Sunday, April 26, 2009

að vera ánægður og óánægður

Hjólatúr, kosningar, fuglamyndir og fyrirhugaðar framkvæmdir


leidin
Ég er ekki neitt sérlega ánægður með hnéð á mér og ekki heldur neitt sérlega ánægður með Rauðu-Eldinguna. Hnéð varð aumt og svo slitnaði teinn og gjörðin skekktist. En það var hjólað.
Eitthvað yfir 77 km á alls 4 klst en meðalhraði 23 komma eitthvað á meðan ég var að hjóla. Ekki hratt en sæmilega langt samt á minn mælikvarða.
Þarf að prófa hnéhlíf til að hnéð fari ekki svona í klessu. Svo þarf ég að henda hjólinu í þá hjá Erninum. Það er væntanlega ekki í lagi að það slitni teinn á sléttum vegi á nýju hjóli!

En jæja...
Það var kosið í gær. Ég ákvað mig ekki fyrr en á sekúndunni sem ég setti ex við eitthvað, segi ekki hvað en eftir á fattaði ég að ég hafði kosið í samræmi við sokkana mína!

En jæja aftur!
Fór í dag út á Seltjarnarnes. Þegar ég fór þar um á Rauðu-Eldingunni í gær sá ég einvern torkennilegan fugl.

Margæs - Branta bernicla

Var þar komin margæs ef mér skátlast ekki þeim mun meira. Er bara nokkuð sáttur við myndatökuna. Held að myndin sé skárri en myndin sem er í fuglabókinni minni. Þarna voru líka flögrandi hettumáfar og er ég bara sáttur þar líka.

Hettumávur - Larus ridibundus

Og loks jæja...
Framkvæmdir. Það er komið á dagskrá að gera einhvern skjólgarð í garðinum hér á H34 þannig að ég geti sólað mig með einhverjum árangri núna í sumar.

Svo er ég líka pínulítið ánægður með sjálfan mig að þessar framkvæmdapælingar sem kölluðu áörlitla tiltekt í garðinum urðu líka til þess að í fyrsta skipti á æfinni er ég farinn að flokka eitthvað lífrænt rusl frá öðru rusli og ætla mér að búa til MOLD!

Sunday, April 19, 2009

Nenniseggi eða hvað

Þegar maður á að vera að gera eitthvað annað er ágætt kannski að blogga bara


Different nature... one or two

Vetur og sumar á sama degi

Þegar maður nennir ekki að gera það sem maður á að vera að gera er ágætt að blogga smá.

Við bræður fórum í Fellsmerkurtúr um páska. Lagt af stað eftir fiskát föstudagsins langa a la mama á Urðarstekk. Það var gott veður og útivist fram á miðnætti sitjandi og segjandi eitt en kannski ekki margt.

Svo á laugardegi var sólin í heiði alveg eins og veðurspámennirnir höfðu lagt til. Við örkuðum af stað upp Keldudalsheiðina. Það var komið sumar á láglendi og blómstur sprungin út en eftir því sem ofar dró varð vetrarlegra. Einhvers staðar í 500 metra hæð var frost að fara úr jörðu og ofar var snjór yfir öllu. Við enda komnir upp undir jökul.

Valaþúfa eða ekki Valaþúfa... víst er að þar fann ég beinvölu



Valaþúfa er þarna einhvers staðar og fórum við upp á hól sem okkur fannst flottur sem slíkur. Fann ég reyndar beinvölu þar uppi, líklega ættaða úr fugli sem einhver hefur étið einhvern tíman. En samkvæmt kortinu er Valaþúfan allt annars staðar og mikið austar. Verður farinn könnunarleiðangur þangað þegar vel liggur á manni.

mountain view

Útsýni til jökla ofan af Valaþúfu eða ekki Valaþúfu. Fyrir þá sem eru ekki mjög kunnugir þá er jökullinn vinstra megin Eyjafjallajökull og jökullinn hægra megin Mýrdalsjökull.
Smella á myndina til að fá hana risastóra!



Það var gengið svo gott sem upp að jöklinum en samt ekki alveg á hann.
javascript:void(0)
Á bakaleiðinni lentum við í miklum Hremmingum við Hotsgil og einhver önnur gil. Höfðum ætlað að fara einhverja aðra leið til tilbreytingar niður aftur enn allar aðrar leiðir reyndust meira og minna ófærar.

gongileid

Það er ágætt þetta þegar maður á að vera að gera eitthvað sem maður nennir eiginlega ekki að gera. Ekki get ég reyndar alveg kennt veðrinu um þar sem það er einhver þræsingur í honum [eða segir maður ekki þannig] svo það er best að blogga smá eða bara setjast einhvers staðar í ró og spekt og fara að prjóna sér peysu!

Saturday, April 18, 2009

Hjólað á Mýrunum



Einhvers staðar á Mýrynum. Búinn að hjóla svona 40km og eitthvað svona 12 km til baka í bílinn. Engin frammistaða en það var líka að koma myrkur og ég búinn að henda hjálminum út í skurð til að geta í staðinn verið með bæði aftur og framljós á hausnum!

Vegalengd: 52,9 km
meðalhraði á meðan hjólað var: 27,2 km/klst
Mesti hraði: 45,3 km/klst

Kannski maður fari að verða duglegri við að blogga smá...