Fellsmörk
Það hafði rignt um daginn. Ekki neitt sérstakt vinnuveður. Vorum eitthva úti við en svo var líka flatmagað í koju þegar mest rigndi. Ég held að Hjalti og Júlía hafi bankað upp á þann daginn. Tveimur dögum fyrr hafði allur innrásarherinn farið til Reykjavíkur og við bræður bara einir í kofa. Það hafði verið rifist og það hafði verið kveikt upp og þetta var í sjálfu sér bara ágætt.
Eftir að hafa fundið út hvernig best væri að kítta bjálkana í kofanum fór smíðin að ganga í sjálfu sér ágætlega og þetta mjakaðist upp röð fyrir röð. Ég var eitthvað farinn að huga að því að leggja spýtur ofan á gólfbitana til að fá öruggari og þægilegri vinnuaðstöðu. það gekk samt ekki betur en svo að þegar ég var búinn að leggja eitt borð, þá bara gekk ég fram af því og datt. Meiddi mig samt ekkert þá.
Slysið
það hafði rignt og var að fara að rigna meira og við eiginlega að fara að koma okkur inn í kofa, fá okkur kaffi eða eitthvað þegar ósköpin dundu yfir. Ég steig á gólfbita, rann og snérist í hálfhring, bar fyrir mig hönd og hún næstum því af. Gunni hélt reyndar að ég hefði rekið hnéð illa í en það var ekki það versta. Ég var úr axlarlið á hægri hendi. Greindi það held ég á svona tvemur sekúndum. Ég lagði strax af stað niður slóðann. Hræddur um að detta á hálum stígnum en slapp við það. Komst inn í bílinn hans Gunna og svo var haldið af stað.
Gunni tók með kók til að drekka og ég saup á þegar hann helti upp í mig. Hægri hendin var ónýt en sú vinstri var notuð til að halda þeirri hægri fastri. Í sambandi við neyðarlínuna komumst við að því að það væri skynsamlegast að halda á Selfoss.
Fljótlega fór dofi að gera vart við sig í hendinni og áður en við vorum komnir að Álftagróf var höndin algjörlega tilfinningalaus upp á upphandlegg. Fingurinr urðu slakari en ég vissi að þeir gætu orðið. Þessi útlimur var mér ekki lengur viðkomandi, minnti mig mest á dauðan kolkrabba eða eitthvað hveljukennt ógeð. Ég óttaðist að allt blóðflæði væri farið úr hendinni (sem reyndar var líklea ekki raunin heldur var ég með illa klemmda taug) og heimtaði ég sjúkrabíl sem kom á móti okkur frá Selfossi.
Fljótlega eftir að við vorum komnir niður á þjóðveg fór ég að fá smá tilfinningu í hendina þannig að ég hætti að verða svo hræddur um að ég ég væri beinlínis að missa hendina - en það var það sem ég hafði óttast. Sjúkrabíllinn var þá hins vegar farinn af stað og varð ekki snúið við.
Í sjúkrabílnum og á spítalanum á Selfossi
Við mættum sjúkrabílnum líklega einhvers staðar nálægt Þorvaldseyri en hann hafði komið frá Hvolsvelli. Það var reyndar einhver læknir á Hvolsvelli en hann vildi frekar að ég færi áfram beint á Selfoss þar sem hægt yrði að taka af mér röntgen mynd einnig. það var því haldið á Selfoss. Sjúkrabíllinn var einn af þessum nýju og verð ég að játa að óþægilegra ferðalag hef ég sjaldan upplifað. Var það ekki bara handleggurinn heldur líka það hvað sjúkrabíllinn var rosalega þröngur. Sjúkrarúmið sem ég var í virtist vera nokkrum númerum of lítið og spyrnti ég mér í glugga og jafnvel vegg á sjúkrabílnum til að detta ekki á gólfið. það gekk illa að koma æðalegg í mig en tókst að lokum. Þáði eftir smá umhugsun eitthvað morfín en það virtist ekki gera mikið fyrir mig. Sötraði kók þess á milli.
Á meðan hafði Gunni ekið til baka í Fellsmörk til að ganga frá og ætlaði hann svo að sækja mig á sjúkrahúsið að því loknu.
Á Selfossi var nýlega útskrifaður læknir. Man ekki lengur almennilega hvað hann hét en hann sprautaði einhverjum óminnishegra í mig og skellti mér svo í liðinn. Ég rankaði við mér eftir myndatökuna og lá þarna í einhveja klukkutíma til að bíða eftir Gunnanum, sme kom eftir langa mæðu. Hann hafði auðvitað tafist eitthvað við það að ganga sæmilega frá eftir okkur. Vissi auðvitað ekkert hvenær hann myndi far næst austur.
það var svo komin nótt þegar ég sofnaði í rúminu mínu, liggjandi á bakinu með hendina í fatla.
Laugardagur með lítilli lukku
Ekki man ég núna þegar þetta er skrifað einum og hálfum mánuði seinna hvernig ég svaf þessa nótt en ég vaknaði að minnsta kosti. Var svona fram eftir morgni að átta mig á því að það að vera einhentur er ekkert grín. Það er erfitt að skrúfa saman kaffikönnu og ég lenti í hálfgerðum bardaga við ananast sem ég reyndi að skera í bita til að fá mér í morgunmat. Hinir einföldustu hlutir urðu alveg skelfilega flóknir. Komst t.d. seinna að því að það er eiginlega ekki hægt að reima skó með einni hendi - eða ég komst að minnsta kosti ekki upp á lag með það. Áttaði mig dálítið á því að ég er alveg skelfilega rétthentur og það sem er kannski merkilegast er að ég í raun hugsa með hægri hendinni. Ef ég get ekki punktað hjá mér það sem ég er að velta fyrir mér - þá get ég eiginlega ekki velt neinu fyrir mér almennilega. Náði engan veginn að einbeita mér. það var reyndar ekki þennan dag en seinna fór ég að reyna að lesa einhverjar jarðfræðigreinar og það var eiginlega ekki hægt að henda reiður á þeim ef ég gat ekkert punktað hjá mér. Endaði á því að fara að tala inn á upptöku á símanum mínum. Stóð mig annars illa í því að lesa greinar eða gera nokkurn skapaðan hlut.
Mest hafði ég kviðið fyrir að segja mömmunni minni frá þessu. Óttaðist að hún færi á einhvern dularfullan hátt að kenna sjálfri sér um þetta því það er verið að byggja bjálkahúsið fyrir hana mestmegnis. En hún tók þessu bara ágætlega yfirvegað og gerðist með það sama mín einkahjúkrunarkona.
Svo varð það úr að ég fór heim á Urðarstekk til að fá kvöldmat þannig að ég væri ekki bara einsamall heima hjá mér. það voru hálfgerð mistök. Þar voru allir og talsverð læti og ég ekkert alveg í stakk búinn fyrir slíkt. Endaði það með því að mér fannst að ég væri aftur að fara úr liðnum. Gunni keyrði mig heim en í staðinn fyrir að fara í Hæðargarðinn fór ég upp á slysó.
Laugardagsnótt á slysó
Við bræður eyddum fyrri part nætur í að bíða eftir að komast að. Ég hafði greinilega ekki borið mig nógu aumlega til að fá neinn forgang og þurfti því bara að bíða og bíða. Það var reyndar mjög athyglsivert og um leið sorglegt að skoða fólkið sem var þarna í biðstofunni. Eftirminnilegust á jákvæðan hátt var finnska konan á níræðisaldri sem var eitthvað veik í meltingarveginum líklega en sagði samferðarkonu sinni endalausar sögur af fólki sem hún hafði hitt á lífsleiðinni. Minnti samtalið hjá þeim dálítið á skáldsögu - líklega Nóttina eftir Fríðu Á. Sigurðardóttur. Eftirminnilegust á sorglega háttinn var stelpan í neyslunni sem vildi bara komast yfir spritt eða eitthvað. Sá reyndar að starfsfólkið þekkti hana. Eftir að ég var farinn inn úr biðstofunni kom löggan víst og tók hana. Hún átti alveg hræðilega bágt stelpugreyið. Heyrðist reyndar að starfsfólkið væri eitthvað að reyna að koma henni í meðferð - en ég gat ekki séð annað en að hún væri að drekka og dópa sig í hel.
En af mér sjálfum. Hún líklega Margrét Sigurðardóttir, læknakandídat byrjaði á því að beygla á mér hendina þangað til mér varð alveg rosalega illt. Þá sendi hún mig í röntgen og svo tók enn ein biðin. Við vorum þar reyndar þrjú sem vorum að verða málkunnug að bíða. Ég með mína öxl, strákur sem var með putta sem hafði farið úr lið eftir að hafa dottið á hjóli (reyndar eftir að drekka smá bjór - en hann var nú samt ekkert ofurölvi sýndist mér) og svo konan sem minnti mig svo mikið á Björgu í Blóðbankanum og var með dóttur sína með sér sem var brún á brá. Konan hafði dottið á hjóli og handleggsbrotnað.
Eftir alveg endalausa bið fékk ég úrskurðinn að ég væri með brot í öxlinni og mætti ekki byrja neina sjúkraþjálfun fyrr en eftir fjórar vikur. Ég held að ég hafi hálfpartinn drepið Margréti með augnaráðinu sem ég gaf henni - en þarna áttaði ég mig allt í einu á því að ég var raunerulega slasaður en ekki bara eitthvað dottinn úr lið. Ég sá mastersverkefnið mitt í upplausn, kofabyggingu í upplausn og eiginlega allt í upplausn. Það var Ægir Amín læknir sem hafði gefið þennan úrskurð og fékk ég að sjá eitthvað óljóst á röntgenmyndum sem ég sá ekkert á. Ætlaði að fá eitthvað second opinion hjá einhverjum öðrum axlarsérfræðingi - en gerði svo sem aldrei - enda var þessi greining mjög líklega alveg rétt. Einhver áhöld voru um meðferðina en ég var settur í fatla, átti að vera þannig í tvær vikur án þess að hreyfa neitt og svo mátti ég eitthvað fara að rétta úr hendinni og svo fara í sjúkraþjálfun fjórum vikum seinna.
Ég áttaði mig sem sagt á því að ég væri hálfpartinn fokked á vondri ensku.
-----
Skrifað eftir minni í september, eins og ég held að mér hafi liðið þarna þessa fyrstu helgi í ágúst - sem var dálitið erfið.