Ég sá í morgun að við svo búið mátti ekki standa. Gluggarnir sem ég býð kisunum að horfa út um voru orðnir svo skítugir eftir skítviðri síðustu viku að það sást varla út um þá lengur. Enda var ég fyrir nokkrum dögum búinn að átta mig á að það var ekki einleikið hvað þessi þoka virtist ætla að vera þrautseig.
Ég fann til einhvern aflóga svampkúst, bleytti vel í sápuvatni, prílaði upp á stól, opnaði gluggann upp á gátt, mundaði kústinn, skvetti vatni út um allt á leiðinni og ... SVAMP! Það heyrðist hátt og myndarlegt skvamp þegar sampdruslan lenti á gangstéttinni átt metrum neðar. Þar sem ég bý nú bara við Laugaveginn þá er náttúrlega sjaldan fólk þarna á ferli þannig að það var nú ekki nein sérstök hætta á ferðum.
Var nú gerð önnur tilraun. Tekinn annar kústur ekki jafn aflóga en enginn svampur á honum heldur bara hefðbundinn skúringakústur. Ég þorði reyndar ekki fyrir mitt litla líf að setja tusku á hann heldur notaði kústinn bara beran. Það gekk betur og eftir dálítinn gusugang og e.t.v. einhverja blauta vegfarendur er glerið aftur orðið gegnsætt. Annars er ekkert svo mikill umgangur af fólki hérna ofarlega á Laugaveginum. En ef þú rekst á aflóga þvottasvamp á Laugaveginum þá máttu hugsa mér þegjandi þörfina fyrir slóðaskapinn og þú mátt eig'ann ef þú vilt.
Rétt á meðan ég skildi annan gluggann eftir galopinn gerði vösólfurinn Bjartur sig líklegan til að stökkva bara beint út, enda ekki mikið mál fyrir hann. Hefði nú samt ekki boðið í það að hann hefði farið að vega salt á gluggasyllunni og að minnsta kosti 8 metrar niður á gangstétt fyrr neðan. Reyndar hefði verið mjúkt að lenda á svampinum en kannski ekkert einfalt að hitta beint á hann!
Ég er annars að verða vitlaus á þessari kattapössun. Sá bröndótti eigrar um íbúðina heilu og hálfu næturnar og vælir viðstöðulaust eins og stunginn grís. Kannast samt ekkert við að hafa stungið hann. Er farinn að óttast að ég verði dæmdur í útlegð á næsta húsfundi. En þessu lýkur nú reyndar fljótlega. Það sem ég held að ég hafi lært af þessari kattapössun er að einn köttur er að minnsta kosti alveg meira en nóg.
Fór annars í gær í góðaveðrinu og ætlaði að taka einhverjar ódauðlegar myndir á meðan ég var ekki að slappa af eða vinna, elda eða éta, horfa á sjónvarpið eða ráða krossgátu en ég held ég hafi ekki haft erindi sem erfiði. Það kemur samt kannski ný mynd á síðuna bráðum.
No comments:
Post a Comment