Wednesday, October 20, 2004

Einhleypir

Undarlegt þetta blogg. Þegar maður nennir ekki að gera það sem maður þarf að gera þá fer maður að blogga einhverja vitleysu.

Ég heyrði einhvers staðar fyrir ekki löngu að það væru núna til tvær tegundir af einhleypu fólki. Annars vegar lítið menntaðir karlar með lágar tekjur ef yfir höfuð einhverjar. Og síðan vel menntaðar konur með háar tekjur. Fór að vandræðast með að setja mig inn í þett módel. Menntun er líklega umdeilanleg og kannski þarf ég kauphækkun. Það er að minnsta kosti einfaldara en kynskiptiaðgerðin. En svo var ég að lesa á bloggi Stínu útlaga að konur hafa ekkert við mann lengur að gera.

Annars er þetta ekkert fyndið. Einhleypar konur voru samkvæmt fréttinni einhleypar af því að þær voru allt of góðar þannig að þær vildu engan en einhleypir karlar voru einhleypir af því að þeir voru allt of lélegir. Ég held hins vegar að ég sé bara auli.


Ég er annars alltaf að hafa meiri og meiri áhyggjur af því hvað ég er að verða slappur í stafsetningu. Ég ætlaði núna áðan að fara að skrifa einhleypinginn með einföldu i-i.

Fyrir martlöngu kenndi þessi snillingur mér hér að neðan stafsetningu upp á 10,0 en það er líklega að verða of langt um liðið.

En ég elska í öllu falli þessa mynd!



Guðbergur þó
En talandi um ljósmyndir. Ég var að horfa á endurtekinn Mósaíkþátt og ég sá Guðberg Bergsson vera hálfpartinn að dissa íslenska ljósmyndara alla með tölu og segja að spænskar myndir sem hann er með á sýningu séu allt öðru vísi en íslenskar myndir því þær sýni hugmyndir. Grunnurinn að góðri ljósmynd verði að vera hugmynd en á íslenskum myndum séu bara fjöll. Engar hugmyndir. Reyndar er til ákaflega mikið af ljósmyndum sem eru bara af einhverjum fjöllum og geta bara verið mjög fallegar sem slíkar en að segja að það sé ekkert varið í íslenska ljósmyndun því þar sé aldrei nein hugmynd, það er bara dónaskapur.

Það er síðan að frétta af tveimur köttum að það er ákveðin valdabarátta í gangi hjá þeim blessuðum!

No comments: