Tuesday, March 30, 2021

Gosmökkurinn

Ég sem ætlaði að gefa eldgosinu frí í dag og fara í Bláfjöll. Var eitthvað að myndast og náði líklega athyglisverðu fyrirbæri alveg óvart á mynd. Hafði tekið eftir áberandi skýjahnoðrum í stefnu eitthvað út á Reykjanes en svo brast á með þoku og éljagangi. Á bakaleiðinni var aðeins drónast og eftirá þá sé ég að þessir uppstreymisbólstrar yfir hrauninu sem ég var að heyra um í fréttum náðust þarna á mynd. Keilir sést ógreinilega og það passar að eldstöðin er rétt þar vinstra megin. Einhver 360° panorama þarna í kuula.co linknum [er sem sagt ekki víruslinkur] ... en það var upphaflegur tilgangur myndarinnar að prófa slíkt.

kuula.co linkurinn

Sunday, March 28, 2021

Eldgosið skoðað aftur, 26. mars

Farið aftur að skoða eldgos, 26. mars. Fjölskylduferð okkar systkina og Krstjáns að þessu sinni. Vel heppnuð ferð og tók heilar 6 klst og akstur að auki. fórum umhverfis Geldingadalinn og þar með eldstöðina. Aðstæður mjög góðar en samt talsvert kalt þar sem gosið náði ekki að hlýja manni.



Séð yfir hraunið. Það sem hér vakti mesta athygli mína var að hið ofurfína helluhraun sem var að myndast nokkrum dögum fyrr hafði ekki þolað álagið af hraunrennsli að fylla dalinn og hafði allt brotnað upp.

Helluhraunið orðið að frekar grófu apalhrauni. Það er hins vegar næsta víst að þarna á eftir að renna annað hraunlag yfir og ég vel mögulegt það endi sem helluhraun. Þegar helluhraunið kom að hækkuninni í dalbotninum kom fyrirstaða og innri þrýstingur kvikunnar sem náði ekki að ýta hrauninu áfram lárétt eða undan halla hefur sprengt það upp. Líklega á helluhraun mjög erfitt með að renna upp brekkur. Þar verður skriðbelti apalhraunsins að sjá um færsluna. Svona ef heimfært upp á klassíska straumfræði þá er þetta spurning um laminert eða turbulance rennsli.

Var mættur með nýjan (gamlan) dróna. Átti reyndar í talsverðum erfiðleikum með hann - enda ekki sérlega góðar aðstæður til að læra á nýjan dróna í þeim aðstæðum sem þarna voru. Skítkalt, einhver vindur og flug þyrlu og einkaflugmanna sem virti ekki almennar grundvallar flugreglur að trufla.

Séð ofan í hraunið. Náði jú einhverjum sæmilegum drónamyndum þrátt fyrir að vera ekki alveg að kunna þetta með nýjan ókunnugan dróna.

Þjóðhátíðarstemning. Þarna vantaði bara brekkusöng held ég - hef reyndar aldrei farið á Þjóðhátíð í Eyjum en þetta er eitthvað svoleiðis. Sátum þarna drykklanga stund.

Upplýstur gösmökkurinn blasir við þegar við vorum að nálgast Suðurstrandarveginn aftur á bakaleið. Svona miðað við almennilegan gosmökk þá er þessi þannig að mér finnst á mörkunum að það sé hægt að kalla þetta gosmökk. Veit eiginlega ekki almennilega hvort lögmálin um hvað gerist í öflugum gosmekki séu að fullu virk þarna.

Monday, March 22, 2021

Eldgosið skoðað

Við fórum þrjú saman að eldgosinu. Fórum líklega auðveldustu leiðina. Keyrðum til Grindavíkur og hjóluðum malbikaðan Suðurstrandarveg austur fyrir Festarfjall og gengum þaðan. Suður fyrir Borgarfjall og inn Nátthagadal. Auðveld brekka upp úr dalnum og þá er maður eiginlega kominn að gosinu. Þessi leiðarlýsing er sett inn án ábyrgðar að sjálfsögðu en ég tel rétt að þetta komi fram þar sem tillögur yfirvalda um hvaða leiðir eigi að fara eða hvernig sé best að skoða gosið virðast vera hættulegar nema fyrir mjög vant fólk. Skoðunarferð að gosinu upp á eigin spýtur er samt að sjálfsögðu ekki gáfuleg fyrir fólk með enga reynslu af fjallgöngum eða fólk í mjög lélegu formi. Mikið tekið af myndum en flestar áþekkar og sé eftirá að það voru mikil mistök að vera ekki með almennilegan þrífót. 


Textinn að ofan er úr Facebook myndasafninu frá 22. mars.

Eftirá þá var einhver umræða um það kaos sem myndaðist seinna þetta sama kvöld og fram á nótt. Málið er að yfirvöld virðast hafa ætlað að koma í veg fyrir að fólk skoðaði gosið með að gera það mjög erfitt. Suðrstrandarvegur var lokaður frá Grindavík og margir gengu þaðan. Við vorum á reiðhjólum og fórum auðvelda leið og nutum þess að skoða gosið. Yfirvöld mæltu svo helst með því að ganga frá Bláalóninu, yfir úfið og ógreiðfært hraun sem ég taldi áður en við fórum í okkar ferð, vera afar erfiða leið. Við fórum þá leið sem var á korti hægt að sjá fyrifram að væri mjög auðveld án þess að þekkja svæðið svo mikið og það gekk eftir.

Það kannski segir eitthvað að eftir að við vorum komin út fyrir mainstream leiðina þá þekkti ég um helminginn af fólkinu sem við mættum á leiðinni. Ýmist úr fjallamennsku, björgunarsveitum eða gædastarfi.

Friday, March 19, 2021

Og það kom eldgos!

Það er víst ekki alveg hægt að segja að ég hafi haft rétt fyrir mér þegar ég var farinn að telja líkur á eldgosi núna vera hratt minnkandi og eldgos í raun ósennilegt. Margir aðrir féll í sömu gildru en þó má alveg halda til haga að ég var aldrei búinn að segja að það myndi örugglega ekki koma neitt eldgos... En það er víst hafið núna.

Jæja... ætli þetta sé búið

Ekki hefur maður nú alltaf alveg rétt fyrir sér!

Jæja... ætli þetta sé búið. Engir skjálftar frá því líklega um hálfan sólahring við Fagradalsfjall en virknin hefur hoppað út í sjó undan Reykjanestá.

Það er þetta með líkur á eldgosi... það eru ennþá alveg líkur á eldgosi en þær fara og hafa farið hratt minnkandi tel ég síðustu daga. Það þýðir samt ekki að það gæti komið eldgos með mjög stuttum fyrirvara þarna við Fagradalsfjall ... en líkurnar fara minnkandi.

Það skemmtilega við líkur er að maður getur alltaf sagt að maður hafi haft rétt fyrir sér ef talað er um líkur á einstökum atburði svo framarlega sem maður fer hvorki í 100% líkur eða 0% líkur.

Líkur á eldgosi fyrir um viku síðan voru alveg 50% kannski er hægt að segja en núna kannski 1% til 5% en það segir ekki að maður hafi rangt fyrir sér þó það verði komið eldgos uppúr hádegi.


Birt fyrst á Facebook að morgni þess dags þegar gosið svo byrjaði!

Að hafa rétt fyrir sér eða ekki... það stendur svo sem ekkert þarna að ég hafi verið búinn að afskrifa eldgos morguninn áður en það hófst en í huganum var ég búinn að því og var bara frekar feginn að þurfa ekki að hugsa meira um þetta. Samt ætla ég nú að halda því til haga að það stendur ekkert annað þarna en að ég telji líklegast líkur á eldgosi fara minnkandi en það þýði samt ekki að eldgos geti alveg hafist með mjög stuttum fyrirvara - sem er nákvæmlega það sem gerðist!

Aðrir voru talsvert óheppnari, opinberu jarðvísindamennirnir sem vita mest og best sem létu hafa eftir sér í fjölmiðlum að þessu væri bara lokið á sama tíma og eldgosið var að hefjast - og svo þeir sem kölluðu eldgosið ræfil og sögðu það ræfilslegt og yrði að öllum líkindum lokið inann fárra daga ef það entist svo lengi!

Tuesday, March 16, 2021

Kemur eitthvað eldgos?

Lærðir og leikir eru að bíða eftir eldgosi á Reykjanesi… þar sem ég get líklega í þessu bæði flokkast sem lærður og leikinn, þá er ég að byrja að hallast að því að það verði ekkert eldgos… núna.

Meðfylgjandi mynd sýnir alla skjálfta á svæðinu síðustu fjóra sólarhringa og greinilegt er hvernig virknin hefur færst til.

Fyrir hálfum mánuði var ég nokkuð viss um eins og margir aðrir að það væri alveg að fara að gjósa í fjallakverk fyrir norðan Fagradalsfjall ekki langt frá Keili. Það mældist gosórói og það þýðir bara að kvika streymir nokkuð óhindrað í gegnum sprungur og er á leið til yfirborðs. Ég hafði eiginlega viljað meina að gosórói jafngilti eiginlega eldgosi. En svo gerðist bara ekki neitt og fréttamaður RUV flaug yfir og sá ekkert nema einhvern sandhól sem er kallaður Keilir.

Jarðskjálftavirknin færðist eftir sprungukerfinu suðvestur fyrir Fagradalsfjall og einnig var hægt að mæla bæði með GPS stöðvum á jörðu niðri og gerfitunglum sveimandi yfir hvernig yfirborð landsins seig, reis og hliðaðist í samræmi við það að kvikan væri að brjótast áfram í því sem er núna kallað kvikugangur.

Skjálftar voru mestir í Nátthaga, dalverpi sunnan Fagradalsfjalls og þar var sett upp vefmyndavél til að ná upphafi væntanlegs eldgoss á kvikmynd. En ekkert gerðist nema að skjálfti af stærri gerðinni varð dálítið vestar sunnudaginn 14. mars og í framhaldinu færðist jarðskjálftavirknin í þá átt. Hvað var að gerast þarna held ég að enginn viti alveg en ef kvikan var að fara eins og skjálftarnir sýndu þá gæti það endað mjög illa því þá gæti eldgos orðið mjög nálægt Grindavík. Þetta er hins vegar þvert á sprungustefnu og er ósennilegt – enda hætti þetta bara.

Núna eru skjálftarnir aftur komnir þar sem þeir voru fyrir háfum mánuði og ef það fer að gjósa núna þá myndi líklegast gjósa þar. Reyndar er það þannig að heppilegt væri að eldgos kæmi upp á öðrum hvorum þessara staða, norðan eða sunnan Fagradalsfjalls. Fá ef nokkur manvirki væru í bráðri hættu fyrir utan vegi sem ætti að flokkast sem algjört minniháttar tjón í eldgosi í námunda við stærstan hluta byggðar Íslands.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa þá skoðun að úr því þetta er farið að dragast svona mikið á langinn þá virðist krafturinn í kvikuhreyfingunum hingað til ekki vera nægur til að kvikan komist til yfirborðs þá sé að verða líklegra að það gerist ekkert meira. Kvikan heldur eitthvað áfram að þræða sprungur við Fagradalsfjall en nær ekki til yfirborðs í þessu áhlaupi.

Það breytir samt ekki því að eldgos gæti hafist núna hvenær sem er og líklegast finnst mér að ef það verður eldgos þá verði ekki neinn sérstakur fyrirboði nema gosórói í einhvern mjög stuttan tíma áður en kvikan kemur upp.

Stórt eða lítið eldgos… það veit í raun enginn en líkur eru mestar á að það verði lítið og það er nær eingöngu út af því að eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið lítil. Miðað við hvað þetta er í raun róleg og langdregin atburðarás þá er hins vegar nær öruggt að eldgosið ef það verður, verður mjög rólegt. Það er hins vegar ómögulegt að segja hvort það verði langt eða stutt. Gæti orðið mjög stutt þar sem þetta er löng róleg atburðarás og krafturinn myndi ekki nægja til að viðhalda eldgosi nema í stutta stund… jafnvel ekki nema einhverja klukkutíma. Hin langdregna atburðarás getur líka bent til þess að þetta verði langt eldgos sem standi í a.m.k. í einhverja mánuði og þá verði þetta að lokum ekki svo lítið hraun sem kemur þarna upp.

En hvað veit ég, þó ég þykist vera bæði lærður og leikur í þessum efnum!

Að einhverju leyti er jarðskjálftavirknin að fjara út. Fyrir um viku var sambærilegt graf þannig að lítið sem ekkert sást í gegn fyrir skjálfta upp í 2 að stærð og alla daga var hellingur af skjálftum yfir 3. Núna er þetta sem sagt orðið eitthvað gisið og það er ekkert óhugsandi að þetta sé bara að fjara út.


Upphaflega birt á Facebook, 16. mars. sjá hér.

Að hafa rétt fyrir sér eða ekki, hvað var ég að hugsa... 4. apríl:

Hægt og rólega töldu margir að eldgos væri sífellt að verða ólíklegra og ég var sem sagt ekki einn um þá skoðun. Ekki hafði ég rétt fyrir mér en hafði samt sæmilega rétt fyrir mér að það væri öruggt að ef það yrði gos þá yrði það mjög rólegt gos.

Þetta var skrivað að kvöldi 16. mars upphaflega en gosið hófst þremur sólahringum seinna.

Thursday, March 04, 2021

Eldstöðvakerfin á Reykjanesi

Tekið saman rúmum tveimur vikum áður en eldgosið hófst

Aðeins (eða rúmlega aðeins) um eldstöðvakerfin á Reykjanesi og þá sérstaklega kerfið sem er nefnt við Fagradalsfjall og er hugsanlega við það að fara að gjósa.

Vitað er um tvær stórar gosmyndanir frá svæðinu. Það er annars vegar Fagradalsfjallið sjálft sem er myndað við eitt eða fleiri eldgos að mestu undir ís, líklega á síðasta jökulskeiði, aldur a.m.k. einhverjir tugir þúsunda ára. Hins vegar Þráinsskjöldur sem hefur verið aldursgreindur (Kristján Sæmundsson) sem 14.100 ára gamalt hraun.

Þar sem mikið er talað um að eldgos á Reykjanesi séu lítil þá þarf að taka mið af því að stærð eldgosa er afstæð og einnig að stærstu eldgosin sem vitað er um á Reykjanesi áttu sér stað við lok síðasta jökulskeiðs fyrir um 10 þúsund árum síðan og einhver árþúsund fyrir og eftir. Eldgos á Reykjanesi síðustu árþúsundin hafa verið minni. Þessar staðreyndir eru líklega helst notaðar til að setja það fram núna að við séum að búast við litlu eldgosi. Einnig er hægt að skoða hvað ummerki eru um mikla kviku að troðast inn í jarðskorpuna og það bendir væntanlega einnig freka til þess að væntanlegt eldgos verði lítið. Mig rámar hins vegar í að í aðdraganda Holuraunsgossins hefði talsvert verið talað um að við værum að búast við litlu gosi og hver má hafa sína skoðun á því hvort það hafi verið líið eða stórt en mér þætti það stórt úti á Reykjanesi.

Annað sem er athyglisvert er að Fagradalsfjall sem eldstöðvakerfi er allt öðru vísi en hin kerfin. Það vantar alla sprungurein með Fagradalsfjalli og kerfið er eiginlega kringlótt á milli Svartsengiskerfis og Krýsuvíkurkerfis. Miðað við jarðskjálftana þá má láta sér detta í hug að kerfin séu tengd í gegnum Fagadalsfjall enda hafa verið að mælast skjálftar núna einnig í Krýuvíkurkerfinu. Það kerfi er við skulum segja hættulegast fyrir byggð þar sem sprungusveimur þess nær inn undir efstu hverfi Reykjavíkur. Við skulum þó ekki gera ráð fyrir að eldgos komi þar upp þar sem hingað til hafa eldgosin verið nær miðjunni. Það gos sem hefur komið upp næst byggð er Búrfell í Heiðmörk.

Loks athyglisvert er að mikið er lagt út frá goshléum og að Reykjanes sé komið á tíma. Goshléin eru skoðuð fyrir hvert eldsöðvakerfi fyrir sig og ætti þá að vera komið að Eldgosi núna í Brennisteinsfjallakerfinu sem myndi þýða eldgos í nágrenni við Bláfjöll. Eldstöðvakerfið kennt við Fagadalsfjall er hins vegar ekki talið með hér og hefur ekki gosið í a.m.k. 6 þúsund ár að talið er.

Yfirlit yfir virk tímabil eldgosa á Reykjanesi eftir eldstöðvakerfum. Hér þarf að veita því athygli að Fagradalsfjall er ekki talið með enda hefur ekki gosið þar í meira en 6 þúsund ár.

----- Að mestu byggt á því sem kemur fram í bókinni um Náttúruvá
Upphaflega var þetta birt á Facebook, 4. mars.

Það sem eftirá (skráð 4. apríl) er skemmtilegt við þessa umfjöllun er að mér fannst í aðdraganda gossins mjög lítið gert úr því að eldgosið sem hugsanlega var í væntum væri í Fagradalsfjalli, sem, hafði ekki gosið í liklega uppundir 10 þúsund ár og gos þar verið dyngjugos eða í ætt við dyngjugos. Það var endalaust fjallað um að goshléið væri 800 ár en ekki neinn sérstakur gaumur gefinn að því að goshlé Fagradalsfjalls var búið að vera mörg þúsund ár og að allar þekktar goslotur á Reykjanesi hefjast austast á nesinu, þ.e. í Brennisteinsfjöllum.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé ekkert sem segi að goslota Rekjaness sé hafin þó það sé dyngjugos í gangi í Fagradalsfjalli. Það þarf að tengja það gos betur við eldgos í hefðbundnu eldstöðvakerfum Reykjaness til að það gangi upp í mínum huga.

Wednesday, March 03, 2021

Er komið eldgos?

Einfalt að kanna

Einfaldasta aðferðin (fyrir utan að líta bara út um gluggann) til að vita hvort það sé komið eldgos. Fara bar á: https://www.erkomideldgos.is/
Upphaflega sett sem færsla á Facebook. https://www.facebook.com/eirasi/posts/10224815538396806

Skráð hér, eftirá 4. apríl:
Þennan dag, miðvikudag 3. mars leit út fyrir að eldgos væri að hefjast.

Í tengslum við jarðskjálftana á Reykjanesi hafði mælst kvikuinnskot, sprung að fyllast af kviku, berggangur að myndast... eða það sem er eitt af tískuorðunum sem er orð sem varð til í tengslum við eldgosiðí Holuhrauni, kvikugngur. Aflögun á yfirborði mæld með GPS mælingum og einnig bylguvíxl mælingar frá gervihnöttum. Það var því búist við eldgosi.

Skyndilega eftir hádegi 3. mars mældist skyndilegur gosórói norðan Fagradalsfjalls líklega og allir ætluðu sér að sjá eldgos verða að raunveruleika í beinni útsendingu. Þyrlur flugu um loft með vongóða fréttamenn RUV og annarra miðla en gripu í tómt. Sjálfur var ég ekki í rónni og neitaði eiginlega að fara í badminton því ekki ætlaði ég að missa af upphafi eldgossins. Ekkert varð samt eldgosið þennan daginn og gosóróinn fjaraði bara út.

Það em væntanlega hafði verið að gerast var að kvika var að færast hratt í jarðskorpunni en hún lenti á einhverri fyrirstöðu þannig að hún komst ekki til yfirborðs. Líklegast stöðvaðist hún á um eins km dýpi ef ég man rétt.