Eitt: Af hverju segir maðurinn ekki af sér? Þó þetta sé kannski ferlega ósanngjarnt fyrir hann þá er það ekki sérlega trúlegt að hann hafi ekkert vitað um hvað málin snérust sem hann var að skipuleggja eða hann hafi ekki vitað að þetta væri ekki í lagi. Og ef hann ætlar að halda því fram að hann hafi verið svona bláeygur þá held ég að hann gangi ekki heldur sem borgarstjóri þegar á reynir, einmitt eins og það gerir núna.
Tvennt: Mikið svakalega eru síðan allir alvöru olíufurstarnir íslensku heppnir að Þórólfur sé borgarstjóri! Það hefur varla verið minnst á þá í þessum hasar en samt eru það auðvitað þeir sem bera ábyrgðina á þessu fyrst og fremst.
Og kannski Þrennt: Ég er að hugsa um að kaupa bensín héðan í frá bara frá Atlantsolíu, eða eru þeir ekki frekar saklausir af þessu svínaríi?
Þetta er reyndar með ólíkindum. Okkur er líkt við Nígeríu og ég held að það sé bara rétt.
Það er síðan eiginlega allt að gerast hjá sjálfum mér og þá má maður ekkert vera að því að blogga eitt né neitt. Verður samt að blogga smá þó ekki nema svona um það sem maður er að gera.
Stend nefnilega í ströngu. Einhver hefur e.t.v. séð link hægra megin á síðunni sem heitir Fellsmörk. Það er eitt af þessum félögum sem ég hef látið plata mig til formennsku í og stundar skógrækt austur við Pétursey. Þau ósköp standa þar yfir að það á að fara að selja frá okkur hluta af svæðinu sem við í stjórn félagsins erum ekkert allt of kátir með. Stormaði ég meðal annars á fund sjálfs Guðna ráðherra vegna þess. Fór reyndar bara vel á með okkur og minnti hann okkur á fundinum nokkrum sinnum á að kjósa rétt og þá færi allt vel. Það er kannski ekki furða að það fari ekki allt vel hjá manni. Eða í heimsbyggðinni því ég held að eitthvað rúmlega 50 milljón Bandaríkjamanna hafi kosið kolrangt í vikunni. En þeir eru nú eitthvað öðru vísi þarna í Nýja heiminum en við hér í gömlu Evrópu.
Síðan er annar linkur þarna sem hefur tekið einhvern tíma frá mér líka. Það er Stjórnvísi. Þar er sérstök stjórnunarvika í næstu viku sem enginn má láta fram hjá sér fara.
Síðan er lox allt bilað að gera í vinnunni hjá manni þannig að það gefst ekki mikill tími fyrir margt annað. Reyndar gengur þetta allt einhvern veginn of hægt hjá mér eða á afturfótunum í sumum tilvikum, nema kannski Afríka sem færist nær með hverjum deginum.
No comments:
Post a Comment