Wednesday, February 19, 2020

Að skrönglast á gönguskíðum yfir 30 km

Þrír Strompar og nokkrar Leirur inn á milli

Hafði ætlað að fara eitthvað langt á sunnudeginum en varð latur þá en fór í staðinn langan túr í gær. Ætlaði bara að fara mjög rólega en það komst smá kapp í minn þegar fyrsti strompahringur virtist þróast á góðum hraða miðað við aldur og fyrri störf (aldur hár og fyrri störf í þessu samhengi mestmegnis á utanbrautarskíðum), enda færið frekar gott þarna í upphafi. Verð að játa að minns var dálítið búinn á því undir lokin og tveir Leiruhringir í restina afar rólegir voru bara til að ná þessu uppfyrir 30km. Reyndar hafði færið líka spillst og sporið horfið undir nýsnævi á köflum. Heitur pottur í Árbæjarlaug var ljúfur á eftir!

Datt á fyrstu tveimur Strompahringjunum og held að það hafi verið á nákvæmlega sama stað!

Skrambi þreyttur svo daginn eftir.

Engar myndir sem sýna hetjuverkið en þetta er samt einhvers staðar á Strava.

Monday, February 17, 2020

Afmæli í dag en skíði í gær


Það ku vera afmæli hjá mér í dag en það voru Bláfjöll í gær í Edilonsblíðu. Strava heldur því fram að ég hafi mætt eða farið framúr fullt af fólki sem ég á að þekkja! Ég annars ágætlega sáttur við það að hafa farið Strompahringinn nokkuð klakkalaust og án þess að gefast upp fyrir niðurferð brekknanna... jú maður segir brekknanna - athugaði það á bin.

Mætti líka Jódu, sem ég hefði nú átt að fatta því það var þar sem Landvættirnir voru að æfa sig í einni brekkunni. En ekki sá ég hana fyrr en ég var kominn heim og skoðaði á Strava. Kjartan reyndi að leggja mér lífsreglurnar í einni brekkunni. Held reyndar að það hafi eitthvað virkað alveg þannig séð. Fannst ég hafa séð Dóra Lúðvígs eitthvað að brölta en var ekki viss en samt líklegt því konan hans var víst þarna á harðaspretti skv. Stravanu.


Ég er annars vel sáttur með það að hafa náð að fara þennan Strompahring án þess að fara alveg í kerfi í þessum brekkum sem eru á honum. Held eiginlega að ég hafi verið alveg ásættanlegur miðað við aðra þarna. Þetta er kannski bara eitthvað að koma hjá mér!

Svo eftir að ég var farinn heim þá var víst Gunninn mættur á staðinn.

Saturday, February 15, 2020

Dótið vígt

Farið með reiðskjótann í Heiðmörk


Jæja... þetta fokdýra torfæruhjól var víst ekki keypt bara til að vera inni í stofu en það var víst búið að eyða vikunni þar frá því að það komst í mínar hendur. Veðrið var reyndar ekki alveg að leika við mig og tímaskorturinn sem mér tekst alltaf að verða mér útum var að hrjá mig eitthvað. Reyndar frekar léleg hreyfivika og þegar ég hefði kannski komist á skíði þá var farið í badminton.

Svo var ég eitthvað að vandræðast með dekkin á gripnum. Ég einhvern veginn hélt að þetta væri slöngulaust sem hefði kallað á eitthvað vesen - fyrir utan að líklega voru þessi nagladekk sem ég verslaði mér bara fyrir slöngur. Þetta slöngulausa hefði a.m.k. alltaf kallað á eitthvað vesen og líklega subbuskap við að koma nögladekkjunum undir.Eftir að hafa að að lokum bara hringt í Markið þá var niðurstaðan sú að það væru bara slöngur þarna. Mér því ekkert að vanbúnaði að henda nögladekkjunum undir. Gekk ágætlega og gataði ekki nema eina slöngu - einu sinni - en á tveimur stöðum... ein bót ætti nú samt að duga.

En þá hvernig þessi hjólfákur var að virka fyrir mig. Ég vissi eiginlega ekkert alveg á hverju ég ætti að eiga von og verð að játa að þetta var nú ekkert rosalega mikið öðru vísi en gamla fjallahjólið. Kannski ekkert alveg að marka því það var auðvitað snjór og þannig séð ekkert góð færð og kannski ekki alveg hægt að bera saman við að vera utan stíga eitthvað.
Verð samt að segja að ég er ekkert rosalega glaður með allt. Er ekki ennþá neitt mikið að fíla þessa gíra sem eru 1x12. Hef verið með 3x9 á gamla hjólinu sem reyndist mér vel. Var alltaf mjög auðvelt að skipta á milli stóru framhjólanna og ég notaði þau eiginlega sem eins konar drif. Annað hvort var ég í torfærum á minnsta tannhjólinu, á sæmilegum slóða á miðtannhjólinu eða á greiðum stíg á stærsta tannhjólinu. Þurfti að skipta vina þrisvar eða fjórum sinnum kannski á ríkishringnum. Ég held að þetta nýja hjól sé ekki með sama svið á gírunum. Sá léttasti er ekki eins léttur og sá þyngsti er ekki jafn þungur. Svo skemmdi talsvert fyrir að það er eitthvað stillingarvesen á gírunum þannig að keðjan tollir ekki almennilega á tveimur stærstu tannhjólunum. En það er væntanlega eitthvað sem ég læt þá í Markinu stilla fyrir mig.

Monday, February 10, 2020

Ætli það sé ekki að vera komið gott í dótadögunum!

Það er nú líklega ekki hægt að segja að ég hafi verið að ana að neinu varðandi nýjasta dótið. Meðgöngutíminn er búinn að vera nokkur ár... nokkuð mörg ár og kvikindið er búið að skipta um eðli nokkrum sinnum á leiðinni. Er búið að vera til skiptis racer og cyclocross hjól en endaði svo á því að vera það sem ég kallaði tveggja demparahjól en einn misvitur hló að mér og sagði að eiginlega öll hjól með dempara yfir höfuð væru með tvo dempara, tvo framdempara þá... ég væri væntanleg að tala um fulldempað hjól. Það má kannski til sans vegar færa að það megi kalla það fulldepmað hjól en hitt er rugl að það séu tveir demparar að framan því oft gormur en vökvadrasl hinum megin. En hvað um það.

En það eru held ég í öllu falli komin svona tvö ár síðan ég skipti síðast um skoðun og ákvað að mig langaði mest af öllu í eitthvert voðalegt fulldempað fjallahjól. Eitthvað var pælt og spekúlerað og yfirleitt virtist vera gáfulegast að kaupa þetta á vefnum einhvers staðar útlendis frá en einhvern tímann síðasta haust sá ég að það var víst hægt að fá hjól á alveg fínu verði með að panta í gegnum Markið hér heima og vera þá kannski með einhverja þjónustu ef eitthvað kæmi uppá. Var svona eiginlega búinn að ganga frá þessu síðasta haust en það varð líklega athyglisbrestinum að bráð og ekkert varð úr því þá. Svo var látið til skarar skríða einhvern tímann í nóvember líklega en mér tókst víst að telja sjálfum mér trú um að hjólið væri uppselt hjá þeim og það frestaðist. Svo loksins núna eftir áramótin - líka þegar búið var að lækka virðisaukaskattinn á fyrsta 200 þúsundkallinum í hjólinu, þá var gengið frá þessu. Þriggja vikna afhendingartími átti að klárast miðja þessa viku og þeir hringdu í mig uppúr hádeginu í dag og hjólið komið!

Eins og ég sagði við þá í búðinni með talsverða eftirvæntingu í röddinni: Núna verður sko gaman!

Monday, February 03, 2020

Hálft Fossavatn í Heiðmörk

Hún var heldur stuttaraleg gönguferðin á Álút með FÍ laugardainn var, þar sem ég sneri við með hluta hópsins áður en endamarkinu var náð. Ég greip því að æfa mig betur fyrir Fossavatnsgönguna. Markmiðið var að fara hálfa vegalengdina og sjá hvernig það kæmi út hjá mér. Það voru því farnir heilir þrír hringir og aðeins betur en það þannig að 25 km næðust á track. Það gekk allt saman eftir og var ekkert rosalega erfitt þannig séð. Reyndar vel glaðhlakkalegur á myndinni að ofan eftir svona 3 km en aðeins þreyttari þegar dimmt var orðið og Venus varð mitt kennimark eftir um 20km eins og á neðri myndinni.

Var svo eitthvað þreyttur þegar heim kom en frekar ónýtur daginn eftir. Þegar þetta er skrifað daginn þar á eftir var ég orðinn nokkuð góður aftur og tímaleysi helst að koma í veg fyrir að taka eins og einn hring. Ætla nú samt að gera ráð fyrir að ná því enda held ég að snjórinn láti á sjá á morgun.

Sem fyrst þarf ég svo að skrölta annað hvort fjóra hringi eða þá fara i Bláfjöll og þvælast þar um og ná 30km. Þetta hlýtur allt að koma. Aðalvandamálið verður væntanlega samt að finna sér gistingu þarna fyrir vestan, sýnist það allt vera í tómu tjóni.