Wednesday, October 06, 2004

Dagur eitt í lífi kattapassara


Það er ekki tekið út með sældinni að passa kött. Að minnsta kosti ekki ef kötturinn er Lottufrottuprott eða þannig.

Ég lofa eiginlega guð fyrir að búa ekki í stærri íbúð eða einhverjum búngaló. Ég myndi ekki bjóða í það. Nógu erfitt er nú að finna kattarómyndina í mínum 80 fermetrum eða hvað slotið er nú.

Ég og kisa eigum nefnilega tvo uppáhaldsleiki, sem reyndar eru afskaplega ólíkir. Annar heitir feluleikur og er nokkuð klassískur en reyndar aðallega þá innan mannheima. Ég hef að minnsta kosti aldrei farið í feluleik við kött áður. Reyndar má gera ráð fyrir því að kisugreyið hafi álitið að ég væri í feluleik þegar ég bara hvarf í morgun og fór í vinnuna. Hún veit náttúrlega ekkert um það hvað vinna er eða í hverju maður getur lent þar. Nei, hún sá mig bara hverfa og áleit að ég væri svona suddalega góður í feluleik. Þannig að hún bara faldi sig líka. Ég held að það hafi tekið mig heilan klukkutíma að finna kattarómyndina þegar ég kom heim úr vinnunni. En það tókst.

Og núna vill hún ekkert leika meiri feluleik í bili. Núna er það leikurinn bannað að hætta að snerta mig. Sá leikur gengur út á að halda snertingu eins lengi og mögulegt er. Jábbs, gæti verið voða rómó en þetta er nú bara svona lítil kisa eða þannig.

En sem sagt eftir að hún hætti í feluleiknum er ég búinn að vera önnum kafinn í kisuklappi og kalla ég nú reyndar ekki allt ömmu mína í þeim efnum.

Núna er hún síðan bara að horfa á sjónvarpið. Ég þarf raunar á fund í kvöld út í bæ. Já eitt af þessum félögum sem ég hef látið plata mig til að verða formaður í. Kannsi ætti ég að hafa kveikt á imbanum fyrir hana á meðan ég bregð mér af bæ. Það skiptir annars ekki miklu. Hún gerir líklegast ráð fyrir að ég sé bara í feluleik og svona rosalega klár að fela mig.


....

No comments: