Saturday, May 28, 2011

Slappelsi

Fór að finna eitthvað í hálsinum og andardrættinum í gær eða fyrragær sem var bara ávísun á veikindi. Það heltist svo einhver skrambans hálsbólguskítur yfir mig í nótt og varð að hætta við að fara með öðrum að leiða FÍ eitt fjall á mánuði á Botnssúlur. Hálf slappt hjá mér reyndar. Veikur núna, í prófum í maí og að kenna í Endurmenntun í mars. Er sem sagt bara búinn að fara tvisvar af þessum fimm fyrstu skiptum.

Verð heima í dag sem sagt og ætla að reyna að skrá inn ferðasöguna frá Vatnajökulsbíltúrnum sem er hér næsta færsla að neðan.

Grímsvatnagosið skoðað

Close to the crater in Grimsvötn 2011
Á "gosgerðum útsýnispalli".  Líklegast myndað eftir að snjórinn nær gígnum hafði bráðnað og þessi þá fallið fram.  Myndað sprungu sem var síðan fallin niður.  Á mörkum þessara "snjófalla" voru síðan sprungur sem þurfti að klofa yfir.  Gufan sem sést til vinstri er beint úr gosgígnum sem lét ekki mjög ófriðlega að þessu sinni.

Það var hringt í mig að kvöldi þriðjudags og var þar Villi sem vinnur með bróðurnum manns að bjóða í gosbíltúr.  Komst ekki að því fyrr en eftirá að það sem hékk á spýtunni var að gera nokkuð vel heppnaða tilraun til að borga fyrir myndatökurnar sem hann og hans fjölskylda kom í til mín þar síðasta haust. Ég vildi ekki þá fá borgun ekki frekar en Villi þegar ég ætlaði að fá að borga minn part af olíunni á vélfákinn.

maðurinn á jökli Ég var mættur til þeirra upp úr kl 6 um morguninn og það var haldið af stað hefðbundna leið eftir að hafa þurft að snúa við í úlpuerindagjörðum og bílskúrsþrifsmálum. Fanney dóttir þeirra Villa og Maríu hafði gleymt úlpunni sinni sem uppgötvaðist við Rauðavatn og svo var einhver hroðalegur útblástursblettur á bílskúrshurðinni sem þurfti að hreinsa... en þetta er nú útúrdúr.

Þetta voru alls 6 jeppar með í hópnum sem mér skildist að Villi hefði smalað saman til að fara í ferðina og var safnast saman í Hrauneyjum.  Þekkti ekki marga en samt Alla úr JÖRFÍ ferðum og svo var einn gamalla góður Stefán þarna sem ég hafði keyrt í Jökulheima 2007 til að taka þátt í 50 ára fagni JÖRFÍ skála á Grímsfjalli.  Svo var reyndar einn jeppinn farinn eitthvað lengra og fór einbíla á undan okkur á jökulinn.  Var þar Gunni Hjartar sem stúdentaðist með mér hér í dentíð.

Leiðangursmenn almennt samt eitthvað missjóðaðir í jöklaferðum og þá reyndar aðallega farþegasætisferðafélagarnir sumir hverjir að fara á jökul í fyrsta sinni sýndist mér. Ég hins vegar nokkuð góður með mig hafandi verið nokkrumn dögum fyrr á Grímsfjalli.

ERS_6219

Í Jökulheimum var töluverð aska inni í skálanum.  Stoppuðum svona til að kíkja inn og fá okkur nestisbita.  Enda Villi með umsjón með skálunum eða í öllu falli með lyklavöldin. Öskuryk var yfir öllu inni í skálanum en samt ekki meira en ryk.

ERS_6220Alli öslar sanddrulluna í Tungnaá

Tungnaá var ekki mikill farartálmi. Einhver sanddrulla en eiginlega ekkert vatn. Alli valdi leiðina yfir ána sem var nokkuð hefðbundin og mjög þægileg.


Þunnt öskulag á jöklinum neðanverðum

ERS_6238
Rifskaflar (snjó) huldir öskulagi

Neðst á Tungnaárjökli var þunnt öskulag yfir öllu en náði ekki að þekja snjóinn alveg. Í stað þess að allt væri í hvítum jöklalegum tóni var hér allt grátt yfir að líta. Fljótlega komum við að "öskusköflum" sem minntu mjög mikið á rifskafla á jökli, sbr. mynd að ofan. Við nánari athugun kom enda i ljós að þetta voru bara venjulegir rifskaflar á jökli en hins vegar huldir ösku. Askan virtist safnast aðeins í þá þannig að þar sem almennt var einungis einhverra millimetra öskulag var kannski 1-2 cm yfir þessum rifsköflum. Askan sjálf þegar hún myndaði skafla var meira bara í nokkuð sléttum flekkjum.

ERS_6257
Við veðurstöð T06N-8

ERS_6259
Stefán ekki alveg vanur jöklinum svona á litinn!

ERS_6269
Á öskujökli

ERS_6273
Uppgufun úr öskunni

Eftir því sem ofar dró var komið í nokkuð samfellda ösku sem varð þykkari og þykkari en jafnframt grófari og grófari sem nær dró eldstöðinni. Tók þrjú öskusýni á leiðinni. Var reyndar ekki nógu vel útbúinn til sýnatöku. Fyrsta öskusýnið fór í kókflösku og tvö þau næstu í nestispokana.

Þó ekki væri mikil sól þá hitnaði askan og rauk úr henni gufan eftir líklega bleyti, rigningu eða áfall liðinnar nætur. Voru umræður um hvernig jöklinum myndi reiða af og taldar mestar líkur á að eiginlega alls staðar yrði bráðnun minni út af öskulaginu. Veit raunar ekki alveg við hvaða þykkt öskulagið fer að einangra í staðinn fyrir að valda aukinni bráðnun. Hef bæði heyrt 3mm og 3cm. En ef miða má við Odd Sigurðsson (2011) þá má miða við hálfan cm, þ.e. að fárra mm öskulag auki bráðnun en að vitað sé að hálfs cm öskulag Mýrdalsjökuls á vatnasviði Markarfljóts eftir eldgosið í Eyjafjallajökli 2010 hafi minnkað bráðnun sumarið 2010.

En síðan er væntanlega ljóst að á þeim stöðum sem askan er ekki mjög mikil þá mun hún renna til í einhverja hauga og valda mjög mikilli misbráðnun á næstu árum. Þar sem hins vegar öskulagið er 10cm eða meira má væntanlega gera ráð fyrir að bráðnun verði lítil sem engin og að öskulagið nái ekki að renna til þannig að snjólagið undir öskunni fái bara að liggja þarna og skríða síðan hægt og rólega til láglendis.

Síðan var ekið inn í Grímsvötn.

ERS_6332
Ljósmyndari á "útsýnispallinum".  Með í för var þessi sem ég held að sé einhver sænskur ljósmyndari.


Close to the crater
Grjót sem lá hér og þar.


Close to the crater in Grimsvotn
Sundursprunginn jökullinn nærri gosstöðvunum.  Þessi gjá er í framhaldi af þessu "snjófalli" sem sést á fyrri myndunum.

Ætli myndirnar tali ekki bara sínu máli.  Við keyrðum fyrst inn í grímsvötn að vestan.  Stoppuðum líklega í rúmlega 2km fjarlægð frá gígnum.  Út af snjóbráðnun líklega var nokkuð mjög sprungið í kringum gíginn og svæðið afskaplega langt frá því að vera öruggt.  Ekki mikill jöklabúnaður með og eiginlega ekki heldur verið að nota það sem við þó vorum með.  Hefði verið gaman að vera með meir jöklagönguliði og komast nær en það hefði svo sem líka verið hættulegt út af eldvirkni.  Þetta var raunar alveg nógu varasamt út af sprungum.  Þurftum bara að stíga yfir sprungurnar sem voru þarna og passa okkur sem mest við máttum.  Allt fór þetta vel.

Ofan á snjónum var öskulag þarna.  Mældi ekki þykktina þarna en hún var talsverð.  Reyndar mesta þykkt sem við fengum var í átt að Háubungu skildist mér eitthvað á annan metra en Björn Oddsson hafði beðið Alla um að mæla öskuþykktina hér og þar.

Á kortinu að neðan má sjá hvar við fórum.  Fyrst (myndir að ofan) stoppuðum við norðvestan við eldstöðina.  Rauði hringurinn á myndinni er eldstöðin frá 2004 (staðsetning sbr. Magnús Tumi, 2004)


mapsource-ferdin med villa
Akstursleiðin.  Við stoppuðum á öllum endum þarna.  Lengst til hægri var farið að JÖRFÍ skálanum á Grímsfjalli. Rauði hringurinn er staðsetning gosstöðvanna frá 2004 skv. Magnúsi Tuma.

Panorama myndin að neðan er frá þessu stoppi Norðvestan við eldstöðina.  Sýnir gíginn og Grímsfjall fyrir aftan.  Ég er reyndar alls ekki alveg sáttur við staðsetninguna á þessu þar sem mér fannst einhvern veginn að gígurinn frá 2004 hefði verið austar og þá svona á að giska fyrir ofan "eirasi.net" merkið á myndinni sem er næst lengst til vinstri á myndinni.  En það er víst einhvers konar sambland af misminni og misskilningi og misathugunarleysi hjá mér.

Grímsvötn 25. maí 2011
Panorama mynd frá fyrri stoppistaðnum (þeim vestari).  Séð til gígsins og Grímsfjall í baksýn.

Svo var ekið upp á Grímsfjall og stoppað á brún vestan við Vestari-Svíahnúk. Sáum þá örlítið ofan í gíginn, sbr. myndirnar að neðan.

View from Grimsfjall
Séð ofan í gíginn frá seinni stoppistaðnum (þeim austari).

ERS_6432

Svo fórum við á Grímsfjall. Skálarnir frekar mjög skítugir að innan en aðallega sá nýrri. Þykkt öskulag, blautt og klesst alls staðar. Nokkuð ljóst að það þarf að þrífa eitthvað almennilega þar.

Nú, svo ókum við bara til baka og gekk heimferðin eins og í sögu fyrir utan að dekk á einum bílnum rifnaði og sprakk með látum. Varð ekki slys af en munaði líklegast ekki miklu.

The great vehicle
Fararskjótinn frábæri.

Monday, May 23, 2011

"Ítalska" fjölskyldan á Urðarstekk

Það var borðað saman í foreldrahúsunum núna í kvöld. Mikill hávaði og mikil læti. Bæði í frænkubörnunum mínum sem þurftu auðvitað að láta vel í sér heyra og hlaupa um allt með svo skemmtilega miklum látum að sú eldri var komin með harðsperrur í magann af öllum ólátabelgslátunum.

Svo við matarborðið þurfti að ræða svo mikið og svo margt að ekkert venjulegt fólk hefði komist að. Var þá rifjað upp eitthvert komment sem einhver vinkona eða einvher kærasta lét einhvern tíman falla að við værum eins og ítölsk fjölskylda. Allir að tala hver í kapp við annan um hin aðskiljanlegustu málefni. Núna voru þau reyndar aðallega um Vantajökulsferðir, eldgos, jarðfræðí og jarðrfræðinga. Já, bara mikið gaman en kannski ekki alveg fyrir alla!

Svo er hnéð á mér eitthvað aðeins að skána eftir að hafa verið í hnéhlíf í allan dag.

Og þá fór að gjósa

Vorferð HSSR í maí 2011 á Vatnajökul

IMG_5080

Stuð á gaurnum að skíða niður af Grímsfjalli


Þá skyldi haldið á Vatnajökul í nokkuð árlega HSSR vorferð. Ég reyndar að fara í mína fyrstu HSSR ferð þangað en ekki í fyrsta sinn á jökul eða á Grímsfjall. Í fyrra komst ég ekki út af önnum í vinnu en því er ekki til að dreifa núna. Skýrrararnir síðan komust ekki vegna sinna vinnuanna núna en það er önnur saga.

Haldið úr bænum og tjaldað á leið upp að Skálafellsjökli á miðvikudagskvöldi. Komið seint og um síðir í náttstað og víð Ívar sem ætluðum að deila tjaldi ekki sérlega lengi að koma okkar bústað upp. Ljómandi gott Helsport tjald sem hann var með en samt hálf lágt til lofts í því fyrir minn smekk.

Svo var vaknað snemma eftir að hafa farið að sofa seint og haldið á jökul. Skíðamenn hangandi aftan í Bola og jeppar tveir á stundum þar líka. Annað hvort bilaðir eða fastir. Þetta gekk annars ekkert of vel allt saman. Veðrið hálfgerð hríðarmugga og strekkingsvindur og svo fóru bílarnir að bila. Reyndar fyrst gekk ekki baun í bala að komast upp brekkuna við Jöklasel og endaði það með því að Bolinnn snéri við eftir klukkutíma stím og dró annann upp en hinn gat Straumurinn keyrt upp í spor Bolans. Svo bilaði annar Patrollinn og aumingja Frímann bara kominn í tog. Óttalegt ófæri á jöklinum líka og hin pjattrollan í slóðinni bara.

ERS_5846Ein pjatrolla í togi og hin í slóðinni


Hávaðarok á Grímsfjalli. Lykillinn ekki á sínum stað og þurftum að grípa til neyðarúrræða. En inn komumst við eftir að hafa mokað svolítið frá.

ERS_5857

Það þurfti að sjálfsögðu að moka sig inn í skálann á Grímsfjalli


Veðrið var hávaða rok. 20m/s líklega og mikið hvassara í kviðunum. Ekki stætt til að komast í gufuna sem var frekar köld. Sturtan hins vegar brennandi heit. Sovét í heilan dag að segja. Margt hefðbundið gert. Spilað, sagðar sögur, leystar gátur, lesinn Jökull og gamlar Ferðafélagsbækur.
ERS_5905

Sigga og Lambi "kotroskin" en Katrín leysir villuþrautirnar


Fórum í íshellaleiðangur. Veit ekki hvort það þýddi eitthvað en mér fannst jörðin óvenju heit í íshellunum. Ég reyndar ekki í miklu stuði og fór ekki inn í þá að neinu ráði. Hef reyndar aldrei vitað íshellana svona lágreista áður. Veit ekki hvort við vorumá röngum stað en held samt ekki. Þeir voru bara frekar litlir.

Eitthvað dyttað að bíulunum sem voru frekar báðir frekar slappir. Annar með bilað framdrif en hinn illa þjakaður af magaverkjum í vélinni. Áltiið að þar hafi ís í olíu haft eitthvað að segja. Enginn ísvari með í för.... hvers konar útbúnaður er þetta eiginlega á þessum félögunum mínum.

ERS_5898

Daníel á prímusnum


Svo datt allt á dúnalogn að morgni laugardags. Nú skyldi haldið af stað að Þumli og hann klifinn. Gert ráð fyrir að tjalda þar. Eitthvað dróst nú brottförin samt. Frá mörgu að ganga áður en hægt var að halda af stað og svo þurfti að ná eins og einu drifskafti undan þeim framdrifsbilaða.

Á meðan sumir voru fastir undir bílunum fóru aðrir í smágöngu fram á brúnir og horfðu ofan í Grímsvötnin. Enginn vissi hvað í vændum var. Ímyndun eða ekki en ég hafði fundið eitthvað sem hefði getað verið jarðskjálfti um morguninn en samt alls ekki viss. Grímsvötnin sýndu sitt fegursta andlit!

Með Grímsvötn í bakgrunni

Séð yfir Grímsvötnin


Grímsvötn að morgni gosdagsins 22. maí 2011Myndin að ofan sýnir Grímsvötnin og stór útgáfa af panorama mynd af Grímsvötnum er hér til hliðar. Hvort eitthvað er hægt að sjá að hafi verið farið af stað veit ég ekki. Til að sjá myndina stóra þá smellir maður á hana bara. Sendi Magnúsi Tuma svona mynd til að hún væri kannski nýtileg einhvers staðar.

En við vissum ekkert og héldum bara af stað. Héngum aftaní og ég snéri á mér hnéð. Reyndar ekki nein ósköp þar sem það lagaðist vonandi að mestu á fáum dögum í hnélífinni minni heima.

Afturdrifséppinn alveg að standa sig en sá með magaverkina ekki að geta neitt og hangandi aftan í hónum Bola. Ég í honum með Frímanni og stilltir á einhverja ranga Tetrarás. Allt í einu stoppaði bara Boli í smá tíma. Einhver talstöðvarsamskipti um einhverja aðra á jöklinum og svo bara haldið áfram. Eitthvað dularfullt og svona hálftíma seinna kallaði frímann í talstöð hvað hefði verið um að ræða. Og svarið... það er bara farið að gjósa í Grímsvötnum. Ég orðlaus algjörlega. Bara eitt stórt "ha".

Brátt bárust fréttir af því að gosmökkur væru kominn upp í gegn og við héldum bara áfram að fjarlæjgast atburðina. Vorum líklega í svona 20km fjarlægð þegar það byrjaði að gjósa. Sáum undir gösmökkinn þegar við stoppuðum.

ERS_6065

Séð undir gösmökkinn



Ég áttaði mig eiginlega ekki á þessu fyrr en þegar heim var komið hvað þetta var merkilegt. Tók allt of lítið af myndum. Var enda hálf bæklaður eitthvað inni í bíl með bögglað hné og Frímanni líka ekki alveg í essinu sínu á bilaða bílnum hangandi aftaní.

Þumall algjörlega afskrifaður (afskriðaðist reyndar aðallega út af bílabilunum upphaflega). Til stóð að koma báðum bílunum af jökli og fara svo til baka til að taka öskusýni. Einhverjir áttu að geta farið með. Svo breyttust plön og við öll á leið niður af jökli og jarðvísindakarlar á leið úr Reykjhavík til að fara með Bola að eldstöðvunum.

Ég síðan að reyna að ná í Gunnann til að grobba mig af því að vera loksins nær einhverjum atburðum en hann. En hann ekki að svara neinum símum. Edna ekki furða. Bölvaður melurinn var bara að fljúfa yfir gosstöðvarnar!

ERS_6071

Reykur undir reyk á við Jöklasel á Skálafellsjökli


Við gistum í barnaskóla á Höfn. Boli gerður ferðbúinn og Lambi skilinn eftir við Skálafellsjökul til að fara með vísundunum. Enginn með rænu á að betla að fá að fara með. Veit ekki hvort það hefði gengið en samt kannski. Verð bara að komast í JÖRFÍ ferðina á næsta ári.

Vegir á Suðurlandi lokaðir út af öskufalli við Freysnes og Vík en við með leyfi til að fara. Ekki mikið öskufjúk eða fall á leiðinni en samt greinilegt að mikið hafði gengið á þar sem öskufallið var örðið umtalsvert strax sólarhing eftir að gosið hófst.

ERS_6195

Aðkoman að Skaftárskála ekki mjög kræsileg


Vorum komin heim um miðnætti og var maður hálf lúinn eftir þetta allt saman þó líkamlegt erfiði hafi nú ekki verið mjög mikið, sitjandi inni í bíl, húsi eða hangandi aftaní allan tímann!

Myndaserían úr ferðinni er síðan hér á Flickr.

....

Monday, May 16, 2011

Suðurladsferð að baki

ERS_5373

Jarð- og landfræðinemar við jökulker af stærri gerðinni fyrir framan Gígjökul


Þá hefur maður farið í jarðfræðiferð með öðrum nemöndum. Það var í mestan part bara gaman en samt eru sumir dálítið eins og úti á þekju. Kannski birtist best í því að vera einsamall í herbergi og geta ekki taggað neinn á myndunum sem fóru áðan á fésbókina... ja reyndar fyrir utan Rakel og Hönnu Lilju á einni mynd sem er auðvitað ekki svo lítið. Annars mikið betrara að skoða myndirnar á Flickr þar sem verður til sett af myndunum í eitthvað skárri upplausn.

Ég man síðan ekkert úr ferðinni sem slíkri þar sem dagbókinni úr sem lýsti öllu... nákvæmlega öllu sem fyrir augu bar... var skilað til yfiferðar í lok ferðarinnar!

ERS_5648

Spekúlerað í öskulögum við Hólmsárbrú


Í lok ferðar var farið upp á Kögunarhól við Ingólfsfjall hvar ótrúlega góð skýjamyndum blasti við. Kannski spurning um að gefa nafna mínum Sveinbjörnssyni þessa mynd til að nota í skýjamyndakennslu einhvern tíman. Hægt að smella á myndina til að fá hana súper stóra!

Kogunarholl skyjamyndir 2-1000

Skýjamyndir suðurlands ofan af Kögunarhóli við Ingólfsfjall. Hægt að smella á myndina til að fá hana stóra - stóra


Veðrið var mjög sérstakt. Skúraveður með frekar köldum skúrum og þegar við vorum á Selfossi kom á okkur slydda eða mjög blaut snjókoma. Jörðin var heit þannig að snjórinn bráðnaði um leið og hann lenti. Svo stytti upp og sólin braust fram. Uppgufunin var svo mikil þarna í Kögunarhól að það rauk úr honum. Skýjabólstrar hrönnuðust upp og þessi mynd var tekin til austurs-suðurs-vesturs.

Myndir úr ferðinni eru á Flickr.



Svo þegar ég komst í netsamband heima hjá mér þá komst ég að því að einkunnagjöf í SMS virkar ekki baun í bala. Þrjár einkunnir komnar og jújú... er núna kominn með jafnmargar níur og í verkfræðináminu hér í dentíð. Ekkert rosalega slæmt það og jarðfræði2 einkunnin ætti að koma á morgun.

Monday, May 09, 2011

Græðlingaferðin mikla á Fellsmörk

Sumarið komið á Fellsmörk
Það var farið að grænka á Fellsmörk

Jæja... þegar vorið er komið hlýtur sumarið að vera á næsta leyti og það var í Fellsmörk. Held svei mér að þar sé ekkeret vor lengur, heldur bara sumar! Við bræður fórum ekki af stað fyrr ein seint og um síðir. Báðir eitthvað að garðstússast á sitt hvorum staðnum í henni Reykjavík. Reytndar aðallega hann hinn en ég svo sem ekkert ósáttur við að æða ekki af stað í neinu offorsi. Báðir orðnir banhungarðir þegar austur kom og átum hálf svikna nautateik sem var næstum því bara hakkabuff en vorum líka með sneið af hesti sem var alveg eðalis.

Vorum ekki alveg jafn morgunlatir í Fellsmörk og stundum. Reyndar ekki hægt að vera jafn latur þar um sumar og um vetur. Á veturna þegar ekki lýsir af degi fyrr en undir hádegi er engin ástæða að fara á fætur fyrr en þá eða þar um bil. En ég fór fyrst út og tók einhverjhar myndir eins og þessa blaðgrænulegu að ofan.

ERS_5057
Gunni gerir að græðlingum á Fellsmörk

Síðan eftir morgunmat hófst græðlinganiðurpotið ógurlega! Gunni hafði víst verið í hérumbil skógarhöggi heima hjá sér og fyrir tveimur vikum kom hann með heilt kerruhlass af græðlingum sem var að stórum hluta ennnþá óniðurstungið. Eitthvað meira komum við með líka núna þannig að það var tekið til óspilltra málanna. Hrúgan sem græðlingameistarinn er við á myndinni að ofan var bara hluti (reyndar þó meirihluti) græðlinganna sem við vorum með. Kláruðum þetta samt ekki en nóg samt. Settum aðallega ofan í mýrina að þessu sinni neðan og innan vegar. Fyrir tveimur vikum hafði Gunninn sett niður í mýrina við kofann held ég sé. Reyndar veit ég aldrei hvað hefur verið sett niður hvenær hvar og e.t.v. búið að setja niður þarna áður að einhverju leyti en afföll orðið helst til mikil. Dreg það nú samt í efa.

ERS_5231
Flöskutré

Á meðan Gunni snirti efraborð græðlinganna tók ég flöskur ofan af grenitrjám. Það voru grenitré sem við gróðursettum sumarið 2009 og líklega einum til tveimur árum fyrr líka. Fyrstu trén sem við gróðursettum þarna í þessari brekku fengu ekkert skjól sinn fyrsta vetur og þau drápust flest ef ekki öll. Það er eitthvað meiri árangur núna en hann er ekki of mikill. Við setjum þessi tré niður, útbúm hlífar úr gömlum gosdrykkjarflöskum og mótavír sem er keyptur í Bykó. Síðan þarf fyrstu haustin að setja hlífarnar yfir trén og taka þær af aftur að vori. Þar sem við leggjum á okkur að hlífa trjánum er veðurofsinn ekki aðal skaðvaldurinn, heldur er það bölvuð yglan sem blossar upp að haustlagi og étur allt barrið af trjánum. Minnstu trén geta verið étin af einni eða tveimur yglum upp til agna. Það er allt barrið er étið.

síðan þau tré sem lifa af þau vaxa að lokum upp og þá gerist það al undarlegasta af þessu öllu. Það erum ekki við sem gróðursetjum sem eigum trén heldur er það Skógræktarfélag Reykjavíkur sem á trén og síðan samkvæmt samningum Skógræktarfélagsins og Landbúnaðarráðuneytisins þá á hugsanlega ríkið trén. Reyndar eru einhver örlítil rök sem hníga að þessu þar sem stór hluti trjánna kemur upphaflega frá Landgræðsluskógaverkefninu en það er alls ekki þannig um öll trén.

Svo er það svo undarlegt að við sem erum vinnumenn annarra að planta þarna, leggjum mikið á okkur við að fara þarna austur í Mýrdal frá Reykjavík, borgum töluverðaupphæð til Skógræktarfélags Reykjavíkyr fyrir að fá að planta þarna og hugsanlega byggja einhvern sumarbústað í framtíðinni. Eða ekki þar sem það er búið að taka þann rétt af okkur. Og þessir sömu aðilar, Skógræktarfélag Reykjavíkur og e.t.v. Landbúnaðarráðuneytið hafa frá upphafi þessa verkefnis komið sér hjá því að leggja eða viðhalda girðingum og vegum á svæðinu.

Já, Fellsmörk er hin mesta raunasaga en hún er nú samt dálítið falleg og skemmtileg Fellsmörkin sjálf.

ERS_4944
Birkið að springa út

Friday, May 06, 2011

Að vera moldargerðarmaður

Safnkassinn

Þar er nýi safnkassinn, gamli safnkassinn og heimasmíðaða eðalisfína moldarsigtið mitt, gamla gasgrillið mitt sem er er orðið að kolagrilli, einhver garðáhöld og garðhúsið að hruni komið í bakgrunni!


Í fyrra var ég eitthvað að vandræðast með safnkassann í garðinum hjá mér, sem er ekki mjög stór, safnkassinn sko. Garðurinn er reyndar ekki heldur neitt rosalega stór.

Ætlaði alltaf helst að fá safnkassa fyrir slykk hjá Borgarplasti en þeir voru samt dýrir og ég ekki í neinu sambandi við þá félaga mína þar. Svo var einhver ekkert svo slæmur safnkassi hjá Byko sem kostaði heldur ekkert svo rosalega mikið. En þegar ég loksins ætlaði að kaupa hann þá var hann ekki lengur til. Ég lét það ekki henda mig annað árið í röð og núna hef ég svona eiginlega þrefaldað moldargerðarmöguleikana mína.

Týndi einhver dauð sprek sem reydnar rotna eiginlega ekki neitt. Sams konar sprek frá því fyrir ári síðan eru víst nefnilega við sæmilega heilsu ennþá en einhver mold hefur nú samt verið að myndast þarna.

Reyndar vill hún á neðri hæðinni fara að kaupa einhvern til að sjá um garðinn en ég hef eiginlega ekki mikinn áhgua á því að fara að borga einhverjum fyrir að sjá um garðinn hennar og hundsins hennar. Vil skipta garðinum upp og ég fái minn garð og hún geti haft sinn garð fyrir sinn ágæta geltandi hund.

Það verður samt að játast að það var nú ekki mikill hundaskítur í garðinum að þessu sinninu!

Wednesday, May 04, 2011

Kaflaskipti

Tók seinasta prófið núna í morgun. Þau voru nú reyndar ekki mörg prófin. Kúrsarnir voru fjórir. Í einum voru vikuleg próf og ein ritgerð en ekkert lokapróf, í einum voru verkefni og síðan þriggja daga heimapróf sem gilti ekki nema einhver 25%, svo stóra jarðfræðiprófið fyrir viku síðan sem gekk eiginlega frá mér en ég held að ég hjafi gert bara þokkalega hluti á og svo í morgun loftslagshlutinnn í Vatna- og loftfslagsfræði.

Dálítið undarlegt próf eða svona hvernig staðið var að því. Það var einhver hyper rúmlega miðaldra kona sem stjórnaði öllu í stofunni sem prófið var. Hélt langa fyrirlestra og vísaði til fyrri reynslu sinnar. Hélt áfram eftir að prófið var löngu byrjað að trufla með einhverjum fáránlegum tilkynningum. En það skondna var að prófið sem átti að vera 1,5 klst var bara gert að þriggja tíma prófi eða það sýndist mér. Ég gerði ráð fyrir einum og hálfum og var eiginlega búinn þegar sá tími var liðinn og skilaði bara en flestir sátu áfram. Varð til þess að ég missti af því að fara á kaffihús eða eitthvað með henni Björgu. En það hlýtur að gefast annað tækifæri til þess. Hef ekki kynnst mörgum þarna í HÍ í vetur og eiginlega helst henni Björgu sem var með mér í hópverkefni í vatnafræðinni.

Svo eftir hádegið þá breyttist ég úr skólastrák í stjórnunarráðgjafa og kennara. Var að kenna á úttektanámskeiði eftir hádegið með Kjartani í Vottun. Fastir liðir eins og venjulega. Námskeiðið orðið 17 ára gamalt. Ekki slæm ending það á svona námskeiði.

Komst svo loksins í langþráðan hjólatúr. Varð reyndar ekkert of langur þar sem ég ætlaði að halda upp á próflokin með að sötra smávegis rauðvín með steiktum lambaskanka. Rann ljúft niður.

Já svo annars. Er svona að ganga frá því að verða skálvörður hjá FÍ í Landmannalaugum í júlí í sumar. Verður vonandi bara gaman að prófa það!

Já og svo er stefnt á Fellsmörk um helgina en reyndar ekkert sérstaklega hagstæð veðurspá og svo á líka að fara í jeppakaupaleiðangur. Það verður að bíla sig eitthvað upp held ég fyrir sumarið.

Tuesday, May 03, 2011

Og svo kom vorið

Árbæjarstífla

Árbæjarstífla - löngu búið að hleypa úr

Á honum fyrsta maí var ég boðinn í mat til foreldranna. Hjólaði mér til skemmtunar í slabbinu. Fór lengri leiðina bróður mínum ekki til mikillar ánægju því hann var víst farinn að bíða eftir mér.

Tók myndina að ofan á Árbæjarstíflunni en hér í eldgamladaga þegar ég bar út Moggann á Vatnsveituvegi þá var hinn fullkmoni vorboði þegar hleypt var úr stíflunni. Ég vissi það ekki þá en veit það núna hvernig það virkar að búa til rafmagnið. Það þarf að vera vatn í stíflunni og því hærra því betra. Og þess vegna var haft vatn í henni á veturna þegar rafmagnsframleiðsla var í gangi hjá þáverandi Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Reyndar er Elliðaárststöðinsvo lítil í nútúmasamhengi að hún var nú bara keyrð upp á grínið, líka þegar ég var yngri fyrir margtlöngu. Reyndar var fallpípan endurnýjuð einhern tíman þegar ég var að verða unglingur líklega rétt fyrir 1980. Ég og Ívar besti vinur minn í þádaga fórum ógurlega njósnaleiðangra þangað á vegum leynifélagsins sem gekk undir nafnu "Guli skugginn" en bara hjá okkur tveimur... það vissi enginn annar um þetta leynifélag enda var það leynifélag.

En það er sem sagt búið að hleypa úr stíflunni fyrir einhverju síðan enda átti vorið að vera löngu komið. Eitthvað var það nú samt að láta standa á sér þarna. Ég fór síðan könnunarleiðangur til að skoða Vatnsveiturvegarhúsin. Þau eru bara tvö eftir. Hraunteigur og ætli það heiti ekki Laufás þar sem "Pabbinn" á líklega ennþá heima en orðinn aðeins gamlaður. Þau á Hraunteig hljóta líka að vera farin að reskjast. Líklega eru einhver ár síðan Öxl var rifin og ég hafði líklega tekið eftir því einhvern tíman áður. En það er af sem áður var þegar húsin þarna hétu eftir því sem ég man best: Laufás - Hraunprýði (þar sem Sammi og Bói áttu heima) - húsin tvö þar sem "Moggakeddlingin" átti heima og borholan var á hlaðinu (man ómugulega hvað þau hétu) - Sléttaból (þar sem fólkið sem keypti Þjóðviljann átti heima) - Fossgil eða Hofsgil var einhvers staðar (reyndar alls þrjú hús, eitt rifið fyrir mitt minni og eitt brennt sem brunaæfing) - Ásbyrgi hét eitt einu sinni - Hestakaddlinn þar sem Doddi kallaði vondu fýluna (en man ekki nafnið) - Sjónarhóll (sem var rifinn frekar nýlega) - Heiðarhvammur (þar sem Marta átti heima) - Gerði (þar sem Höfðabakkinn liggur núna) - Hraunteigur (sem stendur enn) og loks Öxl. Líklega var eitt eða tvö hús sem voru þarna en búið að rífa áður en ég komst til einhvers vits

Eiginlega alveg ljóst að ég verð að rifja upp hvað þessi hús hétu og finna myndir af þeim sem ég á til einhvers staðar.

Á heimleiðinni fór ég svo yfir það sem ég kallaði einu sinni Breiðholtsbraut en heitir víst núna Reykjanesbraut og reyndar búin að heita svo lengi.

Reykjanesbraut

Reykjanesbraut til sjávar


En vorið maður... vorið

En svo kom vorið eða eiginlega sumarið í dag. Ég átti að vera að lesa veðurfræði endalaust en varð eitthvað leiður á því. Bíltúr út á Seltjarnarnes og þar var tekin mynd af fugli dagsins sem er gargönd ef mér skjátlast ekki þeim mun meira. Hef ekki tekið mynd af því flygildi fyrr.

Fugl dagsins: Gargond - Anas strepera

Gargandapar á svamli í Seltjörninni á Seljtarnarnesi


Af því að vorið virðist loksins vera komið og ég átti að vera að lesa veðurfræði, þá læt ég fylgja með áhugaverðt kort sem ég bjó til í veðurfræðiverkefni. Jafnhitalínur fyrir hitameðaltalið frá 1961 til 1990. Kemur fram að hlýjast er í Vestmannaeyjum og kaldast viö Mývatn og lendir Mývatn með hálendingu í ársmeðalhita. En takið eftir bölvuðum Akureyringunum. Það er hitasvæði í krinum Akureyrir. Ég fékk þessa mynd í öllu falli ekki til að gang upp öðru vísi.

hitameðaltal

Svo bjó ég til PDF útgáfu af þessu verkefni mér til skemmtunar og kannski einhverjum öðrum til fróðleiks. Setti á heimasvæðið mitt hjá HÍ.

Sunday, May 01, 2011

Það hélt áfram að snjóa í nótt

In my garden

Fuglahísið í garðinum... ekki von á miklu varpi í þessu tíðarfari!



Það var rúmlega 16cm snjódýpt hjá Veðurstofunni í morgun sem er 1cm frá því að vera met en það var í maí 1987 sem snjóaði ennþá meira. Seinasti maí snjór í Reykjavík var 1992. Þetta er því ekki daglegt brauð að hafa snjó í henni Reykjavík á þessum árstíma.

Þetta má svo lesa nánar um á veðurbloggi nafna míns Sveinbjörnssonar en ég á víst að vera að lesa fyrir próf hjá honum sem verður næsta miðvikudag!

Ég tók daginn snemma og tók nokkrar myndir sem má sjá hér. Braut battaríslokið á D200 myndavélinni. Er líklegast einfalt og ódýrt að fá nýtt lok en sagði mér kannski að e.t.v. ætti ég að fara að hugsa um að endurnýja myndavélina sem er farin að komast helst til mikið til áranna sinna. Er að verða 5 ára gömul held ég, þ.e. D200 vélin. D70 vélin er búin að vera óvirk síðan einhvern tíman í fyrra. Hún skilur ekki nein minniskort lengur. Það yrði ekki gaman fyrir mig ef myndavélin gæfist upp í sumar þegar ég ætlaði að vera að taka einhverja hauga af alls kyns myndum.

Eitt annað sem er brotið og gæti verið eiginlega verrara er ein af tönnunum mínum. Er reyndar búið að vera trassaskapur hjá mér að láta ekki laga þetta en það verður gert um leið og prófin eru búin.

En á meðan ég fór út að taka myndir þá var í Fagrahjallanum farið í snjókaddlagerð þegar leið á daginn.

KBG og HVK í Fagrahjallanum með snjókaddlinum og snjóbarninu að taka á sig mynd... mynd af Facebook síðu Kristjáns

Jólalegt um að litast í maí

Það haustaði óvenju snemma það vor... ég meina þann vetur haustaði óvenju snemma.

Have you heard about the spring?

Tíðarfarið er frekar undarlegt verður að segjast. Einhvern tíman í febrúar kom langþráður snjór sem fljótlega bráðnaði og svo varð bara hlýtt. Ég afskrifaði veturinn. Núna er að byrja maímánuður. Þá á að vera komið vor en úti er snjór. Það er svo sem enginn alvöru vetur og reyndar var hitastig í apríl víst ekkert undir meðallagi. A.m.k. ekkert mikið. Ég á nú samt eftir að skoða það eitthvað. Held að það hafi verið hins vegar hvassviðrasamara og blautara og kannski þannig að úrkoma og vindur hefur farið saman.

Annars hefur veðrið í dag verið bara voðalega gott eða þannig. Það sem ég hef helst haft út á veðrið að setja er að það hefur verið meira og minna endalaust rok að undanförnu. Ég var búinn að sjá í veðurspánni að það myndi verða logn í dag og hugði mér gott til glóðarinnar að geta racer hjólað aðeins í logni svona til tilbreytingar. En ekki var hægt að súpa á þó í ausuna væri komið a.m.k. ekki á racer. Logninu fylgti kuldapollur sagði veðurfræðingurinn og það varð sami hiti í Reykjavík og uppi á Holtavörðuheiði. Svo eru fréttir af 15°C hita á Raufarhöfn. Þetta er náttúrlega ekki alveg í lagi!

En það er snjór í Hæðargarðinum. Myndin fyrir ofan er úr almenningsgarðinum í Hæðargarðinum og þessifyrir neðan sýnir H34 með Ventó í forgrunni. Hann fer nú kannski bráðum að verða til sölu ef ég fer eitthvað að heppast. Hver veit... jú, ég þykist vita.

Have you heard about the spring?

Svo á ég nú reyndar að vera að lesa veðurfræði en hvernig er það hægt þegar veðrið er svona handónýtt!