Tuesday, January 30, 2007

Að hugsa út fyrir rammann

nei ég er ekkert að því... mér datt þetta bara í hug út af þessari mynd sem ég gerði einhvern tíman um daginn...

23rd January 2007
Flutningar svona að mestu afstaðnir og einhver rólegheit komin yfir. Um þar síðustu helgi þegar ég bloggaði bara um flutninga var alls konar að gerast í lífinu manns sem ég minntist ekkert á. Partístand hjá Snorra og Hafdísi sem stóð fram undir morgun. Sem ég var alveg að sofna og EB vildi ekki draga MB heim og ég því bara endalaust áfram því ég tímdi náttúrlega ekki að taka mér leigubíl heim einsamlaður. Svo daginn eftir var mamman orðin sjötug. Segi og skrifa S-J-Ö-T-U-G

Það var auðvitað smá svona ammilælisveisla sem HK komst ekki í því hún þurfti út á Snæfellsnes þar sem hún var ekki mikið að skemmta sér á rústabjörgunarnámskeiði. Ég veit ekki hvort ég slapp við eða missti af námskeiði ársins. Það er að minnsta kosti dálítið umtalað.

Svo er HK búin að vera lasin og loksins eiginlega búin að smita mig eða a.m.k. er ég eitthvað að lasnast núna. Og svo var líka árshátíð í síðustu viku sem var náttúrlega snilld. Þema árshátíðarinnvar rómantín og það flæddu rósir, kertaljós, rómatnískir gítarleikarar, tappavín og alls kyns furðulegheit út um alla ganga. Hámarki náði rómatníkin líklegast þegar jafnaldran mín og frænkan mættu á svæðið í náttfötunum og létu undirfurðuluega. Annað eins hefur varla gerst í tölvufyrirtæki norðan Eplafjalla eða hvernig maður segir það. Ég verð víst að játa að þar voru sumir að hugsa langt út fyrir þennan ramma þó mér hafi kannski ekki of mikið tekist það!


....

Monday, January 22, 2007

Að koma sér fyrir á nýjum stað

Það er ekki svo sérlega auðvelt


18th January 2007
En ég er búinn að vígja baðkarið eins og sjá má en átti greinilega í einhverjum smávægilegum erfiðleikum með að komast upp úr því! ... og jú, ég mér finnast röndóttir sokkar skemmtilegir!

Það var laugardagur fyrir heilli viku sem flutningadagurinn mikli rann upp. Fyrsta verkefnið var að HK fór á HSSR æfingu en ég ætlaði að drösla eitthvað aðeins ofan í fleiri kassa og fara svo að taka á móti lyklum að nýju íbúðinni. Þetta gekk allt saman ágætlega nema hvað ég var eitthvað latur að koma mér að verki en jú, það komst eitthvað dót ofan í líklega heila tvo kassa. Svo átti að halda af stað í hana Ölakvísl til að taka við lyklunum. Ég átti að mæta á ákveðnum tíma þannig að það var best að komast af stað á tilsettum tíma. Jú, íbúðin öll í rúst... pappakassar út um allt og ekkert lengur á sínum stað nema einn hornskápur þar sem allt á vísum stað eins og seðlaveski, símar og lyklar áttu sér sinn sama stað. Já, einmitt lyklar því það þarf jú bíllykil til að keyra bíl svona yfirleitt. En minn greip í tómt. Enga bíllykla þar að finna. Ég ákallaði æðri máttarvöld á báðum stöðum en það var sama hvort maður beindi óskum sínum upp eða niður, enga fann ég bíllyklana. Runi á sprungnu dekki úti í skafli og ekki alveg ferðafær en HK á Ventó einhvers staðar á M6 að minnsta kosti. Það var ekki mikill tími og því skundað á leigubílastöðina og þar var auðvitað enginn bíll sem reyndar bjargaðist eftir að búið var að hringja í beinu línuna í miðjunni eins og Flosi söng í auglýsingunni hér í dentíð.

Úr varð að ég fékk Reiðarfjarðarrauð, nýju löduna pabbans og mömmunnar að láni og var hún notuð í eitthvað smávegis snatt um daginn.

Nú svo var bara tekið við lyklum og svo pakkað meira niður og svo kom HK aftur. Það var annars meiri höfuðverkur þarna hjá mér og eiginlega ekki örgrannt um að það væri farið að koma vonleysishljóð í minn. Snjóskaflar út um allt. Einhver kaddl sem hafði átt að koma með vörulyftu til að ná risaskápnum og risaborðinu niður af svölum ætlaði hvergi að koma þannig að þetta var allt í upplausn. Svo til að kóróna þetta allt saman þá var Cesarur [ef einhver er að lesa þetta sem ekkert veit þá er Cesar sko bíllinn blái af Isuzu gerð, þessi sem átti lykilinn sem týndist] beint fyrir framan innganginn til okkar og hann sem sagt lyklatýndaður og annar bíll beint fyrir framan hann þannig að ekki var hægt að ýta honum í burtu eða neitt. Eina lánið í óláninu var reyndar að Cesarurinn var ekki læstur og því hægt að komast inn í hann.

En svo kom HK og svo kom Gúnninn til að hjálpa líka og þá fór þetta eitthvað að gerast. Ég fékk bíleigandann sem átti bílinn fyrir framan Cesar til að færa sinn og þá var hægt að ýta Cesari og þá var hægt að fara að bera út dót og þá var hægt að hringja á sendibíl og þá var hægt að hringja á Ralldiggn og Kristján og þá var hægt að fara að bera út enn meira dót og svo kom sendibíllinn og gaurinn sem keyrði hann var betri en enginn og svo kom líka Sigurjón og allt var þetta komið á fullsving!

ERS_4261
Og viti menn. Sendibíllinn fylltist á reyndar rúmum klukkutíma og svo var bara ekið upp í Ölakvísl. Þar gleypti litla íbúðin allt heila klabbið og einhvern veginn var þetta eins og ekkert dót hefði verið flutt. Og svo samkvæmt ritualinu voru pantaðar pizzur og þær gleyptar í skyndingu. Eitthvað var maður nú samt skeptískur yfir þessu öllu!

13th January 2007
Og það kom síðan sunnudagur sem var 14. janúar og það er happatalan mín!

ERS_4284
Við nýttum hið snarasta hina frábæru staðsetningu Ölakvíslarinnar og örkuðum vopnuð skóflu í næsta hús sem flaggar hinum skemmtilegu nöfnum eins og Subway, Burger King, Essó og Nesti. Það var svo sem ekki sukkað mikið þarna svona fyrsta daginn. Rúnstykki með osti, appelsínusafi, kaffibolli og smá kók látið duga. En vissulega lofar þessi veitingastaður góðu. Ekki síður en Devítos var vinur í raun á Laufiveginum!

14th January 2007
Verkefni dagsins var svo að tæma Laufiveginn endanlega. Það gekk bara ágætlega og svo var hafist handa við að koma hinni heilögu þrenningu sem samanstendur af risaskápa, plankaborði og svona eins og einum sófa. Það var sest á rökstóla og sitt sýndist hverjum...

ERS_4307
Eftir japl jaml og fuður var brugðið böndum á gripina þrjá. Notaðar voru fjallamannalínur og karabínur, strekkólar og loks hellingur af hugviti.

ERS_4292

ERS_4295
Hugvitið var mikið hjá Gúnnanum sem lagði til og sá um strekkólarnar. Minn var svona meira á þönum en fékk samt að hnýta nokkra átthnúta, svona meira til að sýna að eitthvað hefði lærst í fjallamennskunni.

ERS_4306
Stóriskápur orðinn að verða tryggilega frágenginn og tilbúinn til flutnings. HK á þönum fyrir aftan hann. Svo var hann látinn síga niður og si?l vous plait... niður fór hann!

ERS_4316

ERS_4301
Mannan var meira í eldhúsinu og lyfti reyndar grettistakinu hinu mesta í frágangi og þrifum, brosum og allskonar!

ERS_4302
Ralldigg og HK svona heldur kankvísar yfir þessu öllu og bara orðnar sáttar við að sjá fyrir endann á flutningnum mikla.

Svo var hinni heilögu þrenningu skóflað inn í sendibílinn sem var kominn og öllum húsgagna- og draslafgöngum. Allt nýtt sem til var og voru þar auk sendibílsins hann Ventó alltaf jafn kátur, Nýja Ladan og loks Sleðinn sem kom sterkur inn þar sem Cesarur var ennþá jafn læstur og áður. En fyrir þá sem ekki vita þá eru sko Sleði og Cesar svona eins og bræður nema annar blár en hinn meira eins og drapp og annar með dýndan lykil en hinn ekki!

Á Ölakvíslinni var svo slegið upp herjarinnar grillveislu til að fagna flutningum og skálað í rauðvíni og alles. Enda ekki lítil ástæða til þar sem þetta gekk allt eins og það gekk!

ERS_4322
Nú svo hafa eftirmálarnir kannski helst verið að vikan hefur farið í að koma dótinu eitthvað fyrir á nýjum stað, útvega nýja lykla að Cesari (sem tókst nú bara strax á mánudeginum en hinir gömlu ekki enn komnir í leitirnar) og svona aðeins ná áttum aftur!

17th January 2007
Hvernig er það annars eiginlega með þessar auglýsingar. Á meðan ég var að skrifa þetta dundu á mér auglýsingar álíka leiðinlegar og þessi frá Hagkaup þar sem ég er minntur á að mér eigi að finnast skemmtilegast að versla í Hagkaup! Veit það svo sem ekki en víst er að mér finnst auglýsingin þeirra svo leiðinleg að einhver veginn mun ég gera ráð fyrir að ég muni síður versla þar.

Svo erúm við búin að vera netlaus á nýja staðnum. Bloggið var hamrað inn í Word uppi í sófa á sunnudeginum og svo fært yfir á netið í vinnunni. Síminn er eitthvað þarna ekki að standa sig!





....

Tuesday, January 16, 2007

Flutningur afstaðinn

En allt reyndar ennþá í drasli í 110

Það er búið að flytja, helgin og mánudagurinn fór í þetta fyrir utan pökkunarundirbúninginn frá áramótum. Auðvitað allt í drasli en þetta tókst bara ágætlega. Ýmislegt gekk reyndar á eins og týndir bíllyklar, snjóskaflar og vöntun á einhverjum lyftigrægjum en þetta tókst allt saman með góðra manna og kvenna hjálp!

Eitthvað meira bloggað um þetta einhvern tíman á næstunni eða a.m.k. sett inn eins og ein eða tvær myndir.


....

Sunday, January 07, 2007

Fljótt skipast veður í lofti

eða svo sagði einhver einhvern tíman!

4th January 2007
Það gerðust nefnilega undur og stórmerki í lok vikunnar. Seint á miðvikudagskvöldinu fann HK ekki svo óálitlega íbúð á netinu og daginn eftir fórum við að skoða, ekki bara einu sinni heldur tvisvar og með þær fréttir að komin væru tvö tilboð frekar en eitt. Þó ég hafi nú svona yfirleitt ekki verið mikið fyrir að ana að neinu þá var nú samt mætt rétt upp úr klukkan 9 á föstudagsmorgninum til fasteignasalans. Tilboðin urðu að minnsta kosti fjögur og merkilegt nokk. Við bárum sigur úr bítum og fengum tilboðið undirritað af seljanda eitthvað um hálf fimm.

Þetta breytir því svo sem ekkert að við byrjum á að flytja upp í Árbæ eins og við höfum verið að vinna að en hins vegar verður ekkert mikið tekið upp úr kössunum þar sem við förum í okkar fína slot í Hæðargarði um miðjan apríl. Jamms, það eru bara tíðindi hér á ferð!

Wednesday, January 03, 2007

Flutningar í vændum...

það var skrifað undir leigusamning í gær!

Við HK fórum í Kópavoginn og skrifuðum undir einn ágætastan leigusamninginn. Er ekki til margra mánaða enda stendur til að fjárfesta eitthvað einhvern tíman. Fundum bara ekki neitt nógu gott þegar leitin stóð yfir síðustu mánuði. Maður fer ekki að skuldsetja sig fyrir lífstíð og skrifa upp á einhverjar 30 millur eða hvað þessi slot geta kostað nema að vera svona rúmlega sæmilega sáttur. Leitin heldur því áfram fram á vorið en síðan skal flytjast aftur.

En það er sem sagt verið að pakka núna og allt í havaríi hjá okkur!

Hk busy packing

HK að kassa... en fyrir þá sem ekki vita þá er það að líma saman gamla pappakassa og troða svo einhverjum þremlinum þar niður!


2nd January 2007

Ég heldur brúnaþungur uppi á háalofti sem skal tæmast ekki seinna en strax!

Tuesday, January 02, 2007

Áramót

Öllum skal hér óskað gleðilegs árs

ERS_4010
Það var brugðið landi undir hjól um áramótin og farið í Langholt hvar gaman er að vera um áramót. Sprengdir skoteldar í ágætu magni og heimsótt brenna á Birtingaholt.
Playing on new years eve


The day after and The first day


Gullfoss canyon


Fín áramót eftir erilsama daga fyrir áramótin í flugeldasölu HSSR og alls konar brasi.


....