Tuesday, April 28, 2015

Læknirinn hringir ekki tvisvar

Ég átti að hringja í Ríkarð lækni í dag. Hann varð fyrri til og hringdi í mig.

Staðan sú að ég má fara að stíga í fótinn með vaxandi þunga og æfa mig á einum fæti á meðan ég finn ekki til. Má samt ekki hlaupa eða hoppa. Það stendur til næstu heimsóknar til hans sem verður 10 júní. Þá verða víst komnar tæpar 20 vikur frá því að fóturinn gaf sig. Það er þokkalega langur tími!

Verst að ég hafði plan um að fara í heilsuhlaup Krabbameinsfélagsins sem er viku fyrr. Ég verð því bara gangandi þar. En ætli ég geti haldið yfir 7km gönguhraða eða meira... kemur í ljós! En það er e.t.v. kominn fylgdarmaður til að styðja mig í mark.

Og annars. Tók upp á nýju einu í Worldclass. Það má nefnilega nota hlaupabrettin þar sem eins konar göngugrind. Gekk sæmilega eðlilegu göngulagi heila 500 metra upp hóflega brekku.


Allt að 10km hækjulabb í hverri viku



Og svo 20-30km á dag á þrekhjólinu núna síðustu dagana!

Sunday, April 26, 2015

Að velja sér sport við hæfi

Sveifin stigin í Worldclass

Núna velur maður sér íþrótt við hæfi - og raunar líka að einhverju leyti verði. Bæði læknir og sjúkraþjálfarar hafa sagt mér að hjóla og sérstaklega Ríkarður læknir lagði upp úr því að ég væri að hreyfa fótinn nógu mikið. Núna er hann allur á iði.

Hjólatilraunin á alvöru hjóli eins og eitthvað var sagt frá í síðustu færslu, gekk ekki of vel. En mér sýnist að þrekhjólatúrar séu málið hjá mér núna. Er búinn að fatta a.m.k. mælaborðið á hjólunum í Worldclass og alveg þokkalega sáttur. Skil samt ekki alveg af hverju það er ekki haft almennilegt hjólasæti á þessum hjólum. Manni er ætlað sitja þarna í einhvers konar hægindastól ef miðað er við þá hjólahnakka sem ég er vanur.

Svo kannski skondnasti hlutinn við þetta er að þegar ég skakklappast inn í tækjasalinn í Worldclass á einni hækju þá er dálítið horft á mann. En svo eftir að hafa hamast í klukkutíma eða svo á hjólinu og flestir sem sáu hækjumann koma eru löngur farnir, þá verður fólk dálítið undrandi að sjá einhvern fara á hækju til baka eftir að hafa hamast á þrekhjóli heila eilífð!

Annars með aðstöðuna í Worldclass þá er frekar hallærislegt að þurfa að láta kveikja á lyftunni fyrir sig í hvert skipti sem halda skal niður. Og svo velti ég orðið mikið fyrir mér þessum bílastæðum sem eru merkt fötluðum. Hef ekki enn lagt í slíkt stæði enda er ég ekki með neitt bevís upp á það. Er samt enn á hækjunni.

En það ætti að fara að breytast - að ég sé á hækjunni alt svo. Er reyndar bara á einni núna svona almennt - og raunar sleppti ég að nota lyftuna í Worldclass núna áðan - þ.e. svona þar sem væla þurfti um að láta kveikja á henni.

Wednesday, April 22, 2015

Læknisheimsókn

Beðið milli vonar og ótta eftir að Ríkarður kallaði mann fyrir

Ríkarður var heimsóttur í morgun á Borgarspítalann. Hann sagði margt en ekki svo margt um fótinn á mér. Honum fannst hann held ég bólginn, rauður og ljótur. Sagði að ég mæti eiga von á því að hann yrði alltaf dálítið sverari en hinn fóturinn. Ekkert sérlega skemmtilegt það. Hann verður ekkert sverari af vöðvum heldur bjúg og bólgu geri ég ráð fyrir eða einhverjum gagnslausum vef sem myndast á áverkasvæðinu. Svo veit ég allt um það að hann er að fara við réttarhöld á mánudaginn og þá skal hann vera með bindi og það þrátt fyrir að vera með lægri laun við réttinn en réttur og sléttur lögfræðingur. Svo er hann með lægri dagvinnulaun en ég sjálfur. Finnst annars að hann eigi að vera á afar góðum launum því þó hann sé kannski ekki heimsins besti læknir í svona endurkomuheimsókn, þá þykist ég vita að hann sé með þeim allra bestu í að skrúfa mann saman - og það er það sem nýttist mér fyrir þremur mánuðum.

En það er BHM verkfall og enga röntgenmyndatöku að hafa á ríkisreknum Borgarspítalanum. Ég fór því með bevís í Domus Medica og lét mynda minn fót þar. Er kominn með myndir eins og sjá má.

Greiningin á myndinni er að þetta hafi ekkert haggast þannig að skrúfurnar halda. Það er kominn einhver gróandi og ég er að fá callus í sprungurnar sem er gott. Hins vegar (væntanlega út af notkunarleysi ökklans) er vaxandi osteopenia í ökklalið. Það er víst vísir að beinþynningu. Heildarniðurstaðan var að situs væri óbreyttur (sem er að brotið situr áfram rétt og vel - sem er gott, afar gott og grundvallaratriði miðað við hvernig brotið var) og svo er vaxandi gróandi (sem er líka afar gott).

Hvort þetta þýði að Árni megi fara að láta mig standa á öðrum fæti veit ég hins vegar ekki en ljóst að eftir kvöldgöngutúr eða jafnvel hvort sem hann var eða ekki, þá er ég með sá verk í miðjum leggnum.

En maður verður að vona hið besta enda er ég yfirleitt að skora nokkuð sterkt í Pollýönnuleikunum!

Já, og annars. Ríkarður sagði að ég ætti að fara bara út að hjóla - kannski ekki allann Elliðaárdalinn en eitthvað svona þægilegt. Reyndar kannski bara þrekhjól sagði hann líka. En það endaði með því að ég náði Antilópunni gráu niður af snaga, pumpaði í og hjólaði smá. Svona alveg 50 metra og til baka aftur. Leist eiginlega ekkert á þetta. Á bakaleiðinni tókst mér ekki að stoppa og þurfti að finna kant til að geta stoppað af einhverju öryggi. Það er víst eitthvað í að ég fari almennilega að hjóla á hreyfanlegu reiðhjóli. Spinning hjól verða að duga og kannski fær maður sér bara treiner og setur reiserinn á hann í stofunni.

Var svo eitthvað að lesa um brotna fætur og komst á alvöru læknasíður. Þetta lítur víst ekkert allt of vel út hjá mér held ég. Held ég geti alveg bókað það að ökklinn slitnar hratt ef ég næ að nota hann af einhverju viti. Spurning um að sérhæfa sig í hjólreiðum og kajakferðum. Verst að öxlin er ekkert of jákvæð fyrir kajakferðir. Annars þá var verslaður hjálparhlutur í dag. Keypti mér lítinn últra þægilegan bakpoka sem er möst að vera með ef hendurnar eru uppteknar af því að vera með hækjur. Á víst að vera sérhannaður hjóleiðabakpoki. Bara nokkuð ánægður með hann. Búinn að fara með hann í Bónus og Ríkið. Það er bæði hægt að hafa bland og bús í svona poka.

Af öðrum hjálpartækjum hafa verið verslaðar gúmmíteygjur og compressionsokkar. Mér telst til að ég muni vart ganga í öðru á næstunni.

Tuesday, April 21, 2015

Áreynsla

Í sjúkraþjálfun í síðustu viku líklega þá datt mér í hug að spyrja hann Árna að því hvort það væri eitthvað vit í að ég færi út að hjóla. Vissi ekki alveg hvað hann myndi halda þar sem ég er ennþá að skakklappast með eina til tvær hækjur. En honum leist bara vel á það. Ég samt gugnaði eitthvað á því en endaði á að fara í World Class áðan og hamast aðeins á þrekhjóli þar. Var reyndar líka búinn að prófa aðeins á þrekhjóli í Gáska líka í gær.

Veit ekki alveg hvað hjartað í mér hélt en það hefur líklega ekki slegið almennilega yfir 100 slög á mínútu síðan ég var að rölta upp á Lambafellið fótbrotadaginn ægilega. Efast um að hækjulabbið hafi gert mikið með hjartað eða þolið í skrokknum. Vona að ég nái mér aftur almennilega á strik - en ljóst að það gerist ekkert af sjálfu sér.

Fór svo annars á árshátíð Símans, Staka og allra hinna á laugardaginn. Það var bara ágætlega heppnað en ég dálítill rati að þekkja ekki fólk sem ég átti að þekkja. Þekkti nú samt hana Lóu sem vann með mér fyrir áratugum. Svo eru held ég aðrir sem þekkja mig ekki neitt lengur. Var annars skondið að vera á svona árshátíð þar sem ég þekki hvorki haus né sporð á forstjóranum sem var með einhverja svona la la ræðu þarna líka.

Er svo búinn að vera að reyna að komast aftur af stað með MS verkefnið mitt. Fór meira að segja aðeins að segulmæla í Öskju í síðustu viku. Byrjaði á að mæla á mér fótinn og innvolsið virðist ekki vera segulmagnað. Ætla helst að fara aftur á morgun eftir að hafa farið í endurkomu til Ríkharðs.

Já, það er nefnilega endurkoma á morgun hjá mér á Borgarspítalann. Veit samt ekki hvernig það verður. Geislafræðingar eru í frí þannig að ég veit ekki hvort ég fái röntgenmynd.

Wednesday, April 15, 2015

Tveir sem eru að reyna að verða jafnfljótir

Hlaupaskór sem hafa lítið fengið að gera það sem þeir eru gerðir fyrir

Ætli það geti ekki talist áfangi í dag. Það var farið út að ganga í tveimur hlaupaskóm. Það gekk reyndar bara vel. Kannski var eitthvað að virka til að minnka bólgur kælikrem sem ég bar á fótinn í gærkvöldi. Geri það líklega aftur núna í kvöld. Svo var ekki nóg með að gengið væri í samræmdum skófatnaði utanvegahlaupara heldur beitti ég líka nýrri aðferð sem ég fann upp sjálfur. Er á tveimur hækjum og beiti þeim eins fyrir báða fætur. Gekk sem sagt eins og ég væri með slas á báðum fótum. Það var gengið frekar rólega og göngulagið ekkert alveg eðlilegt en það varð nokkuð symmetrískt við þetta.

Spássitúr einn ágætur

Þetta voru 2.3km á tæpum 50 mínútum. Geri aðrir betur... á hækjum!

Sunday, April 05, 2015

Fóturinn


Í einum af göngutúrum liðinnar viku

Fóturinn er eitthvað í áttina en ég veit aldrei alveg hvað ég má vera að reyna á hann. Fór í Sjúkraþjálfun á miðvikudag til Unnar og sýndi henni myndirnar sem voru teknar þegar ég var tekinn úr gifsinu. Henni leist ekkert allt of vel á þetta fannst mér á henni. Sagði að þetta væri yfirleitt meira gróið 8 vikum eftir brot. Einhvern veginn fannst mér þetta vera allt í voða aftur eftir að hafa horft á myndirnar með sprungunum sem virtust í raun vera galopnar ennþá.


Röntgen mynd tekin 18. mars þegar fótur fór úr gifsi. 7 1/2 viku eftir slysið.

Fór svo seinna um daginn þann að lesa eitthvað blogg um gaur sem braut upphandlegginn báðum meginn. Hann ætlaði aldrei að gróa neitt og var alltaf að brjóta beinið upp aftur og aftur og jafnvel án þess að átta sig á því að hann væri að brjóta það upp. Las líka um einhverja stelpu sem fótbrotnaði og einhverjum mánuðum seinna var brotið alls ekki gróið. Þar var spekúlasjónin sú að ef brotið væri stórt þá tæki lengri tíma fyrir líkamann að láta það gróa. Svona eins og það væri einhver hámarks heildar afköst sem væri hægt að láta bein gróa og ef brotið væri dálítið djúsí þá tæki lengri tíma að láta það gróa. Mitt bein er augljóslega nógu brotið.

Ég var í raun farinn að setja talsverðan þunga á fótinn en fékk sem sagt einhverja bakþanka með það. Ef gaurinn á blogginu var að brjóta upp það sem var að gróa í handleggnum án þess að fatta það, þá er spurning hvað ég er að gera með hálf-ógróin bein í fætinum og setja á hann kannski 80kg þunga. Dílemman er svo sú að ég þarf að setja álag á beinið til að það fari að gróa meira en álagið má ekki vera það mikið að ég brjóti jafn harðan upp það sem er búið að gróa.

það var annars ágætt að fara í sjúkraþjálfun til Unnar og ætli ég reyni ekki að halda því áfram einu sinni í viku með því að vera tvisvar í viku hjá Árna.


Fóturinn að koma úr sturtu síðustu helgina í mars. Skurðsárið farið að líta ágætlega út.
Vinstri fóturinn er ekkert lengri en hann er líklega aðeins framar. Hann er hins vegar greinilega vel digur miðað við þann hægri.

Þar sem skurðsárið er búið að loka sér mjög vel þá fékk ég grænt ljóst á sundferð hjá Árna. Fór föstudag langa í sund með Gunnanum. Þar leiddi haltur blindan því hann hann kunni ekkert á að fara í sund - þar sem það er orðið frekar hátæknilegt. Það bjargaðist þó allt. Mér gekk ágætlega í sundinu en vissi ekki alveg hvað ég ætti að vera að gera í sundinu. Þorði ekki að synda að neinu marki þar sem ég óttaðist að sparka i eitthvað fast og tjóna fótinn. Gekk því bara 100metra í lauginni og fór svo í heitapottinn.

Er svo líka búinn að vera af og til í heit-köldu fótabaði til að örva fótinn og minnka bólgur. Ráðlegging frá Unni. Hann er annars þannig fóturinn þegar líður á daginn að hann er jafnbreiður upp að hné. Eðlilegur fótur breikkar við táberg, mjókkar við ökkla og er svo breiðastur á kálfvöðva. Minn fótur er svo bólginn um ökkla og kálfvöðvar svo rýrir að það má segja að hann sé jafn frá tábergi og upp að hné.

Af öðrum málum

Annars hefur tvennt borið til tíðinda þessa páskana.

Ég fór að rifja upp hvað ég er að gera í þessu mastersverkefni mínu. Þarf að fara að taka þann þráð upp aftur ef ég er ekki bara hættur því rugli. Unarlegt að vera að læra eitthvað í framhaldsnámi í háskóla sem maður sér ekki beinlínis fram á að vinna nokkurn tímann nokkurn við. Hafa hvorki efni á því að vinna þannig vinnu tekjulega séð og eiginlega á ég ekki von á að mér bjóðist neitt af slíkum störfum. Er dálítið að átta mig á að ég bara klára þetta MS nám og svo er því kannski bara lokið og ég dálítið á sama stað og ég var áður.

Uppfærði þá örlítið háskólabloggið mitt þannig að eitthvað kemur þar fram um verkefnið.
Hitt bar til tíðinda að e.t.v. bjargaði ég lífi hundskammarinnar á neðri hæðinni á föstudag langa. Það var gelt heilan djöfulmóð á þeim helgasta degi og ég bölvaði og ragnaði af því tilefni. Stappaði niður óbrotna fætinum og barði hækjunni í gólfið frekar illilegur. Svo heyrði ég að Guttaskömmin var komin út í garð að gelta. Skildi ekki alveg hvernig á því stóð þar sem ég var viss um að enginn væri heima á neðri hæðinni fyrir utan Guttann. Þegar ég var búinn að öskra út um stofugluggann eins og hver annar brjálæðingur til að fá hundfjandann til að hætta að gelta, þá sá ég að hann skalf úr kulda. Hann komst sem sagt ekki inn, hiti nálægt frostmarki og rigning. Ég sá aumur á honum og vildi nú ekki að hann færi að drepast þarna á föstudeginum langa. Fór niður og hleypti hinum inn til Ólafar. Svo kom hún reyndar heim skömmu seinna þannig að líklega hefði hann lifað þetta af. En Deginum ljósara að sumt fólk á ekki að eiga hund!

Heilt kíló af páskaeggi!

Sumir páskaeggja framleiðendur hugsa bara um magn en ekki gæði. Hálft kíló af tæplega miðlungsgóðu mjólkursúkkulaði og hálft kíló af blandi í poka... ég meina bland í eggi. Enginn ungi eða eitthvað skrautvesen en það kom þó einn málsháttur í ljós sem ég held að hafi ekki sannað sig: Lítið er ungs manns gaman.

Veit ekki hvernig málshátturinn getur gengið upp miðað við risastórt eggið. Ef ég væri dálítið mikið yngri hefði mér þótt þetta frábært en þá væri ekki rétt að segja að gamanið væri lítið því það hefði verið stórt! Til að hægt sé að átta sig á stærðinni þá er skalinn við hliðina á egginu ekki súkkulaði heldur vísindatæki og er 15cm langt. Eggið slagar í 30 cm sýnist mér!


þetta egg annars er starfsamannapáskaegg Staka. Jón tók þá sérkennilegu ákvörðun að versla Sambó egg handa staffinu í gegnum Snorra Pál væntanlega. Aðrir Símastarfsmenn fengu bara nokkuð temmileg egg frá Nóa Síríusi. Þegar ég byrjaði að vinna í Skýrr var þar Snorri Páll og ég verslaði risaegg af honum. Þá komst ég að því að það getur komið til álita að henda rest af páskaeggi í ruslið. Ég held að þetta fari í ruslið. A.m.k. langar mig ekki í það núna. Nammið innan í því er samt allt í lagi.