Friday, October 29, 2004

Kötturinn varð óður

Það var búið að segja mér að bröndótti kötturinn sem ég er með væri ofvirkur. Hann þyrfti endalaust að komast upp á allt og léti ekkert í friði. Hann hefur ekki slegið slöku við og hreinsað ofan af skápum borðum og öllu mögulegu. Reyndar tók ég af honum ómakið og hreinsaði sjálfur geisladiskana ofan af sjónvarpinu og dreifði þeim yfir stofuborðið í staðinn. Þar hefur geisladiskahrúgan verið hið mesta æfintýraland fyrir hann og kettina reyndar báða held ég.

Það var líka búið að vara mig alvarlega við því að sá bröndótti væri stórhættulegur lifandi fólki því hann hefði þann leiða sið að bíta fólk reglulega. Ekki það að hann væri neitt svangur heldur hefði hann bara þennan undarlega ávana að fá sér eins og einn og einn bita.

Ég hef reyndar ekki orðið mikið var við þetta enda stöðugt verið á varðbergi. Svo var það meira að segja þannig að það var hinn kötturinn sem beit mig. En það var ekki hann sem varð óður. Það var sá bröndótti.

Bithneigðin og "Uppáallthneigðin" sameinuðust á þann undarlega hátt að hann ákvað að fara upp á hausinn á mér. Sem ég sat við morgunverðarborðið þá laumaðist hann aftan að mér og tók undir sig stökk. Að sjálfsögðu algjörlega hljóðlaust enda hefur árásaraðferð kattarins verið að þróast frá því áður en við komum niður úr trjánum. Ég vissi ekki fyrri til en ég fann kattarklær læsast í bakið á mér. Fötin sem ég var í tættustu í sundur og blóð fossaði út um allt. Ég snérist snarlega til varnar og hvissaði susssususss og gretti mig á hinn hroðalegasta hátt. Sá bröndótti sá sitt óvænna og hörfaði undireins en skildi samt auðvitað ekkert í þessu viðbrögðum. Hann var bara búinn að sjá út að það væri einkar snjallt að fá sér sæti uppi á hausnum á mér til að fylgjast sem best með því hvað ég væri eiginlega að gera þarna.

Og við erum ekki enn orðnir vinir aftur þó það sé kannski hætt að blæða og ég komin í önnur föt í staðinn fyrir þau sem urðu fyrir barðinu á kattarklómnum.

PS
Vissuð þið það að Friðrik Skúlason getur ekki verið ekki ofvirkur því villupúkaforritið hans þekkir ekki einu sinni orðið!

PSS
Og kannski líka. Þessi kattarárásarsaga er dagsönn fyrir utan örlitlar ýkjur þar sem minnst er á blóðslettur.

No comments: