Tuesday, May 25, 2004

Að hafa of mikið að gera


Enn eina ferðina lendi ég í því að hafa allt of mikið að gera á þeim árstíma sem ég vil helst bara vera upptekinn af því að það er komið sumar, eða þannig.

Má ekki einu sinni vera að því að blogga almennilega. En já. Allt of mikið að gera í vinnunni minni og alls staðar. Gengur á með aðalfundum í einhverjum félögum sem hafa það helst að markmiði að gera mig að formanni.

Ætla svo ef guð og Icelanc Express lofa að fara til Dene í hjólatúr alla næstu viku. Þarf held ég að pakka Muddanum oní pappakassa!

Jám, kannski bara gamanaððessu!

En það kemur vonandi ferðasaga þegar ég kem til baka!

Friday, May 21, 2004

Verst að hafa misst af blessuðum mótmælunum í fyrragær


Það var þarna ljósmyndari og allt og festi suma aðal mótmælaseggina á filmu og urðu þeir með það sama heimsfrægir meðal lesenda mbl.is. Vona bara þeirra vegna að þeir séu á leiðinni af landi brott. Þeim verður varla líft hérna í ríki Davíðs!

Kannski bara eins gott að ég fór ekki neitt!

Ég komst reyndar ekki með hinum mótmælaseggjunum þar sem ég var með fríðu föruneyti að snæða steik á Nordica. Fór síðan bara í óvissuferð út á Reykjanes [sem ég reyndar vissi allt um og missti sumt útúr mér um í rútunni] þar sem appelsínugulasti viti í heimi er geymdur lengst í rassgati.


Jám einn af þessum rómantísku stöðum þó það hafi nei ekkert reynt á það baun í bala í þessari ferð. Það rifjaðist bara upp fyrir mér.

Tuesday, May 18, 2004

Sló held ég tvær flugur í einu höggi


Með því að láta veggina á húsinu sem ég bý í fara að leka á hinn dularfyllsta hátt.

Eftir að það var hringt öllum dyrabjöllum hérna áðan þá hef ég verið á fullu með nágrönnum mínum af öllum hæðum úr mínu húsi og því næsta að leita að lekandi veggjum út um allt. Það kveður svo rammt að þessu að það bunar út á götu. Búinn að valsa fram og til baka um held ég fjórar íbúðir fyrir utan mína eigin til að leita að vatni. Jú, það bunaði út úr veggnum og út á götu. Reyndar kannski ekki buna heldur svona dropatal en pollur samt. Og út um allan stigagang við hliðina og jafnvel á baðherbergjunum. Mikið fjör. Búinn að fá að fikta í krönum út um allt og prófa að skrúfa fyrir.

En hvaða tvær flugur?

Jú sko. Ég fékk hið ágætasta tækifæri til að kynnast nágrönnunum. Og ekki slæmt þar sem þeir eru upp til hópa búnir að búa hérna innan við einn mánuð. Og hin flugan? Jú þetta varð hin ágætasta afsökun fyrir að fara ekki beina að skrifa einhverja greinardrusslu sem ég skulda.

Reyndar er þriðja flugan þarna. Þar sem ég endaði á því að skrúfa fyrir allt vatn í húsinu þá get ég hvorki farið í bað, þvegið þvott, þvegið upp eða gert nokkurn skapaðan hlut af þessum eilífu leiðindum sem maður þarf samt að gera til að lykta ekki eins og gamall öskuhaugur og fá matareitrn (vegna skemmdar matarleifa á óuppþvegnum diskum sko).

Annars lán í óláni að ég var að uppvaska alveg heila uppþvottavél og ég held að ég hafi farið í bað í þessum mánuði.

Monday, May 17, 2004

Núna er víst hjólavika



Og ég kom hjólandi í vinnuna í morgun. Sveittur, móður og blásandi.

Og það er búið að skipa mig liðsstjóra í háheilögu hjólaliði í vinnunni minni.

Vers að ég var eins og venjulega plataður. Það er nefnilega enginn með mér í þessu liði. Aumt og það aumast!

En ég er samt


Það er annars dálítið skondið að þetta hjólavesen sem ég lét plata mig í er til að fólk fari að hreyfa sig meira. Og jú, ég hreyfði mig í morgun þegar ég kom hjólandi í vinnuna, 1,5 km og var svona 5 mínútur að því. En þetta fimmmínútna hjól mitt í morgun verður líklega til þess að ég skokkast ekkert í hádeginu þannig að heildaróþgindi dagsins minnka.

OG
á meðan ég var að skrifa þetta þá reyndar fjölgaði í liðinu mínu um heil 100 prósent. Erum sem sagt orðnir tveir. Förum samanlagt 4 km á dag. Ég heia þrjá en hinn heilan einn og þurfti reyndar að ljúga því til að hann væri að þvælast svona 100-200 metra inni í húsinu!

Sunday, May 16, 2004

Alltaf eru þessi tapsárindi vegna Júróvisjon jafn fyndin


Eilíft kvart og kvein yfir því að allir hinir svindli og þetta sé ekkert að marka. Þetta séu bara einhverjar Balkanskagaþjóðir að gefa hverjum öðrum stig.

Jújú, þær gefa hverri annarri stig en samt:

Þegar íslensku stigin höfðu öll verið talin upp vorum við búin að greiða öllum efstu löndunum atkvæði, alveg eins og Balkanskagalöndin.

Það gaf okkur held ég enginn stig utan Norðurlandanna, Írlands (sem telst næstum með Norðulöndunum) og Mónakó sem líklega fann einhverja smæðarsamsvörun með okkur.

Þegar við gáfum einhverju austantjaldslandinu 12 stigin okkar í gær þá sprakk enski þulurinn sem ég var að hlusta á úr hlátri því hann sagði að núna hefðu aumingja Íslendingarnir lent í voðalegum vandræðum því við hefðum aldrei gefið neinum öðrum en dönum 12 stig hingað til.

Sem sagt. Ef við erum með frambærilegt lag þá fáum við slatta af stigum héðan og þaðan og svo 8-12 stig frá hinum Norðurlandaþjóðunum. Ef við erum með ömurlegheitalag eins og núna þá fáum við örfá stig frá frændunum og lítið ef nokkuð meira en það.

Og hinar fýluþjóðirnar eins og Bretar, Frakkar og Hollendingar verða líka að fatta þetta. Það þýðir ekkert að ætla að vinna þessa keppni með eintómum ömurlegheita leiðindalögum

Og hana nú!

Annars um íslenska lagið. Ég verð kannski að játa að það vandist aðeins. Eftir að hafa heyrt það annað slagið síðustu mánuði þá var ég svona farinn að þola það eða búinn að læra að leiða það einhvern veginn hjá mér. Ef það hefði verið spilað jafn mikið í allri Evrópu og hér á Íslandi þá hefðum við kannski náð 16. sætinu okkar!


Friday, May 14, 2004

já humm, Barbapapapróf



Via Herrdísarblogg

Academic
You are Barbatine! You are well-read and love to
learn. You were gloomy in your youth and found
nothing you liked to taste, but you're older now,
and have an incisive sense of humour that
makes you and others smile.


Which Barbapapa Personality Are You?
brought to you by Quizilla


Hvur hefði svo sem trúað þessu!

Davíð drussla og gunga


Einhvern veginn minnti þessi áhrifsræða Steingríms Joð á Alþingi sem ég er búinn að heyra nokkrum sinnum mig alveg ótrúlega mikið á mest ívitnuðu ræðu forseta vors um skítlegt eðli forsætisráðherrans.

Mér finnst eiginlega að Steingrímur sé búinn að stimpla sig inn sem hæfur í embætti forseta með þessari ræðu. Enda kannski kominn tími á að skipta þar sem Óli gat ekki lufsast upp í flugvél til að vera í þessu brullaupi. Get ekki séð að hann hafi mikið verið að stjórna sjálfur hér heima í dag - hvað svo sem hann ætlar að gera þegar á að skrifa undir þessi lög.

Ætli það sé annars þannig að ef forsetinn ætlar að neita a skrifa undir lög þá verður hann að sitja sem fastast í þessar tvær vikur sem hann hefur til að staðfesta lögin. Ef hann færi hænufet þá kæmu skósveinar Davíðs drusslu og gungu og staðfestu frumvarpið hið snarasta.

Annars finnst mér þetta dálítið undarlegt hvernig þessu lögspeki virkar. Alþingi setur lög og þau taka ekki gildi fyrr en forsetinn er annað hvort búinn að staðfesta þau eða hafna þeim!

Ég held síðan að forsetinn eigi bara að staðfesta þessi lög. Þetta er gott á þjóðina að kjósa sér alla þessa aumu þingmenn sem ekkert geta annað en frekjast fram og til baka í sandkassanum sínum. Ég er varla viss um að ég myndi kjósa í þessum kosningum. Kanski skila bara auðu. En eins og ég heyrði í sturtunni í WorldClass í hádeginu, þá væri nú eiginlega alveg þess virði að Ólafur myndi hafna lögunum svona bara til fylgjast með hvað Hr. Davíð myndi gera!

Annars heyrði ég líka þarna í sturtunni í WC spekúlasjón um hvort Ólafur myndi frekar þora að hafna lögunum eða þora að staðfesta þau. Sem sagt, sama hvort hann gerir þarf mikið hugrekki til og fullt af fólki verður alveg brjálað yfir því sem hann gerir - greinilega erfitt að vera forseti!

Tuesday, May 11, 2004

Vá hvað mér brá


Bloggerinn orðinn allt öðruvísi en hann var seinast. Ég blogga kannski bara ekki nógu oft, hvur veit.

Ég er annars hálf miður mín þessa dagana. Álpaðist loksins til að setja myndir inn í ljósmyndakeppni á dpchallenge.com. Og ég sem hélt alltaf að ég væri sæmilegur myndasmiður en er eiginlega að komast að því að ég kemst ekki með tærnar þar sem stór hluti af snillingunum þarna hefur hælana. Slefaði reyndar upp fyrir miðju með fyrstu myndinni sem ég setti þarna inn en kemst að því í fyrramálið hvar mynd nr. 2 lenti. Á ekki von á góðu þar þó hún verði kannski ekki alveg neðst. En það koma tímar og það koma ráð. Minn tími myn koma [einhvern tíman] á þessari síðu!

En mér líst síðan bara vel á þennan nýja blogger. Þarna sé ég til dæmis að það er hægt að gera
blockquote
án svo mikillar fyrirhafnar. Það vantar núna bara að ég geti minnkað/stækað með að smella á einhvern snilldarhnapp. En nei það er ekki á allt kosið. Legg bara hér með fram bænaskrá til Bloggers punktur com. Ætli það virki annars nokkuð? Er alls ekki viss um að þeir þekki nokkuð til okkar ástkæra ylhýra.

Ég man annars eftir einu dálítið fyndnu með það að einhver skildi ekki íslensku á vefnum. Einhvern tíman fann ég einhvern vef til að skrifa eitthvað á, gott ef það var ekki einhver forveri bloggsins. Að minnsta kosti þá skrifaði ég eitthvað einhvers staðar. Fékk svo tölvupóst frá þeim sem sáu um kerfið að ég mætti ekki skrifa á einhverju óskiljanlegu tungumáli því þá gæti þeir ekki verið vissir um að ég væri ekki að perrast eitthvað hroðalega. Sumir eru greinilega meira paranoid en aðrir!

Saturday, May 08, 2004

Hvað gera þeir sem eru sverari en ég?


Fyrir svona hálfum mánuði þá var ég að grilla fyrir famigliuna, sem er svo sem ekki í frásgur færandi fyrir utan að þegar ég var að taka til á borðstofuborðinu þannig að hægt væri að koma einhverju matarkyns þar fyrir þá þurfti ég endilega að hella innihaldi heillrar blekbyttu yfir mig og helsta nágrenni. Vildi svo einkar skemmtilega til að ég var í mínum uppáhalds (eða raunar þeim einu sem ég not) glabuxum. Þar sem ég er ekki viss um að glabuxur með blekklessum út um allan rass séu í tísku þá fór ég á stúfana til að versla mér nýjar.

Nú, þeir sem þekkja álíta mig held ég yfirleitt ekki neitt sérstaklega sveran (þó það sé reyndar misskilningur að ég sé beinlínis mjór) þannig að einhvern veginn mætti ætla að ég gæti fundið fullt af buxnadrusslum sem myndu passa á mig og líka eitthvað stærra og einnig eitthvað minna. En nei svo var ekki aldeilis. Einhverjar flottar buxnaskammir virtust yfirleitt bara vera til í einhverjum bölvuðum barnastærðum eða að minnsta kosti ekki til fyrir fullvaxið fólk. Ég fann nú reyndar eitthvað sem virkaði eftir langa mæðu en eiginlega var ég að verða úrkula vonar um að þetta tækist. Það eina sem virtist passa á mig voru svona ljótafólksbuxur sem eiginlega enginn klæðir sig í nema bara til að vera ekki alveg berrassaður eða of kalt á lærunum. Og þeir sem síðan eru í alvörunni dálítið sverir þeir held ég að eigi ekki sjö dagana sæla þegar kemur að því að kaupa á sig fatalarfa, nema þeim sé þá alveg sama hvernig þeir líta út. Ef ég væri svona 5-10 kílóum þyngri þá líklega væru bara til þa mann svona venjulegar glabuxur sem hafa ekki breyst í 20 ár og munu líklega alltaf verða til og hinn möguleikinn væri líklega að vera í einhverjum jakkafötum sem voru í tísku fyrir 20 árum líka eða hafa a.m.k. ekki breyst í heil 20 ár.

Nei mér sýnist að ég hafi einungis um að velja að:

A: Hætta bara að reyna að vera í glabuxum sem mér finnast flottar
B: Vera bara alltaf í jakkafötum. Helst svona gráum og þá með bindi líka til að vera ferlega fínn
C: Ganga um nakinn
D: Fara að flytja inn föt sjálfur eða stofna fatadrusslufyrirtæki.

Ekkert til að blogga um


ER búinn að vera leitbloggari alla vikuna, enda ekkert sérstakt til að blogga um. Búinn að vera allt of upptekinn í vinnunni alla vikuna og síðan náttúrlega ekkert að gerast í þjóðfélagsumræðunni. Algjör gúrkutíð. Ekkert til að tala um nema fjölmiðlafrumvarp og misþyrmingar Kananna á Írökunum. Nei þetta eru ekki fréttir.

Fannst annars dálítið skondinn vinkill á fjölmiðlafrumvarpinu að eini fjölmiðlamaðurinn sem er fylgjandi frumvarpinu er Styrmir á Mogganum. Hann segist nefnilega alveg vita hvernig þetta virkar, þ.e. að fréttastjórar og aðrir sem stjórna fjölmiðlum geti almennt ekki verið á öndverðri skoðun við eigendur blaðsins. Gott ef hann sagði ekki að þetta ætti við sig sjálfan. Það sem er skondið við þetta er að hans skoðun er víst alveg í mótsögn við skoðun eigenda Moggans og þar með er hann kominn í mótsögn við sjálfan sig!

En ég ætla svo sem ekki að fara að láta þetta halda fyrir mér vöku. Mitt blogg verður frjálst óháð og bullið þar eins og mér dettur í hug á hverjum tíma. Enda er held ég loksins komið sumar!

Tuesday, May 04, 2004

Þetta er flest sosum ágætt!


Norðlendingar eru alltaf svo ánægðir með veðrið hjá sér. Mér finns veðrið í henni Reykjavík núna þessa vikuna vera hneisa fyrir maímánuð. Minnir mig reyndar á það þegar ég var að vinna með Hraðfrystistöðinni á Þórshöfn fyrir nokkrum árum. Það var í maí og það var eiginlega komið sumar í Reykjavík. Hafði líklega ringt um nóttina. Svona rúmlega 10 stiga hiti og lyngt. Fuglasöngur út um allt, flest tré orðin allaufguð og allt orðið grænt á að líta. Svona einn af þessum dögum þegar maður getur fundið lyktina af vorinu.

Síðan flaug ég norður. Millilenti á Akureyri og þurfti sem betur fer ekki að hýrast lengi í hinni miður skemmtilegu flugstöð höfðustaðar Norðurlands. Síðan þegar ég kom á Þórshöfn, þá var þar vindgarri af einhverri ókennilegri átt. Himininn var ofboðslega blár sem og sjórinn. Snjóskaflarnir í bænum voru baðaðir hálfgerðri frostsól. Ég man reyndar að einhverjar stelpur voru að striplast á stuttbuxum á einhverri götunni og var það eina merkið um að það væri maí en ekki janúar. Spurði þá ekki sá sem tók á móti mér heldur rogginn hvort ég væri ekki feginn að vera kominn úr rigningunni í henni Reykjavík og í góðaveðrið á henni Þórshöfn. Mér var heldur svarafátt enda hafði ég aldrei heyrt neinn klæmast áður svona voðalega á góðu veðri. Mér finnst veðrið í Reykjavík vera einhvern veginn eins og það var á Þórshöfn þarna um árið.´ Og nei, ef einhver var að velta því fyrir sér, þá hef ég aldreigi fengið að vinna í fiski. Þarna á Þórshöfn var ég svona frekar slakur SAS-ari. Nýkominn af einhverjum jakkafatafundi í Reykjavík og tók það mig dálítinn tíma að fara að passa inn í þarna á Þórshöfn.

Fór annars í fjallgöngu í góðaveðrinu í dag. Gekk upp á Stóra-Meitil og einhvern minni líka. Það var sól og það var hvasst. Umræðuefnið var kalsár og aðrir hrakningar sem við óttuðumst að lenda í. Einhver óttaðist rigningu. Sá ótti var ástæðulaus. Það kom él!

Saturday, May 01, 2004

Sviðsmyndin bara hrundi

´
Ég fór í leikhús í kvöld sem er svo sem ekki í frásögur færandi ef ekki hefði komið til að mér tókst næstum að láta leikarana klúðra leikritinu og næstum því slasa sig!

Kannski var þetta allt út af því að Ína gella var að hætta í Skýrr og þurfti þá náttúrlega að fara á Jensen til að kveðja hana. Reyndar leit hún á það sem hina verstu móðgun þegar ég bara stóð upp og fór fyrir klukkan sjö. Sko um kvöld ekki morgun. Þetta var auðvitað ekki nokkur frammistaða. En jú einn bjór eða svo.

Sem síðan varð til þess að þegar ég kom í leikhúsið þá þurfti ég auðvitað álpast aðeins of langt upp á sviðið. Neinei ég ætlaði ekkert að fara að leika. Veit enda að leikarahæfileikararnir mínir eru allir eitthvað undarlegir. En slagaði þarna sem sagt áfram uppi á sviðinu og glápti eins og agúrka upp í áhorfendabekkina til að finna Ralldiggni og Kristján en um leið auðvitað ekkert fram fyrir mig. Og um leið og ég sá þau krækti ég einum skankanum í einhverja ólukkans grind sem var þarna og féll hún um koll með alveg hroðalegum gauragangi. Þakka bara mínum sæla fyrir að kerlingin sem stóð við hliðina á mér fékk ekki hjartaáfall á staðnum og gaf upp öndina.

Þar sem flumbrugangur minn var búinn að skemma sviðsmyndina og leikarahæfileikarnir ekki nægir til að spinna mig út úr vanamálinu þá reyndi ég að sýna verkfræðihæfileikana til að laga grindverkið. Eftir umtalsverðar tilraunir gat ég fengið grindverksskömmina til að standa upprétta aftur. Reyndar voru einhverjir áhorfendur búnir að benda mér á að ég yrði bara að vera þarna á sviðinu og halda í grindverkið!

Nú og svo byrjuðu óskpin. Ég sap hveljur í hvert skipti sem einhver leikarinn gekk framhjá grindinni og beið ég bara eftir að hið óumflýjanlega myndi gerast. Og það gerðist auðvitað þegar önnur aðalleikkonan tók þá undarlegegu ákvörðun að setjast á grindarfjandann. Ætlaði hún líklegast að róla sér eitthvað en það tókst auðvitað ekki betur en svo að hún féll kylliflöt ofan á grindina með braki og bramli. Hinum leikurunum kross brá auðvitað en létu svo bara eins og ekkert hefði í skorist. Leikkonan (Harpa Arnardóttir) fór síðan af veikum mætti að reyna að láta hliðskömmina standa. Það tóks henni auðvitað alls ekki enda hefur hún leikarahæfilekarana sem ég hef ekki en síðan greinilega ekki verkfræðihæfileikana mína. Lagði hún því bara grindina aftur niður og lá hún bara þar fram að hléi.

En þetta skýrði reyndar út fyrir mér það sem ég hafði verið að velta fyrir mér, hvers vegna þetta leikrit heitir Sporvagninn grind. Reyndar sá ég engann sporvagn en þetta skýrði að minnsta kosti út helminginn af nafninu!

En leikritið var fínt. Framúrskarandi leikið en ég gef Snorra ekki háa einkunn fyrir frágang á sviðsmyndinni. Pabbi hans smiðurinn myndi líklegast skammast sín fyrir þetta!