Wednesday, July 30, 2014

Í músahúsi mega þröngt sáttir sitja

Þröngt setið í Músahúsinu Úti var rigning, inni voru eitthvað tæpir 10 fermetrar... þar var þurrt á meðan ekki var gusað úr glösum í allar áttir hvar þröngt máttu sáttir sitja í græna Músahúsinu. Sjaldan hafa svo margir verið innandyra í Músahúsi í einu og aldrei svo margir að borða þar. Gekk þó allt stórslysalaust fyrir sig. Hrefna Vala reyndar datt ofan úr koju - bara neðri koju - meiddi sig ekkert þannig séð en það gusaðist rauðvín eitthvað út um allt. En það var bara ágætt.

Byltan tveimur dögum seinna varð verri þegar bloggarinn rann á sleipum gólfbita, fór úr axlarlið og braut bein.

-----
Eftirá innfærð bloggfærsla en var upphaflega á FB síðunni minni að hluta.

Monday, July 07, 2014

Afrakstur sultusuðu næturinnar.



Sunnudagurinn 6. júlí var dálítið sérstakur. Eftir að hafa lesið eitthvað jarðfræðidót fram eftir degi og skokkað smávegis í Heiðmörk, aðallega til að komast að því að kálfinn er ekki ónýtur þá var farið út í garð.

Ætlaði ekkert að gera neitt merkilegt í garðinum en endaði einhvern veginn fór það þannig að innihald safnhaugskassanna var forfært fram og til baka. Gaus þá upp frekar vondur fnykur og leist mér ekki á blikuna þegar konan í næsta garði sagðist ekki lengur geta verið úti því það væri komin svo mikil kíkalykt.

Eitthvað náði ég nú að koma þessu inn í kassann aftur og vona að fnykurinn sé þar lokaður inni en þarf greinilega eitthvað að skipuleggja betur þessi safnhaugamál.

En... ég tók líka inn rabbarbara sem var þarna við safnhauginn og fékk þessa líka frábæru hugmynd að gera mér rabbarbarasultu. En þá vantaði sykur. Í stað þess að fara að fá mér að borða þá var farið út í bíð að kaupa sykur og svo var hugmyndin að elda mat á meðan sultan myndi malla. En þá tók dagurinn aðra óvænta stefnu. Sem ég nálgaðist Skeifuna því ég ætlaði í hagkaup þá sá ég að eldgos var hafið í Skeifunni. Eftir að hafa fylgst með eldsvoðanum í meira en klukkutíma kom björgunarsveitarútkall til reka almnenning eins og mig sjálfan í burtu.

Var auðvitað ekki með nein björgunarsveitarföt með mér en fékk lánaðan stakk af Kjartani Óla sem er svona 20cm lægri en ég. Það var ágætt og ég stóð vörð fram undir miðnætti.

Þá var farið heim til sultugerðar og eldamennsku. Eldamennskan var einföld en fólst bara í að hita upp einhverja grýtukássu frá deginum áður. Sultugerðin var líka einföld. Bara skera rabbarbarann niður og setka sykurinn með og sjóða svo.

En ég sauð og sauð en sultufjandinn þykknaði ekki neitt. Fór svo bara að sofa um miðja nótt en lét sultuna malla áfram.

Undir morgun eða þar um bil vaknaði ég aftur. Dauðhreinsaði krukkurnar upp á nýtt og hellti sultunni á sam mér fannst vera orðin mátuleg og alveg rosalega góð á bragðið.

Sofnaði svo aftur og fékk mér brauð með sultu í morgunmat. Mikið rosalega var hún annars vegar góð en hins vegar hroðalega þykk!

-----
Var upphaflega á FB síðunni minni en fært hingað með dagsetningu skráningar þar.