Wednesday, November 09, 2016

Polýönnuleikarnir þegar maður er á batavegi


Með annan fótinn á jörðinni...


Minn hægri fótur fór batnandi dag frá degi eftir að myndin hræðilega úr síðustu færslu var tekin. Reyndar er skurðurinn ennþá all svakalegur að sjá en það hætti að leka úr honum um helgina síðustu og í dag er ég svona til dæmis búinn að fá mér göngutúr uppi í henni Heiðmörk og svo fór ég hjólandi út í búð - ekki stystu leiðina.

Fyrirsögnin á þessari færslu annars - þetta með Pollýönnuleikana er eitthvað sem mér datt í hug fyrir svona rúmu ári þegar ekki gekk allt of vel með fótinn og ég var kominn aftur á hækjur í ágúst einhvern tímann. Þá er samt að sjá eitthvað jákvætt í þessu.
  • Það er svo frábært þegar maður slasar sig eða verður veikur og manni fer að batna aftur... svona t.d. þegar maður getur aftur farið að fara í göngutúr.
  • Þegar það kemur vetur og myrkur á kvöldin þá er svo frábært að geta bara kveikt á kerti og haft smá rómó!
  • Þegar það kemur snjór þá er það svo frábært að geta farið á skíði...
  • Fyrir þá sem finnst ekkert gaman á skíðum er kannski bara hægt að gera snjókarl í staðinn
  • Ef einhver vill ekki hvorki fara á skíði né gera snjókall og sér ekkert við það að hafa kertaljós - þá er hægt að hugga sig við það að með snjónum verður mikið bjartara - og kannski þarf ekkert að nota þessi fjárans kerti :-)

Wednesday, November 02, 2016

Tækifæri fyrir staka sokka


Einstakir sokkar með hlutverk!

Veit ekki hversu batavegurinn er hraður. Held nú samt að þetta sé frekar að koma heldur en hitt. Tók umbúðirnar af í morgun og ætla að leyfa þessu að vera svona í dag helst. Get samt eiginlega ekki farið í vinnuna með þennan halloween fót.

Þetta er eitthvað til friðs held ég en samt verkur þarna einhvers staðar. Veit ekki hvort ég eigi að gera eitthvað í því. Hlýtur eiginlega að teljast vera alveg sæmilega eðlilegt. Ekki lengur á neinum verkjalyfjum og það lekur ekkert úr þessu, hvorki glært, rautt né grænt, hvítt eða gulleitt. Kom örlítið blóð þegar grisjan losnaði frá þessu.

Stefni á að fara í vinnuna á morgun. Væntanlega samt með eitthvað yfir þessu til að ganga ekki fram af fólki.

Tuesday, November 01, 2016

Járnabindingin tekin úr


Fóturinn kominn í umbúðir


Í dag er þriðjudagur en á föstudaginn lagðist ég undir hnífinn. Flatjárnið á sköflungnum skyldi tekið af. Mér skilst að Rikki skurðlæknir hafi skorið mig en ég var víst sofnaður þegar hann kom inn á skurðstofuna og hann var farinn þegar ég rankaði við mér. Var bara yfir daginn á Borgarspítalanum.

Skurðurinn er auðvitað af sama kaliberi og þegar ég var skrúfaður saman í janúar 2015 og jafnvel enn stærri. Mér finnst hann a.m.k. alveg ógnar langur. Held að hann sé eitthvað uppundir 20cm. Átti að taka umbúðir af honum - ég bara sjálfur - í gær í síðasta lagi. Gerði það í gærkvöldi og það lak smá blóð úr þessu ennþá. Leist ekkert allt of vel á skurðinn eða hvað hann grær ekki mjög hratt. En í öllu falli sýnist mér að það sé ekki nein ígerð í þessu. Fannst hann samt enn vera hálf opinn. Ákvað að bíða aðeins með að fara í vinnu en er að reikna með að fara á morgun samt.

Á enga mynd af skurðinum en hann er svona alvöru halloween gerfi myndi ég segja!