Sunday, December 05, 2004

Fór í dótabúð og eldaði kjúkling

Þetta tvennt tengist reyndar ekki nema óbeint.

En dótabúð er auðvitað búð sem selur útivistardót. Helst eitthvað rosalega dýrt. Það er nefnilega búið að skýra það út fyrir mér að maður þurfi eitthvað af dóti til að komast upp á Kilimanjaro fjallið. Í gærkvöldi dró ég brójann með mér (hann var reyndar ekki mjög þungur í drætti) í 66°N þar sem við versluðum okkur hnausþykkar dúnúlpur. Mig vantar annars almennt ekki mikið af búnaði fyrir þessa ferð. Það eru helst regnbrækurnar mínar frá Cintamani (eða hlíðarbuxurnar svo ég noti virðulegra orð) sem þarfnast einhverrar endurnýjunar því þrátt fyrir að þær buxur eigi að vera hinar bestu í heimi þá mígleka þær hjá mér. Annar læddist einhvern tíman að mér sá grunur að sólarljós hafi skemmilagt þær en geymslan á þeim hjá mér er ekki alveg til fyrirmyndar. En ef ekki þá eru þær bara drasl. En í öllu falli. Núna á ég hnausþykka fagurbláa dúnúlpu í stærð XL.

Þeir í 66°N eru annars ágætir. Buðu okkur herjarinnar afslátt af öllu sem við vildum kaupa af þeim fyrir ferðina. Enda varð afslátturinn að vera mjög ríflegur þar sem þeir voru á sama tíma að auglýsa 20% afslátt á öllu flísdóti í búðinni fram að jólum! Afslátturinn sem við stórkaupendur fáum er ekki mikið meiri en það (en sumir eru að kaupa dót fyrir einhverja hundraðþúsundkalla sýnist mér vegna ferðarinnar, þannig að það er eftir einhverju að slægjast hjá þeim sem reka dótabúðirnar).

Nú til að halda uppá úlpurnar þá bauð ég brójanum upp á kjúkling. Hann kjúllin sko) varð auðvitað ógisslega góður fyrir utan að brójinn kvartaði yfir kjúllinn sjálfur hefði verið skorinn hvílíkt við nögl að þetta hefði nú bara verið grænmetisréttur -- Þetta var þá bara góður grænmetisréttur hjá mér.

Núna um helgina stóð síðan til að fara á Fimmvörðuháls til undirbúnings Kilimanjaró ferðinni en það var blásið af fram að næstu helgi vegna óhagstæðrar veðurspár. Reyndar varð veðrið ekkert svo voðalegt en ég er samt hálf feginn að hafa ekki farið núna. Búinn að vera þreyttur um helgina og kvefið ekki farið alveg úr mér ennþá. Og veðrið hefði í raun alltaf verið skítaveður þó það hafi kannski ekki orðið neitt mannskaðaveður úr þessu.

Verð annars að fara að haska mér út að hlaupa eða eitthvað. Maður æfist ekki mikið fyrir Kilimanjaró gönguferð liggjandi uppi í rúmi með tölvuna á bumbunni, nartandi í mandarínur og súkkulaði. Ja fyrir utan það að ég lenti í raunverulegum lífsháska þegar ég fékk mér mandarínuna. Fór í ískápinn í mínu mesta sakleysi en hann býr yfir trékassa fullum af mandarínum - eða svona hálffullum núna. Var þá ekki ein mandarínan kominin í stríðsbúning. Búin að gera sig græna og alla frekar mjög krumpaða í framan. Yggldi sig á mig og gaf mér skelk í bringu. Ég vígbjóst hið snarasta og var kominn með gaffal að vopni og réðist til atlögu við hana. Náðist megnið af henni af botni kassans í annarri eða þriðju atrennu. Var verkið svo fullkomnað með sápu, uppþvottabursta og sjóiðheitu vatni en án þess hefðu leifar þeirrar grænu ekki náðst úr mandarínu kassanum.

En best að fara að koma sér á lappir. Þarf að vinna smá, finna eldhúsið aftur eftir átökin við kjúklinginn í gær og mandarínuna núna áðan. Síðan var ég að fatta að það er kominn desember og líklega á maður að fara að hengja upp einhver jólaljós.

No comments: