Mér leiðist að láta eitthvað fara í taugarnar á mér en samt er það sumt.
Ef ég fer gangandi út í búð þá geng ég oftast framhjá Hlemmi. Hlemmur fer ekkert sérstaklega í taugarnar á mér. Auðvitað er þar svona alls konar fólk sem sumt má muna sinn fífil fegurri. Hlemmur er hins vegar bara einhvers konar samastaður fyrir fólk og biðstöð. Á móti Hlemmi er hins vegar nokkuð sem fer alveg ofboðslega í mínar taugar. Og nei, það er ekki löggustöðin heldur er það hinum megin. Nefnilega spilakassasalurinn.
Ég lofa guð fyrir að það eru yfirleitt fáir þarna inni að tapa peningunum sínum en hvílíkt þrælahald. Þarna getur fólk setið lon og don og troðið aurunum sínum í gullgerðarvélarnar og einhvern veginn á ég ekki von á að fólkið sem venur komur sínar á þennan stað ríði almennt feitum hesti frá því.
Hér áður fyrr fundust mér reyndar þessir spilakassar vera rosalega spennandi en það var reyndar aðallega áður en ég hafði aldur til að fara í þá á löglegan hátt. Þeir kassar voru líka dálítið öðruvísi þar sem maður fékk sjálfur að stýra peningnum. Núna er bara einher tölva í kössunum sem passar uppá það að maður vinni ekki of mikið í þeim. Og í gamla daga þá voru kassarnir svona einn og einn á stangli. Núna eru þetta dimmir óhugnanlegir salir þar sem kassarnir bíða í röðum og þá væntanlega alveg ofboðslega freistandi fyrir þá sem eru veikir fyrir. Á ljósaskilti utan á húsinu sést svo uppfært á hverri sekúndu hvað stóri vinningurinn sem maður verður náttúrlega að reyna að vinna er orðinn hár og hvað hann hækkar hratt. Hann er hins vegar bara að hækka út af því að einhver vesalingurinn sem lét freistast var rétt áður að tapa líklega helmingi hærri upphæð.
Þó þetta eigi að heita gott málefni þá finnst mér þetta ógeðslegt, algjör hörmung.
Annar staður sem fer í taugarnar á mér er nammibarinn í Hagkaup. Þar get ég nú yfirleitt næstum því ælt af óhugnaði. Að horfa á allt þetta nammi og fólk að graðga því ofaní innkaupakörfurnar finnst mér einhvern veginn vera sjúkt. Þetta verður einhvern veginn svo yfirgengilega mikið að það verður ógeðslegt.
En eins og skáldið sagði um húsameistarann sem tók handfylli sína af leir: "Ekki meir, ekki meir"
No comments:
Post a Comment