Wednesday, October 06, 2004

Þegar maður keyrir á sinn eiginn bíl


Ég hef átt tvo bíla lengi. Að minnsta kosti í mörg ár. Einkar snjallt að geta haft tvenns konar bíla í eini. Annar er sko jeppi en hinn fólksbíll. Já svona annar til að fara á fjöll en hinn til að snattast á í bænum gæti maður haldið. En nei reyndar ekki í mínu tilfelli þar sem jeppinn hefur verið eitthvað lasinn upp á síðkastið og ekki farið í marga útreiðartúra.

En til hvers? Jú það er alltaf rosalega gott að eiga einn jeppa á stórum dekkum þó hann keyri nú ekki mikið. Uppgötvaði síðan í morgun alveg nýja fítus í þessum bílamálum mínum. Tveir bílar eru nefnilega forsenda þess að maður geti keyrt á sinn eigin bíl. Það tókst mér sko í morgun. Ég var ekki kosinn ökuþór fyrirtækisins fyrir ekki neitt sko.

Hafði lagt bílnum sem vill keyra beint fyrir aftan hinn kvöldið áður og svo þegar ég var að leggja af stað þá rann sá keyrandi 5 sentimetra áfram og á hinn og *bölv* það brotnaði aðeins úr einhverri skrambans *bölv* grjóthlíf á ökubílnum. Það sá náttúrlega ekki á stöðubílnum, enda sér ekki á svörtu og heldur ekki von á miklum beyglum þegar einhver vesæll fólkgsbíll keyrir undir stuðarann á alvöru jeppa [sem reyndar keyrir aldrei neitt lengur].

Síðan til að fullkomna daginn fyrir mín ökuæki þá tók löggan upp á því áðan að gera einhverja athugasemd við græna miðann á ökubílnum minum. *bölv* aftur og *ragn* bara líka. Og til að auka enn á gleði mína yfir þessu öllu þá varð veskan mín með ökuskírteininu mínu eftir í vinnunni í dag. Og ég alveg skilríkjalaus. Líklega bara heppinn að hafa ekki lent í grjótinu!

Ég er að hugsa um fara gangandi í vinnuna á morgun.


PS þessi kattarómynd er orðin svo kelin við mig að hún nuddar sér stöðugt upp við hendurnar á mér þannig að ég er farinn að vélrita tóma vitleysyygbvsjsfnf fisjf.

No comments: