Sunday, October 31, 2004

Félagsmálaráðherra og íslenskt þrælahald

Ég var að heyra áðan í fréttunum að félagsmálaráðherrann okkar væri búinn að átta sig á að það væri eitthvað skrýtið við það hvernig útlendingar geta fengið að búa á Íslandi. Þeir þurfa nefnilega tvö leyfi. Fyrir það fyrsta þá þurfa þeir dvalarleyfi en það geta þeir ekki fengið nema þeir geti sýnt fram á hvernig þeir komi til með að framfleyta sér á Íslandi. Að framfleyta sér þýðir að hafa vinnu og til þess þarf útlendingurinn að hafa atvinnu. Það ætti nú að vera hægt að bjarga því einhvern veginn útlendingurinn þarf bara að finna eitthvað fyrirtæki sem vantar mannskap. Já en til að það sé hægt að ráð hann þá þarf hann atvinnuleyfi. Allt í lagi, fá sér bara atvinnuleyfi en þá þarf hins vegar dvalarleyfi.

Já krullótti félagsmálaráðherrann okkar er búinn að átta sig á að þetta er eitthvað skrýtið. Hann meira að segja skilur ekki almennilegra hvernig nokkur einasti útlendingur hefur getað komist í gegnum þessi ósköp.

Annars kom hann mér enn meira á óvart þegar hann fór að setja spurningamerki við að það væru fyrirtækin sem sæktu um atvinnuleyfið og fengju það fyrir útlendinginn en ekki þannig að útlendingurinn fengi atvinnuleyfið og færi svo og fengi vinnu á þeim grundvelli. Það fer að læðast að mér sá grunur að hann sé á leiðinni að fara að afnema það sem mér hefur alltaf fundist bera leiðinlegan keim af þrælahaldi.

No comments: