Wednesday, March 25, 2020

Heimavinna í covid 19


Það er ýmist talað um skrýtna tíma og fordómalausa tíma [spurning hvort þetta hafi átt að vera fordæmalausir tímar sem er það sem hefði átt að vera talað um en margir rugluðu með að þetta væru fordómalausir tímar - sem þeir vonandi eru líka :-)]. Líklega eru þeir hvort tveggja. Núna er ég að bögglast við það að halda fókus við að vinna heima og búinn að gera meira og minna í líklega heila viku. Var eitthvað á á vinnustaðnum í síðustu viku en afskaplega lítið í þessari viku.

Líklega má ég heita heppinn. Það er ekki margt sem er að trufla mig í heimavinnunni nema stundum kannski gól hundsins á neðri hæðinni og svo ef krakkaskaranum í leikskólanum á móti er hleypt út. En þau á neðri hæðinni eru sjálf eitthvað að vinna heima og þá hundurinn hinn rólegasti og líklega eitthvað minna að gerast í leikskólanum en venjulega. Aðal vandamálið hjá mér er þá að halda fókus.

Í framhaldi af síðustu færslu um spár um útbreiðslu þá kom fram það sem var alveg augljóst að spáin um 2000 smitaða í lok maí gat engan veginn staðist. Eitthvað hærri spár er núna verið að gefa út en ég er samt nokkuð viss um að þeir spekingar eru með frekar veikan grunn til að gefa út spá. Það eina sem við getum huggað okkur við er að á íslandi geta ekki margar milljónir smitast eins og á væntanlega eftir að gerast í fjölmennari ríkjum - ef það er ekki þegar komið í einhverjar þannig tölur. Síðan er líka breyta í þessu að hver og einn sem smitast er varla smitaður nema í eitthvað rúmlega tvær vikur þannig að ef margir smitast þá gengur þetta hratt yfir - en með miklum afleiðingum ef heilbrigðiskerfið ræður ekki við ástandið.

Var sæmilegur í gær og verðlaunaði sjálfan mig svo með hjólatúr í Elliðaárdal á honum Órangtútan. Það má játast að ég er að verða ágætlega sáttur við hann. Hann stóð sig a.m.k. afar vel í gær!

Friday, March 20, 2020

Það geisar farsótt

Smit til hádegis 20 mars 2020 skv. covid.is

Ég ætla mér ekki að vera að mála skrattann á vegginn en ég verð að játa að ég skil ekki alveg hvernig fróðir aðilar gátu gefið út spá í gær að í lok maí, eftir um 70 daga væru eitthvað á bilinu 1000 til 2000 búnir að smitast.

Fyrir hálfum mánuði þá voru Danir með færri greinda en við á Íslandi, þ.e. færri einstaklinga. Það sagði mér að smitaða skíðafólkið í Danmörku væri bara út um allt hjá þeim enda þurftu þeir að bregðast mjög hart við sem þeir gerðu fyrir viku síðan þegar kúrfan þeirra hljóp upp. Núna er okkar kúrfa að hlaupa upp og ég skil ekki hvernig er hægt að fá út þessari þróun að það verði ekki meira en 2000 Íslenindingar komnir með smit í lok maí.