Saturday, February 24, 2018

Þjóðbrautir Heiðmerkurinnar skíðandi



Eitthvað hefur greinilega verið gert í gegnum tíðina :-)
Það hefur í einhver ár verið sérstakt áhugamál að finna nýjar mér áður óþekktar leiðir um Heiðmörkina. Sumt af því sem er fjölfarið á þessari mynd eru ekki alveg hefðbundnir stígar.

Fann annars einn ágætan tengistubb í fyrragær sem verður líklegast eitthvað notaður í góðum snjó í framtíðinni!

Þá hafði verið rigning einhverja daga á undan og ég óttaðist að snjóleysi væri farið að há skíðastubbi. En það var ekki raunin og hægt að fara meira og minna út um allt.
Hafði samt þær eftirstöðvar 10km labb á um 2 klst um ótroðnar slóðir að ökklinn var eitthvað í klessu á eftir og er fyrst núna tveimur dögum seinna að verða sæmilegur.

Svo má upplýsast að létting fitabollunnar er að ganga þolanlega.

Sunday, February 11, 2018

Afmælisbarnið Ásta

Hrefna Vala spilar á flautuna sína í afmælisveislunni


Föðursystirin hún Ásta náði þeim áfanga að verða níræð föstudaginn var og í gær á laugardegi var haldin afmælisveisla. Það hefur gengið á ýmsu í ellinni hjá henni Ástu en núna er hún komin á Grund og í ágætum málum þar. Við ættingjarnir héldum sem sagt litla afmælisveislu í risherbergissal sem þar er.

Ásta komin inn í herbergið sitt eftir afmælisveisluna

Vigtun fitabollunnar

Fitabollan að taka á því í henni Heiðmörk - hvar æfintýralandið er!

Einhvern veginn hafði mig grunað þetta... að ég væri að þyngjast. Fannst ég stundum vera eitthvað uppþembdur... sýndist að ég væri að verða einhver skrambans spikvömb á einherjum ljósmyndum og var farinn að forðast að fara í ákveðnar skyrtur. Það var því ákveðið að gera eitthvað í málinu strax eftir áramótin.

það var byrjað með krafti snemma í janúar og farið í Elkó og keypt þessi líka eðalfína digitalvog... og grunurinn var á rökum reistur. Vogarfjandinn sýndi þriggja stafa tölu! Hef reyndar einhvern tímann séð þannig tölu á kílógrammavog en það var tilfallandi og bjargaðist strax aftur. En núna virtist þetta vera komið til að vera en markmiðið var einfalt... eitt kíló á mánuði af að meðaltali fyrir þetta ár og þá væri ég kominn í þá þyngd sem ég vildi svona helst kannski vera í. Þetta gæti því ekki orðið mjög flókið.

Strategían var einföld. Ég myndi vigta mig á morgnanna og skrá niðurstöðuna samviskusamlega niður og fylgjast með hvernig þyngdin myndi færast niður. Og jú þetta gekk ljómandi vel þar sem ég léttist um alveg hálft kíló eða eitthvað fyrsta daginn og svo einhver parhundruð grömm kannski daginn eftir en svo hætti þessi vigtun að virka því ég þyngdist aftur og varð einhvern tímann orðinn enn þyngri en ég hafði verið í fyrstu vigtuninni. Þetta plan var því ekki alveg að gera sig.

Til að gera árangursleysið enn vandræðalegra var t.d. að ég hafði keypt mér ný og alveg sérdeilisflott ný gönguskíði sem virtust ekkert létta mig - jafnvel þó ég hefði þau úti í bíl tilbúin að fara í fjöllin einhverja dagana. Þetta var sem sagt ekki að ganga.

Kannski gæti þetta tengst því eitthvað að ég væri að éta helst til of mikið. Eitthvað aðeins meira fór ég þá að spekúlera í því hvað ég væri að láta ofan í mig - og kannski eitthvað sem ég mátti alveg fatta að þegar þyngdin fór upp í hæstu hæðirnar þarna um daginn þá var það eftir að ég hafði étið eiginlega stanslaust heilt kvöld.

Það fór því af stað einhver smá spekúlasjón um hvað ég væri að éta og að það væri bannað að:
  • Ekki éta stjórnlaust
  • Ekki vera að éta eitthvað drasl endalaust heilu kvöldin
  • Borða svona almennt bara temmilega í hádeginu
  • Fá sér bara svona eitthvað smávegis í morgunmat - nema það eigi að fara að hreyfa sig strax
Svo þegar það kom þessi rosalega flotti snjór þá var stutt á skíði í hana Heiðmörk. Reyndar helsta vandamálið að það var yfirleiutt alltaf lokað út úr bænum og ég fyrir náð og miskunn að fá að komast framhjá lokunarpóstum félaga minna í HSSR. Samviskubitið eiginlega verst að vera ekki að sinna því að taka þátt í lokunarpóstinum almennilega.

Svo fór þetta eitthvað aðeins að virka og þyngdin að færast niður og a.m.k. núna er ég fyrir neðan markmiðslínuna hræðilegu.

Friday, February 02, 2018

Skíta-skíða-færi í vondu veðri

Ég kalla nú ekki allt ömmu mína þegar vont eða erfitt skíðafæri er annars vegar - en ef ég skil orðatiltækið rétt þá myndi ég kalla þetta ömmu mína! Stalst á skíði í Heiðmörk þegar veðrið var að verða vont og hélt að veðrið yrði vandamál. Það varð ekki enda alltaf gott veður í henni Heiðmörk. En ég held að ég hafi aldrei reynt að skíða í jafn hroðalegu klessuskíðafæri. Var ekki með neinn áburð til að minnka viðloðunina svo ég gafst eiginlega upp á þessu enda voru skíðin svona þegar ég kom í bílinn til baka!

Svo á eftir þá var komið við í foreldrahúsum og snæddir súrsaðir hrútspungar á meðan múttan var að útbúa sviðasultu af miklum móð!