Tuesday, May 13, 2003

Hvað er með þessa stjórnarandstöðu eiginlega
Ætlaði að bloggainn á aðra síðu en ákvað að gera þetta að bloggfærslu hjá sjálfum mér í staðinn.

Hvernig er það eiginlega með þessa stjórnarandstöðu og samfylkingu sérstaklega að geta ekki náð að að sigra þessa ríkisstjórn í kosningunum. Kosningabaráttan þeirra snerist öll út í einhvers konar miðjumoð fannst mér. Deilur um innantóm kosningaloforð sem snerust aðallega um hvort hægt væri að lækka skattana einu prósenti meira eða minna og síðan þessa tveggja turna leiðtogadýrkun sem ég gat nú eiginlega ekki séð að ætti að verða neitt minni hjá samfylkingunni heldur en sjálfstæðisflokknum.

Alls kyns klúður síðustu ríkisstjórnar s.s. með Falun Gong frá í fyrra sumar þar sem stjórnvöld í Kína voru farin að hlutast til um það hverjir fengi að koma til landsins. Líka utanríkisstefna ríkisstjórnarinnar sem miðast alls ekki við að við séum Evrópuríki og jafnvel ekki eini sinni ríki í Sameinuðu þjónunum heldur að við séum eitt af Bandaríkjunum og birtist sú stefna best í afstöðu ríkisstjórnarinnar í innrásinni í Írak.

Ekki tókst heldur samfylkingunni að hafa hugrekki til þess að gera evrópusambandsaðild að umræðuefni í kosningabaráttunni, hvað þá meira.

Eiginlega það eina sem ég man eftir að fram hafi komið í kosningabaráttunni frá samfylkingunni um af hverju ætti að skipta um stjórn var að hún hafi bara verið svo lengi að það sé kominn einhver dularfullur tími til að skipta um. Ekki neitt sérstaklega hvað hafi verið svona vont við stjórnina sem sat eða hvað nýja stjórnin ætlaði að gera svona voðalega gott.

Síðan kom Davíð bara rólegur, yfirvegaður og landsföðurlegur og allir búnir að gleyma frekju bláu handarinnar og því hernig landinu er raunverulega stjórnað oft á tíðum með frekjunni einni saman.

Það sem síðan er kannski skrýtnast við þetta er að í fyrra voru bæjarstjórnarkosningar og þá var þetta eiginlega alveg eins. Það eina sem ég man almennilega að sjálfstæðisflokkurinn hafði fram að færa þar var að R-listinn væri búinn að verfa svo lengi að það væri kominn tími til að skipta um. Og þar sem fólk er líklega alltaf fram úr hófi íhaldssamt þá vill það ekkert vera að skipta nema það komi einhver meiri og betri rök fyrir því af hverju á að skipta.


Jæja en búinn að bulla nóg og ætti að vera sofnaður fyrir löngu. Hér verður ekki bloggað frekar um pólitík fyrr en í fyrsta lagi í fyrramálið.

No comments: