Friday, December 26, 2014

Jólabókin lesin: Þrír sneru aftur

"Bók þessa má ekki selja"

Fékk bók í jólagjöf. Hafði reyndar sjálfur gefið mér Öræfin hans Ófeigs en fékk Guðbergs Bergssonar, Þrjá sem sneru aftur frá foreldrunum. Held að ég hafi aldrei lesið heila bók eftir Guðberg Bergssonar, bara einhver brot eða stuttsögur. A.m.k. ekki neitt sem ég man almennilega eftir. Hélt að það væri alltaf eitthvað erfitt að lesa Guðberg en það var líklega bara Tómas Jónsson metsölubók sem var erfitt að lesa. Þessi var lesin með skíðaferð, útsofelsi, jólamat hjá foreldrum og skíðatúr í Heiðmörk á jóladegi.

Bókin að vissu leyti ágæt og lýsir vel því sem stendur á vefsíðu útgefandans: "Höfundur dregur upp hárbeitta mynd af samfélagi á tímamótum; af eilífri baráttu manneskjunnar fyrir tilveru sinni, glímunni við fáfræði og fásinni, sannleika og lygi, heimsku og græðgi." en þar við situr finnst mér. Megnið af bókinni fer í að segja frá þessari glímu fólks við fáfræði og annað upp talið og það er bara gott en seinasti fjórðungurinn af bókinni fer einhvern veginn í að loka söguþræðinum og láta þá þrjá snúa aftur. Kannski var ég orðinn syfjaður í lok búkarinnar en ég held að höfundurinn hafi þá líka verið orðinn syfjaður. Það var hlaupið allt of hratt yfir og bókin einhvern veginn eins og það hafi verið ákveðið að klára hana sama hvað tautaði eða raulaði fyrir einhvern ákveðinn tíma eða áður en blaðsíðurnar yrðu orðnar of margar.

Sem sagt, hin ágætasta bók þangað til höfundurinn ákvað að klára hana. Undirtitill hennar hefði svo mátt vera: "Bók þessa má ekki selja"

Jólin

Kúnstskreyttir jólapakkar með Tíger skrauti utan á en skíðaskóm innaní

Já, merkilegt nokk, þau komu! Eftir dálítið mikið vesen var ákveðið að gefa litlum systrum frænkum manns skíði í hjólagjöf. Það verður nú eitthvað. Reyndar urðu þær ekkert sérlega kátar þegar þær sáu að þær væru bara að fá einhverja kuldaskó í jólagjöf. Barbí trekkir meira. En það voru jú skiði þarna líka. Man sjálfur að þegar ég fékk skíði í jólagjöf þá varð það ein af svona aðal jólagjöfunum sem ég hef fengið um dagana. Kannnski verður það þannig hjá þeim líka en kannski ekki. Það kemur bara í ljós.

Afin og amman og barnabörnin á jólunum í Fagrahjallanum.

Sunday, December 21, 2014

Bakarinn sem rústaði eldhúsinu sínu

Líklega geta talist vera komnar þrjár og hálf sortir. Hálfa sortin er að baka eina sort en setja svo eitthvað annað ofan á en ráð var fyrir gert. Þá er það hálf sort. Seinna í dag verð ég kannski kominn með þrjár heilar sortir og tvær hálfar ef það bætist súkkulaði ofan á eitthvað af þeim sem áður höfðu ekkert til að státa af ofan á sér.

Í gær var bakað, bakað meira og klárað að baka í bili alveg þangað til bakað verður meira. Það eru nú einu sinni að koma jól. Í dag á ég ennþá of saddan smákökumaga sem vill frekar fara að borða almennilegan mat og ég á eða átti í morgun eldhús sem var einfaldlega ein rúst.

Í dag verður tekið til og helst farið á skíði arkandi einhvern hring til að losna við þessar smákökur úr maganum... og geta þá bætt við fleirum í staðinn! Og jú líka tekið til því það þarf að vígja nýja ryksuguhausinn sem ég verslaði af Emil í Elkó í gær. Þurfi reyndar að sjóða gamla hausinn sundur og saman í bókstaflegri merkingu þess orðs til að koma þeim nýja fyrir!

Saturday, December 20, 2014

Frábær skíðagöngutúr og að villast í íslenskum skógi

Gengin var tvílita línan, þ.e. blá og bleik í kantinum. Cyan lituðu línurnar eru gamlar slóðir sem hafa verið gengnar, hlaupnar eða hjólaðar áður.

Eitt stykki frábær skíðagöngutúr í Heiðmörk með Gunnanum þar sem afsannað var í eitt skipti fyrir öll að ekki væri hægt að villast í íslenskum skógi. Ákváðum að hafa bara nútímaleiðsögubúnað í vasanum. Gengið var eftir minni og hentugleikum. Stjörnurnar helst hafðar að kennileyti. Gekk ágætlega þangað til við villtumst. Komumst á vegarslóða sem við höfðum ekkert ætlað að fara á. Gengum eftir vegarslóðanum og týndum honnum aftur en fundum hann aftur á endanum í bókstaflegri merkingu þess orðs. Tókst svo að halda okkur á stígnum á bakaleiðinni svona algjörlega að mestu.

Mikið rætt um segulsvið og hugsanlegar jólagjafir um leið og plampað var.

Tuesday, December 16, 2014

Öxlin, hveitipöddur og allslags

Minn ætlaði sé rað vera heldur myndarlegur í vikunni og baka edilons dallas kökur eftir uppskrift Hjördísar. Það gekk ekki þrautalaust fyrir sig. Byrjaði á að kaupa eitthvað af hráefnum. Tímdi ekki að kaupa allt því eitthvað átti ég frá í fyrra og sumt nýrra líka. Allt gekk ágætlega nema það gekk ekkert að ná deiginu saman. Einhvern tímann um daginn heyrði ég að ekkert venjulegt fólk hefði lengur fyrir því að búa til deig frá grunni... heldur hvað... kaupa bara eitthvað tilbúið drasl. Ekki ég. Ég geri þetta ekki bara frá grunni heldur eru hnetur muldar með stórum hnífi og engar hrærivélar notaðar heldur allt hnoðað í höndunum. Það var einmitt það sem alls ekki ætlaði að ganga. Deigið varð ekki að neinu degi heldur var bara eitthvað skrambans duft og kögglar. Svo fattaði minn að ef það eiga að vera egg í köku þá er líklega best að setja eggin í kökuna. Eftir það gekk allt saman vel. Datt svo í hug að bæta smá hveiti í deigið og öðrum þurrefnum þar sem mér fannst það enda helst til of blautt. Rakst ég þá ekki á einhverja andskotans pöddu í hveitiu mínu. Mér sortnaði fyrir augum og svo hófst hin blóðugasta tiltekt. Hveitinu var hent, alls kyns annarri kornvöru var hent. Sumt af því var útrunnið en ekki allt... og loks var helítitis deiginu bara hent líka. Ég sá fyrir mér einvherja kornskemmu í Húsinu á sléttunni þar sem rottur dreifðu taugaveikipöddum í hveiti. Er búinn að endurnýja bökunarefnin en ekkert hefur verið bakað ennþá.

Það hefur hins vegar verið farið á skíði, heldur betur. Heiðmörkin gengin þver og endilöng og út í Kaldársel líka. Öxlin er að koma til og ég er að ná einhvejrum gráðum í aukna hreyfingu einmitt núna. Þarf að fara að finna mér ný viðmið því ég sé varla lengur hvert ég er að ná henni. Þetta er sem sagt allt að koma. Enda ég búinn að fara í badminton - en reyndar með Gunnanum sem er ekkert of góður í þeirri íþróttinni.

Af masterverksraunm er það að frétta að þar er farið að gerast eitthvað aftur eftir að hafa ekkert verið að sinna því síðan í sumar má segja... fyri utan hina all góðu feltferð.

Hér bar annars helst til tíðinda í dag fyrirutan óveður að aumingja Ventó er kominn til Vöku og mun ekki eiga afturkvæmt!

Monday, December 08, 2014

Magnaður staður, góð helgi og eitt annað til afreka unnið!

Fellsmörk í desember 2014

Hún Fellsmörk er magnaður staður!

Bræður fóru í Fellsmörk um helgina. Helst reyndar til að skoða hvort bjálkakofinn væri uppistandandi eftir stórðiðri við upphaf vikunnar. Það hafi hvesst verulega nokkurn veginn beint undir þakskeggið á húsinu sem stendur opið. Við óttuðumst báðir að allt hefði farið á hinn versta veg en það reyndist vera ástæðulaus ótti. Ef til vill hafði ekki hvesst jafn mikið og við héldum - kannski vorum við í skjóli á bak við Fellið að einhverju leyti. Það hafði í öllu falli ekki neitt haggast.

það var annars dálítill snjór þannig að það sem var til afreka unnið var að fara gönguskíðandi inn í Krók og til baka aftur. Ekki lengt og ekki merkilegt en fatlafól samt aftur komið á skíði!
Fellsmörk í desember 2014

Bjálkakofinn með sín opnu vindaugu



Fékk síðan annars einu einkunnina sem ég fæ þetta haustið. Ætti ekki að kvarta en líklega er metnaðurinn að gera út af við mann þega maður verður ekkert of sáttur við einkunn sem er næst hæsta mögulega einkunnin og allir aðrir með lægri einkunn. Öðru vísi mér hér áður brá!

Fékk svo póst frá Leó. Þó það hafi ekki komið fram í póstinum þá er hann væntanlega orðinn rasandi á því að ég skuli ekkert gera í þessu mastersverkefni mínu. Hann vill bara fá dótið sitt aftur - sem er líka hið besta mál því ekki er get ég notað það núna þegar veturinn er kominn.

Fellsmörk í desember 2014

Búrfellið magnað sem endranær

Thursday, December 04, 2014

Til persónulegra afreka má telja að axlarfatlafól fór í badminton í dag

Ekki mikið skrifað í manns blott þessar vikurnar en í dag er samt fært til bókar að það var farið í badminton. Fékk þessa held ég ekkert svo slæmu hugmynd að það væri hægt að draga Gunnan í badminton og ég með öxlina í lamasessi gæti þá spilað eitthvað badminton við hann sem hefur ekkert verið að stunda slíkt svo mikið. Það gekk ágætlega og það sem á að reyna að gera næst er að draga stærri hluta af stórfjölskyldunni í badminton og spila tvíliðaleik með Gunnanum, Ragnhildi og Kristjáninum. Það hlýtur að verða eitthvað!

Annars þá á að reyna að fara í Fellsmörk um helgina eftir að búið verður að fara fyrst með Ferðafélaginu á Helgafell, hafa þar myndasýningu úr ferðum vetrarins og fara í afmæli Hrefnu Völu.

Saturday, November 29, 2014

Þegar það kom snjór þegar við héldum að það yrði ekki kominn snjór

Slóðinn ósýnilegi upp með Þórisvatni hvar jarðfræðingar sáu sitt óvænna
og snéru við svo búið við.

Þó það hefði átt að vera löngu kominn vetur þá lét snjórinn all verulega bíða eftir sér - og það ekki bara í Reykjavík heldur líka uppi á hálendi. Gummin hennar Laufeyjar hafði sagt mér að Tungnárnjökull væri bara klaki neðstu parhundruð metrana. Ljósmynd úr Jökulheimum staðfesti að þar var ekki eitt einasta snjókorn. Ég var farinn að hugsa hvort það væri kannski hægt að fara í jöklamælingu að Hagafellsjöklum eftir allt saman eða hvort ég gæti farið einhvern túr að Hlöðufelli. En það sem varð úr var að ég fór með Haraldi Gunnarssyni þar sem förinni var heitið að gígnum Brandi við Þórisvatn. Ætlaði hann að sækja sér þar basaltgler til að greina í sínu mastersverkfni í jarðfræði - glerinnlyksur vill hann skoða.

Þorvaldur leiðbeinandinn hans hafði eitthvað hummað of lengi yfir því að fara í þessa ferð með honum þannig að úr varð að bara ég fór með honum. Veðurspáin þessa helgina var reyndar dálítið rysjótt. En ég gat ekki annað séð en að það ætti að verða skaplegt veður megnið af laugardeginum. Reyndar einhver úrkoma um nóttina og á tíma sýndist mér að það yrði hugsanlega stórhríð. Það hefði nú átt að segja mér að einhverjar líkur væru á því að það yrði einhver snjór kominn á svæðið - enda varð það raunin.

Það var ekki of gott skyggni á leiðinni og óttuðumst við þoku - sem samt hefði ekkert gert útaf við leiðangurinn þar sem við vorum með staðsetningar á hreinu. En einhvers staðar á Skeiðum eða ofar sáum við til fjalla og það sem truflaði okkur dálítið var að þau virtust sum hver vera alveg skjannahvít. Fyrir ofan Búrfellsvirkjun var allt orðið hálfgrátt yfir að líta. Snjóblinda og ekki of gott að keyra. Svo óx snjórinn en minnkaði líka aftur og við urðum bjartsýnir. Á Veiðivatnavegi var samfelld snjóföl. Þar sem við komum að GPS punktinum sem átti að segja okkur hvar ætti að beygja slóðann upp með Þórisvatni var ljóst að þetta gengi ekki. Slóðinn var svo gott sem ósýnilegur og þá ljóst að örðugt yrði að finna heppilegt grjót til sýnatöku. Var því snúið við en ætlunin að renna þar uppeftir aftur við tækifæri næsta sumar!

------------------
Skráð ERS / 8.12.2014

Saturday, October 11, 2014

Bloody sunrise - blóðrauð sólarupprás

Bloody sunrise - blórðauð sólarupprás
Það var vaknað snemma. Svaf reyndar hálf illa, var með einhveja jarðeðlisfræðilega martröð og fattaði um leið að þegar ég ætla að vera að sjá um einhverja stóra HSSR æfingu verð ég að taka jarðeðlisfræðilegt próf. Tómt klúður. Æfingin verður víst að víkja. En ég fór snemma á fætur til að taka myndir af sólarupprásinni.

Gosmengaða loftið er nefnilega ekki alslæmt þar sem það hefur gert sólina frekar flotta eða a.m.k. sérstaka ásýndar þegar hún skín þar í gegn. Við sólarupprás þurfa geislarnir að fara í gegnum allt gosloftið meðfram jörðinni áður en þeir ná til hennar Reykjavíkur þar sem stefnan á sólarupprásina núna er nokkurn veginn í áttina að gosstöðvunum - sem eru auðvitað bara langt í burtu.

Þettta var eiginlega dálítið sérstakt að þrátt fyrir að sólin væri komin alveg sæmilega hátt upp á himininn (vel nokkrar gráður sko) þá var hún ekki farin að skína neitt. Var bara eins og einhver appelsína, frekar flott en skein ekki neitt og hitaði ekki neitt sem maður fann. Varð hugsað til móðuharðindanna þegar þetta ský var yfir öllu landinu í marga mánuði ef ekki ár.
I woke up early to capture the sunrise with my camera. The sunrise for the last days has been rather special because of gases in the air from the Holuhraun eruption in the north-east part of iceland. During sunrise, the sun-rays have to go through the eruption polluted air before reaching Reykjavik. That leads to rather redish sun in the morning as seen on those photos. No photoshop effects - more or less just as the photos came out of the camera.


Bloody sunrise - blórðauð sólarupprás
Sun and moon the very same morning Sólin og tunglið á sama tíma eða þar um bil. Tunglið hátt á lofti. Sólin af annarri mynd höfð stór á bakvið - svona upp á punt.

Thursday, October 09, 2014

Sund sem sjúkraþjálfun

Er líklega búinn að fara fjórum sinnum í sund á síðustu fimm dögum. Það er líklega persónulegt met. Árangurinn með öxlina er eiginlega finnst mér frábær í þessum sundferðum. Fyrst synti ég bara 200 metra og gat ekki tekið nein almennileg sundtök. Núna er ég farinn að geta synt bara alveg þokkalega. Rétti svo sem ekki alveg úr hægri handleggnum en nálægt því.

En svo er það fólkið sem er í sundlaugunum - sumt skil ég ekki alveg. Hjá mér er það þannig að ég fer á milli nuddpotts og laugarinnar þar sem ég syndi. Í nuddpottinum sem er með frekar kraftmikið nudd þarf ég að koma mér fyrir þannig að ég nái að nudda veiku öxlina. Það gengur ekkert of vel því af einhverjum ástæðum er þetta einn vinsælasti potturinn á svæðinu. En í mínum huga er hann meira svona eins og lækningatæki og þá frekar óþægilegur. En það er eitthvað sem heldur í fólkið til að vera þarna. Lætin í nuddkerfinu eru svo mikil að það er á mörkunum að það sé hægt að tala almennilega saman í pottinum. Þegar ég er búinn að nudda nóg forða ég mér yfirleitt uppúr honum - nema kannski ef sæta stelpan frá Fjallaleiðsögumönnum er í pottinum - en það er aðallega af því að ef hún er þá er meira verið að spjalla í pottinum

Svo voru það unglingsstrákarnir sem voru komnir í boltaleik í djúpu lauginni. Ég var eitthað að hugsa um að benda þeim á að það væri sniðugra að vera í boltaleik í grunnulauginni. Hefði kannski betur gert það því þá hefðu þeir e.t.v. sloppið við að vera reknir í burtu með hátalarakerfinu.

Svo hélt ég að Íslendingar kynnu að fara í sund. En þeir einu sem ég hef séð ekki kunna að fara í sturtu fyrir sundið voru einhverjir íslenskir unglingskeppir. Veit ekki hvaðan þeir eru en þeir hneiksluðust á því á Íslensku að þurfa að mega ekki vera á sundskýlunum litskrúðugu í sturtunni

Hvað er þetta svo með sundfatnað. Af hverju er sundfatnaður karlmanna einhverjar fyrirferðarmiklar hnébuxur sem eru yfirleitt fullar af lofti og eiginlega vonlausar til sundiðkana. Af hverju er bara kvenþjóðin í almennilegum sundfötum - fyrir utan einhverja gamla kaddla sem fylgjast ekki með tískunni - og svo eitthvað æfingalið í keppnisskýlum.

Annars var það skondnasta þegar sundlaugavörðurinn fór að hafa orð á því hvað ég væri orðinn feitur. Ég varð dálítið sár en hefði orðið meira reiður ef þetta hefði ekki bara verið hann Leone!

Monday, October 06, 2014

Óttalega slappur og nýr pínubekkur

Í dag fór ég á aðal pínubekk Ragnars sjúkraþjálfara. Held reyndar að hann hafi strekkt svo lítið á mér að það hafi lítið svo sem gerst. Var samt nógu fjandi óþægilegt þegar leið á. Verkur í liðnum og ég hálf ómögulegur. Nafni minn greip held ég til hvítrar lygi þegar hann sagði að ég væri samt með al besta mótinu. En það að ég hafi verið settur í pínubekk tvö er a.m.k. áfangi.

Fór svo aftur í sund. Eftir að hafa skokkað um laugardalinn. Þar var ég slappur en drottinn minn. Ég vissi ekki að það væri svona margt fólk í henni Reykjavík sem kynni að hlaupa. Ég fékk algjöra minnimáttarkennd út af öllu þessu fólki sem hljóp í loftköstum út um allan dal og var að æfa alls kyns kúnstir. Ég með hálfgert blóðbragð í munninum á bara mínum 10km/klst hraða og tæplega það að skrönglast einhverja vesæla 3km.

Synti svo heila 300 metra í þremur áföngum reyndar með heitum pottum á milli. Strax farinn að sjá fólk sem er í lauginni á hverjum degi... sem sagt... a.m.k. ein stelpa sem fór í laugina báða dagana. Veit ekkert um gömlu kaddlana.
-------------------------------------------------------
Svo í fréttum RUV um miðnætti komst ég af því af hverju ég var svo slappur. Búinn að vera hóstandi í allt kvöld og ekki liðið allt of vel eftir skokkið. Áttaði mig svo á hvernig á öllu stóð í fréttunum. Brennisteinsmengun í Kópavogi mældist um 700 ppm líklega eða eitthvað. Held að miðað sé við að 300 sé í heilsufarsmörkum. Ég er því búinn að standa á öndinni í allt kvöld út af of mikið innbyrtum brennistseini ofan í lungun mín. Vona bara að mér verði ekki meint af þessu en nokkuð ljóst að í framtíðinni þegar ég ákveð að taka eitthvað á því, verður fyrst skoðað hver staðan er á brennisteinsmenguninni. Velti því annars fyrir mér hvort þetta hafi bara verið ég eða hvort fleiri af þessum rosalega fjölda skokkara í Laugardalnum hafi fundið fyrir einhverju líka.

Sunday, October 05, 2014

Og tvennt nýtt á sunnudegi

Það var gert við reiðhjól í dag. Búið að vera loftlaust afturdekkið á fjallahjólinu síðan einhvern tíman í vor eða snemmsumars. Mig minnir reyndar að ég hafi hjólað á því tvisvar eftir að ég tók nagladekkin undan í vor - og þá var allt í einu allt loft út afurdekkinu og þar sem ég er stundum bara latur þá lét ég mér duaga að hjóla á einhvejrum af hinum hjólunum. Núna er komið haust og þó það sé ekki komin nein hálka ennþá, þá geri ég ráð fyrir að hún komi mjög fljótlega og því voru nögladekkin bara sett undir strax.

Svo var farið út hjólandi. Ekkert mjög langt og farið svona frekar varlega því ekki stendur til að fara að detta eitthvað. Annars alveg ótrúlegt hvað laufblaðastígarniru eru hálir. Það að halda í stýrið teygði nokkuð vel á axlarliðnum. Lýsir kannski ágætlega hvað hreyfigetan er takmörkuð!

En það seinna sem var gert nýtt var að fara í sund og það var ánægjulegt á margan hátt. Fyrir það fyrsa þá ætlaði ég að fara að byrsta mig við fólkið í afgreiðslunni í Laugardalnum því kortið mitt með fyrirframkeyptum ferðum átti að vera orðið útrunnið - eða frekar ferðirnar útrunnar. Ég spurði með hálfgerðum þjósti hvort það væri ekki til eitthvað kvörtunarblað því ég ætlaði að kvarta. Það kom eitthvað á fólkið og kona sem var að vinna þarna lét mig ekkert komast upp með þetta nöldur, heldur lét mig bara fá fríferðir á kortið sem því nam sem ég hafði átt þar inni. Fór því bara þokkalega sáttur í laugina.

Ekki held ég nú að sundstíllinn hafi verið mikill en ég skrönglaðist 200metra í tveimur áföngum með heitum pottum á milli - ekki aðallega fyrir föðurlandið heldur meira fyrir sjálfan mig. Reyndi að koma veiku hendinni áfram og gekk það að minnsta kosti eitthvað. Ég synti í öllu falli og notaði hendina þó það væri bæði vont, veikburða og frekar vesældarlegt.

Þarna í sundlauginni skyggði síðan aðeins á að vigtin þeirra þarna laug einhverri þriggja stafa tölu upp á mig. Þarf líklega að fara að gera eitthvað róttækt í því!

Svo þegar ég kom heim og tók eina örstutta æfingu á járnröri þá komst hendin lengra aftur án mikilla vandkvæða en áður. Þetta er því kannski bara að fara að koma. Annars undarlegt að hann sjúkraþjálfari minn er ekkert sérstaklega að leggja að mér að fara í sund eða neitt slíkt. Sigrún sem gekk með mér í gær hafði sjálf verið með axlarvesen og hún mælti rosalega með sundinu. Mér sýnist að hún hafi alveg þokkalega rétt fyrir sér í því.

Saturday, October 04, 2014

Fyrsta skipti í marga mánuði - first time for several months

selfportrait while hiking

Ætlunin að ganga á hana Trönu

Allt í einu er eiginlega bara kominn vetur. Það snjóðai örlítið í henni Reykjavík í gærkvöldi. Reyndar enginn snjór í morgun en smá krap einhvers staðar sem náði ekki að vera slabb. En það var farið í smá fjallgöngu. Það telst reyndar líklega fjallganga þegar ég fór áleiðis á Hlöuðufell í sumar til segulmælinga en var núna í hlutverki gædsins. Og jú annars, það var líka gengið yfir Rauðufossafjöll og Háöldu á Fjallabaki með allt á bakinu - það verður víst að fást að teljast með. En dálítið einkennilegur gæd í dag að hann þurfti hérumbil stuðning til að komast upp á einfalda göngubrú.

Það sem ég annars hafði mestar áhyggjur af var að detta og skemma öxlina mína aftur, meira eða enn frekar. Var dálítið kvíðinn því það var útlit fyrir talsverða hálku á göngunni. Ég ekki með neina hálkubrodda heldur bara alvörubroddana sem er ekki gott að nota nema það séu alvöru broddaaðstæður. Hefði þurft þá í eitthvað öðrum aðstæðum en þetta slapp til þar sem það var ofankoma allann tímann sem var gengið og því ekki um neina alvöru hálku að ræða.

Hiking guide with Ferðafélag Íslands

Suddenly the winter had arrived - we call it sometimes Winter, the king - "vetur konungur". Hikng to day as a guide for first time since my first injury at Eyjafjallajökull in June. I Have not been so much to mountains since then and nothing to speak of since the accident in end of July. So it was nice to be back as a guide although I was not able to do everything I used to do as a guide. Was not able to help the people in diffucult conditions - but I was at least present.

I was mot worried of falling on my bad arm because of slippery conditions. But luckily we just had bat weather with wet snow all the time - weather not leading to slippery condition. So I did not fell nor did any of the passengers fell down or anything.
Hiking to Trana... Svinaskard

The group were we turned back

Wednesday, October 01, 2014

Þríhnúkahellirinn og eithvað fleira

Þríhnúkagígshellir

Til að ná öllum hellinum þurfti ekkert minna en fiskaugalinsu - eða kanski frekar maður segi, ekkert meira. Sem sagt ein af frekar fáum myndum sem ég á úr ferðinni.

Það var hópeflist í björgunarsveitinni minni um síðustu helgi. Farið í Þríhnúkahellinn. Auðvitað mjög gaman en samt dálítið súrt. Ég á öxlinni gat ekkert farið þar sem ég vildi og það endaði með því að einn félaginn varð svo elskulegur að halda á myndavélinni fyrir mig. Hann svo bara fór og skildi mig eftir myndavélalausann þannig að myndatökur mínar urðu eitthvað af skornum skammti. Eiginlga verulega fúlt. Hellaskoðunin var síðan dálítið þannig að það var líklega svo margt að skoða að ég bara snérist í hringi og sá ekki neitt.

Grill Svörtu svipunnar á eftir klikkaði ekki og það var bara gaman. Hópeflið reyndar ekkert alveg fullkomlega að gera sig þar sem maður var nú mest að spjalla við fólkið sem maður þekkir hvort sem er mest en það bættist einn ágætur vinur við á Fésbók eftir þetta. Örugglega skemmtilegur vinur, en hvað veit maður! Reyndar frekar áhugaverð manneskja sem væri gaman að kynnast meira.

Handleggurinn er síðan í áttina réttu. Fer reyndar ekki nándar nærri alla leið upp en ég er búinn að prófa að hjóla og get það - þó ekkert mikið meira en svo.

Fékk borð til að sitja við í Öskju Háskólans. Veit annars ekki hvenær ég á að nota það borð. Búinn að hafa það í heila viku en ekki enn farinn að nota það. Hef ekki einu sinni sest við það ennþá, vona að ég muni hvar það er!

Monday, September 22, 2014

Allgóð feltferð að Hlöðufelli


Einn á bornum, einn á vatninu en sá þriðji bara axlarbrotinn á myndavélinni

Það var farið í felt um helgina, loksins. Sá á föstudeginum góða veðurspá fyrir laugardaginn, hringdi í Gunnann sem var að koma úr Holuhraunsvinnuferð hvar hann samt ekki sá eldgosið - og leist bara vel á að fara með mér í felt einn dag. Spurði svo Harald sem var með mér í tíma hvort hann langaði ekki í felt - og var þá kominn með tvo til aðstoðar. Fór um kvöldið og sótti bordót til Leós. Fékk meira og minna tvennt af öllu því ekki vildi maður að dótið klikkaði þegar mest á reyndi.

Veðurspáin gekk eftir. Hafði verið skítviðri seini part föstudags en blíða á laugardagsmorgni. það var reyndar móðuharðindablíða þannig að ég var ekki viss um nema ferðin yrði til ónýtis út af móðunni - ekki yrði hægt að miða á nein kennileiti. Það rofaði þó til og kennileitin stóðu sig bara vel.

Komumst í heila þrjá staði að taka sýni. Tveir í Þórólfsfelli og sá þriðji í Rana við Hlöðufell. Í fyrirbæri sem ég hef farið að kalla bólstrabergslæki - en það er hvar lækur hefur sópað í burtu lausu efni ofan af bólstrabergi sem er fast eftir.

Heldur var maður svo þreyttur á sunnudeginum, þrátt fyrir að hafa svo sem ekki verið neitt í erfiðinu við borunina, heldur bara í því að mæla upp kjarnana. Og ekki neitt sérstakt að gera slíkt axlarbrotinn. Braut t.d. einn kjarnann þegar ég studdi mig við óríerenteringar-stautinn!

Thursday, September 18, 2014

Fyrsta vika sjúkraþjálfunar að klárast

Búinn að vera eina viku hjá Ragnari axlarsérfræðingi og líklega er ég að taka hann í sátt. Hann veit a.m.k. að öllum líkindum hvað hann er að gera þar sem mér skilst að hann sé einhver mesti axlasérfræðingur landsins. Hann hvað komið er sáttur við framfarir sem ég er að sýna og þá ég ekkert ósáttur þannig séð. Farinn að geta notað hendina talsvert meira - veifað og alles eins og í gær. Fer svo aftur til hans þrisvar í næstu viku og þá verður framhaldið eitthvað skoðað.

Það sem hann segir vera að mér er að liðpokinn í öxlinni sé allur samanskropinn og ég þurfi í raun að ná að pumpa hann upp. það gerist að öllum líkindum hægt og rólega og það er spurning hvenær ég get farið að spila badmin aftur.

Rabbarbarasulta með trjágreinum

Það var um helgina að ég fékk þá flugu í höfuðið að það væri hægt að gera rabbarbarasultu og jafnvel berjasultu einnar hendi. En ég greip í eitthvað tómt úti í garði. Rabbarbarinn hafði ekki vaxið mikið frá því ég tók hann allan um mitt sumar og berin... já verði fuglunum að góðu - þeir hljóta að hafa fengið skitu. Ég fír í víking á Uarðarstekk en þar var sama sagan. Sólberin sem ég fann voru góð, öll fimm berin sem ég át og geri ráð fyrir að sjötta berið sem ég ekki bara tíndi heldur líka týndi hefði eflaust verið gott líka. En mamman manns hafði ráð undir rifi hverju. Við fórum á mánudag í víking í Skammadal hvar hún gamall refur í kartöfflurækt þar vissi um yfirgefna rabbarbarahnausa sem við sóttum í. Það var því fullt af rabbarbara til að gera eitthvað úr - og svo jú, ég var með eitthvað smáræði af rifsberjum.

Núna í kvöld var svo lagt í sultugerð. það var saxaður rabbarbari og berjunum hent í pott. Bæt líka við eitthvað af frosnum rifsberjum frá í fyrra. Einhver rosalega náttúrulegur hrásykur settur í svipuiðu magni með. Látið malla í hvað... svona klukkutíma. Á meðan soðnar og bakaðar krukkur. Brunsaár á höndum við að koma herlegheitunum í. Veit ekki hvort seigjan í þessu fer til fjandans eins og sultan sem var gerð í sumar en það kemur í ljós. Notaðar frekar fleiri litlar krukkur en færri stórar eins og í sumar. Þetta lítur reyndar bara nokkuð vel út en samt dálítill galli að eitthvað af stilkunum af rifsberjunum voru eitthvað trénaðir og linuðust í raun ekki neitt við suðuna og eru eins og einhverjar skrambans trjágreinar í sultunni. Átti ég kannski að reyna að veiða þá úr... það hefði aldrei verið séns. En sultan er í öllu falli góð á bragðið - og kannski ekkert slæmt að það séu smá trefjar í henni. ......

Að geta hendi veifað

Að geta hendi veifað - í skgargöngutúr í Elliðaárdal
Maður er allur í áttina líklegast, farinn að verða það liðugur í hægri hendinni að í göngutúr þarf ég að sveifla höndunum frekar óeðlilega til að ná einhverri teygju í axlarliðinn. Fór langan göngutúr í gærkvöldi í rigningu um skógarstíga Elliðaárdals. Dundaði mér í leiðinni við að kanna vatnsheldni lopapeysunnar. Nýjasta klæðatrendð að vera ber undir lopapeysu svínvirkaði. Peysan blaut að utan en sæmilega þurr að innan. Stakk eiginlega alveg ótrúlega lítið. Skemmtilegt að vera í góðri ullarpeysu og láta blása í gegnum hana þannig að manni verði hvorki of heitt né of kalt. Og merkilegt nokk - á meðan ekki rignir of mikið þá er hún bara sæmilega vatnsheld. Ætli ég hafi ekki verið eins og sauðkind!


My right arm is starting to be more useful. While walking yesterdayin the tiny forest in Elliðárdalur I was ale to wink aso you can see on the photo.

Monday, September 15, 2014

Nýr nýliðahópur í Hjálparsveit Skáta í Reykjavík

HSSR rötunarnámskeið nýliða 1

Hópmynd af þeim sem voru á rötunarnámskeiði á Úlfljótsvatni um síðustu helgi. Allt nýir nýliðar fyrir utan tvær eftirlegukindur

Það gerist á haustin, þá kemur nýr nýliðahópur í hjálparsveitirnar. Þetta er fyrsta haustið í frá 2010 sem ég er ekki formlegur nýliðaforingi annað hvort fyrsta árs eða annars árs nýliðanna. Núna er ég bara fulltrúi stjórnar í að sjá um þá. Reyndar er Kristjón nýliðaforingi frekar einsamall þar sem Sigga sem ætlar að vera með honum er enn í skálavörslu í Þórsmörk. Ég er því með alveg annan fótinn í þessu með honum. Síðasta helgi var það rötunarnámskeið á Úlfljótsvatni þar sem hópmyndin var tekin. Líst ljómandi vel á þennan hóp. Þekki einn nýliðann, Herdísi sem gerði mér þann greiða að spyrja mig uppúr þurru hvort ég hefði prjónað lopapeysyna mína sjálfur. Svarið fékk held ég stelpukonuna við hliðina á henni til að hálf snúa sig úr hálsliðnum.

Um næstu helgi er síðan fyrsta gönguferð nýliðanna og er ég að bræða það með mér að fara með á minni slösuðu hendi. vona að það gangi vel ef ég slæ til.

Að píningu aflokinni

Píningu dagsins í sjúkraþjálfun er lokið. Ekki jafn slæmt og síðast, á að minnsta kosti að koma aftur í vikunni en ekki bra eftir tvær vikur. Óttalegur aumingi samt!

Núna er það leynileyðangur til að sækja sér rabbarbara á fæti og ekki með fæti. Ég grep nefnilega í tómt í dag þegar farið var út í garð að sækja rabbarbara. Eiginlega ekkert eftir og ekki mikið meira á Urðarstekk hvar ég hreynsaði líka upp það sem til var. Ætlaði svo að geta mallað rifsberjahlaupsultu með rabbarbaranum en þar var ég of seinn. Öll ber étið hafði fuglager fyrir stuttri stundu. Á Urðarstekk fann ég svo alveg heil 6 sólber - en týndi einu.

Heimsókn 2 til sjúkraþjálfa

Fyrir tveimur vikum fór ég í fyrsta skipti til sjúkraþjálfa. Játa fúslega að ég kann ekkert á slíkt enda aldrei farið í slíkan tortúr áður. Komst fljótlega að því að það eru ekki tannlæknar sem eru sadistar heldur eru sjúkraþjálfar sadistar dauðans. Ég var látinn hreyfa handlegginn sem hafði sem minnst verið hreyfður mánuðinn á undan. Ekki hreyfðist hann nú mikið og fljótlega fékk ég á tilfinninguna að sjúkraþjálfanum þætti ég vera hinn argasti aumingi. Bað mig náðarsamlegast að reyna að hreyfa liðinn en ekki bara öxlina alla... svona eins og ég væri bara að svindla.

Sársaukinn var alveg ágætur en ég reyndi að æmta hvorki né skræmta. Svo var ég settur í eitthvað leðurólatól og átti að hafa handlegginn í einhverri frekar mjög óþægilegri stöðu í 10 mínútur. Það var vont en ekki svo en þá fór mér bara að sortna fyrir augum og var hálf liðið yfir mig, sem sjúkraþjálfinn gaf nú ekki mikið út á en spurði hvort það væri venjulega að líða yfir mig, sem ég þvertók fyrir. Veit ekki hvort honum fannst ég bara vera aumingi en niðurstaðan varð sú að ég skyldi bara fara heim og vera í fatlanum næstu tvær vikur og koma svo aftur.

Ef þessi sjúkraþjálfi væri ekki að mér skilst einhver færasti axlasjúkraþjálfi landsins, þá hefði ég líklega reynt að finna einhvern annan.

En núna eru þessar tvær vikur sem sagt liðnar og ég fer aftur til hans eftir hádegið í dag. Get ekki sagt að ég hlakki beinlínis til.

Sunday, September 14, 2014

Fyrsta skokk í rúman mánuð

Eitthvað ætlaði ég að vera búinn að blogga um hrakfarir sumarsins og kemur kannski seinna en þá samt á undan þessari færslu. Reimdi á mig hlaupaskó og fór í hlaupbrók til að fara út að hlaupa í fyrsta sinn síðan örlagaríkan dag í Fellsmörk fyrir einum og hálfum mánuði eða svo. Hljóp nú hvorki hratt né mikið. Handleggurinn má ekki við miklum látum og svo var ég logandi hræddur um að detta, fór því bara fetið á köflum, en þetta var skokk en ekki bara labb. Hraðinn meiri en eðllegur hraður gönguhraði þó það hafi nú ekki verið neitt spretthlaup hjá stráknum. Áttaði mig svo á því þegar ég var farinn að ganga síðustu metrana til baka að það er víst að koma haust!

Tuesday, September 09, 2014

Góð framsetning á GPS færslum hjá Hildi og félögum á Veðurstofunni

Skemmtileg framsetning á jarðskorpuhreyfingum hjá Veðurstofunni GPS og jarðskjálftaupplýsingar. http://hraun.vedur.is/ja/Bardarb/GPS/Slider/images.html
 
Flott efni fyrir mátulega mikla nörda. Það að svona efni sé opið almenningi um leið og atburðir eiga sér stað er ekki alveg sjálfgefið - og reyndar einstakt hefur mér verið sagt.

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Monday, September 08, 2014

Hvað er nýja Holuhraunið orðið stórt?


Það er vinsælt að setja fram kort sem sýnir að ef eldgosið í Holuhrauni hefði verið í Reykjavík, þá væri stór hluti borgarinnar kominn undir hraun. Eldgos í miðri Reykjavík er hins vegar ekki sérstaklega líklegt en hins vegar er eldgos t.d. í Vífilsfelli í Bláfjöllum ekki ósennilegt einhvern tíman á þessari öld eða næstu. Ef hraunið hefði runnið eins og það rann í Holuhrauni en átt upptök sín í Vílfilsfelli þá væri það komið niður undir Árbæjarstífluna. Til að sannleikans sé gætt verður að taka fram að ef eldgos verður í Vífilsfelli þá dreifist hraunið meira en norðan Dyngjujökuls því við Vífilsfell er enginn árfarvegur Jökulsár á Fjöllum til að renna eftir. Stærð hraunsins sem ég sýni er byggð á ratsjármynd af FB síðu Jarðvísindastofnunar sem sýnir stærð hraunsins 7. september. Mér sýndist þar að hraunið væri tæpir 15km að lengd.
---------
Það eru nokkur eldstöðvakerfi á Reykjanesi og hjá þeim skiptast á virk tímabil og óvirk. Þegar þau verða virk þá sýnir sagan að algengt er að austasta kerfið verði fyrst virkt og svo færist virknin út Reykjanesið. Í heild getur virki tíminn tekið nokkur hundruð ár en svo er goshlé á milli sem er álíka langt eða ívið lengra minnir mig. Síðasta virknitímabil var t.d. þegar kristnitökuhraunið rann en því tímabili lauk á miðöldum einhvern tíman. Það getur núna hvenær sem er farið að koma að næsta virknitímabili. Gæti gerst innan fárra ára en gæti einnig verið eftir 2-300 ár. Ósennilegt að við þurfum að bíða mikið lengur eftir því.
---------
Ég reyndar prófaði að færa upptök hraunsins að Búrfelli og lagði það örlítið eftir hæðarlínum eins og það gæti komið til með að renna. Það nær vel út í sjó. Það hefði lagst yfir núverandi Búrfells- og Gálgahraun en að einhverju leyti líklega runnið meðfram því. Þegar það hefði komið út í sjó hefði hægst verulega á því, kvikan að einhverju leyti sundrast við hraðkælingu. En þetta er áhugavert og dálítið ógnvekjandi fyrir íbúa höfuðborgarsvæðisins því þetta getur í sjálfu sér gerst og þetta hraunrennsli er alls ekki óhugsandi.

---------
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Monday, September 01, 2014

Fréttaflutningur af eldgosum

Fréttaflutningur Gísla Einarssonar og annarra fjölmiðlamanna sem hafa fengið leyfi til þess að flytja fréttir af vettvangi eldgosa eru stundum dálítið sérkennilegar. Það koma ágætar lýsingar á því hvað þeim finnst gosið tilkomumikið, hvað það er fallegt, hvað það sé rosalega gaman að horfa á það og fylgjast með og loks kannski hvað það sé vond lykt af því.

Það er svona svipað eins og að íþróttafréttamaður talaði bara um það hvað einhver hefði hlaupið fallega, verið í flottum búningi eða hvað hefði verið gaman að sjá hvernig einhver renndi boltanum fyrir markið þegar skorað var og sérstaklega hefði verið tilkomumikið hvernig boltanum hefði verið þrykkt í netið. Eða ef einhver væri að segja fréttir úr einhverri veislu eða öðrum mannfagnaði og hann hefði ekki rænu á að segja frá öðru en að forrétturinn hefði verið rosalega góður og aðalrétturinn eiginlega samt sínu betri, sérstaklega gott eftirbragð.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Sunday, August 31, 2014

Er sagan frá Kröflu að endurtaka sig?

Smá vangavelta frá matarborðinu í kvöld þegar jarðhræringar bar á góma á meðan lasagna var tuggið.

Minna þessar jarðhræringar á það sem gerðist við Kröflu fyrir nokkrum áratugum? Jú það má eflaust segja það en á hvern hátt. Flest eldgos síðustu áratugi á Íslandi hafa verið gos í Heklu eða Grímsvötnum. Gos í megineldstöð með kvikuhólf þar sem kvika kom upp skammt undan. Það velkist líklega enginn í vafa um að það sem núna er að gerast er annars eðlis þar sem virkni er á sprungurein eldstöðvakerfis og þá er spurningin hvenær það hefur gerst áður. Jú, það var auðvitað í Kröflueldum en ef til væru betri upplýsingar um jarðhræringar á sprungureinum fyrri alda, er þá alveg víst að það sem núna er að gerast yrði flokkað helst með Kröflueldum? Hvað um fyrri virknitímabil t.d. í Bárðarbungukerfinu.

-smá viðbót af vangaveltum-----------
Það sem í huga leikmannsins einkenndi kröfluelda voru stutt eldgos með mjög stuttu millibili. Ef þetta eldgos dregst á langinn þá er það ekki eins og Kröflueldar. Bárðarbunga er á Íslenskan mælikvarða mjög stórt kerfi, mikið stærra en Krafla og askjan mikið stærri. Ég man ekki hvað virknin í Kröflu var raunverulega tengd öskjunni þar en í Bárðarbungu þá a.m.k. hófst virknin þar þó kvika hafi síðan farið annað.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar og smávegis bætt við í samræmi við það sem var hugsað þarna í lok ágúst.

Friday, August 29, 2014

Túristagos sem er ekki fyrir túrista


Í nótt hófst sá hluti jarðhræringanna sem er frústrerandi. Lítið túristagos en mjög óaðgengilegt þeim sem vilja skoða, jarðvísindafólki sem öðrum, fyrir utan þá sem hreinlega verða að komast þangað til að setja upp mæla eða annað slíkt. En hvað um það. Það eru til hnit á sprungunni sem voru reyndar gefin upp með fyrirvara um ekki mikla nákvæmni: 64°52'4''N 16°49'34''V til 64°52'28''N 16°51'20''V. Hnitin eru byggð á hitafráviki sem sást á gervitunglamyndum. Setti þessi hnit inn á kort sem sýnir einnig jarðskjálfta síðustu daga.



Það sem vekur t.d. athygli er að gossprungan er þvert á sprungustefnuna. Gæti stafað af ónákvæmni hnitanna eða því að um svo stutta sprungu er að ræða og lítið gos að gossprungan er í einhverjum mjög staðbundum veikleika þarna í jarðskorpunni en er ekki að fara inn í spennusvið svæðisins í heild. Tel samt einfaldast að kenna um ónákvæmni hnitanna sem eru byggð á staðsetningu hámarks hitafráviks í tengslum við gosið en ekki neinni beinni mælingu á sprungustefnunni sjálfri.

Um stærð gossins má velta fyrir sér hvort þetta litla gos hafi náð að vinna á þrýstingi kvikunnar í bergganginum. Það hefur verið áætlað að berggangurinn sé 1-4m á þykkt, 2-8km að hæð og e.t.v. 40km að lengd. Ef teknar eru þar meðaltölur með L = 40km, h = 4km og þykkt = 2m þá er rúmmál kvikunnar sem um ræðir 320 milljón rúmmetrar. Ef því er deild niður á þann tíma sem gangurinn hefur verið að myndast og segjum að það séu 13 sólarhingar þá er það um milljón rúmmetrar á hverri klst. Ef gosið stóð í 3 klst hefði það átt að skila 3 milljón rúmmetrum, bara til að halda í við myndun gangsins. Ef sprungan er 1km að lengd og 100 metra breitt lag gosefna myndaðist þá myndi það gefa um 30m þykkt lag. Ég efast um að þetta gos nái því umfangi þannig að gosið hefur í raun ekkert gert til að minnka þrýstinginn á svæðinu. Er bara dálítið eins og slys þar sem aðeins slettist út fyrir í gangagerðinni.
----------
Fljótlega kom í ljós að sprungustefnan var mjög hefðbundin og raunar fór í eldri gossprungu Holuhraunsins. Upphaflega stefnan sem var fengin frá hitafráviki á radarmynd sýnir e.t.v. hraun sem rann frá sprungunni og varð fljótlega mest áberandi í hitafrávikinu.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Thursday, August 28, 2014

Sigkatlar suðauastan í Bárðarbungu

skjalftakort 15-28 agust-katlar


Sigkatlarnir skv. upplýsingum frá fésbókarsíðu Jarðvísindastofnunar færðar inn á jarðskjálftakort sem ég setti saman.

Full upplausn á kortinu er hér.
Ég verð eiginlega að játa að staðsetning sigkatlanna kemur mér talsvert á óvart, eins og svo margt annað! Rauði hringurinn á myndinni er um Gjálp, þar sem eldgosið varð árið 1996 sem olli stóru flóði í Skeiðará. Þetta er því ekkert langt þar frá og nokkuð ljóst að allt bendir til þess að vatn sem þarna bráðnar fari í suður átt.

Á FB síðu jarðvísindastofnunar stendur:

"27. ágúst 2014 kl. 21:56 - upplýsingar úr flugi

Magnús Tumi Guðmundsson, Jarðvísindastofnun Háskólans, skrifar eftir flugferð með TF-SIF:

Suðaustan við Bárðarbungu – nokkur sig, grunn en stór, 4 til 6 km að lengd með hringsprungum.

Hnitin – eru um einum km austan við sigin:
64°33,2N 17°21,8V
64°33,8N 17°23,5V
64°34,2N 17°24,4V
64°34,6N 17°25,7V

Hringsprungurnar eru um einn km að breidd. Tíu til fimmtán sprungur kringum hvora dæld, áætla sigið 10-15 m í miðju siganna. Þessar upplýsingar eru ekki alveg fullkomnar, ekki útilokað að sig sé að myndast á fleiri stöðum, en skyggni og myrkur leyfði ekki nákvæmari eða meiri skoðun."

Sjá: https://www.facebook.com/jardvis?fref=ts

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Saturday, August 23, 2014

Hvar eru eldstöðakerfin?

Eldstöðakerfi skv. korti Veðurstofunnar og ágiskaðar línur undir jökli viðbættar skv. bók um náttúruvá.

Ég heyrði grínast með það fyrr í dag að ef sprungan, berggangurinn eða virknin (hvað svo sem við viljum kalla það) við Bárðarbungu héldi áfram að lengjast meira til norður þá færi á endanum að gjósa í Öskju. Kannski bara sagt í gríni en þá má skoða hvar eldstöðvakerfi í Vatnajökli eru talin liggja. Þá er ekki hægt að sjá annað en að virknin hafi færst út af því svæði sem hefur hingað til verið talið til Bárðarbungueldstöðvakerfisins. Virknin í gær og fyrradag var í raun mitt á milli Kverkfjallakerfis og Bárðarbungu kerfis. Með því að færast í norður hefur virknin hins vegar náð að mörkum Öskjukerfisins.

Virknin hefur hins vegar á allan hátt verið út frá Bárðarbungu og því ekki hægt að álíta neitt annað en að þetta sé atburður með upprunna í Bárðarbungi, óháð því hvar hann endar.

Það má einnig skoða þetta út frá t.d. gosinu í Gjálp. Núna er Grímsvatnakerfið látið ná aðeins í norður eins og ég merki á myndina, þannig að Gjálparsprungan passi þar inn. Ég held að fyrir gosið í Gjálp hafi Grímsvatnakerfið ekki verið látið ná svona langt norður. Sama má segja með Lokahrygg sem er á milli Grímsvatna og Hamarsins, þ.e.nær á milli tveggja eldstöðvakerfa og þvert á ríkjandi sprungustefnu og varð mjög virkur í framhaldi af gosinu í Gjálp árið 1996.

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Wednesday, August 20, 2014

Tilraun til að túlka GPS mælingarnar við Bárðarbungu

Smá vangavelta fyrir þá sem nenna að lesa og jafnvel hafa skoðun - vera sammála eða ósammála mér. Fór eiginlega að hugsa þetta fyrst og svo skrifa þar sem mér gekk eitthvað illa að átta mig á því af hverju GPS stöðvarnar í Hamrinun og sérstaklega í Vonarskarði hreyfast öðru vísi en ég hafði átt von á. Vangavelta sem e.t.v. er röng en kannski ekki alveg röng og er í öllu falli það sem ég fór að hugsa.

Áfram með þetta skemmtilega ekki eldgos - sem auðvitað gæti líka orðið eldgos. Aðal gögnin sem hægt er að skoða eru jarðskjálftagögn Veðurstofunnar (http://www.vedur.is/skjalftar-og-eldgos/jardskjalftar/vatnajokull) og svo GPS gögn sem Sigrún Hreinsdóttir gerir aðgengileg hér: http://strokkur.raunvis.hi.is/gps/#VATN.

Það sem vekur athygli mína í gps gögnunum var fyrst að stöðvarnar í Hamrinum og Vonarskarði hafa verið að færast í austur. Ef kvika er að streyma inn fyrir austan stöðvarnar þá ættu þær að vera að færast í vestur, þ.e. kvikan myndi ýta þeim burt. Mín skýring er að það sé kvika undir Bárðarbungu sem er að fæða berggang sem kemur fram á jarðskjálftamyndunum, berggang sem liggur niður Dyngjujökul með stefnu áleiðis að Kverkfjöllum. Þar sem Vonarskarð er greinilega að færast í austur þá ætti það að passa við að kvikan sé að færast í burtu frá Vonarskarði og það gæti þá þýtt að það væri ekki að koma ný kvika inn i kvikuhólfið undir Bárðarbungu heldur að það sé í raun að byrja að tæma sig.

Í upphafi hreyfinganna hins vegar var Vonarskarð að færast lítillega í vestur og það gæti þá þýtt að í byrjun var kvika að safnast í kvikuhólfið undir Bárðarbungu en þegar Vonarskarð fór að færast í austur þá var kvikuhólfið að byrja að tæmast - eða kannski frekar að minnka. Það er afar ósennilega að tæmast sem slíkt.

GPS stöðin á Dyngjuhálsi færðist markvisst í norð-vestur sem passar við að berggangurinn suð-austan við stöðina hafi verið að myndast. Ef tekið er mið af því að jarðskjálftarnir núna eru komnir álíka norðarlega og Dyngjuháls stöðin er, þá mætti maður eiga von á að stöðin myndi hætta að færast í norður þar sem staðsetning skjálftanna og þá nýmyndum berggangsins beint fyrir austan hana. Það enda passar því Dyngjuhálsstöðin er hætt að færast í norður og meira að segja farin að fara í suður aftur. Heldu hins vegar sínu striki áfram í vestur eins og áður.

Grímsfjall færðist í suður til að byrja með en hætti svo að færast og það passar líka við það að fyrst var að koma inn ný kvika fyrir norða Grímsfjall en síðan þegar kvika hætti að streyma að, þá hætti stöðin að færast.

Það sem mér tekst helst ekki að koma inn í þessa mynd mína af kvikuhreyfingunum er að Vonarskarð hefur líka verið að færast aðeins í suður. Það gæti stafað af kvikuhreyfingum við Kistufell.

En svo á meðan ég var að skrifa þetta þá er óróagrafið farið hærra upp en það hefur farið áður - þ.a. e.t.v. er gosið að fara að brjótast upp!

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Sunday, August 17, 2014

Bárðarbunga

Bárðarbunga seen from Gæsavatnaleið Bárðarbunga séð frá Gæsavatnaleið. Líklega Kistufell lengst til vinstri.

Hvernig er það með þessa fjölmiðla, eiga þeir ekki neina mynd af Bárðarbungu. Ég á eiginlega bara eina sem ég man eftir en hún er tekin af Grímsfjalli og þaðan að sjá er Bárðarbubga afskaplega flöt! https://www.flickr.com/photos/eirasi/14942149301/ Sá svo að Oddur Sigurðsson á verulega flotta mynd, sem fjölmiðlar ættu að falast eftir að fá að nota.
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar. Mér sýnist annars að þetta sé það fyrsta sem ég gaspraði á FB tengt jarðhræringum Bárðarbungu.

Sunday, August 03, 2014

Slasaður

Fellsmörk

Það hafði rignt um daginn. Ekki neitt sérstakt vinnuveður. Vorum eitthva úti við en svo var líka flatmagað í koju þegar mest rigndi. Ég held að Hjalti og Júlía hafi bankað upp á þann daginn. Tveimur dögum fyrr hafði allur innrásarherinn farið til Reykjavíkur og við bræður bara einir í kofa. Það hafði verið rifist og það hafði verið kveikt upp og þetta var í sjálfu sér bara ágætt.

Eftir að hafa fundið út hvernig best væri að kítta bjálkana í kofanum fór smíðin að ganga í sjálfu sér ágætlega og þetta mjakaðist upp röð fyrir röð. Ég var eitthvað farinn að huga að því að leggja spýtur ofan á gólfbitana til að fá öruggari og þægilegri vinnuaðstöðu. það gekk samt ekki betur en svo að þegar ég var búinn að leggja eitt borð, þá bara gekk ég fram af því og datt. Meiddi mig samt ekkert þá.

Slysið

það hafði rignt og var að fara að rigna meira og við eiginlega að fara að koma okkur inn í kofa, fá okkur kaffi eða eitthvað þegar ósköpin dundu yfir. Ég steig á gólfbita, rann og snérist í hálfhring, bar fyrir mig hönd og hún næstum því af. Gunni hélt reyndar að ég hefði rekið hnéð illa í en það var ekki það versta. Ég var úr axlarlið á hægri hendi. Greindi það held ég á svona tvemur sekúndum. Ég lagði strax af stað niður slóðann. Hræddur um að detta á hálum stígnum en slapp við það. Komst inn í bílinn hans Gunna og svo var haldið af stað.

Gunni tók með kók til að drekka og ég saup á þegar hann helti upp í mig. Hægri hendin var ónýt en sú vinstri var notuð til að halda þeirri hægri fastri. Í sambandi við neyðarlínuna komumst við að því að það væri skynsamlegast að halda á Selfoss.

Fljótlega fór dofi að gera vart við sig í hendinni og áður en við vorum komnir að Álftagróf var höndin algjörlega tilfinningalaus upp á upphandlegg. Fingurinr urðu slakari en ég vissi að þeir gætu orðið. Þessi útlimur var mér ekki lengur viðkomandi, minnti mig mest á dauðan kolkrabba eða eitthvað hveljukennt ógeð. Ég óttaðist að allt blóðflæði væri farið úr hendinni (sem reyndar var líklea ekki raunin heldur var ég með illa klemmda taug) og heimtaði ég sjúkrabíl sem kom á móti okkur frá Selfossi.

Fljótlega eftir að við vorum komnir niður á þjóðveg fór ég að fá smá tilfinningu í hendina þannig að ég hætti að verða svo hræddur um að ég ég væri beinlínis að missa hendina - en það var það sem ég hafði óttast. Sjúkrabíllinn var þá hins vegar farinn af stað og varð ekki snúið við.

Í sjúkrabílnum og á spítalanum á Selfossi

Við mættum sjúkrabílnum líklega einhvers staðar nálægt Þorvaldseyri en hann hafði komið frá Hvolsvelli. Það var reyndar einhver læknir á Hvolsvelli en hann vildi frekar að ég færi áfram beint á Selfoss þar sem hægt yrði að taka af mér röntgen mynd einnig. það var því haldið á Selfoss. Sjúkrabíllinn var einn af þessum nýju og verð ég að játa að óþægilegra ferðalag hef ég sjaldan upplifað. Var það ekki bara handleggurinn heldur líka það hvað sjúkrabíllinn var rosalega þröngur. Sjúkrarúmið sem ég var í virtist vera nokkrum númerum of lítið og spyrnti ég mér í glugga og jafnvel vegg á sjúkrabílnum til að detta ekki á gólfið. það gekk illa að koma æðalegg í mig en tókst að lokum. Þáði eftir smá umhugsun eitthvað morfín en það virtist ekki gera mikið fyrir mig. Sötraði kók þess á milli.

Á meðan hafði Gunni ekið til baka í Fellsmörk til að ganga frá og ætlaði hann svo að sækja mig á sjúkrahúsið að því loknu.

Á Selfossi var nýlega útskrifaður læknir. Man ekki lengur almennilega hvað hann hét en hann sprautaði einhverjum óminnishegra í mig og skellti mér svo í liðinn. Ég rankaði við mér eftir myndatökuna og lá þarna í einhveja klukkutíma til að bíða eftir Gunnanum, sme kom eftir langa mæðu. Hann hafði auðvitað tafist eitthvað við það að ganga sæmilega frá eftir okkur. Vissi auðvitað ekkert hvenær hann myndi far næst austur.

það var svo komin nótt þegar ég sofnaði í rúminu mínu, liggjandi á bakinu með hendina í fatla.

Laugardagur með lítilli lukku

Ekki man ég núna þegar þetta er skrifað einum og hálfum mánuði seinna hvernig ég svaf þessa nótt en ég vaknaði að minnsta kosti. Var svona fram eftir morgni að átta mig á því að það að vera einhentur er ekkert grín. Það er erfitt að skrúfa saman kaffikönnu og ég lenti í hálfgerðum bardaga við ananast sem ég reyndi að skera í bita til að fá mér í morgunmat. Hinir einföldustu hlutir urðu alveg skelfilega flóknir. Komst t.d. seinna að því að það er eiginlega ekki hægt að reima skó með einni hendi - eða ég komst að minnsta kosti ekki upp á lag með það. Áttaði mig dálítið á því að ég er alveg skelfilega rétthentur og það sem er kannski merkilegast er að ég í raun hugsa með hægri hendinni. Ef ég get ekki punktað hjá mér það sem ég er að velta fyrir mér - þá get ég eiginlega ekki velt neinu fyrir mér almennilega. Náði engan veginn að einbeita mér. það var reyndar ekki þennan dag en seinna fór ég að reyna að lesa einhverjar jarðfræðigreinar og það var eiginlega ekki hægt að henda reiður á þeim ef ég gat ekkert punktað hjá mér. Endaði á því að fara að tala inn á upptöku á símanum mínum. Stóð mig annars illa í því að lesa greinar eða gera nokkurn skapaðan hlut.

Mest hafði ég kviðið fyrir að segja mömmunni minni frá þessu. Óttaðist að hún færi á einhvern dularfullan hátt að kenna sjálfri sér um þetta því það er verið að byggja bjálkahúsið fyrir hana mestmegnis. En hún tók þessu bara ágætlega yfirvegað og gerðist með það sama mín einkahjúkrunarkona.

Svo varð það úr að ég fór heim á Urðarstekk til að fá kvöldmat þannig að ég væri ekki bara einsamall heima hjá mér. það voru hálfgerð mistök. Þar voru allir og talsverð læti og ég ekkert alveg í stakk búinn fyrir slíkt. Endaði það með því að mér fannst að ég væri aftur að fara úr liðnum. Gunni keyrði mig heim en í staðinn fyrir að fara í Hæðargarðinn fór ég upp á slysó.

Laugardagsnótt á slysó

Við bræður eyddum fyrri part nætur í að bíða eftir að komast að. Ég hafði greinilega ekki borið mig nógu aumlega til að fá neinn forgang og þurfti því bara að bíða og bíða. Það var reyndar mjög athyglsivert og um leið sorglegt að skoða fólkið sem var þarna í biðstofunni. Eftirminnilegust á jákvæðan hátt var finnska konan á níræðisaldri sem var eitthvað veik í meltingarveginum líklega en sagði samferðarkonu sinni endalausar sögur af fólki sem hún hafði hitt á lífsleiðinni. Minnti samtalið hjá þeim dálítið á skáldsögu - líklega Nóttina eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur. Eftirminnilegust á sorglega háttinn var stelpan í neyslunni sem vildi bara komast yfir spritt eða eitthvað. Sá reyndar að starfsfólkið þekkti hana. Eftir að ég var farinn inn úr biðstofunni kom löggan víst og tók hana. Hún átti alveg hræðilega bágt stelpugreyið. Heyrðist reyndar að starfsfólkið væri eitthvað að reyna að koma henni í meðferð - en ég gat ekki séð annað en að hún væri að drekka og dópa sig í hel.

En af mér sjálfum. Hún líklega Margrét Sigurðardóttir, læknakandídat byrjaði á því að beygla á mér hendina þangað til mér varð alveg rosalega illt. Þá sendi hún mig í röntgen og svo tók enn ein biðin. Við vorum þar reyndar þrjú sem vorum að verða málkunnug að bíða. Ég með mína öxl, strákur sem var með putta sem hafði farið úr lið eftir að hafa dottið á hjóli (reyndar eftir að drekka smá bjór - en hann var nú samt ekkert ofurölvi sýndist mér) og svo konan sem minnti mig svo mikið á Björgu í Blóðbankanum og var með dóttur sína með sér sem var brún á brá. Konan hafði dottið á hjóli og handleggsbrotnað.

Eftir alveg endalausa bið fékk ég úrskurðinn að ég væri með brot í öxlinni og mætti ekki byrja neina sjúkraþjálfun fyrr en eftir fjórar vikur. Ég held að ég hafi hálfpartinn drepið Margréti með augnaráðinu sem ég gaf henni - en þarna áttaði ég mig allt í einu á því að ég var raunerulega slasaður en ekki bara eitthvað dottinn úr lið. Ég sá mastersverkefnið mitt í upplausn, kofabyggingu í upplausn og eiginlega allt í upplausn. Það var Ægir Amín læknir sem hafði gefið þennan úrskurð og fékk ég að sjá eitthvað óljóst á röntgenmyndum sem ég sá ekkert á. Ætlaði að fá eitthvað second opinion hjá einhverjum öðrum axlarsérfræðingi - en gerði svo sem aldrei - enda var þessi greining mjög líklega alveg rétt. Einhver áhöld voru um meðferðina en ég var settur í fatla, átti að vera þannig í tvær vikur án þess að hreyfa neitt og svo mátti ég eitthvað fara að rétta úr hendinni og svo fara í sjúkraþjálfun fjórum vikum seinna.

Ég áttaði mig sem sagt á því að ég væri hálfpartinn fokked á vondri ensku.
-----
Skrifað eftir minni í september, eins og ég held að mér hafi liðið þarna þessa fyrstu helgi í ágúst - sem var dálitið erfið.

Wednesday, July 30, 2014

Í músahúsi mega þröngt sáttir sitja

Þröngt setið í Músahúsinu Úti var rigning, inni voru eitthvað tæpir 10 fermetrar... þar var þurrt á meðan ekki var gusað úr glösum í allar áttir hvar þröngt máttu sáttir sitja í græna Músahúsinu. Sjaldan hafa svo margir verið innandyra í Músahúsi í einu og aldrei svo margir að borða þar. Gekk þó allt stórslysalaust fyrir sig. Hrefna Vala reyndar datt ofan úr koju - bara neðri koju - meiddi sig ekkert þannig séð en það gusaðist rauðvín eitthvað út um allt. En það var bara ágætt.

Byltan tveimur dögum seinna varð verri þegar bloggarinn rann á sleipum gólfbita, fór úr axlarlið og braut bein.

-----
Eftirá innfærð bloggfærsla en var upphaflega á FB síðunni minni að hluta.

Monday, July 07, 2014

Afrakstur sultusuðu næturinnar.



Sunnudagurinn 6. júlí var dálítið sérstakur. Eftir að hafa lesið eitthvað jarðfræðidót fram eftir degi og skokkað smávegis í Heiðmörk, aðallega til að komast að því að kálfinn er ekki ónýtur þá var farið út í garð.

Ætlaði ekkert að gera neitt merkilegt í garðinum en endaði einhvern veginn fór það þannig að innihald safnhaugskassanna var forfært fram og til baka. Gaus þá upp frekar vondur fnykur og leist mér ekki á blikuna þegar konan í næsta garði sagðist ekki lengur geta verið úti því það væri komin svo mikil kíkalykt.

Eitthvað náði ég nú að koma þessu inn í kassann aftur og vona að fnykurinn sé þar lokaður inni en þarf greinilega eitthvað að skipuleggja betur þessi safnhaugamál.

En... ég tók líka inn rabbarbara sem var þarna við safnhauginn og fékk þessa líka frábæru hugmynd að gera mér rabbarbarasultu. En þá vantaði sykur. Í stað þess að fara að fá mér að borða þá var farið út í bíð að kaupa sykur og svo var hugmyndin að elda mat á meðan sultan myndi malla. En þá tók dagurinn aðra óvænta stefnu. Sem ég nálgaðist Skeifuna því ég ætlaði í hagkaup þá sá ég að eldgos var hafið í Skeifunni. Eftir að hafa fylgst með eldsvoðanum í meira en klukkutíma kom björgunarsveitarútkall til reka almnenning eins og mig sjálfan í burtu.

Var auðvitað ekki með nein björgunarsveitarföt með mér en fékk lánaðan stakk af Kjartani Óla sem er svona 20cm lægri en ég. Það var ágætt og ég stóð vörð fram undir miðnætti.

Þá var farið heim til sultugerðar og eldamennsku. Eldamennskan var einföld en fólst bara í að hita upp einhverja grýtukássu frá deginum áður. Sultugerðin var líka einföld. Bara skera rabbarbarann niður og setka sykurinn með og sjóða svo.

En ég sauð og sauð en sultufjandinn þykknaði ekki neitt. Fór svo bara að sofa um miðja nótt en lét sultuna malla áfram.

Undir morgun eða þar um bil vaknaði ég aftur. Dauðhreinsaði krukkurnar upp á nýtt og hellti sultunni á sam mér fannst vera orðin mátuleg og alveg rosalega góð á bragðið.

Sofnaði svo aftur og fékk mér brauð með sultu í morgunmat. Mikið rosalega var hún annars vegar góð en hins vegar hroðalega þykk!

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Sunday, June 22, 2014

Slappur tappi

upp og niður

Upp og niður á Eyjafjallajökli um sumarsólstöður 2014. Bara brattur á leiðinni upp fyrstu brekkuna en svo skömmu seinna frekar súr á leið niður aftur einsamall með sinadrátt eða slit í vöðva. Vonast samt það besta. Daginn eftir talsvert að skána!
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Saturday, May 10, 2014

Raunir mastersnemans

Drilling in Undirhlidar

Raunir sýnatökumannsins að stíga sín fyrstu skref í Undirhlíðum. Þarna má telja eitthvað um 10 göt en það komu einungis 2 nothæfir kjarnar úr þessu til segulmælinga. Þar af annar kjarninn í pörtum og þurfti UHU lím til að bjarga honum. Bólstraberg með öllum sínum sprungum er ekkert alveg það sem best til að bora í!
-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.

Sunday, April 20, 2014

Páskar

Páskaæfintýri

Ungi litli kominn í fuglahúsið í garðinum!

Það ríður ekki við einteyming hvað maður þarf að gera þegar það á að vera að lesa fyrir próf - og taka próf á sama tíma. Bjó til myndasögu um aumingjans páskaungann sem var frekar ósáttur við það að eggið skyldi ekki vera étið heldur bara spekúlerað í málshættinum.

Myndasýningin er með æfintýrasögunni á fésbók.

Saturday, April 19, 2014

Ný græja í eldhúsið í Hæðargarðinum!


Nú verður kaffi malað af andans list... lyst :-)

Friday, April 18, 2014

Próflestrarblogg

krumminn í stofunni

Veit svo sem ekki hvað ég ætla að skrifa en er bara að lesa fyrir próf á sama tíma og ég er að taka annað próf og búinn að vera eiginlega veikur líka allan tímann. Það er ekkert of gaman.

Það sem helst er markvert allt það sem á að gera þegar þessi leiðinda próf eru búin. Þar má nefna að það á að fara að mastersverkefnis sesgulmæla. Væntanlega fyrst mælt í námu í Undirhliðum sem líklega ekki allir vita hvar en er er nú bara á Hafnarfjarðarleið upp í Bláfjöll. Mun mæla þar í bólstrabergi. Sést t.d. á myndinni að neðan. Þar sjást tvær bólstrabergssyrpur með lagi á milli. Hefði fyrirfram haldið að lagið á milli væri bara móberg en er ekker tof viss um það. Leit meira út eins og mjög fínkorna set. Hmmm þarf að skoða betur!

Bólstraberg í námunni í Undirhlíðum
Bólstraberg ofan og neðan lags í námu í Undirhliðum á Reykjanesi

Já og svo má alveg minnast á veðrið sem er ekki par gott. það var komið vor hér einhvern tímann um daginn en það virðist alveg vera farið veg allrar veraldar. Búinn að vera hríðarhraglandi núna í marga marga daga!

Vorið sem hætti við að koma
Norðlendingurinn hýmir úti og furðar sig á af hverju þetta vor fer ekki að koma almennilega

Þessi slappleiki annars sem er að hrjá mig byrjaði fyrir svona 2 vikum. Svo fyrir svona 10 dögum þá var ég kominn með snert af eyrnabólgu á sama tíma og ég var að kenna á námskeiði hjá Endurmenntun um innri úttetktirnar okkar Kjartans. Var hálf framlágur þar. Er svo búinn að vera með hellu í eyranu síðan - og orðinn þokkalega þreyttur á því þó hún fari eitthvað minnkandi. Einar frændi læknir sagði mér að ég yrði bara að blása eyrað mitt út. Ekki fer ég að setja rör í eyrað!

Sunday, January 19, 2014

Tvær einmanna prímtölur

Líklega er ég óvirkur bóka-alki. Er búið að finnast að ég ætti að lesa einhverja bók í nokkrar vikur ef ekki lengur. Las síðast líklega bók einhvern tíman síðasta haust um stelpu sem ólst upp í frumskógum með indónesískum mannætum eða ekki mannætum. Núna las ég bók um einmanna prímtölur. Hvernig ég vel mér bækur til að lesa er líklega rannsóknarefni. Einu sinni las ég bók sem hét "Pí" og fór ég að lesa hana af einhverjum undarlegum stærðrfæðilegum áhuga. Sú bók var nú samt bara um strák sem hét Pí og þvældist um Kyrrahafið ef ég man rétt á fleka með fullvöxnu tígrisdýri. Einhvern tíman las ég frábæra bók um einhverfan strák þar sem síðurnar í bókinni voru númeraðar með prímtölum. Bókina um einmanna prímtölur keypti ég líklega einhvern tíman þegar mig vantaði eitthvað að lesa og valdi hana af þessum dularfulla stærðfræðiáhuga - en las svo ekki fyrr en núna einhverjum árum seinna. En að vera óvirkur bóka-alki felst annars í því að lesa helst aldrei neitt en svo þá sjaldan þegar maður les eitthvað þá verður maður heltekinn af bókinni og les hana í einum rykk. Svona eins og alki sem drekkur sig dauðadrukkinn sjálfkrafa eftir að hafa fengið sér bara einn sopa.

En um þessa bók. Önnur persónan hafði bara áhuga á stærðfræði sem ég veit ekki hvort ég hef - a.m.k. ekki alla hæfileikana. Hin persónan hafði áhuga á ljósmyndun en tók nú samt ekki neitt mikið af myndum í bókinni - eiginlega bara tvisvar. Einu sinni af sér og hinni persónunni á polaroid myndavél en í hitt skiptið í brúðkaupi fjandvinkonu sinnar þar sem hún eyðilagði filmuna.

Hvað mér fannst síðan almennt um bókina þá var hún kannski best fyrir mig sjálfan að aðalpersónurnar voru einhverjar undarlegar ýktar útgáfur af manni sjálfum.

-----------------

En svona til að ég sjálfur viti hvaða bók þetta er og muni eitthað eftir henn þá er hún um strák sem er með gallaðan heila sem skilur ekkert nema stærðfræð og svo átti hann systur með annan gallaðan heila sem virtist reyndar ekki geta neitt. Það kom a.m.k. aldrei í ljós þar sem hún dó eða hvarf úr sögunni því strákurinn passaði ekki upp á hana. Hin persónan er stelpa sem bæklast í skíðaslysi þar sem pabbi hennar er að neyða hana til að æfa skíðasport. Strákurinn er svona venjulegur einhverfur stærðfræðisnillingur og stelpan er með einhverja ótilgreinda persónuleikaröskun sem veldur anorexíu - og svo fær hún áhuga á ljósmyndun en sagan er ekkert um það sérstaklega - meira um stærðfræðina hjá stráknum. Enda er höfundurinn eðlisfræðingur. Svo loks einver bókadómur af bókmenntumpunkturis, lýsir bókinni eiginlega mikið betur en ég upplifði hana
Gengið á Stóra Kóngsfell

Á leið niður af Stóra Kóngsfelli eftir að sólin var farin að skína

Það var gengið á Stóra-Kóngsfell með Ferðafélagi Íslands laugardag 18. janúar. Fyrsta ferðin með einu erfiðu mánaðarfjalli Ferðafélagsins. Ég veit ekki hvort ég geti sagt að ferðin hafi verið erfið en ég var nú samt lúinn þegar ég kom heim en það var líklegast frekar eftir að hafa legið í meira en klukkutíma í heitum pottum Laugardalslaugarinnar og líklegast ekki síður eftir að hafa sofið ekki nema 6 tíma nóttina á undan. Ég og svefn er eitthvað sem er stundum ekkert að fitta alveg saman!

En þessi göngutúr gekk ágætlega. Það mættu þokkalega margir fannst mér og var hópurinn í það heila rétt tæplega 90 manns. Mörgum fannst þetta mátulegt en sumum of létt. Nokkrir voru að dragast aftur úr og þarf eiginlega að koma þeim í skilning um að taka léttara fjallið frekar en það erfiða.

Það var síðan lagt af stað í rigningu og byrjað á að fara á Eldborgargíginn. Svo farið fyrir sunnan Drottningarfellið og gengið upp Kóngsfellið að sunnan. Á bakaleið var farið á Drottningarfellið líka.

Um kvöldið var svo tekið til við bóklestur fram á nótt... þannig að aftur var maður snuðaður um nætursvefn! Svo má alveg halda því til haga að ég er alveg þokkalega sáttur við prjónahúfuna sem ég er með á hausnum á myndinni hér að neðan.....

Gengið á Stóra Kóngsfell

Örlítið brosandi með nýja prjónahúfu á hausnum

Monday, January 13, 2014

Fyrsta færsla á nýju ári eftir fyrstu göngu ársins með Ferðafélagi Íslands

Gengið áleiðis í Búrfellsgjá


Kannski ágætt að fyrsta færsla þessa ársins verði um það þegar gengið var í Búrfellsgjá og á Búrfell með einu léttu fjalli Feðrafélags Íslands. Ftrsti göntutúrinn þetta árið og lofar aö mörgu leyti góðu þó það séu reyndar einhver óveðrsský einhvers staðar. Helst er það út af breytingunni sem var gerð og því að núna þurfum við gædar að fara að velja og hafna hvaða fjöll við förum á. Á sama tíma og Ferðafélagið er búið að setja takmörk 4 leiðsögumenn á hverja ferð þá ákváðu þeir bræður að bæta einum leiðsögumanni við þannig að núna erum við 7 talsins að bítast um það hver fer hvaða ferð. Líst einhvern veginn ekkert allt of vel á það hvernig þetta þróast en er á meðan er og á meðan það verða ekki einhver leiðindi þá er ég með.

Það er annars eitthvað fólk sem ég þekki þarna núna að ganga. Stefán Andrésson áfangastjóri er þarna og ekkert vont að endurnýja kynnin við þann mann sem gleymiir aldrei neinu! En síðan ekki síðra að Haraldur jarðfræðingur Gunnarsson ætlar að ganga þarna líka. Það verður verulega gaman að velta jarðfræðinni fyrir sér með honum! Væri meira en til í að fara einhverjar þá af þeim ferðum kauplaust!

Svo bar kannski til tíðinda að við mættum öðrum hópi FÍ þarna á leiðinni sem framhaldslíf kallast. Þær fór fyrir einhver mikill belgingur sem ég þekki ekki sérstök deili á en æði fannst mér hann stjórnsamur og ekki skemmtilegur. Ætli við sem erum í mínum hópi virkum líka svona á t.d. þátttakendurna sem eru að ganga í okkar hópum. Ég vona ekki. Við vorum í öllu falli ekki jafn bransaleg og hann var. Hann var svona útbúinn eins og hann væri að fara í sprungubjörgun!

En það var tekin hópmynd sem hann stóð fyrir en vildi samt hafa hálf ómögulega - því enginn mátti stjórna neinu nema hann sjálfur. Skemmtielgra hefði verið ef fólkið hefði komið nær en við það mátti ekki koma!
Gengið í Búrfellsgjá með Ferðafélagi Íslands

Hópmydnin af Einu fjalli mánaðar ásamt framhaldslífi 52gja fjalla mætast í Búrfellsgjá