Friday, October 01, 2004

Það er loftræstikerfi inni í hausinum á mér


Mér er stundum tíðbloggað um heisluleysið á mér þegar það er heilsuleysi á mér. Það er núna eins og sumir vita. Það er einhver ólukkans prakkari búinn að setja loftræstikerfi inn í hausinn minn og það heyrist í því.

Ég er alla vikuna búinn að vera meira og minna einhvern veginn eins og í fjarska við allt og alla. Alveg einstaklega ömurlegt eitthvað. Hef varla getað haft eðlileg samskipti í vinnunni. Kannski þess vegna sem mér hefur að vissu leyti orðið vel að verki.

Þetta er dálítið eins og það sé einhver skán á milli heilans og eyrnanna. Ef einhver segir mér eitthvað sem ég þarf að skilja þá virkar það til dæmis alls ekki. Eftir þriðju eða fjórðu tilraun fer ég svona að kinka skilingsvana kolli og vona að ég skilji eitthvað einhvern tíman.

Síðan geta þetta ekki verið almennileg veikindi með háum hita og óráði eða uppköstum. Neinei. Ég rétt næ 37 gráðunum og get ekki hóstað eða sogað upp í nefið nema svona rétt til hátíðarbrigða. Svona til að senda út beiðni um smá meðaumkun. Sem ég hef nú reyndar fengið stundum. Að minnsta kosti vita orðið flestir sem eru að vinna með mér að ég er eitthvað ferlega slappur. Enda ekki eðlilegt að segjast ekki komast út á Jensen tvo föstudaga í röð vegna einhvers undarlegs krankleika.

Var síðan búinn að panta miða á Hárið með vinnunni minni í kvöld og fór bara. Það var reyndar alveg frábært. Hártónlistin yfirgnæfði alveg loftræstikerfið og ég var svona bara nálægt því að vera ég sjálfur og með sjálfum mér. Til allar guðsblessunar vinn ég bara með svona miðaldra fjölskyldufólki þannig að það varð ekkiert næturgölt á eftir. Allir fóru bara til síns heima. Ég líklega einn um að vera gangandi og kom við á Devitos og fékk mér tvær sneiðar í síðbúinn kvöldverð.

En þetta er síðan alveg voðalegt dónastykki. Ég meina, allt í einu voru bara allir á sviðinu komnir úr öllum fötunum og ég veit ekki hvað. En svona er víst ungdómurinn nútildags - það kann enginn lengur að skammast sín.

Ég veit annars ekki hvað í ósköpunum ég á að gera með þetta heilsuleysi. Hvort ég eigi að halda endalaust áfram að vera svona eitthað hálf veikur og fara kannski til læknis. Ojbara ég þoli ekki að fara til læknis. Það er svo leiiiiiðinlegt.

Er frekar að hugsa um að gefa bara skít í allan þennan krankleika minn og fara jafn vel í sumarbústaðaferð sem stóð til um helgina. Með heitum potti og alles. Fara síðan á mánudaginn og endurnýja WorldClass kortið og taka bara hraustlega á því. Væri örugglega snjallast. Og svo er ekki seinna vænnna fyrir mig að fara að koma mér í almennilegt form. Það styttist í hana Afríku.

No comments: