Thursday, December 30, 2004

Undarlegt háttalag hunds um miðja nótt

Stundum er maður heppinn eða ekki


Ég er að lesa alveg frábæra bók. Hún er 268 blaðsíður auk viðauka og seinasti kaflinn í henni er númer 233 en það eru samt ekkert svona margir kaflar í henni en þeir eru bara númeraðir eins og prímtölur.

Og þetta er spennandi morðsaga og verulega spennandi strax frá fyrstu síðu (eða kafla tvö) þar sem það er strax búið að fremja morðið og aukin heldur búið að stinga aðal söguhetjunni í grjótið fyrir að ráðast á lögregluna. Sá dauði er hundur nágrannakonunnar.

Bókin er á ensku og yfirleitt þoli ég ekki að lesa bækur á einhverjum undarlegum tungumálum sem ég skil ekki. En það er allt í lagi með þessa bók því hún er skrifuð af sjónarhóli stráks með Aspergers heilkenni. Þess vegna skil ég hana alveg. Og af einhvejrum ástæðum líka hvað hann er skemmtilega ruglaður þó ég sé ekkert illa haldinn af neinum sérstökum heilkennum held ég.

En þetta er allt út af því að ég þurfti að fara í Kringluna í dag til að kaupa rauðvín í rauðvínshappdrættinu sem ég er í. Ég sé nefnilega vinnufélögunum fyrir áfengi einu sinni í mánuði. Eftir að hafa keypt einhver reiðinnar býsn af áfengi í ríkinu í Kringlunni [þ.á.m. viskí sem er á bragðið einhvern veginn eins og gamall leðurjakki eða kannski frekar eins og hjólbarði sem hefur ofhitnað] þá datt mér í hug að fara upp á þriðju hæðina í Kringlunni og fá mér Kínamat. Og til að mér myndi ekki leiðast mjög mikið þá kom ég við í Eymundssyni á annarri hæðinni og keypti mér eitthvað að lesa og það var alveg óvart þessi bók.

Mæli með henni og viskíinu sem smakkast meira eins og leðurjakki.

En á morgun klárast árið og ég veit ekki meir.

No comments: