum sem ég gæti þurft að stoppa í. En þetta er sem sagt allt annað líf.

Ég er síðan kannski bara gamall og fúll en er ekki dálítið snemmt snemmt að einhver útvarpsstöð spili nú þegar eiginlega ekkert nema jólalög? Er að minnsta kosti ekki fyrir minn smekk.

Heilsan er loks ekkert sérstök en sleppur samt alveg fyrir horn. Hóst hóst.

Tuesday, November 16, 2004

Með nögladekkin í skottinu

Ég hefði haldið að það að hafa nögladekkin í skottinu væri svipað og að hafa vaðið fyrir neðan nefið. Reyndar treysti ég þessu ekki almennilega og sá mitt óvænna þegar þetta hvíta fór að hrannast upp á götunum og fór snemma heim. Enda kominn með kvef og hálfgerða vesöld og tók ekki sénsinn á að lenda í einhverju slarki.

Heimleiðin gekk síðan mjög rólega. Það voru svo allt of margir ekki með sín nögladekk í skottinu og því spólandi vitlausir út um allan veg. Ég komst klakklaust heim eftir að hafa verið stopp út í Skipholtinu út af einhverju sem ég aldrei vissi hvað var. Þorði reyndar ekki inn á bílastæðið þar sem ég er vanur að leggja þar sem mokstur á því hefur mér vitanlega aldrei farið fram nema fyrir guðs mildi [les - mildan hita yfir frostmarki - og ég veit ekkert hvenær slík mildi mun eiga sér stað næst - vonandi seint.]

Ætla rétt að vona ég sé ekki að verða veikur

Hóst hóst - er kominn með kvef. Má ekki við því að leggjast í rúmið eða verða slappur í heila viku aftur.

Sniff

Sunday, November 14, 2004

Munnharpan rokkar

Ég er að velta fyrir mér hvort það megi spila á munnhörpu þegar maður er að keyra bíl. Ef þú sérð ungan gráhærðan mann á Fólksvagen bíðandi á rauðu ljósi blásandi í munnhörpu þá gæti það nefnilega verið ég.

Ég hef mjög einfalt markmið varðandi munnhörpuleik. Verða það góður að fólk geti giskað á hvaða lag ég er að spila með sæmilegu öryggi. Fyrir þá sem hafa heyrt mig spila þá vita þeir að þetta er nokkuð háleitt markmið.
Hún er flott en það heyrist kannski ekki jafn flott... En hún rokkar líklega ekki,

Það var aftur djamm um helgina

Já, það er skammt stórra högga á milli í djammlífinu. Missti reyndar af heljarinnar starfsmannadjammi á föstudaginn þegar ég var að þvælast á fundinn upp í Heiðmörk sbr. síðustu bloggfærslu. Það var hins vegar partýstand heima hjá mér sjálfum aldrei þessu vant í gærkveldi. Vona að ég hafi ekki reynt of mikið á þolrifin í nábúunum.

Það var annars byrjað á að fara á Ben Thai veitingastaðinn sem er eiginlega í sama húsi og ég bý í þó það sé reyndar alls ekki innangengt á milli. ´

Þegar við vorum hálfnuð að bíða eftir matnum (og trúið mér, það var langur tími) þá fattaði ég allt í einu nákvæmlega hvar ég var, eða öllu heldur hvar glugginn á þessu herbergi var sem við vorum að fara að borða í. Ég hafði einhvhern tíman nefnilega tekið eftir að það var eitthvað mikið partýlíf í einni íbúðinni hérna við Laugaveginn en áttaði mig ekkert á að þessi gluggi sem þar sást inn um er hluti af þessum veitingastað.

Þetta var annars fínn matur en við þurftum að bíða hálf fáránlega lengi eftir honum. Þeir eru mun sneggri á Devitos!

Nú á eftir var partýast heima hjá mínum og svo skundað á Nýtt danskt ball á Nasa þar sem að sjálfsögðu var megastuð.

Neysla matar og drykkjar gekk hins vegar ekki sérlega vel hjá mér og lítur allt út fyrir að ég þurfi að góbla á partýmat fram eftir vikunni ef ég fæ ekki neinn í heimsókn.

Já og til upplýsingar fyrir suma sem gætu verið forvitnir eftir Nösuna þá er ég ennþá jafn ágætlega einsamall og alltaf.

Friday, November 12, 2004

Loksins aftur mynd vikunnar


The road to nowhere, originally uploaded by eirasi.


Átti erindi upp í Heiðmörk til Skógræktarfélags Reykjavíkur. Eftir nokkuð merkilegan fund á Elliðavatni fór ég bíltúr um heiðmörkina, fékk mér göngutúr og tók einhverjar myndir. Er reyndar ekkert sérlega glaður með árangurinn af því frekar en öðru þessa dagana en að minnsta kosti ein varð líklegast slarkfær. Fiktaði annars dálítið í henni, vona að það hafi samt ekki verið of mikið.

mig langar til að blogga

En má samt ekkert vera að því og hef enda ekkert að blogga um. Best að fara að gera eitthvað og klára þetta blogg einhvern tíman seinna.
.
.
.
Er annars búin að vera strangavika núna í heilan mánuð og verður það áfram en reyndar er stranga strangasta vikan kannski að verða búin. Sem smjatt allt í veseni.

Komst að því í vikunni tvisvar sinnum að ég er haldinn sérstakri fælni. Ég er með fóbíu fyrir púltum. Ég hélt þangað til í þessari viku að ég væri orðinn sæmilega vanur að koma fram og segja eitthvað fyrir hóp af fólki en fékk það tvisvar sinnum óþvegið frá taugakerfinu að ég er það alls ekki. Að minnsta kosti ekki ef það er púlt þarna einhvers staðar. Þetta er annars alveg undarlegur andskoti. Ég á ekki að eiga í neinum vandræðum með að bulla um hvað sem er fyrir framan hvern sem er. Og fyrir þá sem þekkja mig ekkert mikið en hafa tekið eftir hvernig ég bulla hér á þessari bloggsíðu þá má það fylgja með að í eigin persónu bulla ég oft á tíðum á nákvæmlega sama hátt. Þess vegna er það stórundarlegt að ég geti farið í kerfi við það að standa fyrir framan nokkrar hræður og bulla eitthvað en það gerðist sem smjatt tvisvar í þessari viku... og mér líður hálf skelfilega yfir þessu.
.
.
.
En... Það er kominn sknjór þannig að kannski get ég bara tekið gleði mína á ný. Það heyrðist meira að segja marr í morgun þegar ég kom út.



....

Monday, November 08, 2004

Algjör spæling!

Ég passa mig sko á að gera þetta ekki aftur. Að minnsta kosti ekki fyrr en ég er farinn að geta eitthvað. Fór nebblega í WorldClass áðan og fann ekkert hlaupabretti með útvarp í lagi nema við hliðina á einni af albrjáluðustu hlaupaspírunum sem stunda skemmtistaðinn. Ég náttúrlega laumaðist til að kíkja á hvað hún væri að hlaupa. Reyndar alveg eins og ég er vanur því ég fer yfirleitt alltaf í ímyndað kapp við þann sem er við næsta hlaupara og reyni helst að ná honum. En nei það var borin von. Hún var búin að hlaupa 10 km á brettinu á innan við 50 mínútum. Ég varð að játa mig sigraðan á staðnum. Hljóp reyndar ekkert hægar en hún kannski á meðan við vorum þarna að hamast en ég lét mér bara 3-4 km duga sem heildarvegalengd. Ég gat kannski helst huggað mig við það að það var einhver strákur við hliðina á mér sem var nú bara á mínu kaliberi eða varla það í hlaupinu held ég.

Mér sýndist síðan á tímabili að hún væri að kíkja á hvað ég væri að hlaupa þannig að hún flokkar mig núna líklega sem óttalegan aulingja. En núna verða hlaup og hvers konar fíflagangur stundaður að kappi næstu mánuðina enda má Kili fara að vara sig!

En hjálpi mér allir heilagir. Ég má ekki vera að þessu, klukkan er orðin hálftíu. Ég þarf að fara að búa til eitthvað skemmtilegt til að segja í fyrramálið á setningu Stjórnunarviku Stjórnvísi.


....

Ég er ekki netfíkill !



Are you Addicted to the Internet?

51%


Average@Internet-User.com (41% - 60%)
You seem to have a healthy balance in your life when it comes to the internet and life away from the computer. You know enough to do what you want online without looking like an idiot (most of the time). You even have your own Yahoo club or online journal! But you enjoy seeing your friends and going out to enjoy life away from your computer.




The Are you Addicted to the Internet? Quiz at Quiz Me!





Ég er samt búinn að vera að Internetast meira og minna í allan dag finnst mér!

Sunday, November 07, 2004

Það var djammað fast um helgina

Merkilegt nokk. Það var vinnufélagapartý um helgina og það meira að segja af stærri gerðinni. Á laugardagskvöld og sukk langt fram á nótt eða næstum því undir morgun held ég.

Ágætt að sletta aðeins úr klaufunum svona stundum.

Thursday, November 04, 2004

Olíubarónarnir

Eitt: Af hverju segir maðurinn ekki af sér? Þó þetta sé kannski ferlega ósanngjarnt fyrir hann þá er það ekki sérlega trúlegt að hann hafi ekkert vitað um hvað málin snérust sem hann var að skipuleggja eða hann hafi ekki vitað að þetta væri ekki í lagi. Og ef hann ætlar að halda því fram að hann hafi verið svona bláeygur þá held ég að hann gangi ekki heldur sem borgarstjóri þegar á reynir, einmitt eins og það gerir núna.

Tvennt: Mikið svakalega eru síðan allir alvöru olíufurstarnir íslensku heppnir að Þórólfur sé borgarstjóri! Það hefur varla verið minnst á þá í þessum hasar en samt eru það auðvitað þeir sem bera ábyrgðina á þessu fyrst og fremst.

Og kannski Þrennt: Ég er að hugsa um að kaupa bensín héðan í frá bara frá Atlantsolíu, eða eru þeir ekki frekar saklausir af þessu svínaríi?

Þetta er reyndar með ólíkindum. Okkur er líkt við Nígeríu og ég held að það sé bara rétt.
Það er síðan eiginlega allt að gerast hjá sjálfum mér og þá má maður ekkert vera að því að blogga eitt né neitt. Verður samt að blogga smá þó ekki nema svona um það sem maður er að gera.

Stend nefnilega í ströngu. Einhver hefur e.t.v. séð link hægra megin á síðunni sem heitir Fellsmörk. Það er eitt af þessum félögum sem ég hef látið plata mig til formennsku í og stundar skógrækt austur við Pétursey. Þau ósköp standa þar yfir að það á að fara að selja frá okkur hluta af svæðinu sem við í stjórn félagsins erum ekkert allt of kátir með. Stormaði ég meðal annars á fund sjálfs Guðna ráðherra vegna þess. Fór reyndar bara vel á með okkur og minnti hann okkur á fundinum nokkrum sinnum á að kjósa rétt og þá færi allt vel. Það er kannski ekki furða að það fari ekki allt vel hjá manni. Eða í heimsbyggðinni því ég held að eitthvað rúmlega 50 milljón Bandaríkjamanna hafi kosið kolrangt í vikunni. En þeir eru nú eitthvað öðru vísi þarna í Nýja heiminum en við hér í gömlu Evrópu.

Síðan er annar linkur þarna sem hefur tekið einhvern tíma frá mér líka. Það er Stjórnvísi. Þar er sérstök stjórnunarvika í næstu viku sem enginn má láta fram hjá sér fara.

Síðan er lox allt bilað að gera í vinnunni hjá manni þannig að það gefst ekki mikill tími fyrir margt annað. Reyndar gengur þetta allt einhvern veginn of hægt hjá mér eða á afturfótunum í sumum tilvikum, nema kannski Afríka sem færist nær með hverjum deginum.

Monday, November 01, 2004

Eldgos líklega hafið í Grímsvötnum

Þetta er allt að gerast!

Ekki skil ég af hverju ég er sitjandi hér inni yfir einhverjum leiðindum.

Nú vildi ég vera hann bróðir minn!