Sunday, November 30, 2003

Æfintýralandið uppi í Heiðmörk - Norðurljósabíó og allt
Lufsaðist loksins á skíði upp í Heiðmörk og ég sver það að Heiðmörkin hefur engu gleymt frá í fyrra. Ég er reyndar ekki frá því að trén hafi bætt við sig svona eins og 20 sentimetrum hvert fyrir sig. Það var snjór út um allt og búið að kveikja á tunglinu sem lýsti útum allt. Það var verið að sýna spennumynd í norðurljósabíóinu með alveg svaka flottum bardagatriðum sem náðu yfir allan himininn. Matrix má sko fara að vara sig! Og þarna var hver stórstjarnan á eftir annarri. Sumar voru í Kassíópeu en aðrar óku um í Karlsvagninum. Pólstjarnar var auðvitað á toppnum á þessu öllu saman!

Fyrir þá sem hafa aldrei farið upp í Heiðmörk yfir höfuð þá er um að gera að drífa sig. Og ekki síður fyrir þá sem hafa bara komið þangað við svona venjulegar grænar sumaraðstæður. Vetur í Heiðmörk er eitthvað það flottasta sem hefur sést! Það er ekkert skilyrði að vera á skíðum en það hjálpar samt aðeins. Af öðrum búnaði er mælt með námumannaljósi á hausinn á sér en það er ekkert skilyrði sérstaklega ekki ef maður er bara að labba!
Loxins horfði ég á The Matrix
Einhvern tíman fattaði ég að skortur minn matrixmyndaglápi væri alvarleg vandamál. Eftir að hafa sníkt myndir 1 og 2 á DVD frá Kristjáni hennar Ralldiggnar þá var glápt á herlegheitin um helgina. Já liggjandi undir teppi glápandi á Matrix, hvað getur verið betra. Jú gera eitthvað annað undir teppinu hahahaha.

En þessar myndir. Jú þær eru ágætar og hugmyndafræðin á bakvið þær ágæt en ég verð nú samt eiginlega að játa það að ef ég hefð verið að gera þessar myndir þá hefði ég látið eina mynd duga og stytt þessar hálftímalöngu bardaga og kappaksurssenur niður í svona tveggja mínútna búta. Það er hálf þreytandi að horfa tímunum saman á bíla fljúga í loftköstum á einhverri hraðbraut eða fólk svífa um loftinu, verða að vaxi, áli og holdi til skiptis, beygja sig frá byssukúlum og fljúga milli háhýsa eða landshluta ef svo ber undir. Kostur að þetta DVD dót er með góða hraðspilun. Þess utan hin besta skemmtun.

Skondið að horfa á myndirnar hvora á eftir annarri og sjá að í fyrr þýðingunni var Matrix þýtt sem Draumheimur minir mig en í þeirri seinni sem Fylkið. Sá ekki hvort Halli vinur minn þýddi aðra hvora en varla þá síðari því sá sem þýddi Matrix sem Fylki hlýtur að hafa farið í linulega algebru aðeins of oft!
Gleði, sem breytist reyndar stundum í ógleði
Well, jólagleði vinnunar minnar loksins afstaðin. Eftirköstin dagin eftir afstaðin - nei það voru ekki þannig u..köst heldur bara svona smá slappur fram undir hádegi, sem varð reyndar ekki fyrr en um kvöld enda á hverju er von þegar maður skrönglast ekki heim fyrr en undir morgun.

Síðan alveg ótrúlea fyndið. Það spurðist nefnilega út á fimmtudaginn að þetta yrði að nær áfengislaus kemmtun með bara einum vesælum bjór á mann (með vesælum bjór er átt við dvergabjór eins og var notaður einu sinni til að kveðja Jón Frey en hefur ekki verið notaður síðan nema allir hafi verið á bíl). Þannig að á fimmtudaginn var leitað í öllum fjárhirslum starfsmannafélagsins og loks fannst péningur fyrir alveg tveimur stórum bjórum fyrir hvern og einn. Síðan bættist við tveggja bjóra skammtur frá fyrirtækinu og þá virtist þetta nú ástandið ætla að verða skemmtanahæft.

Enda var það þannig þegar ég kom á vinnustaðinn rétt fyrir kl. 5 á föstudeginum þá var allt fljótandi í bjór og allir í óða önn að fylla alla vasa af guðaveigunum. Og enda eins gott að hafa einhverja ballest því farartæið var gulur tveggja dyra spotbíll í eigu borgarstjórans, með öðrum orðum dödó (ókei Stína, dædó ef þú vilt frekar hafa það þannig). Annars var nú næstum því mest gaman í strætónum a.m.k. ekki hvað síst. Enda ekki von á góðu þegar ég og Gunnsi tökum það að okkur að láta eins og fífl eftir tvo bjóra!

Skemmtunin var fín fyrir utan það að maturinn var bæði frekar smátt útilátinn á litlum kökudiskum og ekkert sérstaklega góður. En með útsjónarsemi þá tókst mér nú samt að fá svona aðeins í minn svanga maga. Skemmtiatriðin voru fín og sérstaklega fólij´lagjöfin sem ég fékk, takk Lísa ég er búinn að vera í byssuleik alla helgina til að æfa mig fyrir mánudaginn.

Og ætli maður hafi síðan ekki farið á pöbb á eftir. Þó þetta hafi verið í Hafnarfirði þá fórum við samt á næsta bar. Sem reyndar var auðvitað ekki næstur heldur einna lengst í burtu en það var að minnsta kosti hægt að ganga heim þaðan. Og síðan fannst mér reyndar líka að það hefði mátt kalla barinn hinsegin bar þar sem ég virtist á tímabili vera kominn í alvarlegan minnihluta. Það stafaði reyndar kannski af því hvaða fólki ég kom með á barinn. En þetta var bara gaman og ágætur félagsskapur. Og einhvern tíman undir morgun þá rölti ég heim á leið og ekki orð um það meir :-( eða :-) eða 8-) eða bara eitthvað.....

Wednesday, November 26, 2003

Vottamisteikameika
Hvað ég sé djövulins (sorry) eftir að hafa ekki bara puðrað mér á skíði núna áðan með systurinni sem reyndi að draga mig með sér en fór að lokum bara ein. Ég sitjandi heima eins og auli að þykjast vera að vinna eitthvað og geri síðan auðvitað eiginlega ekki baun. Nei þessu kvöldi var ekki vel varið!
Mæli með BMW prófinu enda klikkar Ingimar aldrei


BMW E30 325i

http://www.pjus.is/iar/bilar/bmwquiz/


Já, takk, bæði Stína og Ingimar (ef þú villist inn á bloggið mitt sem ég hef þig reyndar grunaðan um...)

Mig hefði nú reyndar meira langað til að fá Bimmann sem hann Ingimar er á sjálfur!

Tuesday, November 25, 2003

Og sknjór
Það varð reyndar ekkert úr skíðaferðinni en ég staðinn þá ímyndaði ég mér bara að ég væri að fara á skíði. Fór í Loppeysu og ullarsokka og út að labba í sknjóum. Nokkuð týpískur ég en reyndar þá guggnaði ég á því að fara að gera engla. Hefði átt það á hættu að vera stungið inn ef ég hefði laggst í snjóinn einn míns liðs baðandi út öllum öngum. Lítur alltaf einhvern veginn út fyrir að vera minna rugglað eða aðeins öðruvísi ef maður er með eikkurum að fíflast.

Það fer síðan kannski að koma að því að maður skrúfi nögladekkin undir hjólið. Gæti orðið nokkuð hált þegar snjórinn bráðnar. Og það er nú fátt skemmtlegra en að hálkuhjóla.
Það er nú fátt frábærara en snjór
Hvað er nú eiginlega frábærara en það að þurfa að paufast í hálkunni út á næstu bensínstöð til þess að kaupa sér torfærusköfu þannig að maður geti brotist í gegnum klakabrynjuna utan á blílnum. Nema kannski það að sitja heima yfir sjónvarpinu og vera að hugsa um það hvort ekki sé ráð að bregða sér á skíði og skoða hvort hringurinn í Heiðmörkinni sé orðinn skrönglfær og vera þá truflaður með dyrabjöllunni þar sem pósturinn er kominn með bókastaflann frá Lonely Planet sem maður pantaði sér á Amazon. Kannski ætti ég að drífa mig á skíðin og taka bókarskruddurnar með og láta mig dreyma í kuldanum í Heiðmörkinni um hitann í henni Afríku.

Monday, November 24, 2003

Afskaplega er pólitískt þras pínlega leiðinlegt
Hroðalegt grín er þetta að heyra í Kastljósinu Lúðvík og Jón Steinar þrátta um það sem Davíð sagði og gerði. Ég held að það sé sama hvað Davíð gerir vonda eða kjánalega hluti, Jón Steinar getur varið þá endalaust og út í eitt og haldið hverja ræðuna á fætur annarri um hvað Davíð gangi gott eitt til. Alveg á sama hátt og Lúðvík og aðrir munu alltaf gagnrýna allt sem sami Davíð gerir alveg sama hvað það er gott. Þetta er svona kjánaleg svart og hvítt umræða sem gerir eiginlega alla sem að henni koma að óttalegum kjánum. Að minnsa kosti er ekki nokkur leið að taka nokkurt einasta mark á þeim.

Heyrði annars fyndnustu frétt sem ég hef heyrt lengi. Það var verið að segja frá fundi Olís með samkeppnisráði sem kallaðist svona "not meeting" sem átti að fela það í sér að ekkert mátti skrifa niður um fundinn. Nú þessi óskjalfesti fundur var haldinn fyrir hálfu ári eða fyrir eitthvað enn lengri tíma. Og í fréttinni var eiginlega fundargerðin óskjalfesta lesin upp lið fyrir lið. Að minnsta kosti gat sá sem las fréttina lesið af einhverjum blöðum allt sem þarna hafði gerst á fundinum sem var svo leynilegur að hann fór aldrei fram á Grand Hótel minnir mig að það hafi verið.

Sunday, November 23, 2003

Úti á lífinu
Ekki var nú síðasta blogg langt, enda var það bloggað um miðja nótt og maður á ekki að vera að blogga um miðjar nætur og þá allra síst ef maður er búinn að vera að barast hálfa nóttina. Og ég ætla nú ekki að fara að gera eitthvað langlokublogg um hvar hver var að hitta hvern alla nóttina enda hafa slík blogg aldrei verið í neinu uppáhaldi hjá mér. Enda hitti ég yfirleitt aldrei neinn þegar ég fer eitthvað svona út. Og þetta var svo sem engin undantekning. Skil þetta yfirleitt aldrei alveg að það er yfirleitt eins og allir hinir þekki alla allst staðar en ég þekki ekki neinn.

Reyndar hitti ég eitthvað fólk sem þekkti mig en ég þekkti ekki. Kemur ekki til af góðu en ég hef einhvern tíman haldið því fram að ég ætti að fá örorkubætur út af ómanngleggni minni. En ég þekkti samt suma sem ég hitti og mér tókst meirasegja að dansa skmá við sætustu stelpuna á svæðinu en svo bara hvarf hún eða kannski hvarf bara ég. Eða við hurfum að minnsta kosti hvort öðru.

En það var bara ágætt úti á lífinu og þökk sé Stebba fyrir að hafa líka verið að láta sér leiðast á laugardagskvöldi en ég var eitthvað hálf syfjaður fram yfir hádegið í dag.
Stjöggnuryk

Friday, November 21, 2003

Tökum öll ofan fyrir Dabba digra, ríka vini litlamannsins
Ég veit nú ekki alveg hvað mér finnst. Auðvitað er út í hött að einhverjir menn sem hafa atvinnu af því að passa peningana okkar fái einhverjar skrilljónir í bónus fyrir það að græða á okkur.

En mér finnst líka dálítið út í hött að sá sem flestu ræður og flestir kjósa sleppi sér algjörlega þegar hann áttar sig á því að einkavæðingin hans þýðir það að hann ráði ekki lengur yfir öllu. Og ég er ekkert rosalega glaður ef það hefur þær afleiðingar í för með sér öll hlutabréfin mín í þessum glæpóbanka þarna fari að snarlækka í verði. Ég á nefnilega alveg stóra summu þarna af hlutabréfum síðan ég skráði mig á einhverri vefsíðu fyrir lagngalöngu um að ég vildi fá að kaupa einhvern slatta af Búnaðarbankanum þegar hann var einkavæddur upphaflega. Var reyndar eiginlega búinn að steingleyma þessum hlutabréfum alveg þangað til ég sá mér til mikillar ánægju í einkabankanum mínum að ég á heilar 150 þúsund krónur eða svo af hlutabréfum í einhverju sem heitir því undarlega nafni "Kaupþing-Banki". Ég held að minnsta kosti að það sé þessi banki sem stórgrósserarnir eru að stjórna og ég eignaðist örsmæðarögn í þarna um árið þegar almenningur gat keypt banka á netinu.

En það sem er hallærislegast af öllu er þegar stórgróssérarnir sem stjórna glæpóbankanum koma og segja að þetta sé allt einhver misskilningur. Þeir eigi ekkert eftir að fá þessa peninga. Þetta sé bara það sem væri hægt að selja hlutabréfin á nákvæmlega núna. Eftir fimm ár þegar þeir mega selja verði staðan allt önnur og eiginlega gaf blessaður maðurinn það í skyn að þetta yrði hálf verðlaust þá. Einfaldari skilaboð hef ég ekki fengið lengi [amk. voru SMS skilaboðin sem ég var rétt í þessu að fá ekki einfaldari]: Ég á að selja þessa hlutabréfaræla mína strax á mánudaginn þannig að þeir verði ekki verðlausir með þessum 700 millum sem grósserarnir eru með!

En ég verð samt að segja að þetta er nú samt með því flottara sem forsætisráðherrann okkar hefur gert nokkuð lengi. Sýnir að minnsta kosti að hann er ekki dauður úr öllum æðum.

SMS skilaboðin sem ég fékk annars voru: LEO. KVEIKTI UTI.LJ EN SLÖKKTI I STOFU. ÉG KVEIKTI AFTUR. EKKI BORÐA YFIR TIG? EG GET EKKI VIDRAD TIGMEIRA! KV. TIN VINK.

Torkennilegri skilaboð hef ég aldrei fengið. Þar sem ég er með númerabirti á SMS eins og líklega allir aðrir þá sá ég að þetta var einhver kona frá Hveragerði sem ég þekki hvorki haus né sporð á. Það sem mér líst samt eiginlega verst á er þetta með að fara út að viðra einhvern og einhver sem heitir Leó. Ætli það séu einhver ljón á vappi í Hveragerði eða hvað??? Og ekki skánar þetta nú þegar maður hugsar um hvað ljónið sé hugsanlega að borða yfir sig af!

Wednesday, November 19, 2003

Þetta var of fyndið
Takk Jakobína fyrir að lát mig hlæja úr mér líftóruna! GRÍN

Monday, November 17, 2003

Mánudagur til matar
Skv. hefðinni bauð ég fjölskyldunni í mat enda fátt annað skemmtilegt hægt að gera á mánudegi. Bjótt var uppá:


Keralakjúklingur í karrí sem átti reyndar upphaflega að vera einhver fiskur
- Mér er sagt að þetta sé ættað frá Indlandi...

2-3 msk taramind mauk, Fæst í Hagkaup með all skonar drasli en ég hef ekki fundið neitt annað
2 msk Túrmerik
1 msk Kummin
1/2 tsk kardimommurduft
1 msk pimiento (allra handa)
2 stk Chilipipar (ég tek fræin úr)
2 þokkalega stórar paprikur
2 þokkalega stórir laukar
200 g frosnar grænar baunir
400 ml Kókosmjólk
2 teningar Kjúklingakraftur í smá vökva
hálfur hvítlaukur
þumalputti af ferskum engifer / ææææææææ ég gleymdio honum víst!!
Olía til að steikja í eftir smekk
Salt svona til að þykjast
Nokkrar kjúklingabringur, eftir því hvað margir eru í mat.

Bringurnar skorna í svona úmlega 2x1 cm bita.

Steiktar á pönnu (eða í pottinum sem þetta endar allt í) og kryddaði með ???
Paprikan og laukurinn (þessi þokkalega stóri, ekki hvítlaukurinn) sömuleiðis.
Hvítlaukurinn hakkaður í hvítlaukspressu
Engiferið saxað smátt eða rifið í tætlur
(NB þeir sem ekki hafa eldað áður úr engifer þá er óþarfi að gera eins og ég þegar ég notaði engifer í fyrsta skipti, það er til siðs að skera börkinn utanaf!

Vökvanum og öllu kryddinu bætt útí og þá þarf þetta væntanlega að vera komið í pott ef ósköpin byrju á pönnu

Bætt við vatni ef ástæða þykir til þangað til þetta verður mátulega blautt/þurrt

Borðað með hrísgrjónum og hugsanlega brauði. Örugglega ágætt að hafa eitthvað grænmetisdót með líka.



Jájá, þetta var ágætt held ég. Enginn fékk neitt mikið í magann eða neit!

Sunday, November 16, 2003

hmmmmmm - popplag í G-moll
HASH(0x87b74e4)
G# minor - You are not totally happy, and you know
it. At least you are trying to do something
about it. You like to think and create to try
and sort out your problems. Keep going the way
you are, and you will soon be on speaking terms
with your demons.


what key signature are you?
brought to you by Quizilla
Afríka og ný tölva
Það verður líklegast að segjast alveg eins og er að yfirleitt er ég frekar gjarn á að taka dellur. Ósköpin hófust fyrir svona þremu vikum þegar einum vinnufélaganum (eða reyndar tveimur) datt í hug að reyna að gera alvöru úr því að dragnast upp á hæsta fjall Afríki. Reyndar kenni ég of miklum bjórdrukk um vitleysuna en hún hefur nálgast það örlítið að verða að alvöru.

Til að auka enn á áhugann kom Skúli Haukur Fjallavinur með stóru Effi til okkar og hélt fyrirlestur um Afríkuferð Kára. Við fyrirlesturin óx áhuginn hjá sumum en minnkaði hjá öðrum. Minn breyttist svo sem ekkert mikið enda hafði ég séð þetta allt áður. Það sem truflaði mig reyndar mest voru undarlegar hugmyndir aðalskipuleggjarans um að láta blóðskyldleika ráða því hverjir mættu fara með í ferðina. Sé ekki alveg hvað það kemur málinu við hvernig einhver er skyldur einhverjum. Ég er ekkert vanur að velja frændur og frænkur til að fara á fjöll heldur bara almennilegt fólk.

Síðan gerðist það stóralvarlega í síðustu viku að ég fór á fyrirlestur um það sem Fjallaleiðsögumenn hyggjast gera í Afríku á næstu misserum og síðan hef ég eiginlega verið sjúkur. Legið á netinu til að finna einhverjar miðlungsódýrar ferðir til Afríku. Skoðað hvað er til að túrhestabókum um ferðir til Afríku og er að fara að ganga frá feitri pöntun til Amazon. En leiðin liggur sem sagt núna til Afríku og þá helst til Norður-Afríki þar sem risamenni í miðaldakuflum flakka um eyðmerkur með úlfalda í eftirdragi.

Sýnist reyndar að forsendan fyrir því að komast klakklaust af þarna í Afríku sem mig langar að fara sé að kunna dálítið fyrir sér í Frakknesku. Sem reyndar minnir mig á það af hverju ég valdi það tungumál þegar ég fór í FB á sínum tíma. Var bara alveg búinn að gleyma því. En þannig að ef þú kannt eitthvað sæmilegt fyrir þér í frakknesku, hræðist hvorki mig, úlfalda né aðrar óvæntar uppákomur þá er hér með auglýst eftir ferðafélaga til Afríku!

Síðan er þetta reyndar tímamótablogg því það er gert með splunknýrri fartölvu. Enda kominn tími til að fá einhverja uppfærslu á gamla fýsibelginn sem ég var með og gerði yfirleitt ekkert annað en að blása lofti fram og til baka. Það væri kannski hægt að koma gmlu tölvunni í verð sem ryksugu! Ef það er síðan eitthvað af undarlegum stafsetningarvillum í þessu bloggi þá er það bara út af því að ég er ekki ennþá búinn að venjast þessu lyklaborði. Síðan er líka hægt að stilla á svo mikla upplausn á skjánum að það jaðrar við að ég verði lofthræddur við það eitt að horfa á hann!

Wednesday, November 12, 2003

Stundum hefur maður engan tíma til að blogga
En dettur samt eitthvað snjallt í hug.

Það var um daginn þegar ég var að rúnta niður Laugaveginn og sá strætó keyra Lækjargötuna með þennan líka hroðalega reykjarstrór upp úr þakinu. Vá hugsaði ég, ætli það sé kviknað í honum eða hvað eða með úrbrædda vél. Mér finnst nú að strætó ætti að farar að taka eitthvað aðeins til í umhverfismálunum hjá sér. Rétt í þann mun þegar strætóinn var að hverfa úr augsýn í þessum ægilega reykjarmekki þá sá ég að það var eitthvað drasl uppi á þakinu á honum. Var þetta þá ekki mættur á svæðið umhverfisvænsti strætó í heimi, þessi vetnsiknúni og þessi ægilegi reykjarmökkur bara saklaus vantsgufa!

Saklaus?
Vatnsgufa?

Loksins skildi ég hvernig stóð á allri þessari voðalegu rigningu. Það var auðvitað þessi hroðalegi skýspúandi strætó sem bjó til alla þessa hroðalegu rigningu sem helltist yfir höfuðborgarbúa þennan dag.

Nei ég veit þetta er ekkert sniðugt á blogginu lengur þar sem það er löngu hætt að rigna ég mátti bara til!

Þarf svo að bæta við sem enginn trúir:


My life is rated R.
What is your life rated?


Amk ekki ég!

Monday, November 10, 2003

Latur bloggari en samt ekkert svo latur held ég
Búinn að vera ferlega latur að blogga og kemur svo sem ekkert til af góðu. Allt of mikið að gera á öllum vígstöðvum og því miður eru allir vígvellirnir eitthvað vinnutengdir. Var svo ofboðslega gáfaður að taka að mé kennslu hjá Endurmenntun, 40 klst námskeið sem hefst á hinn daginn. Ætlaði að undirbúa það alveg ofboðslega vel í sumarfríinu mínu. Finna góða kennslbók og hvaðeina. En það var einhvern veginn allt of mikið að gera við að stússa í hinu og þessu í sumar þannig að það varð eitthvað minna úr því en efni stóðu til. Er þess vegna búinn að sitja með sveittann skallann við að finna eitthvað gáfulegt og held bara að það hljóti að takast.

En með öðrum orðum þá hef ég haft allt of mikið að gera við eitthvað sem er ekkert skemmtilegt að blogga um en tókst samt að hafa ágætan mánudag til matar núna í kvöld, þriðja kvöldið í röð. Kannski tekst mér að gera þetta að endanlegum vana. Yrði a.m.k. gaman. Ef einhver vill komast í mat hjá mér þá er sko helst að treysta á mánuagana! Núna var eldað Lasagna eftir þessari uppskrift hér, sem varð einhvernveginn svona í mínum meðförum:

Grænmetislasagna
Olívuolía
2 stk laukar (miðlungi stórir)
1 stk eggaldin (í stærri kantinum)
2 stk paprikur (í stærri kantinum)
4 stk tómatar (miðlungs)
2 stk risasveppir, þessir brúnu sem ég man ekki hvað heita en eru rosalega góðir
hálfur hvítlaukur (það eru alvarleg mistök í matargerð að telja hvítlaukinn endalaust í rifjum)
1 rauður chili pipar án fræanna
1 stk dós niðursoðnir tómatar
1 stk dós tómatpurre (svona frekar litlar dósir)
1 msk oregon og svo aðeins meira líka
1 msk basil
1 msk Creola kryddblanda
1 msk Cumin
Slatti af paprikukryddi
Ristaðar furuhnetur
Soyasósa, Blue Dragon
Slatti af grænmetissalti (svona til að sýnast)
2 stórar dósir af kotasæla
250 g ostur
9 lasagna plötur

Allt grænmetið og kryddið steikt á pönnu. Soyasósan líka en kannski ekki paprikuduftið.
Sveppirnir steiktir sér.
Steikt þangað til þetta verður sæmilega lint.

Tekið eldfast mót og það er sett í þessari röð:
Lasagna plötur yfir botninn
Grænmetisjukk
Kotasæla
Ostur
Lasagna
Sveppir
Grænmetisjukk
Kotasæla
Ostur
Lasagna
Grænmetisjukk
Furuhnetur
Ostur

Síðan er stráð meira oregano yfir og góðum slurk af paprikudufti. Ef vill má gusa smá meiri soyasósu yfir. Og loks bakað í 30-40 mín við 180 gráður.

Atthugið einnig að allar stærðir í þessari uppskrift skulu ætíð skoðast eftir smekk hvrju sinni. Og það má líka alveg nota eitthvað annað sem er til í ískápnum ef það er eitthvað til ... í skápnum ... úti í glugga ... eitthvað hlýtur að vera til! [gáta: úr hvaða leikriti er þetta? Reyndar man ég það ekki en það var samt frábært. Og þó ég muni það ekki þá er ekkert að marka það því ég man aldrei hvað leikrit heita. En er sáttur ef ég man eftir að hafa séð þau. Og þetta var eitt af þessum góðu - það man ég þó]


En eins og einhvern tímann var sungið í vísunni um hestinn að "það var sem mér þótti verst að þurfað étaða hrá-átt". Samt var það bara ágætt

Og PS
Ragga, ef þú lest þetta, þá varð mér nú hugsað til þín og Þórhildar. Þín þegar ég var að berjast við að elda þetta og Þórhildar þegar við vorum að borða þetta!

og PSS
Ef einhver sér uppskriftina á síðunnu minni og reynir að elda hana þá er algjörlega nauðsynlegt að setja inn athugasemd um hvernig til tókst!

Friday, November 07, 2003

Morgunlesandi óskast
Það ótrúlega gerist. Ég á örugglega eftir að sakna DV. Get reyndar bara sjálfum mér um kennt. Hef ekki keypt blaðið í svona 15 ár. Næstum ekki síðan það hét Dagblaðið og var í samkeppni við Vísi (að dagblaði). Ég geri fastlega ráð fyrir að blaðið hafi farið á hausinn af því að ég keypti það aldrei.

Annars sakna ég kannski ekki efnisins en mér finnst bara að það eigi að koma út eitthvað síðdegisblað á Íslandi. Og rökin hjá gaukunum sem keyptu blaðið voru alveg frábær. Heyrði þetta í Kastljósi held ég.

Þetta voru tvær svona samverkandi ástæður og hvor annarri gáfulegri fannst mér. Aðalástæðan var sú að fólk væri svo mikið að flýta sér heim eftir vinnu að það kæmi yfirleitt hvergi við og gæti þess vegna ekkert verið að kaupa síðdegisblað. Hann benti á að maður fer ekki nema svona tvisvar til þrisvar sinnum í stórmarkað eða aðra verslun í hverri viku og því gengur þeim ekkert að ná til lesenda með að vera að selja síðdegisblað í lausasölu. Jájá mjög gáfulegt því þetta er alveg rétt. Ég t.d. fer ekki nema svona annan hvern dag í verslun um eftirmiðdaginn og þá oftast eftir vinnu en hins vegar verð ég að játa það að ég fer aldrei út í búð til að kaupa í matinn eða eitthvað áður en ég fer í vinnuna. Ætla mennirnir virkilega að fara að selja blaðið í lausasölu á morgnanna? Sumir lifa í eitthvað öðrum veruleika en ég. Get ekki ímyndað mér að lausasalan gangi vel milli 7 og 9 á morgnana!

Hin rökin voru miklu betri. Það vita nefnilega allir að það les enginn blöð á kvöldin heldur bara á morgnanna og það er ekki hægt að leggja á nokkurn mann að vera áskrifandi að blaði sem er dreift rétt áður en maður kemur heim úr vinnunni. Þeir sem myndu glepjast af því að gerast áskrifendur að slíkum blöðum þyrftu bara að klofa yfir fréttir dagsins áður en þeirr kæmust heim til sín og það vill auðvitað enginn. Jújú, það er kannski eitthvað misjafnt en ég held að ég hafi varla lesið dagblað snemma morguns síðan ég hætti að vinna sem blaðberi sjálfur. Og þegar ég kem heim til mín eftir vinnu þá þarf ég yfirleitt að klofa yfir alls konar gamlar fréttir frá deginum áður. Má sko bara þakka fyrir að þurfa ekki að vera að klöngrast yfir nýjar fréttir. Þær gætu komið mér gjörsamlega að óvörum og svei mér ef ég gæti þá ekki dottið á hausinn og meitt mig. Myndi líklega fara í mál við dónann sem sendi mér blaðið.

En hér með er auglýst eftir tveimur tegundum af fólki. Fólki sem vaknar svo snemma að það hefur tíma til að lesa dagblöð áður en það fer í vinnuna [ég veit reyndar að það eru einhverjir svoleiðis til]. Síðan auglýsi ég eftir hinni undarlegu manntegund sem fer út í búð eldsnemma morguns og kaupir dagblað svona í leiðinni. Og ef einhver getur sameinað báðar tegundirnar í einni persónu mun ég veita vegleg verðlaun! [blogg með mynd um viðkomandi á þessari bloggsíðu sem vonandi einhver les ennþá]

Sjálfur er ég búinn að flokka mig sem B mann. Mig langar til að fá blað sem fer ekki í prentun fyrr en eftir hádegið og er dreift heim til mín rétt áður en ég kem heim úr vinnunni, svona milli 5 og 6. Ég vil fá að upplifa það æfintýri að klofa yfir ferskar fréttir þegar ég kem heim til mín að afloknum vinnudegi. Vona að ég þurfi ekki að fá mér vaktavinnu til þess!
Final Score: -15

Ég meina, hver nennir að svar 350 spurningum um einhver eldgömul úrelt lög.
Sem er auk þess öll úkklensk. Gæti ég fengið að heyra eitthvað íslenskt???

Thursday, November 06, 2003

Davíð Attinborni
Það má svo sem segja að það sé auðvelt að vera vitur eftirá en hvernig í óskupunum datt einhverjum í hug að fá hingað heimsfrægan mann, láta hann flytja yfirmáta áhugaverðan fyrirlestur með ókeypis aðgangi en hafa bara pláss fyrri tvöhundruð manns. Láta síðan Endurmenntunarstofnun HÍ senda á alla sína kontaktlista sem telur örugglega stóran hluta íslendinga til að trekkja að. Ég hafði að minnsta kosti vit á því að fara ekki neitt. Enda hefði maður annað hvort þurft að fara fýluferð eða bíða í að minnsta kosti klukkutíma!

Af hverju var ekki pantað háskólabíó og þá bara selt inn svona fyrir því sem bíóið kostaði ef þetta var spurning um pening.

Ég dreg verulega í efa að fýluferðir séu góðar til að auglýsa bók eða eitthvað annað.

Og síðan sem þú ert örugglega að hugsa, hvað er jólasveinninn að fjasa þetta, heldur hann að það nenni einhver að lesa þetta????

Svar: Já þú nennir greiniliega að lesa þetta því annars værir þú ekki að því. Og af hverju? Það eru tvær ástæður. Sú fyrri er að ég varð allt í einu andlaus og sú seinni er að mig eiginlega langaði en nennti ekki að fara fýluferð!
Fólk í vanda

Þann 30. ágúst sl. lést á líknardeild Landspítalans Vesna Hofmann, 45 ára gömul, eftir 10 mánaða baráttu við krabbamein. Hún var einstæð móðir og lætur eftir sig tvö börn hér á landi, 12 ára dóttur og 21 árs son. Börnin eiga enga ættingja hér á landi, hafa að engu að hverfa í heimalandi sínu Króatíu og engan stuðning af sárafáum ættingjum sínum þar. Móðurforeldrar þeirra eru látnir og þau hafa hvorki samband við föðurforeldra sína né feður.

Systkinin eiga þá ósk heitasta að fá að vera saman og búa áfram á Íslandi. Í ráði er að drengurinn fái forræði yfir systur sinni og er það mál í vinnslu hjá barnaverndaryfirvöldum. Stofnaður hefur verið stuðningshópur systkinanna sem m.a. er ætlað að aðstoða þau við að halda heimili sínu, lítilli íbúð sem móðir þeirra hafði fest kaup á. Til þess að svo megi verða þarf að grynnka á skuldum sem óhjákvæmilega hlóðust upp meðan á veikindum og sjúkrahússvist móður þeirra stóð og létta þannig greiðslubyrðina.

Forsvarsmenn hópsins eru Þórður Geir Þorsteinsson rannsóknalögreglumaður, Hulda Lilliendahl starfsmaður í sjávarútvegsráðuneytinu og Tatjana Latinovic löggiltur skjalaþýðandi og starfsmaður Össurar hf.

Það væri systkinunum afar sárt að missa heimili sitt í ofanálag við þann óbætanlega missi sem þau þegar hafa orðið fyrir. Auk þess væri mikið tjón fyrir þau að þurfa að flytja úr íbúðinni þar sem þau myndu þá missa ómetanlegan stuðning sem þau hafa af fjölskyldu sem býr í sama húsi.

Til þess að aðstoða systkinin í þessum erfiðu aðstæðum hefur verið hafin fjársöfnun. Opnaður hefur verið reikningur í Búnaðarbankanum nr. 0301-13-250975, kt. 030458-5089. Ábyrgðarmaður sjóðsins er Hulda Lilliendahl.

Það er von stuðningshópsins að með söfnuninni takist að treysta öryggi systkinanna og undirstöður tilveru þeirra sem þau berjast nú svo mjög fyrir.

Tuesday, November 04, 2003

Nú dettur mér gamalt blogg í hug
Stutt og laggott:

Hundslappadrífa - jibbíííí !



Monday, November 03, 2003

Hvernig getur staðið á því að það sé svona kalt
Þegar það er bara tveggja gráðu frost.
Ég hefði getað dáið úr kulda í morgun held ég.
En ég elska hann samt... kuldann sko...

Sunday, November 02, 2003

Mér finnst þetta vera húmor
Fangelsisdómur þinn by asta
Nafn
Hvenær ertu handtekin(n)?April 8, 2043
Hvað færðu margra ára dóm?41
Hvaða glæp fremurðu?Mútar öndum í Tjörninni með ólívubrauði
Hvernig vegnar þér inni?Grætur sárt og sýgur þumal öll árin
Hvernig vegnar þér eftir afplánun?Atvinnuleysi er ekkert slor!
Created with quill18's MemeGen!

En það er svo sem ekkert að marka því mér finnast fáránlegustu hlutir fyndnir!
mánudagur til matar
Rakst á snilldarlegan pólskan málshátt þegar ég var að finna eitthvað til að hafa í matinn á mánudaginn:

Ef fiskur á að bragðast vel verður hann að synda þrisvar í, í vatni, í smjöri og í víni.

Reyndar vel ég nú reyndar yfirleitt einhverja dýrindisolíu frekar en smjörið sem getur samt verið ágætt. Þetta fann ég hins vegar á uppskriftir.is, alveg eins og þessa uppskrift sem ég er að hugsa um að bjóða uppá, gúllassúpa með beikoni. En á þessi ágæti uppskriftavefur rifjaðist upp fyrir mér þegar ég villtist inn á tenglasíðu einhvers fólks sem ég þekki ekki neitt en hefur líklega verið að lesa bloggið mitt eikkurntíman nýlega. There is someone out there I believe!

En annars, líklega verður eldamennskan á mánudaginn eitthvert sambland af þessu gúllasdóti með beikoni og þessu hérna frá Hagkaup. A.m.k. þá ætla ég að hafa seljurót í þessu frekar en kartöfflur og held líka að það verði að vera gúlrætur þarna með. En leist hins vegar vel á beikonið og að hafa cummin í þessu, algjör snilld. Verð bara svangur við tilhugsunina....

Saturday, November 01, 2003

Hinn íslenski óákveðni vindur
Stundum þegar veðrið er eins og núna þá verð ég dálítið undrandi á þessu fyrirbæri sem íslenskur vindur er. Skítkaldur náttúrlega enda náttúran söm við sig þegar það er kominn nóvember.

En ég læt það vera þó hann blási á móti mér þegar ég geng niður Laugaveginn ef hann myndi ekki alltaf blása líka á móti mér þegar ég geng aftur upp Laugaveginn.

Þetta getur varla verið eðlilegt háttalag hjá vindinum að ráðast alltaf á móti manni. Það sem er alundarlegast að fólk sem ég var að mæta það var að velta þessu sama fyrir sér, hvernig vindurinn færi að því að vera alltaf á móti manni. Þessi séríslenski vindur nær nefnilega að blása bæði upp og niður Laugaveginn á sama tíma.

Reyndar þá sá ég við blessuðum margátta vindinum neðarlega á Laugaveginum með því að bregða mér inn í verslun og kaupa mér bara húfu og trefil. Núna má vindurinn blása eins og honum sjálfum sýnist. Ég vef bara mínum trefli betur og meira um minn langa háls og hlæ upp í opið geðið á honum.

Þeir sem venja síðan komur sínar bara í Kringluna missa auðvitað af þessu stórmerkilega náttúrufyrirbæri sem tvíátta vinurinn á Laugaveginum er en kannski er þessi skeinuhætti vindur ástæðan fyrir því að allt er að drabbast niður í miðbænum og þá sérstaklega á Laugaveginum. Þeir sem hafa kynnt sér málið mest vita um ónotað verslunarhúsnæði við Laugaveginn í röðum. Þeir vita líka að verslun er þar orðin hverfandi, væntanlega út af því að þangað kemur ekki nokkur hræða lengur.

Sem ég síðan skil ekki almennilega því að núna þennan Laugardagseftirmiðdag þá var bíll við bíl allan Laugaveginn og gekk bílaumferðin hægar en hjá þeim gangandi, enda eins gott því það voru svo margir gangandi á Laugaveginum að gangstéttirnar dugðu varla til á köflum. Þeir sem voru stopp í bílunum sínum gátu síðan sér til dægrastyttingar fylgst með hundaskrúðgöngu sem marseraði upp og niður verslunargötuna og svo skrúfað niður rúðuna til að hlýða á lifandi tónlistarflutning sem var þarna að minnsta kosti á tveimur stöðum.

Nei eins og einhvern rennir í grun þá skil ég eiginlega ekki þessa umræðu um það að miðbærinn sé ömurlegur, ógeðslegur, hættulegur, leyðinlegur, ónýtur og svo framvegis. Mér finnst hann yfirleitt vera troðfullur af fólki sem kemur þangað til að sýna sig, sjá aðra og kaupa sér eitthvað lítilræði.